Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 874. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1332  —  874. mál.




Skýrsla



félagsmálaráðherra um stöðu framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar til að ná fram jafnrétti kynjanna 2002–2004.

(Lögð fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



I. INNGANGUR.

    Framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna fyrir árin 1998–2001 var framlengd með framkvæmdaáætlun sem gilti fyrir árin 2002–2004. Var það gert með hliðsjón af því að innan árs eftir kosningar 2003 yrði að leggja fram nýja tillögu til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum, sbr. 9. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. Skýrslan gerir því grein fyrir stöðu verkefna sem ákveðin voru í síðarnefndu framkvæmdaáætluninni. Í framkvæmdaáætluninni sem lögð verður fram fyrir árin 2004–2008 var lagt upp með að hafa verkefnin færri en áður var. Lögð er sérstök áhersla á að festa vinnubrögð samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða betur í sessi.
    Samþætting byggist á því að tekið sé tillit til kynjasjónarmiða við alla ákvarðanatöku. Í þessu sambandi er mikilvægt að minna á grundvöll hugmynda- og aðferðafræði samþættingar. Til að gæta jafnréttis kynjanna þarf stöðugt að vera vakandi, meðal annars með því að kanna stöðu og meta áhrif aðgerða með tilliti til kvenna annars vegar og karla hins vegar. Með framkvæmdaáætluninni sem lögð er fram samhliða skýrslu þessari er leitast við að halda áfram því starfi sem unnið hefur verið undanfarin ár, þ.e. að stuðla að auknu jafnrétti með því að setja fram verkefni og áætlanir sem munu færa okkur nær settu marki.
    Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 96/2000 skulu fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn setja sér jafnréttisáætlun. Ljóst er að það tekur ákveðinn tíma að framkvæma slíkar aðgerðir, bæði setja slíkar áætlanir og að framfylgja þeim. Til að bera árangur verður jafnréttisáætlun að innihalda ákveðin markmið og skýra stefnu um það hvernig skuli ná þeim markmiðum. Þau verkefni sem unnið hefur verið að undanfarin ár og varða jafnréttismál munu skila sér í meiri umræðu og þekkingu hjá þeim aðilum sem að þeim standa. Aukin þekking og fræðsla skilar sér í markvissara starfi og er grundvöllur þess að þjóðfélagið allt geti sætt sig við stöðuna í jafnréttismálum.
    Við gerð nýrrar framkvæmdaáætlunar fór Jafnréttisstofa þess á leit við jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna að reynt yrði eftir fremsta megni að greina frá því hver kostnaðurinn yrði við verkefnin, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 96/2000.
    Eins og við gerð fyrri áætlunar voru sjónarmið samþættingar innan stjórnsýslunnar höfð að leiðarljósi. Hluti af því er að skilgreina betur hlutverk jafnréttisfulltrúa, setja jafnréttisáætlanir og jafnréttisnefndir í ráðuneytum og veita fræðslu til stjórnenda og starfsmanna ráðuneyta og opinberra stofnana. Hið opinbera sýnir þannig gott fordæmi og mun það að öllum líkindum skila sér út í þjóðfélagið og stuðla þannig að því að fleiri sjái sér hag í því að bæta stöðu kvenna og karla.
    Meðfylgjandi greinargerð um þau verkefni sem unnið hefur verið að sýna að margt hefur áunnist og breyst til hins betra. Með síaukinni árvekni yfir jafnréttismálum og framkvæmd á því sviði er stöðugt minnt á verkefni sem ekki verður unnið á einni nóttu. Um er að ræða langtímaverkefni sem ávallt þarf að minna á, þannig er stuðlað að því að bæta og breyta stöðu jafnréttismála.
    Við framlengingu áætlunarinnar frá 1998–2001 var gert ráð fyrir því að samþætting yrði aðalverkefni næstu þriggja ára. Um er að ræða sjónarmið sem tekur tíma að tileinka sér, en það mun með aukinni fræðslu og þekkingu leiða til þess að þeir sem hafa slík sjónarmið í heiðri greina samfélagið á annan hátt.
    Með sameiginlegu átaki hafa ráðuneytin stuðlað að bættu samfélagi með því að stuðla að auknu jafnrétti og að mörgu leyti hefur það tekist vel. Það er þó þannig með jafnréttismál sem og önnur mál að skýrar reglur um framkvæmd stuðla að skilvirkara starfi.

II. VERKEFNI RÍKISSTJÓRNARINNAR.

1. Öll tölfræði kyngreind (sjá einnig lið 5.1.).
    Í 21. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, er kveðið á um að í opinberri hagskýrslugerð og í viðtals- og skoðanakönnunum skuli öll tölfræði kyngreind, nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Ráðuneyti og ríkisstofnanir bera ábyrgð á að þessu ákvæði sé fylgt eftir. Hagstofa Íslands mun í samvinnu við Jafnréttisstofu kanna framgang þess að öll tölfræði sé kyngreind og minna reglulega á ákvæði þar að lútandi.

    Með bréfi, dags. 24. október 2000, fór forsætisráðuneytið þess á leit við Hagstofu Íslands að hún annaðist þetta verkefni í umboði ráðuneytisins. Hagstofa Íslands hefur haft að leiðarljósi við gagnasöfnun, úrvinnslu og birtingu upplýsinga að unnt sé að greina niðurstöður fyrir bæði kynin hvort í sínu lagi bæði fyrir og eftir tilkomu 21. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. Í þeim tilvikum sem þessu markmiði hefur ekki verið náð enn þá er unnið að úrbótum og minnt á ákvæði laganna eftir því sem við á.

2. Nefnd sem kannar hvort opinber stefnumótun taki mið af jafnrétti kynjanna.
    Forsætisráðherra skipaði í nóvember 2000 nefnd sem var falið að kanna hvort og með hvaða hætti opinber stefnumótun taki mið af jafnrétti kynjanna. Nefndin hefur safnað upplýsingum um það hvernig stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga taka mið af jafnrétti kynja við stefnumótun. Niðurstaða og tillögur að aðgerðum til úrbóta munu liggja fyrir á árinu 2002.

