Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 651. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 968  —  651. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 98/2003, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 98/2003 frá 11. ágúst 2003, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/97/EB frá 4. desember 2001 um breytingu á tilskipun ráðsins 91/308/EBE um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvottar.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 98/2003 frá 11. ágúst 2003, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/97/EB frá 4. desember 2001 um breytingu á tilskipun ráðsins 91/308/EBE um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvottar.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar tilskipunar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt samningnum er ekki gert ráð fyrir því að í ákvörðunum sé kveðið á um að gildistaka þeirra gagnvart aðildarríkjunum sé háð staðfestingu þeirra heima fyrir. Þær verða með öðrum orðum skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert aðildarríkjanna beiti heimild í 103. gr. EES- samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar. Almennt hefur ekki verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt heldur látið við það sitja að Alþingi hafi samþykkt nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana. Þetta felur í sér nokkurt frávik frá almennri meðferð vegna staðfestingar þjóðréttarsamninga þar sem atbeina Alþingis er krafist en á sér skýringar í sérstöðu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar meðal þjóðréttarsamninga. Hins vegar hafa nokkrir ókostir fylgt þessu fyrirkomulagi. Má þar helst nefna annars vegar að nokkuð mismunandi er með hvaða hætti það hefur komið fram í lagafrumvörpum hvernig þau tengjast tilteknum ákvörðunum sameiginlegu EES- nefndarinnar og hins vegar að með þessari aðferð hefur skort á að Alþingi hafi verið gefinn kostur á að taka beina afstöðu til staðfestingar einstakra ákvarðana nefndarinnar. Í vissum tilvikum hafa ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar kveðið á um að bætt sé við EES- samninginn tiltekinni EB-gerð sem ekki öðlast gildi innan Evrópusambandsins fyrr en einhverjum missirum eða jafnvel árum seinna. Samkvæmt EES-samningnum er Ísland skuldbundið til að taka endanlega afstöðu til þess hvort slík gerð verði hluti samningsins innan sex mánaða frá töku ákvörðunarinnar í sameiginlegu EES-nefndinni en hefur sama svigrúm og önnur aðildarríki samningsins til að innleiða viðkomandi gerð í landsrétt. Fram að þessu hefði eina leiðin verið sú að setja lög til innleiðingar þessara gerða innan sex mánaða frestsins en þau lög hefðu þá að sjálfsögðu ekki þurft að taka gildi fyrr en á ætluðum gildistökudegi gerðarinnar. Þetta er mjög óheppileg leið þar sem við undirbúning slíkrar lagasetningar er oft og tíðum horft til fordæma erlendis frá en þar er að jafnaði ekki hugað að slíkri lagasetningu fyrr en nær dregur gildistöku viðkomandi gerðar. Að þessari leið slepptri er eina leiðin til að virða samningsskuldbindingar Íslands að leita sérstaks samþykkis Alþingis í formi þingsályktunar.
    Að öllu þessu virtu hefur almenn meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara verið færð til samræmis við meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að almennt er leitað sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis er leitað í formi þingsályktunar en viðeigandi ráðuneyti munu samhliða undirbúa nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Jafnframt hefur þeirri föstu vinnureglu verið komið á, með vísan til 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, að haft verði samráð við utanríkismálanefnd um efni þessara ákvarðana meðan þær eru á undirbúningsstigi.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/97/EB frá 4. desember 2001 um breytingu á tilskipun ráðsins 91/308/EBE um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvottar.
    Tilskipun nr. 2001/97/EB mælir fyrir um breytingar á tilskipun Evrópubandalagsins frá árinu 1991 um aðgerðir gegn peningaþvætti. Eldri tilskipunin innleiddi þá skyldu á fjármálastofnanir að tilkynna um grunsamleg viðskipti og sýna aðgæslu þannig að koma mætti í veg fyrir að stofnanirnar væru misnotaðar til peningaþvættis á ólöglegum fjármunum. Á grundvelli fenginnar reynslu svo og með hliðsjón af starfi FATF-ríkjahópsins um aðgerðir gegn peningaþvætti ákvað framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að endurskoða ákvæði upphaflegu tilskipunarinnar nr. 91/308/EBE. Í breytingum á tilskipuninni felst m.a. að gildissvið hennar er nú rýmkað og nær hún nú einnig til lögfræðinga, fasteignasala og aðila sem eiga í viðskiptum með eðalmálma svo dæmi séu nefnd. Auk þess eru í þessari tilskipun ákvæði um ýmsar smærri tæknilegar breytingar á eldri tilskipuninni.
    Alþingi samþykkti á 128. löggjafarþingi frumvarp viðskiptaráðherra um breytingu á lögum nr. 80/1993, um aðgerðir gegn peningaþvætti, sem varð að lögum nr. 42/2003. Þessi lög miðuðu að því að gera nauðsynlegar breytingar á íslenskum lögum til að innleiða tilskipun nr. 2001/97/EB í íslenska löggjöf. Þess ber að geta að tilskipunin kallar einnig á breytingar á almennum hegningarlögum hvað varðar svik sem beinast að fjárhagslegum hagsmunum Evrópubandalaganna en slíkar breytingar eru á forræði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 98/2003

frá 11. ágúst 2003

um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eins og hann var aðlagaður með bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir „samningurinn“, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        IX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 47/2003 frá 16. maí 2003 ( 1 ).

