Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 409. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 752  —  409. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar, Marðar Árnasonar og Björgvins G. Sigurðssonar um litförótt í íslenska hestakyninu.

     1.      Hversu margir litföróttir hestar eru taldir vera í landinu? Hversu hátt hlutfall eru þeir af íslenska stofninum? Hvernig hefur hlutfallið þróast frá þeim tíma sem upplýsingar ná fyrst til?
    Samkvæmt skýrsluhaldi Bændasamtaka Íslands í hrossarækt er tíðni litföróttra folalda um 0,4% í hverjum árgangi, þ.e. um 20 folöld á ári. Út frá þeirri tíðni ættu að vera um 300 litförótt hross í landinu. Tíðnin hefur verið svipuð undanfarna tvo áratugi en tölur frá því um 1930 gefa til kynna að þá hafi tíðnin verið um 1%.

     2.      Er eitthvað sérstakt við erfðir litföróttra hrossa sem veldur fæð þeirra í stofninum?

    Liturinn stafar af einum ríkjandi erfðavísi, RnRn, sem breytir venjulegum lit í litföróttan. Álitið er nær fullvíst að erfðavísirinn komi ekki fyrir í arfhreinu ástandi og skýringin talin sú að fóstur sem eru arfhrein fyrir litförótta erfðavísinum deyi á fósturskeiði (erfðavísirinn tengdur meingeni). Þetta atriði gerir það að verkum að liturinn er fátíðari en ella. Það eitt og sér skýrir þó ekki hversu fátíður liturinn er í stofninum en hann virðist hreinlega ekki hafa þótt nægjanlega eftirsóknarverður. Ef til vill hefur þótt bagalegt að litförótt hross skipta litum eftir árstíðum og því stundum erfitt að þekkja þau, sérstaklega fyrir daga frost- og örmerkinga.

     3.      Hve margir fyrsta flokks litföróttir stóðhestar eru nú í landinu sem hæfir eru til dóma á sýningum? Hve margir fyrsta flokks litföróttir stóðhestar eru taldir vera í eigu erlendra aðila, og þá í hvaða löndum?

    Af þeim stóðhestum sem nú eru í almennri notkun hérlendis er enginn litföróttur hestur. Með almennri notkun er átt við hesta sem sökum mikilla gæðingskosta eru vinsælir til kynbóta og eignast margt afkvæma ár hvert. Sárafáir litföróttir stóðhestar hafa komið upp síðustu áratugi en frá síðustu árum má þó nefna til sögunnar tvo þokkalega frambærilega litförótta stóðhesta sem voru notaðir nokkuð, þá Litfara frá Helgadal og Erp frá Erpsstöðum. Afkomendur þeirra bera margir litinn og bundnar eru vonir við að fá áhugaverðan stóðhest undan dætrum þeirra. Vitað er um einn litföróttan stóðhest erlendis í svipuðum gæðaflokki og fyrrnefndir hestar, sá hestur hefur verið í Þýskalandi og Danmörku.

     4.      Hversu margir litföróttir úrvalskynbótagripir hafa verið keyptir með aðstoð stofnverndarsjóðs íslenska hestakynsins? Hvað kostuðu kaupin í sérhverju tilviki?
     5.      Hversu tókst til í þessum tilvikum, að mati stjórnarmanna eða sérfræðinga ráðuneytisins?

    Enginn litföróttur úrvalskynbótagripur hefur verið keyptur með aðstoð stofnverndarsjóðs íslenska hestakynsins.

     6.      Hefur stofnverndarsjóðurinn stuðlað með öðrum hætti að eflingu litförótta hestakynsins, sbr. 15. gr. laga nr. 70/1998?
     7.      Hvernig var varið til verndar litförótta stofninum þeirri milljón króna sem ráðherra lofaði sérstaklega á Alþingi 9. febrúar 2000 að nota til að efla stofninn?
     8.      Hefur verið gert sérstakt átak til að koma í veg fyrir að liturinn glatist úr íslenska hestakyninu? Ef svo er, hver er hlutur stjórnvalda í því?

    Árið 1999 beitti fagráð í hrossarækt sér fyrir átaki til fjölgunar litföróttum hrossum með því að setja fé úr stofnverndarsjóði í sérstakan verðlaunasjóð litföróttra hrossa. Tilgangurinn er að stuðla að því að sem allra flest litförótt hross sem til eru í landinu séu skráð og komi til kynbótadóms með það að markmiði að koma upp eftirsóknarverðum litföróttum stóðhestum. Segja má að mikil vakning hafi orðið meðal hrossaræktenda um þennan lit og vitað er um ógelta hesta sem munu koma til kynbótadóms nú á næsta vori sem rekja má beint til þessa átaks. Of snemmt er að segja hver árangurinn verður en það er talið vænlegast til að útbreiða litinn að koma litföróttum hrossum í hóp gæðinga í landinu.

     9.      Hefur erfðanefnd landbúnaðarins á einhvern hátt hugað að varðveislu og nýtingu erfðaauðlinda sem felast í litföróttum hrossum?

    Hin nýja erfðanefnd hefur ekki fjallað um málið enn þá.