Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 677. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1156  —  677. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar og Bryndísar Hlöðversdóttur um fríverslunarsamning við Ísrael.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:


     1.      Hvenær tók fríverslunarsamningur EFTA við Ísrael gildi?
     2.      Hvaða skilyrði eru í samningnum um uppsögn hans? Hver er uppsagnarfresturinn?
     3.      Hversu mikil viðskipti eiga Íslendingar við Ísrael í krafti fríverslunarsamnings landsins við EFTA?
     4.      Hvernig eru þau viðskipti aðallega? Hvaða vörutegundir eru seldar frá Íslandi og hvaða íslensk fyrirtæki stunda einkum viðskipti við Ísrael?

    Fríverslunarsamningur EFTA og Ísrael tók gildi 1. ágúst 1993.
    Ákvæði 36. gr. samningsins gerir ráð fyrir að hvert EFTA-ríkjanna geti dregið til baka aðild sína að samningnum með því að tilkynna það vörsluaðila skriflega og tekur úrsögn gildi sex mánuðum síðar. Dragi Ísrael til baka aðild sína fellur samningurinn að sjálfsögðu niður í heild sinni.
    Viðskipti Íslendinga við Ísrael eru fremur lítil og nema um 1% af heildarviðskiptum EFTA-ríkjanna við Ísrael. Ef skoðuð er þróun viðskipta síðustu fimm ár voru engin viðskipti árin 19981999 en síðan nam innflutningur á bilinu 360–450 millj. ísl. kr. árin 2000–2003. Útflutningur þessi sömu ár nam um 108 millj. kr. árið 2000, 135 millj. kr. árið 2001, 295 millj. kr. árið 2002 og 154 millj. kr. árið 2003. Helstu vörutegundir sem seldar eru frá Íslandi til Ísrael eru fiskafurðir og fiskimjöl en þær vörur nema um 86% útflutningsins árið 2002. Helstu vörutegundir sem seldar eru frá Ísrael til Íslands eru fjarskipta- og útvarpsbúnaður, raftæki og ýmsar fleiri iðnaðarvörur. Upplýsingar um hvaða fyrirtæki og einstaklingar eru í viðskiptum eru trúnaðarmál og ekki birtar opinberlega.