    Nefndin lauk störfum í september 2002 og skilaði forsætisráðherra skýrslu um störf og niðurstöður nefndarinnar.
    Meginniðurstöður nefndarinnar voru eftirfarandi:
              Vilji stjórnvalda til að gæta að jafnrétti kynjanna við opinbera stefnumótun er greinilegur. Hann birtist meðal annars í fyrirliggjandi framkvæmdaáætlunum ríkisstjórnarinnar til að ná fram jafnrétti kynjanna, 1998–2001 og 2002–2004.
              Vinna við opinbera stefnumótun tekur í auknum mæli mið af jafnrétti kynjanna en þó er unnt að sjá dæmi þess að ekki er alltaf nægilega hugað að jafnréttissjónarmiðum við opinbera stefnumótun og stundum alls ekki.
              Misjafnt er hvort eða að hve miklu leyti forsendur eru fyrir hendi til samþættingar jafnréttissjónarmiða á hinum ýmsu sviðum. Þekking á jafnréttismálum og aðferðum samþættingar eru meðal þeirra forsendna sem að mati nefndarinnar skortir víða þar sem stefnumótun fer fram. Úr því þarf að bæta.
              Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna gegna veigamiklu hlutverki við að gæta jafnréttis við opinbera stefnumótun. Starfið er í mótun og er staða þeirra missterk eftir ráðuneytum, starfsreynsla og menntun misjöfn, starfshlutfall þeirra óvíða skilgreint og þeir hafa ekki fengið nógu skýrt og afmarkað verksvið.
              Kynjahlutföll meðal æðstu embættismanna ríkisins eru ójöfn. Hlutfall kvenna í hópi forstöðumanna ráðuneyta og ríkisstofnana er 18,7% um mitt ár 2002 en hefur hækkað úr 14,4% frá árinu 2001. Í 19 stöður hafa verið ráðnar 12 konur og 7 karlar. Verður það að teljast jákvæð þróun. Athygli vekur þó að á vegum sjö ráðuneyta gegndi engin kona embætti forstöðumanns í stofnunum sem undir þau heyra.
              Kynjahlutföll í ráðum, stjórnum og nefndum á vegum ríkisins eru misjöfn eftir ráðuneytum. Í helmingi ráðuneyta verða þau að teljast viðunandi en alls óviðunandi í þremur ráðuneytum. Þróunin í átt til jafns hlutfalls í nefndum hefur verið hröð í þeim ráðuneytum sem hafa náð að nálgast 40–60% markið.
              Á vegum sveitarfélaga er víða unnið metnaðarfullt starf í jafnréttismálum. Í stærstu sveitarfélögum starfa virkar jafnréttisnefndir og jafnréttisfulltrúar og settar hafa verið jafnréttisáætlanir. Mörg minni sveitarfélög uppfylla þó ekki lagaskyldu um slíkt. Víða eru öðrum nefndum, svo sem félagsmálaráðum, falin verkefni jafnréttisnefnda og verður það að teljast eðlilegt í minni sveitarfélögum en leiðir óhjákvæmilega til þess að áherslan á jafnréttismál verður minni.
              Jafnréttisáætlanir sveitarfélaga, ráðuneyta og opinberra stofnana eru mikilvægar. Um þriðjungur ráðuneyta hefur sett sér jafnréttisáætlanir eins og lög gera ráð fyrir, um þriðjungur er með þær í mótun og um þriðjungur ráðuneyta hefur ekki sett sér jafnréttisáætlun. Ekki er tryggt að slíkar áætlanir hafi bein áhrif á almenna stefnumótun. Þær eru oft eingöngu stefnuyfirlýsingar þar sem hnykkt er á ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þótt í sumum tilvikum fylgi þeim aðgerðaáætlanir. Framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar er aðgerðaáætlun sem tvímælalaust hefur áhrif á stefnumótun.
    Nefndin lagði einnig fram tillögur um eftirfarandi úrbætur:
              Aukin áhersla verði lögð á fræðslu um jafnréttismál og samþættingu fyrir alla opinbera starfsmenn sem með einum eða öðrum hætti bera ábyrgð á stefnumótunarvinnu, bæði á vegum ríkis og sveitarfélaga.
              Nauðsynlegt er að auka vægi jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna. Skilgreina þarf starfshlutfall og samræma hlutverk og verksvið þeirra betur. Þá er mikilvægt að öll ráðuneytin setji sér jafnréttisáætlanir og fylgi þeim eftir með viðeigandi aðgerðum.
              Þeim tilmælum verði beint til Sambands íslenskra sveitarfélaga að það hvetji sveitarfélög til að þau megi uppfylla lagaskyldur varðandi skipan jafnréttisnefnda og gerð og eftirfylgni jafnréttisáætlana. Í því sambandi er mikilvægt að Sambandið geti verið bakhjarl Jafnréttisstofu sem sinnir fræðslu og ráðgjöf fyrir sveitarfélögin.
              Lagt er til að jafnréttisgátlisti, þar sem svara þarf nokkrum spurningum er varða stöðu kvenna og karla, verði gefinn út í formi bæklings og að hvatt verði til notkunar hans við alla opinbera stefnumótun. Jafnréttisgátlistinn, sem nefndin hefur samið, verði kynntur hjá forsvarsmönnum ráðuneyta og stofnana sem undir þau heyra svo og öðrum starfsmönnum sem koma að stefnumótun, enn fremur sveitarstjórnum og framkvæmdaaðilum þeirra. Jafnréttisgátlistinn verði látinn fylgja öllum skipunarbréfum hópa og nefnda sem koma að opinberri stefnumótun.
              Nefndin telur ávinning af því að fá þriðja aðila, einkaaðila eða óháða stofnun, til að meta árangur framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar til að ná fram jafnrétti kynjanna.
    Skýrsluna má nálgast á vef forsætisráðuneytisins á slóðinni: www.forsaetisraduneyti.is/media/Skyrslur/jafnretti_kynjanna.pdf.