2)         Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/97/EB frá 4. desember 2001 um breytingu á tilskipun ráðsins 91/308/EBE um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvottar ( 2 ) skal felld inn í samninginn.

3)         Tilskipun 2001/97/EB skal aðlöguð um leið og hún er felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

Eftirfarandi bætist við í 23. lið (tilskipun ráðsins 91/308/EBE) í IX. viðauka við samninginn á undan ákvæðum um tilhögun samstarfs EFTA-ríkjanna í samræmi við 101. gr. samningsins:

„, eins og henni var breytt með:

-          32001 L 0097: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/97/EB frá 4. desember 2001 (Stjtíð. EB L 344, 28.12.2001, bls. 76).

        Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er samning þennan varðar, aðlöguð sem hér segir:

        Í öðrum málslið E-liðar 1. greinar komi eftirfarandi í stað þriðja undirliðar:

        „svik sem teljast að minnsta kosti alvarleg, varða fjárhagsmuni Evrópubandalaganna og fela í sér:

        a)         að því er varðar gjöld, hvað sem gert er eða látið ógert af ásettu ráði og tengist því:

                    –         að nota eða leggja fram staðhæfingar eða skjöl með röngum, misvísandi eða ófullkomnum upplýsingum og ná þannig til sín eða halda eftir með óréttmætum hætti fjármunum úr almennum sjóðum Evrópubandalaganna eða sjóðum sem Evrópubandalögin stýra eða láta stýra fyrir sig;

                    –         að halda upplýsingum leyndum í trássi við tiltekna upplýsingaskyldu, með sömu afleiðingum;

                    –         að misnota slíka fjármuni með því að nota þá í öðrum tilgangi en þeim sem þeir voru upprunalega veittir í;

    b)             að því er varðar tekjur, eins og þær eru skilgreindar í ákvörðun ráðsins frá 29. september 2000 um skipulag á eigin tekjum bandalagsins ( 3 ), hvað sem gert er eða látið ógert af ásettu ráði og tengist því:

                    –         að nota eða leggja fram staðhæfingar eða skjöl með röngum, misvísandi eða ófullkomnum upplýsingum og draga þannig með ólögmætum hætti fé úr almennum sjóðum Evrópubandalaganna eða sjóðum sem Evrópubandalögin stýra eða láta stýra fyrir sig;

                    –         að halda upplýsingum leyndum í trássi við tiltekna upplýsingaskyldu, með sömu afleiðingum;

                    –         að misnota löglega fengna fjármuni, með sömu afleiðingum.

    Svik skulu teljast alvarleg ef meiri fjármunir eru í húfi en tiltekin lágmarksfjárhæð sem ekki skal vera hærri en 50 000 evrur.““

2. gr.

Texti tilskipunar 2001/97/EB á íslensku og norsku, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 12. ágúst 2003 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi verið sendar sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 11. ágúst 2003.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður



    Prins Nikulás af Liechtenstein


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar



    P.K. Mannes     M. Brinkmann



Sameiginleg yfirlýsing aðildarríkjanna


um ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 98/2003 frá 11. ágúst 2003 um að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/97/EB frá 4. desember 2001 um breytingu á tilskipun ráðsins 91/308/EBE um
ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvottar


Um samþykkt ákvörðunar nr. 98/2003 ríkir sá skilningur að til þess að unnt sé að fella inn í EES-samninginn breytingar á tekjum eins og þær eru skilgreindar í 2. mgr. 2. gr. ákvörðunar ráðsins frá 29. september 2000 um skipulag á eigin tekjum bandalagsins ( 4 ) þarf að koma til ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.



Sameiginleg yfirlýsing EFTA-ríkjanna sem eiga aðild að EES-samningnum

um ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 98/2003 frá 11. ágúst 2003 um að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/97/EB frá 4. desember 2001 um breytingu á tilskipun ráðsins 91/308/EBE um
ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvottar


EFTA-ríkin sem eiga aðild að EES-samningnum hafa samþykkt að svikum gegn fjárhagsmunum Evrópubandalagsins verði bætt í skrá um frumbrot á sviði peningaþvættis. Til hagræðingar var önnur peningaþvættistilskipunin samþykkt án þess að henni fylgdi gagnkvæmur samningur til að verja jafnframt fjárhagsmuni EFTA-ríkjanna sem eiga aðild að EES-samningnum. Engu að síður gilda þær meginreglur um gagnkvæmni og einsleitni, sem mælt er fyrir um í EES-samningnum, einkum 4. forsendu og 1. gr., einnig að fullu um gagnkvæma vernd fjárhagsmuna samningsaðila í skilningi ákvörðunar nr. 98/2003.



Yfirlýsing framkvæmdastjórnarinnar

um ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 98/2003 frá 11. ágúst 2003 um að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/97/EB frá 4. desember 2001 um breytingu á tilskipun ráðsins 91/308/EBE um
ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvottar


Framkvæmdastjórnin lýsir yfir því að tekjur bandalagsins eru sem stendur aðallega eigin tekjur bandalagsins eins og þær eru skilgreindar í ákvörðun ráðsins frá 29. september 2000 um skipulag á eigin tekjum Evrópubandalaganna.

