Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 587. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 886  —  587. mál.




Fyrirspurn



til sjávarútvegsráðherra um veiðar á sjaldgæfum fiski við Ísland.

Frá Össuri Skarphéðinssyni.



     1.      Hve mikið hafa íslensk skip veitt árlega hér við land síðan 1990 af
                  a.      búra,
                  b.      blálöngu,
                  c.      einstökum tegundum langhala,
                  d.      laxsíld?
     2.      Hvaða upplýsingar liggja fyrir um veiði erlendra skipa á þessum fiski hér við land á sama tíma, skipt eftir árum og skráningarlöndum skipanna?
     3.      Hvar við landið veiðist fiskurinn einkum? Óskað er eftir að veiðisvæði komi fram á korti þar sem útlínur efnahagslögsagna eru líka dregnar.
     4.      Á hvaða dýpi veiðist fiskurinn aðallega og í hvers konar veiðarfæri?
     5.      Eru tegundirnar ofveiddar eða er talin hætta á ofveiði? Ef sérstakir þættir í líffræði tegundanna eru taldir skapa hættu á ofveiði er óskað upplýsinga um það.
     6.      Telja sérfræðingar ráðuneytisins líkur á að fiskinn verði hægt að veiða með arðbærum hætti í framtíðinni? Óskað er ítarlegs rökstuðnings fyrir hverja tegund ef svo er.
     7.      Er aflinn talinn tilheyra sérstökum stofni eða er hann álitinn hluti af stærri stofni sem nær yfir víðara hafsvæði? Í síðara tilvikinu er óskað röksemda fyrir niðurstöðunni.
     8.      Hver hefur verið meðalþyngd tegundanna í afla? Veiðist fiskurinn í hrygningarástandi eða sem geldfiskur?
     9.      Hver eru helstu markaðssvæðin fyrir þennan fisk?
     10.      Liggja fyrir upplýsingar um meðalverð á mörkuðum fyrir aflann á fyrrgreindu árabili? Telja sérfræðingar ráðuneytisins unnt að gera veiðarnar arðbærari með frekari vinnslu og þá hvernig?


Skriflegt svar óskast.