3. Konur og efnahagsmál – konur og efnahagsleg völd.
     Forsætisráðherra skipaði í október 2000 nefnd þriggja sérfræðinga sem skyldi leggja fyrir ríkisstjórn tillögu að rannsóknarverkefni um efnahagsleg völd kvenna og karla og hvar þau liggja í íslensku samfélagi. Samkvæmt tillögum nefndarinnar verður ráðist í fjögur rannsóknarverkefni:
1.      Tölfræðisamantekt. Teknar verða saman ýmsar tölur í fórum Hagstofu Íslands eða annarra er tekið hafa saman kyngreindar tölur sem draga upp mynd af stöðu og völdum kvenna í samanburði við karla í íslensku efnahagslífi. Þessi samantekt er unnin innan Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.
2.      Könnun á vinnumarkaði. Í samstarfi við Jafnréttisráð verður unnin ný launakönnun til að varpa ljósi á launaþróun kvenna og karla og í hvaða mæli kynbundinn launamunur er enn til staðar í íslensku samfélagi.
3.      Könnun á stöðu kvenna í stjórnunarstörfum. Safnað verður upplýsingum um fjölda kven- og karlstjórnenda í íslenskum fyrirtækjum og hjá hinu opinbera. Þessi samantekt er unnin innan Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.
4.      Almenn viðhorfskönnun. Gerð verður viðhorfskönnun meðal Íslendinga sem náð hafa kosningaaldri þar sem spurt verður um viðhorf þeirra til ýmissa þátta sem áhrif geta haft á völd kvenna í íslensku efnahagslífi.

    Nefndin lauk störfum í febrúar 2004 og skilaði forsætisráðherra skýrslu um störf og niðurstöður nefndarinnar. Nefndin stóð fyrir gerð umfangsmikillar launakönnunar í samvinnu við Jafnréttisráð, en niðurstöður hennar voru kynntar í september 2002. Einnig kom nefndin að gerð viðhorfskönnunar um viðhorf Íslendinga til jafnréttismála og var hún unnin í samvinnu við Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands og framkvæmd af IMG Gallup. Könnunin var jafnframt styrkt af félagsmálaráðuneyti, dóms- og kirkjumálaráðuneyti og Nýsköpunarsjóði námsmanna. Að síðustu tók nefndin saman ýmsar tölur sem varpa ljósi á hlut kvenna í íslensku efnahagslífi. Kannanirnar og talnasamantektin gefa vísbendingar um áhrif kvenna í íslensku efnahagslífi.
    Launakönnunin náði til stórs hluta íslenskra launþega. Mjög margir þættir voru kannaðir til að komast að skilja hvers vegna konur hafa að jafnaði lægri laun en karlar. Meginniðurstaða launakönnunarinnar var að konur hefðu 72% af launum karla fyrir sambærileg störf. Könnunin sýnir að skýra má 21–24% af þessum launamun með ólíkum starfsvettvangi, starfi, menntun og ráðningarfyrirkomulagi kynjanna. 1 Það sem eftir stendur (7,5–11% launamunur) stafar af því að hjónaband, barneignir og fleira hefur önnur áhrif á laun kvenna en karla. Föst dagvinnulaun karla eru til dæmis 4–5% hærri en ella ef þeir eru í sambúð eða hjúskap en sambúð hefur lítil áhrif á laun kvenna.
    Niðurstöður viðhorfskönnunarinnar styrkja þessa niðurstöðu. 65% karlkyns svarenda starfa á vinnustöðum þar sem karlar eru í miklum meiri hluta og 64% kvenkyns svarenda starfa á vinnustöðum þar sem konur eru í miklum meiri hluta. Samkvæmt viðhorfskönnuninni unnu 57% kvenkyns svarenda hjá hinu opinbera en 22% karla.
    Atvinnutekjur kvenna eru um 60% af atvinnutekjum karla. Íslenskar konur eru þó mjög virkar á vinnumarkaði en vinna heldur styttri vinnudag en karlar á vinnustað en meira en þeir heima við. Um 35% kvenna vinna í skólum eða á heilbrigðisstofnunum. Árið 2002 voru konur fjórðungur sjálfstætt starfandi einstaklinga hér á landi og meðal kjörinna fulltrúa og stjórnenda voru konur tæp 30%. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöll Íslands var um 7% (sumarið 2003).
    Árið 2001 voru konur framkvæmdastjórar í 18% íslenskra fyrirtækja og stjórnarformenn í 36% þeirra. En ef litið var á fyrirtæki þar sem skattskyld laun fóru yfir 100 millj. kr. voru konur um 4% framkvæmdastjóra. Í fræðslustarfsemi voru þó 43% framkvæmdastjóra konur, í heilbrigðis- og félagsþjónustu 35%, en í annarri samfélagsþjónustu voru 39% framkvæmdastjóra konur. Þessi svið heyra einkum undir hið opinbera. Forstöðumenn ríkisstofnana og ráðuneyta eru hins vegar langflestir karlar, eða um 80%.
    Fáar konur sitja í opinberum úthlutunarnefndum sem veita fé til uppbyggingar íslensks atvinnulífs og konur fá lítinn hluta þess fjármagns sem veitt er úr opinberum sjóðum til styrktar atvinnuuppbyggingu. Engin kona er bankastjóri og fyrir utan tvær konur í stjórn Seðlabanka Íslands sitja engar konur í bankaráðum. Viðhorfskönnunin sýnir að helmingur karla og 67% kvenna telja að konur hafi ekki jafngóðan aðgang að fjármagni til fyrirtækjareksturs og karlar.
    Kynskiptur vinnumarkaður endurspeglar að einhverju leyti þá staðreynd að námsval kynjanna er kynbundið. Konur eru í meiri hluta þeirra sem ljúka námi frá háskólum, en karlar sækja einkum í iðn- og tæknigreinar.
    Viðhorfskönnunin sýnir að umönnun barna og heimilisstörf eru að miklu leyti í höndum kvenna jafnvel þótt flestir telji að feður eigi ekki síður en mæður að sjá um uppeldi barna sinna. Þó halda margir karlar og eldra fólk að mæður séu hæfari en feður til að annast uppeldi barna. Viðhorfskönnunin sýnir jafnframt að 79,4% aðspurðra eru ánægð með fæðingarorlofslögin frá 2000. Þeir sem hafa átt rétt á fæðingarorlofi eftir að lögin tóku gildi eru aðeins hlynntari lögunum (84%) en þeir sem ekki áttu rétt á fæðingarorlofi (76%).
    71% kvenna sem tók þátt í viðhorfskönnuninni hafði ekki sóst eftir aukinni ábyrgð og 63% kvenna höfðu ekki sóst eftir launahækkun. Sama gildir um karla því 71% karla hafði heldur ekki sóst eftir aukinni ábyrgð og 64% karla höfðu ekki sóst eftir launahækkun. Helst eru það konur með hærri laun en 250 þús. kr. á mánuði sem eru líklegar til að hafa sóst eftir meiri ábyrgð og hærri launum. En karlar með sambærileg laun eru ólíklegri en karlar með lægri laun til að hafa beðið um launahækkun og aukna ábyrgð.
    Samkvæmt viðhorfskönnuninni telja langflestir að það sé jákvætt að konum fjölgi í stjórnunarstörfum. Könnun á meðal stjórnenda leiðir í ljós að konur þykja almennt góðir stjórnendur.
    Viðhorfskönnunin sýnir að ákvarðanir um fjárfestingar heimilisins eru í flestum tilvikum teknar sameiginlega af sambýlisfólki. Ef börn yngri en 18 ára eru í heimili er langalgengast að sambúðarfólk hafi sameiginlegan bankareikning, að öllu eða einhverju leyti, eða 77%.
    54,9% svarenda telja sig að öllu leyti fjárhagslega sjálfstæða og 36,4% telja sig að mestu leyti fjárhagslega sjálfstæða. 6% karla og 11% kvenna telja sig að litlu eða engu leyti fjárhagslega sjálfstæð. En 28% þeirra sem eru heimavinnandi, öryrkjar og atvinnulausir telja sig vera að litlu eða engu leyti fjárhagslega sjálfstæð.
    Skýrsluna má nálgast á vef forsætisráðuneytisins á slóðinni:
     www.forsaetisraduneyti.is/media/Efnhasleg_vold_kvenna/EVKskyrsla.pdf.