Sem stendur eru svik sem varða fjárhagsmuni Evrópubandalaganna, að því er varðar tekjur, aðallega á sviði tolla, landbúnaðargjalda og virðisaukaskatts. Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2001/97/EB
frá 4. desember 2001
um breytingu á tilskipun ráðsins 91/308/EBE um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvottar


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum fyrsta og þriðja málslið 2. mgr. 47. gr. og 95. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ) á grundvelli sameiginlegs texta sáttanefndarinnar frá 18. september 2001,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
     1)      Það er við hæfi að tilskipun 91/308/EBE ( 4 ), hér á eftir nefnd „tilskipunin“, sem er einn helsti alþjóðlegi gerningurinn í baráttunni gegn peningaþvætti, verði uppfærð í samræmi við ályktanir framkvæmdastjórnarinnar og óskir Evrópuþingsins og aðildarríkjanna. Tilskipunin skal ekki einungis endurspegla bestu alþjóðlegu starfsvenjur á þessu sviði heldur skal í henni einnig haldið áfram að setja markið hátt að því er varðar vernd fjármálasviðsins og annarrar berskjaldaðrar starfsemi gegn skaðlegum áhrifum frá ávinningi af afbrotum.
     2)      Hinn almenni samningur um þjónustuviðskipti (GATS) gerir samningsaðilum kleift að samþykkja nauðsynlegar ráðstafanir til að standa vörð um almennt siðgæði og samþykkja ráðstafanir í varúðarskyni, þ.m.t. að tryggja stöðugleika og ráðvendni í fjármálakerfinu. Slíkar ráðstafanir ættu aldrei að fela í sér takmarkanir sem ganga lengra en þörf er á til að ná þessum markmiðum.
     3)      Ekki er kveðið skýrt á um það í tilskipuninni til hvaða yfirvalda aðildarríkis útibú lána- og fjármálastofnana, sem eru með aðalstöðvar sínar í öðru aðildarríki, eiga að tilkynna grunsamleg viðskipti né hvaða yfirvöld aðildarríkis eiga að sjá til þess að slík útibú fari að ákvæðum tilskipunarinnar. Yfirvöld aðildarríkisins, þar sem útibúið hefur aðsetur, eiga að fá slíkar skýrslur og axla framangreinda ábyrgð.
     4)      Setja skal fram svo greinilegt sé í tilskipuninni hverjum ábyrgðin er falin með því að breyta skilgreiningunni á „lánastofnun“ og á „fjármálastofnun“.
     5)      Evrópuþingið hefur látið í ljós áhyggjur af því að starfsemi gjaldeyrismiðlana (bureaux de change) og greiðslumiðlana (money remittance offices) sé berskjölduð gagnvart peningaþvætti. Starfsemi þessi ætti nú þegar að heyra undir gildissvið tilskipunarinnar. Til að eyða öllum vafa skal staðfesta svo greinilegt sé í tilskipuninni að starfsemin heyri undir hana.
     6)      Til að tryggja að tilskipunin nái eins fyllilega yfir fjármálasviðið og unnt er skal einnig koma skýrt fram að hún gildi um starfsemi fjárfestingarfyrirtækja eins og þau eru skilgreind í tilskipun ráðsins 93/22/EBE frá 10. maí 1993 um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta ( 5 ).
     7)      Samkvæmt tilskipuninni eru aðildarríkin einungis skyldug til að berjast gegn þvætti ávinnings sem á rætur að rekja til fíkniefnabrota. Á síðustu árum hefur borið á tilhneigingu til að skilgreina peningaþvætti á víðtækari hátt, á grundvelli breiðari vettvangs frumbrota eða undirliggjandi brota, eins og sést t.d. í endurskoðun frá 1996 á 40 tillögum fjármálaaðgerðahópsins (FATF) sem er alþjóðastofnun og helgar sig baráttunni gegn peningaþvætti.
     8)      Breiðari vettvangur frumbrota gerir að verkum að auðveldara er að tilkynna grunsamleg viðskipti og stunda alþjóðlegt samstarf á þessu sviði. Því ber að uppfæra tilskipunina í þessu tilliti.
     9)      Með sameiginlegri aðgerð ráðsins 98/699/DIM frá 3. desember 1998 um peningaþvætti, greiningu, leit, frystingu, hald og upptöku tækja og ávinnings af afbrotum ( 6 ) samþykktu aðildarríkin að öll alvarleg afbrot, eins og þau eru skilgreind í sameiginlegu aðgerðinni, skyldu teljast frumbrot í þeim tilgangi að gera peningaþvætti refsivert.
     10)      Einkum er baráttan gegn skipulagðri afbrotastarfsemi nátengd baráttunni gegn peningaþvætti. Því ber að aðlaga skrána yfir frumbrot til samræmis við það.
     11)      Með tilskipuninni eru innleiddar skyldur sem einkum felast í því að tilkynna grunsamleg viðskipti. Það er fremur við hæfi og í samræmi við grundvallarviðhorf, sem koma fram í aðgerðaáætluninni um baráttu gegn skipulagðri afbrotastarfsemi ( 7 ), að víkka út bann tilskipunarinnar við peningaþvætti.
     12)      Ráðið samþykkti 21. desember 1998 sameiginlega aðgerð 98/733/DIM um að það verði refsiverður verknaður að taka þátt í afbrotastarfsemi í aðildarríkjum Evrópusambandsins ( 8 ). Þessi sameiginlega aðgerð sýnir að aðildarríkin eru sammála um þörf fyrir sameiginlega stefnu á þessu sviði.
     13)      Eins og gerð er krafa um með þessari tilskipun berast tilkynningar um grunsamleg viðskipti frá fjármálasviðinu í hverju aðildarríki, einkum lánastofnunum. Staðfest er að hert eftirlit á fjármálasviðinu hefur leitt til þess að peningaþvættar leita nú annarra aðferða til að dylja hvaðan ávinningur af afbrotum kemur.
