Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 588. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 961  —  588. mál.




Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar um rauðserk, stinglax og gjölni.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Er veiðanlegt magn af rauðserk, stinglaxi og gjölni að finna á hafsvæðum í grennd við Ísland? Hvar er þennan fisk helst að finna?
     2.      Í hvaða veiðarfæri er heppilegast að afla hans?
     3.      Telja sérfræðingar ráðuneytisins að hægt væri að stunda arðbærar veiðar á þessum fiski hluta úr ári eða allt árið?


    Um rauðserk ( Beryx decadactylus) er það að segja að hann veiðist stundum við Ísland en þá einungis stakir fiskar. Það sama er að segja um frænda hans fagurserkinn ( Beryx splendens), þó er hann nokkuð algengari og veiðast einn eða fleiri fiskar næstum árlega. Þarna er um að ræða tegundir sem hafa verið flækingar á Íslandsmiðum.
    Stinglax ( Aphanopus carbo) veiðist einkum í djúpkantinum fyrir suðurströndinni, frá Skeiðarárdjúpi og vestur í Skerjadjúp. Hans verður einnig vart með djúpkantinum fyrir Vesturlandi frá grálúðuslóðinni út af Víkurálnum og suður á Reykjaneshrygg. Í rannsóknarleiðöngrum Hafrannsóknastofnunarinnar hefur mestur afli fengist á um 500 m dýpi í Skaftárdjúpi og Skeiðarárdjúpi. Sá stinglax sem veiðst hefur í rannsóknarleiðöngrum var mest á bilinu 80–100 sm á lengd.
    Gjölnir ( Alepocephalus bairdii) veiðist einkum í djúpkantinum fyrir Vesturlandi frá grálúðuslóðinni út af Víkurálnum og suður á Reykjaneshrygg. Þá verður hans einnig vart frá Skerjadjúpi austur í Háfadjúp. Sá gjölnir sem veiðst hefur þarna í rannsóknarleiðöngrum Hafrannsóknastofnunarinnar er mest á bilinu 35–50 sm, mjög lítið veiddist af fiski yfir 50 sm lengd.
    Þessar tegundir verða fyrst og fremst veiddar með botnvörpu.
    Um stofnstærðir þessara tegunda hér við land er annars ekkert vitað en þær eru hér á norðurmörkum útbreiðslusvæðis síns. Byggt á þeim upplýsingum sem fyrir liggja verður að telja ólíklegt að hægt sé að stunda arðbærar veiðar á þessum tegundum sérstaklega, aflinn er ekki nægilega mikill þess. Hins vegar eru þetta tegundir sem slæðast með sem meðafli, t.d. við karfa- og grálúðuveiðar og er æskilegt að sá afli sé nýttur.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.