III. VERKEFNI RÁÐUNEYTANNA.

1. Forsætisráðuneytið.
1.1. Þróun upplýsingasamfélagsins.
     Á grundvelli upplýsinga sem safnað hefur verið í tengslum við verkefnið um þróun upplýsingasamfélagsins mun verkefnisstjórnin leggja fram tillögur að því hvernig megi hafa áhrif á þróun upplýsingasamfélagsins með tilliti til mismunandi stöðu kvenna og karla. Á grundvelli tillagnanna verði mótuð þverfagleg langtímaáætlun um hvernig bregðast megi við.
    Í september 2003 skipaði forsætisráðherra nefnd til að vinna að endurskoðun stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið og koma með nýjar tillögur. Með nefndinni vann samráðshópur með fulltrúum ýmissa hagsmunaaðila í samfélaginu og samráðsnefnd í málefnum upplýsingasamfélagsins sem skipuð er fulltrúum allra ráðuneyta. Stefnumótunarnefndin leitaði einnig eftir sjónarmiðum fjölmargra annarra aðila.
    Forsætisráðuneytið hefur um nokkurra ára skeið aflað tölfræðilegra upplýsinga um þróun upplýsingasamfélagsins og eru þær upplýsingar meðal annars greindar eftir kyni. Nú hefur Hagstofan tekið að sér að afla reglubundið þessara upplýsinga um þróun upplýsingasamfélagsins. Því lágu fyrir kyngreindar upplýsingar sem hægt var að nýta í stefnumótunarvinnunni. Farið var yfir tölfræðilegar upplýsingar sem fyrir lágu og fjallað um þróun upplýsingasamfélagsins með tilliti til mismunandi stöðu kvenna og karla.
    Niðurstaða nefndarinnar var að hin stafræna gjá væri ekki á milli kynjanna, heldur á milli kynslóða. Helsti kynjamunurinn er greinanlegur í því að karlar sækja frekar en konur í nám sem tengist upplýsingasamfélaginu. Eins og sést síðar hér í skýrslunni hefur menntamálaráðuneytið unnið að því að hvetja stúlkur til að sækja meira inn á námsbrautir sem tengjast þessu efni, en það er ekki talið heyra undir forsætisráðuneytið að sinna því. Því var ekki talið nauðsynlegt að þróa frekar stefnu um upplýsingasamfélagið á grundvelli kynjasjónarmiða. Hagstofan heldur þó áfram að safna upplýsingum og birta þær, og því er ekki loku fyrir það skotið að málefnið verði tekið upp síðar.

1.2. Jafn hlutur kynjanna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
     Konur eru 38% fulltrúa í ráðum og nefndum á vegum forsætisráðuneytisins. Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal þó áfram taka mið af jafnréttissjónarmiðum. Þegar ráðuneytið óskar eftir tilnefningum frá öðrum skal eftir því sem kostur er óska eftir tveimur tilnefningum, konu og karli, og þannig tryggt að hlutfall kynja verði sem jafnast.
    Þann 1. ágúst 2003 voru konur 30% fulltrúa í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ráðuneytisins. Í allflestum tilvikum er svo staðið að skipun í nefndir, stjórnir og ráð að flestir hljóta skipun samkvæmt tilnefningu þriðja aðila eða eru kosnir til slíkrar setu. Því er stefnt að því að þegar ráðuneytið óskar eftir tilnefningum frá öðrum skal eftir því sem kostur er óska eftir tveimur tilnefningum, konu og karli, og þannig tryggt að hlutfall kynja verði sem jafnast.