     14)      Vaxandi tilhneigingar gætir til að nota fyrirtæki utan fjármálasviðsins til peningaþvættis. Þetta er staðfest með rannsóknum fjármálaaðgerðahópsins á ólíkum aðferðum og tegundum peningaþvættis.
     15)      Víkka ber út skyldur samkvæmt tilskipuninni að því er tekur til þess að staðfesta deili á viðskiptamönnum, halda skrár og tilkynna um grunsamleg viðskipti, þannig að þær taki einnig til tiltekinnar starfsemi og starfsgreina sem vitað er að standa berskjaldaðar gagnvart peningaþvætti.
     16)      Lögbókendur og óháðir lögfræðingar, eins og þeir eru skilgreindir í aðildarríkjunum, skulu heyra undir ákvæði tilskipunarinnar þegar þeir taka þátt í fjármála- eða fyrirtækjaviðskiptum, þ.m.t. að veita skattaráðgjöf, þar sem hættan er mest á því að þjónustu þessara lögfræðinga sé misbeitt til að þvætta ávinning af afbrotum.
     17)      Þegar óháðir einstaklingar í starfsgreinum á sviði lögfræðiráðgjafar, eru löglega viðurkenndir og sæta löglegu eftirliti, svo sem lögmenn, ganga úr skugga um réttarstöðu skjólstæðings eða flytja mál skjólstæðings, er samt sem áður ekki við hæfi samkvæmt tilskipuninni að þessum lögfræðingum sé skylt að tilkynna grunsemdir um peningaþvætti að því er þessa starfsemi varðar. Veita verður undanþágu frá kröfunni um að tilkynna upplýsingar sem er aflað annaðhvort áður en málaferli hefjast, meðan þau standa yfir eða eftir að þeim lýkur eða þegar gengið er úr skugga um réttarstöðu skjólstæðings. Lögfræðiráðgjöf heyrir því áfram undir þagnarskyldu nema ráðgjafinn taki þátt í peningaþvætti, lögfræðiráðgjöfin sé veitt í því skyni að stunda peningaþvætti eða lögfræðingurinn viti að skjólstæðingurinn sé að leita eftir lögfræðiráðgjöf í því skyni að stunda peningaþvætti.
     18)      Þjónustu, sem er samanburðarhæf með beinum hætti, verður að meðhöndla á sama hátt þegar einhver annar fagmaður, sem heyrir undir ákvæði tilskipunarinnar, veitir hana. Til að varðveita réttindi, sem mælt er fyrir um í Evrópusáttmálanum um verndun mannréttinda og mannfrelsis (ECHR) og sáttmálanum um Evrópusambandið, skulu upplýsingar, sem endurskoðendur, löggiltir bókarar og skattaráðgjafar, sem í nokkrum aðildarríkjum mega verja eða flytja mál skjólstæðings eða ganga úr skugga um réttarstöðu skjólstæðings, afla þegar þeir stunda þessi störf, ekki falla undir tilkynningarskyldu í samræmi við þessa tilskipun.
     19)      Í tilskipuninni er annars vegar vísað til „yfirvalda sem bera ábyrgð á baráttu gegn peningaþvætti“, sem eiga að fá tilkynningar um grunsamlega starfsemi, og hins vegar til yfirvalda sem hafa heimild samkvæmt lögum eða reglugerðum til að annast eftirlit með starfsemi stofnana eða aðila sem ákvæði þessarar tilskipunar gilda um („lögbærra yfirvalda“). Litið er svo á að tilskipunin skyldi aðildarríkin ekki til að skipa slík „lögbær yfirvöld“, séu þau ekki fyrir hendi, og að lögmannafélög og aðrar sjálfseftirlitsstofnanir óháðra fagmanna heyri ekki undir hugtakið „lögbær yfirvöld“.
     20)      Til að taka tilhlýðilegt tillit til þagnarskyldu lögbókenda og óháðra lögfræðinga gagnvart skjólstæðingum sínum skulu aðildarríkin eiga þess kost að tilnefna lögmannafélagið eða aðra sjálfseftirlitsstofnun óháðra fagmanna sem þá stofnun sem þessir fagmenn geta beint tilkynningum um hugsanlegt peningaþvætti til. Aðildarríkin skulu setja reglur um meðferð slíkra tilkynninga og hugsanlega framsendingu þeirra til „yfirvalda sem bera ábyrgð á baráttu gegn peningaþvætti“ og almennt um rétt samstarfsform lögmannafélaga eða sérfræðistofnana og þessara yfirvalda.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Tilskipun 91/308/EBE er breytt sem hér segir:
1.    Í stað 1. gr. komi eftirfarandi:
     1. gr.
    Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
    A)    „Lánastofnun“: lánastofnun, eins og hún er skilgreind í fyrstu undirgrein 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 2000/12/EB ( *), sem og útibú, í skilningi 3. mgr. 1. gr. sömu tilskipunar, í bandalaginu frá lánastofnunum sem eru með aðalstöðvar sínar innan eða utan bandalagsins,
    B)    „Fjármálastofnun“:
            1.    fyrirtæki sem ekki er lánastofnun og annast einkum einhverja eða alla þá starfsemi sem talin er upp í 2. til 12. atriði og 14. atriði í skránni í I. viðauka við tilskipun 2000/12/EB; þetta tekur m.a. til starfsemi gjaldeyrismiðlana og greiðslumiðlana,
            2.    vátryggingarfélag með gilt leyfi samkvæmt tilskipun 79/267/EBE ( **) svo fremi það annist þá starfsemi sem sú tilskipun tekur til,
            3.     fjárfestingarfyrirtæki eins og það er skilgreint í 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 93/22/EBE ( ***),
            4.     fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu sem markaðssetur hlutdeildarskírteini sín eða hlutabréf.
            Þessi skilgreining á fjármálastofnun tekur til útibúa í bandalaginu frá fjármálastofnunum sem eru með aðalstöðvar sínar innan eða utan bandalagsins.
    C)    „Peningaþvætti“: hvers konar athæfi sem hér er talið upp og haft er í frammi af ásettu ráði:
