Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 842. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1297  —  842. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um heildarendurskoðun fjárveitinga hins opinbera til vísinda, rannsókna og þróunarstarfs.

Flm.: Ásgeir Friðgeirsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Helgi Hjörvar, Jóhanna Sigurðardóttir,


Jón Gunnarsson, Mörður Árnason, Össur Skarphéðinsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir heildarendurskoðun á fjárveitingum hins opinbera til vísinda, rannsókna og þróunarstarfs hér á landi. Markmið endurskoðunarinnar verði að styrkja reglufestu, gagnsæi og fagleg vinnubrögð við úthlutun fjárins og stuðla þannig að því að þau verkefni sem líklegust eru til að efla vísindi, tækni, menningu og atvinnulíf fái nauðsynlegan stuðning. Sérstaklega yrði skoðað hvort ekki mætti ná þessu marki með því að stórefla innlenda samkeppnissjóði.
    Stefnt skal að því að endurskoðun ljúki fyrir mitt ár 2005 svo að tillögur hafi áhrif á fjárveitingar ársins 2006.

Greinargerð.


    Íslendingar verja um 3% af vergri þjóðarframleiðslu til rannsókna og þróunarstarfs og eru þar í fjórða sæti OECD-þjóða. Árið 2002 nam þessi fjárhæð ríflega 24 milljörðum kr. Fyrirtæki og einkaaðilar standa straum af um tveimur þriðju þeirrar fjárhæðar en hið opinbera nærri þriðjungi, sem var árið 2002 nálægt 7,5 milljörðum kr. Af þessu má ljóst vera að framlag einkaaðila og hins opinbera til rannsókna og þróunarstarfs er í góðu samræmi við það sem best gerist í nágrannalöndum okkar.
    Framlag vísinda og rannsókna til hagvaxtar á Íslandi er eftir því sem næst verður komist minna á Íslandi en víðast hvar í nærliggjandi löndum. Sjálfbær þáttur hagvaxtar, sem byggist ekki á beinni nýtingu náttúruauðlinda og er einn gleggsti mælikvarðinn á hlut þekkingargreina í vexti hagkerfa, er í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Bretlandi, Frakklandi, Danmörku, Finnlandi, Svíþjóð og víðar um 50–70% af árlegum hagvexti. Ekki liggja fyrir áreiðanlegar upplýsingar um þetta hér á landi en talan mun þó vera á bilinu 10–20%. Þá kemur fram í úttekt World Economic Forum að staða nýjunga í atvinnulífi Íslendinga er mun veikari en efni standa til. Íslendingar eru þar í 21. sæti þjóða heims. Á sama tíma er Ísland efst á lista tæknivæddra þjóða. Af þessu má draga þá ályktun að þeir miklu fjármunir sem renna til rannsókna og þróunarstarfs hér á landi skili sér ekki eins margfalt út í þjóð- og atvinnulíf og í nærliggjandi löndum.
    Fyrsti flutningsmaður þessarar tillögu hefur lagt fram fyrirspurnir til allra ráðherra um fjárveitingar til vísinda, rannsókna og þróunarstarfs. Svör hafa ekki borist frá öllum ráðuneytum en af þeim svörum sem þegar hafa borist er ljóst að forsendur, viðmiðanir og aðferðir ráðuneyta við útdeilingu fjárins eru breytilegar. Kröfur til þeirra verkefna sem styrkt eru virðast mismunandi og skyldur þeirra sem stuðninginn hljóta eru ekki skilgreindar. Þá eru ábyrgð og skyldur þeirra sem veita styrkina ekki tilgreindar og lítil reglufesta er í því hverjir það eru innan stjórnkerfisins sem taka ákvarðanir um styrki og þá ekki heldur á hvaða forsendum. Erfitt er því að sjá með hvaða hætti hið opinbera vinnur að því eða tryggir að fjármunir þess renni til verkefna sem byggjast á traustum faglegum grunni eða eru líklegust til að efla vísindin, tækni, menningu og atvinnulíf. Full ástæða virðist því til að endurskoða stuðning hins opinbera við rannsóknir og þróunarstarf, einkum með það í huga að auka reglufestu, gagnsæi og fagleg vinnubrögð.
    Í Bandaríkjunum og Þýskalandi og í vaxandi mæli á Norðurlöndum verður það æ óumdeildara að meginhluti rannsóknarfjármögnunar eigi að fara í samkeppnissjóði þar sem verkefni eru einungis metin eftir vísindalegu vægi þeirra og hæfni vísindamanna. Hér á landi er annað uppi á teningnum. Þótt samkeppnissjóðir RANNÍS hafa stækkað nokkuð á þessu ári hefur hlutur þeirra af heildarfjármagni minnkað. Hlutur sjóða RANNÍS var 11% af heildarfjármagni til rannsókna og þróunarstarfs árið 1996 en aðeins 3% árið 2001. Ráðstöfunarfé samkeppnissjóða RANNÍS stóð í stað í vel á annan áratug til ársins 2003 og leiddi það til viðaminni styrkja. Mælt í mannmánuðum var t.d. ráðstöfunarfé Vísindasjóðs árið 1995 110 mánuðir en árið 2003 voru þeir rétt rúmlega 60. Þessi þróun á sér stað á sama tíma og aðrir á Vesturlöndum gera sér grein fyrir að samkeppnissjóðir eru líklegastir til að skila fjármunum margfalt til baka til samfélagsins þar sem slíkir sjóðir tryggja best gæði rannsókna, auðvelda nýliðun í vísinda- og rannsóknarsamfélaginu og skapa heilbrigða samkeppni á milli vísindamanna.
    Full ástæða er því til þess að hið opinbera endurskoði framlög sín til rannsókna og þróunarstarfs með það að sérstöku markmiði að styrkja samkeppnissjóði.
    Mikilvægt er að unnið verði hratt að þessum málum því að alþjóðleg samkeppni á sviði rannsókna og hátækni er hörð. Fyrir hvert ár sem Íslendingar dragast aftur úr öðrum þjóðum vegna þess að fjármunum er ekki varið í réttu viðfangsefnin glatast tækifæri og hættan eykst á að bestu vísindamenn þjóðarinnar flytji af landi brott. Því er mikilvægt að endurskoðun á fjárveitingum hins opinbera til vísinda og rannsókna verði lokið innan árs og unnt verði að grípa til aðgerða eigi síðar en 2006.