1.3. Jafnréttisfulltrúi.
     Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins er skipaður skv. 11. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á vegum ráðuneytisins og stofnana þess. Jafnréttisfulltrúi er tengiliður ráðuneytisins við Jafnréttisstofu og skal hann meðal annars fylgja þessari framkvæmdaáætlun eftir. Fulltrúinn skal standa fyrir könnun á stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og gera aðgerðaáætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Sérstök áhersla verði einnig lögð á markvissa jafnréttisfræðslu stjórnenda og annarra starfsmanna.
    Jafnréttisnefnd forsætisráðuneytisins var skipuð 1. mars 2003 og sitja í henni þrír fulltrúar ráðuneytisins. Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins er jafnframt formaður nefndarinnar. Jafnréttisnefndin skal ásamt jafnréttisfulltrúa leggja áherslu á það að framfylgja ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, innan ráðuneytisins. Auk þess skal nefndin vinna með jafnréttisfulltrúa að þeim verkefnum sem skilgreind hafa verið sem hlutverk jafnréttisfulltrúa.
    Forsætisráðuneytið hefur ekki lokið við að semja eigin jafnréttisáætlun en starfar samkvæmt starfsmannastefnu og jafnréttisáætlun stjórnarráðsins.
    Í árslok 2003 unnu jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna að undirbúningi könnunar um jafnréttismál og innra starfsumhverfi meðal starfsmanna stjórnarráðsins, sem fram fór í desember 2003. Könnunin var liður í gerð jafnréttisáætlana og markmiðasetningar í jafnréttismálum ráðuneyta. IMG Gallup sá um framkvæmd könnunarinnar í samvinnu við jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna. IMG Gallup hefur nú lokið úrvinnslu svara og niðurstöður hafa verið kynntar yfirstjórn ráðuneyta. Alls svöruðu 432 af 635 eða 68% starfsmanna. Umfjöllun um niðurstöður könnunarinnar er að finna í fréttatilkynningu á vef forsætisráðuneytisins:
     www.forsaetisraduneyti.is/frettir/nr/1271.

2. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið.
2.1. Hvatning til kvenna sem og karla að sækja um störf.
     Ráðuneytið hefur sett sér að fylgja þeirri stefnu að orða starfsauglýsingar fyrir ráðuneytið og undirstofnanir þess þannig að fram komi hvatning um að konur jafnt sem karlar sæki um viðkomandi störf.
    Í ráðuneytinu og undirstofnunum þess er nú föst starfsregla að setja staðlaðan texta inn í allar atvinnuauglýsingar sem hljóðar svo: „Sú regla gildir hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess að hafa skal í heiðri jafnrétti kynjanna við stöðuveitingar.“ Þá má geta þess að samkvæmt nýrri jafnréttisáætlun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins skal orða auglýsingar varðandi símenntun þannig að hvatning komi fram um að jafnt karlar sem konur sæki sér slíka menntun.

2.2.    Fjölgun kvenna í starfsstéttum þar sem karlmenn eru í meiri hluta, svo sem starfsstéttum lögreglu, fangavarða o.fl.
     Áfram verður stefnt að því að ráða fleiri konur í störf lögreglumanna, fangavarða o.fl. Í því skyni verða konur hvattar til að sækja um störf sem auglýst eru.
    Sjá lið 2.1. varðandi starfsauglýsingar.
    Áfram hefur verið unnið markvisst að því að fjölga konum í lögreglu. Árið 2002 sóttu 127 karlar og 36 konur um inngöngu í Lögregluskóla ríkisins. 86 karlar og 27 konur þreyttu inntökupróf. Af þeim stóðust 64 karlar (75% karlkyns umsækjenda) og 21 kona (78% kvenkyns umsækjenda) prófið. Þetta þýðir að af þeim sem stóðust prófið voru 75% karlar og 25% konur. Af þeim 40 umsækjendum sem valdir voru inn í skólann voru svo 27 karlar (67,5%) og 13 konur (32,5%). Af þessum tölum má sjá að hlutfall þeirra kvenna sem sóttu um skólavist og fengu var hærra en karla, eða 13 konur af 21 (61%) á meðan 27 karlar af 64 fengu skólavist (42%).
    Hlutfall starfandi kvenna innan lögreglunnar í febrúar 2003 var 9,34%. Í febrúar 2002 var það 9,11%. Til samanburðar má geta þess að hlutfall kvenna sem starfaði í lögreglunni árið 1996 var 4,3%.

2.3. Staða kvenna innan lögreglunnar.
     Konum hefur fjölgað verulega í hópi lögreglumanna síðustu ár, en sérstök áhersla verður áfram lögð á að fjölga konum í stjórnunarstöðum innan lögreglunnar. Í hópi nemenda Lögregluskólans fjölgar konum ört, enda hafa þær verið hvattar sérstaklega til að sækja þangað og mun það að öllum líkindum verða til þess að auka hlut kvenna í lögreglunni þegar fram í sækir. Jafnframt því að stuðla að fjölgun kvenna innan lögreglunnar mun dómsmálaráðuneytið huga sérstaklega að stöðu þeirra kvenna sem starfa í lögreglunni.
    Ráðuneytið skoðar um þessar mundir leiðir til að fjölga konum í stjórnunarstöðum innan lögreglunnar. Í því skyni er fyrirhugað að boða til sérstaks fundar með fulltrúum Lögregluskólans og ríkislögreglustjóra. Þá hefur jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins einnig átt fund með formanni og fulltrúa Kríanna, tengslaneti kvenna innan lögreglunnar, þar sem farið var yfir stöðu í jafnréttismálum innan lögreglunnar.
    Í febrúar 2003 var engin kona starfandi yfirlögregluþjónn en 24 karlar gegndu slíkri stöðu. Ein kona gegndi starfi aðstoðaryfirlögregluþjóns en 28 karlar. Í starfi aðalvarðstjóra voru 7 konur og 87 karlar. Af 237 varðstjórastöðum voru konur í 15 þeirra. Í stöðu aðstoðarvarðstjóra voru 28 karlar og engin kona. Af 237 stöðum lögreglumanna voru 203 karlar og 34 konur.

2.4. Staða kvenna í undirstofnunum og í ráðuneytinu.
     Það hefur verið stefna ráðuneytisins að fjölga konum í yfirmannastöðum í ráðuneytinu og undirstofnunum þess og verður því haldið áfram.
    Árið 2002 var ein staða skrifstofustjóra í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu auglýst og var kona skipuð í stöðuna. Hinn 1. september 2003 voru starfandi sex skrifstofustjórar í ráðuneytinu. Þar af voru fjórar konur og tveir karlar.
    Af þeim þremur embættum sýslumanna sem auglýst voru árið 2002 voru einn karl og tvær konur skipuð í þær stöður. Hinn 1. september 2003 voru starfandi 26 sýslumenn á landinu, þar af 5 konur og 21 karl.
    Árið 2002 var ein staða héraðsdómara auglýst og var kona skipuð í stöðuna. Hinn 1. september 2003 voru starfandi 38 héraðsdómarar, þar af 10 konur og 28 karlar.
    Árið 2003 var ein staða hæstaréttardómara auglýst og var karl skipaður í stöðuna. Hinn 1. september 2003 voru starfandi níu hæstaréttardómarar, tvær konur og sjö karlar.