            –    ummyndun eða yfirfærsla á eign, þegar vitað er að slík eign er til komin vegna afbrota eða vegna þátttöku í slíkri starfsemi, í þeim tilgangi að hylma yfir eða leyna ólögmætum uppruna eignarinnar eða aðstoð við hvern þann sem á þátt í slíkri starfsemi í að sneiða hjá lögfylgjum athafna sinna,
            –    yfirhylming eða launung að því er varðar raunverulegt eðli, uppruna, staðsetningu, ráðstöfun, flutning, réttindi yfir eða eignarrétt eignar, þegar vitað er að slík eign er til komin vegna afbrota eða þátttöku í slíkri starfsemi,
            –    öflun, umráð eða notkun eignar þegar vitað er við móttöku að slík eign er til komin vegna afbrota eða þátttöku í slíkri starfsemi,
            –    þátttaka í, samtök um, tilraunir til, liðveisla, hvatning, fyrirgreiðsla eða ráðgjöf við framningu sérhverra þeirra athafna sem nefndar eru í undanfarandi undirliðum.
            Af raunverulegum málavöxtum má ráða hvort um er að ræða vitneskju, ásetning eða tilefni sem skal liggja fyrir sem þáttur í framangreindri starfsemi.
            Um peningaþvætti er að ræða jafnvel þótt starfsemin, sem gaf af sér viðkomandi fjármuni, hafi farið fram á yfirráðasvæði annars aðildarríkis eða í þriðja landi.
    D)    „Eign“: eign af hvaða tagi sem er, hvort sem hún er áþreifanleg eða óáþreifanleg, lausafé eða fasteign, efnisleg eða óefnisleg og skjöl eða gögn sem að lögum sýna eignarrétt að slíkum eignum eða réttindi til þeirra.
    E)    „Afbrot“: hvers kyns brotlegt athæfi í tengslum við alvarleg afbrot.
            Alvarleg afbrot eru að lágmarki:
            –    afbrot, eins og þau eru skilgreind í a-lið 1. mgr. 3. gr. í Vínarsamningnum,
            –    starfsemi glæpasamtaka sem er skilgreind í 1. gr. sameiginlegrar aðgerðar 98/733/DIM ( ****),
            –    svik, eins og þau eru skilgreind í 1. mgr. 1. gr. og 2. gr. samþykktar um verndun fjárhagslegra hagsmuna Evrópubandalaganna ( *****), a.m.k. gróf tilvik,
            –    spilling,
            –    brot sem kann að hafa í för með sér umtalsverðan ávinning og varðar frjálsræðissviptingu samkvæmt refsilöggjöf viðkomandi aðildarríkis.
                Aðildarríkin skulu breyta skilgreiningunni, sem kveðið er á um í þessum undirlið, fyrir 15. desember 2004 til samræmis við skilgreininguna á alvarlegu afbroti í sameiginlegri aðgerð 98/699/DIM. Ráðið hvetur framkvæmdastjórnina til að leggja fram tillögu fyrir 15. desember 2004 um tilskipun um breytingu á þessari tilskipun í þessu tilliti.
            Aðildarríkin geta skilgreint hvaða annað brot sem er sem afbrotastarfsemi að því er þessa tilskipun varðar.
    F)    „Lögbær yfirvöld“: innlend yfirvöld sem hafa heimild samkvæmt lögum eða reglugerðum til að annast eftirlit með starfsemi stofnana eða aðila sem heyra undir þessa tilskipun.
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *)        Stjtíð. EB L 126, 26.5.2000, bls. 1. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 2000/28/EB (Stjtíð. EB L 275, 27.10.2000, bls. 37).
    ( **)         Stjtíð. EB L 63, 13.3.1979, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/26/EB (Stjtíð. EB L 168, 18.7.1995, bls. 7).
    ( ***)    Stjtíð. EB L 141, 11.6.1993, bls. 27. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/9/EB (Stjtíð. EB L 84, 26.3.1997, bls. 22).
    ( ****)     Stjtíð. EB L 351, 29.12.1998, bls. 1.
    ( *****)     Stjtíð. EB C 316, 27.11.1995, bls. 48.“
2.    Eftirfarandi grein bætist við:
     „2. gr. a
    Aðildarríkin skulu sjá til þess að eftirtaldar stofnanir gegni þeim skyldum sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun:
    1.     lánastofnanir, eins og þær eru skilgreindar í A-lið 1. gr.,
    2.     fjármálastofnanir, eins og þær eru skilgreindar í B-lið 1. gr.,
    og eftirtaldir lögaðilar eða einstaklingar þegar þeir stunda störf sín:
    3.     endurskoðendur, löggiltir bókarar og skattaráðgjafar,
    4.     fasteignasalar,
    5.     lögbókendur og aðrir óháðir lögfræðingar þegar þeir taka þátt annaðhvort:
            a)    í því að aðstoða skjólstæðinga sína við að undirbúa eða stunda viðskipti í tengslum við
                    i)        að kaupa og selja fasteignir eða fyrirtæki,
                    ii)        að hafa umsjón með peningum, verðbréfum eða öðrum eignum skjólstæðinganna,
                    iii)    að opna eða hafa umsjón með banka-, spari- eða verðbréfareikningum,
                    iv)    að útvega nauðsynlegt fjármagn til að stofna, reka eða stýra fyrirtækjum,
                    v)        að stofna, reka eða stýra fyrirtækjahringjum, fyrirtækjum og áþekkum stofnunum,
            b)    eða með því að starfa fyrir hönd og fyrir skjólstæðinga sína í hvers kyns fjármála- eða fasteignaviðskiptum,
    6.     seljendur verðmæta á borð við eðalsteina, eðalmálma eða listaverk og uppboðshaldarar þegar greitt er í peningum og fjárhæðin samsvarar 15 000 evrum eða þar yfir,
    7.     spilavíti.“
3.     Í stað 3. gr. komi eftirfarandi:
     „3. gr.
