Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 787. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1198  —  787. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 33 5. maí 2000, um veiðieftirlitsgjald, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Gjöld samkvæmt lögum þessum renna til reksturs Fiskistofu.

2. gr.

    Á undan orðinu „aflahlutdeildar“ í 3. gr. laganna kemur: sóknardaga.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. september 2004.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Breytingar þær sem hér eru lagðar til eiga rætur að rekja til þess að á árinu 2002 samþykkti Alþingi breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, sem felur í sér að frá og með 1. september 2004 verður lagt sérstakt veiðigjald á eigendur skipa fyrir úthlutaðar veiðiheimildir eða landaðan afla þegar ekki er um úthlutun að ræða. Jafnframt var þess getið í greinargerð með frumvarpinu að þegar til greiðslu veiðigjalds kæmi væri við það miðað að niður féllu gjöld sem útgerðin greiddi og áætluð voru samkvæmt fjárlögum ársins 2002 að fjárhæð um 850 millj. kr., þ.e. veiðieftirlitsgjald (226,5 millj. kr. ) og þróunarsjóðsgjald (621 millj. kr.). Með frumvarpi þessu er lagt til að veiðieftirlitsgjaldið falli niður frá 1. september nk. Þar sem 2. gr. laganna fellur þar með niður þykir nauðsynlegt að árétta að gjöld sem innheimt eru samkvæmt lögunum renni til reksturs Fiskistofu.
    Í 2. gr. er lagt til að innheimt verði sama gjald fyrir flutning á sóknardögum milli skipa og innheimt er fyrir flutning á aflahlutdeild og krókaaflahlutdeild enda sama vinna í því fólgin. Ekki hefur verið innheimt gjald fyrir flutning á sóknardögum milli skipa en nauðsynlegt er að það verði gert til að gæta samræmis milli aðila sem stunda fiskveiðar. Er því lagt til að umræddar breytingar verði gerðar á lögunum.




Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 33/2000,
um veiðieftirlitsgjald, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að veiðieftirlitsgjald falli niður frá 1. september nk. Einnig er lagt til að innheimt verði sama gjald vegna flutnings á sóknardögum milli skipa og innheimt er fyrir flutning á aflahlutdeild og krókaaflahlutdeild.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum lækka tekjur ríkissjóðs af þessu gjaldi um 270 m.kr. frá áætlun fjárlaga sem gerði ráð fyrir 335 m.kr. fyrir árið 2004 og um 340 m.kr. frá og með árinu 2005. Þess má geta að frumvarpið er flutt í kjölfar upptöku veiðigjalds sem kemur í þess stað og mun renna í ríkissjóð frá og með sama tíma.