2.5. Staða kvenna innan þjóðkirkjunnar.
     Dóms- og kirkjumálaráðherra beinir þeim tilmælum til Biskupsstofu að áfram verði unnið markvisst að því að styrkja stöðu kvenna innan þjóðkirkjunnar. Sérstaklega verði unnið að því að auka þátttöku kvenna í ráðum og nefndum á vegum þjóðkirkjunnar og jafna hlutfall karla og kvenna í trúnaðarstörfum innan hennar. Í því skyni verði sett fram aðgerðaáætlun sem tekur mið af tillögum nefndar sem biskup skipaði til að skoða jafnréttismál í þjóðkirkjunni. Jafnréttisnefnd kirkjunnar beri ábyrgð á framkvæmd áætlunarinnar.

2.6. Jafnrétti – mannréttindi.
     Á vegum dómsmálaráðuneytis verði lögð áhersla á fræðslu um mannréttindi kvenna. Slík fræðsla verði fléttuð inn í almenna fræðslu um mannréttindamál og verði þar meðal annars bent á mikilvægi Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna (CEDAW).
    Mannréttindakennsla er sérstakur hluti námskrár Lögregluskóla ríkisins. Sérstök námsgrein sem ber heitið „mannréttindi/stjórnarskrá“ er kennd á síðari hluta fyrsta árs. Þar er umfjöllun um alla helstu alþjóðlegu mannréttindasamningana og hefur nú CEDAW verið bætt í þann hóp.
    Í sérstöku námi fyrir stjórnendur innan lögreglunnar sem Lögregluskóli ríkisins og Endurmenntunarstofnun HÍ standa að er fjórum kennslustundum sérstaklega varið til umfjöllunar um jafnrétti.
    Átak gegn verslun með konur (sjá nánar í lið 2.7.) fól í sér sérstaka áherslu á að verslun með konur væri brot á mannréttindum.

2.7. Vændi – mansal.
     Á vegum dómsmálaráðuneytis starfar nefnd til að sporna við vændi og kynferðislegri misnotkun sem vænst er að skili dómsmálaráðherra innan skamms lokaskýrslu með tillögum til úrbóta. Verða tillögur nefndarinnar teknar til skoðunar með tilliti til þess hvort breytinga sé þörf á löggjöf í því skyni meðal annars að stemma stigu við vændi. Dómsmálaráðuneytið mun leggja áherslu á að auka alþjóðlegt samstarf og samvinnu sérstaklega að því er varðar aðgerðir til að koma í veg fyrir mansal. Mun ráðuneytið meðal annars taka þátt í norrænni-baltneskri herferð gegn verslun með konur sem hleypt verður af stokkunum 29. maí 2002.
    Nefnd til að sporna við klámi, vændi og kynferðislegri misnotkun skilaði skýrslu til dómsmálaráðherra í apríl 2002. Í skýrslunni voru margvíslegar tillögur og má lesa um þær í skýrslu á slóðinni: domsmalaraduneyti.is/media/Skyrslur/vaendiogklam.pdf.
    Nokkrar breytingar á almennum hegningarlögum hafa verið gerðar sem stuðla að því að sporna gegn vændi, mansali og kynferðislegri misnotkun. Í fyrsta lagi var nýju ákvæði bætt við 202. gr. laganna með lögum nr. 14/2002, sem kveður á um að refsivert sé að kaupa kynlífsþjónustu af ungmenni yngra en 18 ára. Í öðru lagi voru með breytingalögum nr. 40/2003 gerðar ákveðnar breytingar á ákvæðum laganna sem miðuðu að því annars vegar að veita þolendum kynferðisafbrota ríkari vernd en áður og hins vegar að lögfesta sérstakt ákvæði sem kvæði á um að mansal, eða verslun með fólk, yrði refsivert brot.
    Ráðuneytið styrkti einnig rannsókn á vændi meðal ungs fólks og útgáfu skýrslu Rannsókna og greiningar „Vændi meðal ungs fólks á Íslandi og félagslegt umhverfi þess“ sem kom út árið 2003.
    Þá var einnig skipaður starfshópur um meðferð nauðgunarmála hjá lögreglu og ákæruvaldi. Starfshópurinn sem skipaður var fjórum nefndarmönnum skilaði skýrslu í apríl 2002.
    Að frumkvæði dómsmálaráðherra veitti ríkisstjórnin styrk til rannsóknarverkefnisins „Kynlífsmarkaður í mótun“ en skýrsla var gefin út árið 2003.
    Að frumkvæði dómsmálaráðherra hafa V-dagssamtökin á Íslandi verið styrkt á hverju ári frá því að V-dagurinn var haldinn hér á landi í fyrsta sinn 2002. V-dagurinn er alþjóðlegur dagur gegn ofbeldi gegn konum.
    Loks er mikilvægt að geta þess að ráðuneytið tók, ásamt félagsmálaráðuneytinu, þátt í upplýsingaátaki Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna gegn verslun með konur. Átakið sem hleypt var af stokkunum í Tallinn 29. maí 2002 fól í sér annars vegar sameiginlegt átak allra ríkjanna til að sporna við starfsemi af þessu tagi, auk þess sem hvert ríki efndi til átaks í sínu landi sem var sérstaklega sniðið að staðbundnum aðstæðum. Hið íslenska átak fólst í ráðstefnu sem var haldin í febrúar 2003 ásamt útgáfu blaðs sem dreift var með Morgunblaðinu um svipað leyti. Um átakið og árangur þess má lesa í skýrslu sem Norræna ráðherranefndin gefur út og birtist á www.norden.org í mars 2004.