    1.     Aðildarríkin skulu tryggja að stofnanir og aðilar, sem heyra undir þessa tilskipun, krefjist þess að viðskiptamenn þeirra sanni á sér deili með skilríkjum þegar þeir hefja viðskipti, einkum, að því er varðar stofnanir, þegar þeir opna reikning eða sparireikning eða þegar boðið er upp á eignavörslu.
    2.     Krafan um að menn sanni á sér deili gildir einnig um öll viðskipti viðskiptamanna, annarra en þeirra sem um getur í 1. mgr., með fjárhæðir sem eru 15 000 evrur eða þar yfir, hvort sem viðskiptin fara fram í einni aðgerð eða fleiri aðgerðum sem virðast tengjast hver annarri. Ef fjárhæðin er ekki þekkt á þeim tíma þegar viðskiptin hefjast skal viðkomandi stofnun eða aðili krefjast þess að viðkomandi sanni á sér deili jafnskjótt og stofnunin eða aðilinn fær vitneskju um fjárhæðina og kemst að raun um að hún er yfir settum mörkum.
    3.     Þrátt fyrir ákvæði undanfarandi málsgreina er ekki krafist skilríkja í tengslum við vátryggingarsamninga sem gerðir eru af vátryggingarfyrirtækjum í skilningi tilskipunar ráðsins 92/96/EBE frá 10. nóvember 1992 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum varðandi frumtryggingar á sviði líftrygginga (þriðja tilskipun um líftryggingar) ( *), ef starfsemi fyrirtækisins fellur undir gildissvið þeirrar tilskipunar, þegar fjárhæð reglubundins iðgjalds eða iðgjalda, sem greiða skal á ári, fer ekki yfir 1 000 evrur eða ef greiðsla á iðgjaldi, sem greiða á í eitt skipti, fer ekki yfir 2 500 evrur. Ef reglubundið iðgjald eða iðgjöld, sem greiða skal á ári, eru hækkuð þannig að þau fari yfir 1 000 evrur skal krefjast skilríkja.
    4.     Aðildarríkjunum er heimilt að kveða á um að krafan um að menn sanni á sér deili sé ekki skylda að því er varðar tryggingasamninga lífeyrissjóða sem gerðir eru vegna starfsráðningarsamnings eða atvinnu hins tryggða, að því tilskildu að slíkir samningar hafi hvorki að geyma endurkaupaákvæði né sé heimilt að nota þá sem tryggingu fyrir láni.
    5.     Þrátt fyrir ákvæði undanfarandi málsgreina skulu allir viðskiptamenn spilavíta sanna á sér deili ef þeir kaupa eða selja spilapeninga fyrir 1 000 evrur eða þar yfir.
    6.     Spilavíti, sem heyra undir ríkiseftirlit, teljast fullnægja kröfunni um að menn sanni á sér deili, sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun, ef viðskiptamennirnir eru í það minnsta skráðir og sanna á sér deili við innganginn án tillits til þess hve margir spilapeningar eru keyptir.
    7.     Leiki vafi á því hvort viðskiptamenn, sem um getur í framangreindum málsgreinum, vinna í eigin þágu eða ef ljóst er að þeir vinna ekki í eigin þágu skulu stofnanirnar og aðilar, sem heyra undir þessa tilskipun, gera skynsamlegar ráðstafanir til þess að afla sér upplýsinga um deili á þeim aðilum sem þessir viðskiptamenn starfa fyrir.
    8.     Hvenær sem grunur leikur á að um peningaþvætti sé að ræða skulu stofnanir og aðilar, sem heyra undir þessa tilskipun, krefjast þess að menn sanni á sér deili, jafnvel þegar fjárhæð viðskiptanna er undir mörkunum sem kveðið er á um.
    9.     Stofnanir og aðilar, sem heyra undir þessa tilskipun, skulu ekki falla undir kröfuna um að menn sanni á sér deili, eins og kveðið er á um í þessari grein, þegar viðskiptamaðurinn er lána- eða fjármálastofnun, sem tilskipun þessi gildir um, eða lána- eða fjármálastofnun í þriðja landi sem að áliti hlutaðeigandi aðildarríkja gerir sambærilegar kröfur við þær sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun.
    10.     Aðildarríkjunum er heimilt að kveða á um að kröfur um að menn sanni á sér deili, að því er varðar viðskipti sem um getur í 3. og 4. mgr., séu uppfylltar þegar staðfest er að greiðsla fyrir viðskiptin er færð til skuldar á viðskiptareikningi sem er opnaður í nafni viðskiptamanns í lánastofnun sem þessi tilskipun gildir um skv. 1. mgr.
    11.     Aðildarríkin skulu a.m.k. sjá til þess að stofnanir og aðilar, sem heyra undir þessa tilskipun, geri sérstakar og viðeigandi ráðstafanir sem eru nauðsynlegar vegna aukinnar hættu á peningaþvætti þegar stofnað er til viðskipta við eða átt eru viðskipti við einhvern þann sem er ekki sjálfur viðstaddur til að sanna á sér deili (viðskiptin eiga sér ekki stað „augliti til auglitis“). Slíkar ráðstafanir skulu tryggja að hægt sé að sanna deili á viðskiptamanni, t.d. með því að krefjast fleiri skriflegra sönnunargagna eða viðbótarráðstafana til að sannprófa eða votta þau skjöl sem lögð eru fram eða staðfestingarvottunar frá stofnun sem heyrir undir þessa tilskipun eða með því að krefjast þess að fyrsta greiðslan vegna viðskiptanna sé lögð inn á reikning sem er opnaður í nafni viðskiptamannsins hjá lánastofnun sem heyrir undir þessa tilskipun. Við innra eftirlit, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 11. gr., skal taka sérstakt tillit til þessara ráðstafana.
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *)    Stjtíð. EB L 360, 9.12.1992, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/64/EB (Stjtíð. EB L 290, 17.11.2000, bls. 27).“
4.    Í 4., 5., 8. og 10. gr. komi „stofnanir og aðilar, sem heyra undir þessa tilskipun“ í stað „lána- og fjármálastofnanir“.
