Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 560. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 980  —  560. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um neyðarmóttöku vegna nauðgana.

     1.      Á hvern hátt verður neyðarmóttaka vegna nauðgana fyrir barðinu á sparnaðaraðgerðum á Landspítala – háskólasjúkrahúsi?
    Þjónusta neyðarmóttöku við þolendur kynferðislegs ofbeldis mun ekki skerðast, samkvæmt upplýsingum stjórnenda Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH). Neyðarmóttakan verður áfram á slysa- og bráðadeild í Fossvogi.

     2.      Hvaða störf er fyrirhugað að leggja niður eða skerða á móttökunni og hvaða breytingar eru fyrirhugaðar á starfsumhverfinu?
    Starf yfirlæknis í 20% stöðugildi verður lagt niður. Verkefni yfirlæknis hafa ekki falist í því að sinna móttöku einstaklinga sem leita til neyðarmóttökunnar. Yfirlæknir hefur unnið mjög gott starf við að koma á þeirri þjónustu sem veitt er á neyðarmóttökunni. Neyðarmóttakan hefur verið starfrækt í tíu ár. Starfsemin er sérhæfð og hefur verið rekin af miklum metnaði, enda þykir þjónustan með því besta sem gerist í hinum vestræna heimi. Fyrirhugað er að læknisfræðileg stjórnun verði í höndum kvensjúkdómalækna neyðarmóttökunnar. Engin breyting verður á daglegum störfum þeirra. Áætlaður sparnaður af þessum breytingum nemur um 1.300.000 kr.
    Hjúkrunarfræðingar slysa- og bráðadeildar sem starfa við neyðarmóttöku hafa verið á bakvöktum alla daga ársins. Nú munu hjúkrunarfræðingar á dagvakt virka daga sinna þessum störfum en á móti fellur niður bakvakt hjúkrunarfræðinga virka daga frá kl. 8–16. Sparnaður af þessari breytingu er áætlaður um 900.000 kr. á ári.
    Starfsemi félagsráðgjafa breytist. Félagsráðgjafar hafa verið á bakvöktum og sinnt útköllum eins og hjúkrunarfræðingar. Bakvakt félagsráðgjafa verður lögð niður og verður ráðinn félagsráðgjafi í 50% starfshlutfalli í dagvinnu til að sinna skjólstæðingum neyðarmóttökunnar. Þess er vænst að þjónusta félagsráðgjafa verði markvissari með þessu fyrirkomulagi og að breytingin verði til þess fallin að bæta þjónustu við skjólstæðinga neyðarmóttökunnar. Áætlaður sparnaður nemur um 5.100.000 kr.

     3.      Hversu háa upphæð er áætlað að spara með þessum breytingum?
    Árlegur kostnaður við rekstur neyðarmóttökunnar er tæpar 25.500.000 kr. Áætlaður sparnaður á ársgrundvelli af framangreindum breytingum nemur um 8.700.000 kr. Sparnaður af breytingunum árið 2004 er áætlaður 6.000.000 kr.

     4.      Var haft samráð við fagfólk á neyðarmóttöku um tillögur til sparnaðar?
    Sviðsstjórn slysa- og bráðasviðs undirbjó breytingarnar sem hér hefur verið lýst í samráði við fagfólk sem starfar á neyðarmóttökunni.

     5.      Hverju svarar heilbrigðisráðherra ákalli kvennahreyfinga sem hafa undirritað áskorun um að horfið verði frá fyrirhuguðum breytingum á starfsemi neyðarmóttökunnar?
    Stjórnendur LSH hafa að undanförnu þurft að grípa til margvíslegra ráðstafana til að hagræða í rekstri sjúkrahússins og sporna við stöðugri útgjaldaaukningu. Breytingar sem ákveðnar hafa verið á skipulagi neyðarmóttökunnar eru aðeins einn liður í þeim aðgerðum.
    Það er álit ráðherra að stjórnendur stofnana verði að hafa svigrúm til að ráða innri málum stofnana sinna að sem mestu leyti, þ.e. hvað varðar stjórnun og skipulag daglegs rekstrar. Eins og fram er komið miðast skipulagsbreytingar á neyðarmóttökunni við að ná fram sparnaði án þess að skerða þjónustu við þá sem þangað leita. Ráðherra telur því að hvorki sé réttmætt að hlutast til um að fallið verði frá fyrirhuguðum breytingum á rekstri neyðarmóttökunnar né ástæða til. Fari hins vegar svo að breytingarnar leiði til þess að þjónustan versni marktækt er aftur á móti ástæða til að taka málið til skoðunar. Ítrekað skal vegna þessarar spurningar það sem sagt var í upphafi: Þjónusta neyðarmóttöku við þolendur kynferðislegs ofbeldis mun ekki skerðast, samkvæmt upplýsingum stjórnenda LSH.