2.8. Vernd vitna og þolenda afbrota.
     Á vegum dómsmálaráðuneytisins hefur á undanförnum árum verið unnið að vitnavernd og bættri réttarstöðu þolenda afbrota. Hluti af því starfi snýr að vernd kvenna sem verða fyrir ofbeldi eða hótunum frá maka eða fyrrverandi maka. Á næstunni verður unnið að nánari skoðun á íslenskri löggjöf hvað þetta atriði varðar, þ.e. með hvaða hætti er unnt að bæta íslenska löggjöf enn frekar á þessu sviði og treysta réttarstöðu þessa hóps. Jafnframt hefur verið efnt til samstarfs milli Norðurlanda um vitnavernd, þar sem meðal annars verður fjallað um framangreind atriði.
    Fulltrúar ráðuneytisins og ríkislögreglustjóra taka þátt í norrænu samstarfi um vitnavernd. Fundur starfshópsins var haldinn í nóvember 2003 á Íslandi. Afstaða ráðuneytisins hefur verið sú að fylgjast grannt með ýmsum breytingum sem önnur Norðurlönd hafa gert á löggjöf sinni varðandi vitnavernd og sjá hvort þær breytingar reynist vel. Enn sem komið er hafa því ekki verið gerðar breytingar á íslenskri löggjöf í þessa átt.
    Þá má geta þess að fulltrúi ráðuneytisins á sæti í nefnd sem skipuð var af félagsmálaráðherra í ársbyrjun 2003 og hefur það hlutverk að sporna við ofbeldi gegn konum. Starfstími nefndarinnar er fjögur ár.

2.9. Átak til að auka hlut kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
     Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum. Þegar um er að ræða tilnefningar þriðja aðila skal eftir því sem kostur er óska eftir tveimur tilnefningum, konu og karli. Stefnt skal að því að í lok áætlunarinnar verði hlutfall kvenna í nefndum á vegum ráðuneytisins orðið a.m.k. 40%.
    Við lok tímabils síðustu framkvæmdaáætlunar hafði fjöldi kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins aukist úr 19,3% í 26,3%. Árið 2002 var hlutur kvenna í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum dómsmálaráðuneytisins 26,2%. Þar sem ekki er um aukningu að ræða frá fyrra ári hefur ráðuneytið nú brugðist við og gert að ófrávíkjanlegri reglu þegar óskað er eftir tilnefningum þriðja aðila í nefndir að óska eftir tveimur tilnefningum, konu og karli.

2.10. Jafnréttisfulltrúi og jafnréttisnefnd ráðuneytisins.
     Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins er skipaður skv. 11. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á vegum ráðuneytisins og stofnana þess. Jafnréttisfulltrúi er tengiliður ráðuneytisins við Jafnréttisstofu og skal hann meðal annars fylgja þessari framkvæmdaáætlun eftir. Í því sambandi skal skipuð sérstök jafnréttisnefnd, fulltrúanum til halds og traust. Fulltrúinn og nefndin skulu standa fyrir könnun á stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera aðgerðaáætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Kallað verði árlega eftir upplýsingum frá undirstofnunum ráðuneytisins um stöðu jafnréttismála hjá þeim og aðgerðaáætlun fylgt eftir í samvinnu við fulltrúa undirstofnana. Sérstök áhersla verði einnig lögð á markvissa fræðslu yfirmanna og annarra starfsmanna.
    Í byrjun nóvember 2002 var skipaður nýr jafnréttisfulltrúi í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Frá skipun hans hefur fulltrúinn sótt ýmsa fundi hér á landi og erlendis sem varða jafnréttismál og tekið þátt í samstarfi jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna, t.d. með því að sækja mánaðarlega fundi þeirra. Jafnréttisfulltrúinn vann einnig að undirbúningi könnunar um jafnréttismál og innra starfsumhverfi meðal starfsmanna stjórnarráðsins, sem fram fór í desember 2003. Nánari umfjöllun um könnunina er að finna undir lið 1.3.
    Jafnréttisfulltrúi hyggst fljótlega senda öllum undirstofnunum ráðuneytisins bréf þar sem minnt verður á ákvæði 2. mgr. 13. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla um skyldu fyrirtækja og stofnana af ákveðinni stærð að setja jafnréttisáætlun og óskað eftir að slíkt verði gert. Þá mun einnig óskað eftir tilnefningu tengiliðar í hverri stofnun við jafnréttisfulltrúa ráðuneytisins.
    Jafnréttisnefnd var skipuð í ráðuneytinu af ráðuneytisstjóra í maí 2003. Nefndin er skipuð tveimur konum og tveimur körlum auk jafnréttisfulltrúa, sem er formaður nefndarinnar. Ráðuneytisstjóri skipar nefndina til tveggja ára í senn og skal reynt eftir fremsta megni að hafa samsetningu hennar þannig að hún myndi þversnið af starfsmönnum ráðuneytisins. Jafnréttisnefndin er jafnréttisfulltrúa til aðstoðar og ráðgjafar. Hún aðstoðar jafnréttisfulltrúa við að móta framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum og fylgist með stöðu jafnréttismála hjá stofnunum ráðuneytisins. Jafnréttisfulltrúi kallar nefndina saman a.m.k. tvisvar sinnum á ári.
    Jafnréttisáætlun var samþykkt í ráðuneytinu í lok febrúar 2004. Leysir hún jafnréttisyfirlýsingu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins af hólmi og þjónar einnig hlutverki aðgerðaáætlunar um hvernig jafna skuli rétt kynjanna. Jafnréttisáætlunina skal endurskoða á tveggja ára fresti. Í henni er kveðið á um störf jafnréttisfulltrúa og jafnréttisnefndar ráðuneytisins ásamt markmiðum ráðuneytisins til að ná jafnri stöðu og jöfnum kjörum kvenna og karla. Áætlunin skal kynnt starfsmönnum ráðuneytisins.

3. Félagsmálaráðuneytið.
3.1. Jafnréttisumsögn.
     Myndaður hefur verið samstarfshópur tengiliða þriggja ráðuneyta, félagsmálaráðuneytis, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis. Í upphafi mun nefndin kynna sér starf sambærilegra nefnda á Norðurlöndunum. Í framhaldi af því mun verða unnið að tilraunaverkefni þar sem gefnar verða jafnréttisumsagnir um nokkur stjórnarfrumvörp frá félagsmálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti og iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.
    Nefndin hefur hafið störf og mun skila niðurstöðum í lok ársins 2005. Verkefninu verður því haldið áfram í nýrri framkvæmdaáætlun.