5.    Í stað 6. gr. komi eftirfarandi:
     „6. gr.
    1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að stofnanir og aðilar, sem heyra undir þessa tilskipun, stjórnendur þeirra og starfsmenn eigi náið samstarf við þau yfirvöld sem bera ábyrgð á baráttu gegn peningaþvætti:
    a)    með því að láta þessi yfirvöld vita, að eigin frumkvæði, um allt það sem bent gæti til peningaþvættis,
    b)    með því að láta þessum yfirvöldum í té, að beiðni þeirra, allar nauðsynlegar upplýsingar í samræmi við málsmeðferð samkvæmt gildandi löggjöf.
    2.     Upplýsingarnar, sem um getur í 1. mgr., skulu sendar til þeirra yfirvalda sem bera ábyrgð á baráttu gegn peningaþvætti í aðildarríki því þar sem stofnunin eða aðilinn er sem sendir upplýsingarnar. Sá aðili eða aðilar, sem tilnefndir eru af stofnunum og aðilum í samræmi við málsmeðferð skv. a-lið 1. mgr. 11. gr., skulu að öllu jöfnu senda upplýsingarnar.
    3.     Að því er varðar lögbókendur og óháða lögfræðinga, sem um getur í 5. mgr. 2. gr. a, er aðildarríkjunum heimilt að tilnefna viðeigandi sjálfseftirlitsstofnun í viðkomandi starfsgrein sem það yfirvald sem ber að tilkynna um staðreyndir, sem um getur í a-lið 1. mgr., og skal í því tilviki ákveða samstarfsform þeirrar stofnunar og þeirra yfirvalda sem bera ábyrgð á baráttu gegn peningaþvætti.
    Aðildarríkjunum er ekki skylt að beita kröfunum, sem mælt er fyrir um í 1. mgr., gagnvart lögbókendum, óháðum lögfræðingum, endurskoðendum, löggiltum bókurum og skattaráðgjöfum, að því er varðar upplýsingar sem þeir fá frá skjólstæðingi eða sem varða skjólstæðing þeirra, þegar þeir ganga úr skugga um lagalega stöðu skjólstæðings eða verja eða flytja mál þess skjólstæðings við eða varðandi málaferli, þ.m.t. ráðgjöf um að hefja eða komast hjá málaferlum, hvort sem upplýsinganna er aflað áður en slík málaferli hefjast, meðan þau standa yfir eða eftir að þeim lýkur.“
6.    Í stað 7. gr. komi eftirfarandi:
     „7. gr.
    Aðildarríkin skulu sjá til þess að stofnanir og aðilar, sem heyra undir þessa tilskipun, forðist viðskipti sem þessir aðilar vita eða hafa grun um að tengist peningaþvætti þar til þeir hafa gert yfirvöldunum, sem um getur í 6. gr., viðvart. Þessum yfirvöldum er heimilt, með þeim skilyrðum sem sett eru í innlendri löggjöf þeirra, að gefa fyrirmæli um að viðskiptin fari ekki fram. Þegar grunur leikur á að slík viðskipti kunni að leiða til peningaþvættis og ómögulegt er að koma í veg fyrir þau eða það gæti hindrað lögsókn á hendur þeim sem hagnast á viðskiptunum, sem grunur leikur á að séu peningaþvætti, skulu viðkomandi stofnanir gera yfirvöldum viðvart um leið og viðskiptin hafa farið fram.
7.    Núverandi texti 8. gr. verði 1. mgr. og eftirfarandi bætist við:
    „2.     Aðildarríkjunum er ekki skylt samkvæmt þessari tilskipun að beita ákvæði 1. mgr. gagnvart starfsgreinum sem um getur í annarri undirgrein 3. mgr. 6. gr.“
8.    Í stað 9. gr. komi eftirfarandi:
     „9. gr.
    Stofnun eða aðili, sem heyrir undir þessa tilskipun, eða starfsmaður eða stjórnandi slíkrar stofnunar eða aðila er veitir yfirvöldum sem bera ábyrgð á baráttu gegn peningaþvætti upplýsingar þær sem um getur í 6. og 7. gr. í góðri trú telst ekki hafa brotið gegn ákvæðum um takmörkun á birtingu upplýsinga sem mælt er fyrir um í samningi eða laga- eða stjórnsýsluákvæðum og leggur veiting upplýsinga með þessum hætti enga ábyrgð á herðar þessum stofnunum eða aðilum, stjórnendum eða starfsmönnum þeirra.“
9.    Eftirfarandi grein bætist við 10. gr.:
    „Aðildarríkin skulu sjá til þess að stofnanir, sem hafa heimild samkvæmt lögum til að annast eftirlit með verðbréfa-, gjaldeyris- og afleiðumörkuðum, tilkynni yfirvöldum sem bera ábyrgð á baráttu gegn peningaþvætti um allt það sem kann að vekja grun þeirra um peningaþvætti.“
10.    Í stað 11. gr. komi eftirfarandi:
     „11. gr.
    1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að stofnanir og aðilar sem heyra undir þessa tilskipun:
    a)    komi á viðeigandi innra eftirliti og boðskiptum til að fyrirbyggja og hindra aðgerðir sem tengjast peningaþvætti,
    b)    geri viðeigandi ráðstafanir til þess að starfsmenn þeirra kunni skil á ákvæðum þessarar tilskipunar. Þessar ráðstafanir skulu fela í sér að hlutaðeigandi starfsmenn fái sérstaka þjálfun sem auðveldi þeim að átta sig á hvaða viðskipti gætu tengst peningaþvætti og þeim sé kennt hvernig þeir skuli bregðast við í slíkum tilvikum.
    Ef einstaklingur, sem fellur undir 3. til 7. mgr. 2. gr. a, stundar sérfræðistörf sín sem launamaður hjá lögaðila skulu skyldur samkvæmt þessari grein eiga við um þann lögaðila en ekki um einstaklinginn.
    2.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að stofnanir og aðilar, sem heyra undir þessa tilskipun, hafi aðgang að nýjustu upplýsingum um starfsemi peningaþvætta og um vísbendingar sem gera kleift að komast á snoðir um grunsamleg viðskipti.“
11.    Í 12. gr. komi orðin „stofnana og aðila sem um getur í 2. gr. a“ í stað „lána- og fjármálastofnana sem um getur í 1. gr.“     

2. gr.

Innan þriggja ára frá gildistöku þessarar tilskipunar skal framkvæmdastjórnin, innan ramma þeirrar skýrslu sem kveðið er á um í 17. gr. tilskipunar 91/308/EBE, láta fara fram sérstaka athugun á þáttum í tengslum við beitingu fimmta undirliðar E-hluta 1. gr., sérstakri meðferð lögmanna og annarra óháðra lögfræðinga, því hvort skjólstæðingar sanna á sér deili í viðskiptum sem ekki eiga sér stað augliti til auglitis og mögulegum áhrifum á rafræn viðskipti.

3. gr.

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli eigi síðar en 15. júní 2003 til að fara að tilskipun þessari. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

4. gr.

Tilskipun þessi öðlast gildi daginn sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

5. gr.

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Brussel 4. desember 2001.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
N. FONTAINE D. REYNDERS
forseti. forseti.

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 193, 31.7.2003, bls. 18 og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 39, 31.7.2003, bls. 12.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. EB L 344, 28.12.2001, bls. 76.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. EB L 253, 7.10.2000, bls. 42.
Neðanmálsgrein: 4
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 5
(4)    Stjtíð. EB L 253, 7.10.2000, bls. 42.
Neðanmálsgrein: 6
(1)    Stjtíð. EB C 177 E, 27.6.2000, bls. 14.
Neðanmálsgrein: 7
(2)    Stjtíð. EB C 75, 15.3.2000, bls. 22.
Neðanmálsgrein: 8
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 5. júlí 2000 (Stjtíð. EB C 121, 24.4.2001, bls. 133), sameiginleg afstaða ráðsins frá 30. nóvember 2000 (Stjtíð. EB C 36, 2.2.2001, bls. 24) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 5. apríl 2001 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB). Ákvörðun Evrópuþingsins frá 13. nóvember 2001 og ákvörðun ráðsins frá 19. nóvember 2001.
Neðanmálsgrein: 9
(4)    Stjtíð. EB L 166, 28.6.1991, bls. 77.
Neðanmálsgrein: 10
(5)    Stjtíð. EB L 141, 11.6.1993, bls. 27. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/9/EB (Stjtíð. EB L 84, 26.3.1997, bls. 22).
Neðanmálsgrein: 11
(6)    Stjtíð. EB L 333, 9.12.1998, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 12
(7)    Stjtíð. EB C 251, 15.8.1997, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 13
(8)    Stjtíð. EB L 351, 29.12.1998, bls. 1.