3.2. Aukin virkni kvenna í stjórnmálum.
     Nefnd sú er starfað hefur í umboði ráðherra að auknum hlut kvenna að stjórnmálum mun ljúka starfi sínu í lok árs 2003. Þá mun starf og árangur nefndarinnar verða metið og tillögur um framhald þessa starfs liggja fyrir um mitt ár 2004, eða þegar ný framkvæmdaáætlun verður lögð fram.
    Nefndin lauk störfum og skilaði skýrslu til ráðherra fyrr en ætlað var, eða í janúar 2003. Nefndin setti fram þrjár spurningar í spurningavagni Gallups, en könnunin fór fram 28. september til 11. október 1998. Tekið var 1200 manna slembiúrtak úr Þjóðskrá og var svarhlutfallið 72,2%. Niðurstöður sýndu að meiri hluti þjóðarinnar taldi að auka þyrfti hlut kvenna í stjórnmálum eða 79,7%, en aðeins 3,5% voru andvíg því að hlutur kvenna væri aukinn.
    Auglýsingaherferð í sjónvarpi, útvarpi og dagblöðum var hönnuð í þessum tilgangi, en hún átti að hafa áhrif á forustumenn stjórnmálaafla, ná athygli og fá umfjöllun fjölmiðla og almennings um uppröðun á framboðslista og vekja fólk til umhugsunar um það hvers vegna auka þyrfti hlut kvenna í stjórnmálum. Nefndin hélt síðan fundi með ritstjórum stærstu fjölmiðla landsins þar sem átakið var kynnt og óskað eftir upplýsingum um þær starfsreglur sem unnið væri eftir við umfjöllun og birtingu efnis til að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kynferðis. Í þeirri umræðu kom fram að hlutur kvenna í Blaðamannafélagi Íslands var 30% en hlutur karla 70% (haust 1998). Það sjónarmið var sett fram að með því að fjölga konum á ritstjórn og í stjórnunarstörfum mundi umfjöllun í fjölmiðlum um konur aukast.
    Þá stóð nefndin fyrir stjórnmálanámskeiðum fyrir konur, bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni. Tvö grunnnámskeið voru haldin í Reykjavík á vegum Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands (EHÍ), og það sóttu samtals 77 konur. Verklegt framhaldsnámskeið á sama stað sóttu 13 konur. Grunnnámskeiðið var svo haldið á Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði, Selfossi og í Borgarnesi. Í því tóku þátt milli 13 og 20 konur á hverjum stað, samtals 73 konur. Námskeiðið Jafnrétti og lýðræði var einnig haldið á vegum EHÍ og voru þátttakendur 10 konur. Í námskeiðinu Alþingi er sett tóku þátt um 20 konur. Námskeiðið Öflugar konur í sveitarstjórnum var haldið í samstarfi við EHÍ þrisvar sinnum vorið 2002. Í því tóku þátt samtals 40 konur, þar af 10 í fjarnámi á Húsavík og Ísafirði. Haustið 2002 var svo haldið námskeiðið Fleiri konur á Alþingi, en það sóttu 7 konur.
    Nefndin sá einnig ástæðu til að hefja auglýsingaherferð til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum fyrir kosningarnar 2002. Eftir kosningarnar jókst hlutur kvenna í sveitarstjórnum úr 28,2% í 31,2%. Konur eru í meiri hluta í 10 sveitarstjórnum, en engar konur eiga sæti í 9 sveitarstjórnum.
    Hinn 30. september 2002 hélt nefndin ráðstefnu um áhrif breyttrar kjördæmaskipunar á hlut kvenna á Alþingi. Hinn 17. janúar 2003 hélt nefndin svo lokaráðstefnu um verkefnið Konur í læri – dagar í lífi stjórnmálakvenna.
    Í lokaorðum skýrslu nefndarinnar kemur fram að einn þeirra þátta sem skipti höfuðmáli varðandi framgang kvenna í stjórnmálum sé pólitískur vilji, einkum innan stjórnmálaflokkanna. Höfundar rannsóknarinnar tóku undir þau orð og sögðu enn fremur að kosningakerfi, fyrirkomulag kjördæma og stærð flokka gæti haft áhrif á hlut kynjanna í stjórnmálum. Það séu þó stjórnmálaflokkarnir sem hafi lokaorðið, hjá þeim liggi vald til ákvarðana um uppröðun á framboðslista. Hjá stjórnmálaflokkunum liggi sú ábyrgð að auka hlut kvenna í stjórnmálum.
    Skýrslu nefndarinnar er að finna á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins:
     felagsmalaraduneyti.is/media/Nefnd_um_aukinn_hlut/Skyrsla.pdf.

3.3. Fræðsla fyrir trúnaðarmenn.
     Handbók fyrir trúnaðarmenn á vinnustöðum verður aðgengileg á vefsíðu Jafnréttisstofu árið 2002. Í handbókinni verða ýmsar mikilvægar upplýsingar er varða þætti sem geta haft áhrif á mismunandi stöðu kvenna og karla á vinnustöðum. Sérstök áhersla verður lögð á að upplýsa og fræða um þau atriði eða þær aðstæður sem geta haft áhrif á laun og launamyndun og hvaða leiðir starfsmönnum, trúnaðarmönnum og stéttarfélögum eru færar til að hafa áhrif þar á. Einnig verður þar lögð áhersla á að kynna leiðir til að taka á málum er varða kynferðislega áreitni skv. 17. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
    Efni í handbókina er tilbúið, en enn hefur ekki verið gengið frá vefútgáfu hennar. Handbókin mun koma út á vefsíðu Jafnréttisstofu fyrir árslok 2004.

3.4. Konur í hlutastörfum.
     Vinnumálastofnun mun í samráði við Hagstofuna gera úttekt á vægi hlutastarfa og starfa sem unnin eru án fastráðningar eða eru unnin utan hefðbundinna vinnustaða hjá konum annars vegar og hins vegar hjá körlum. Upplýsingarnar verða flokkaðar eftir atvinnugreinum og starfsgreinum.
    Vinnumálastofnun hefur lokið verkefninu og var skýrsla lögð fram árið 2004. Í skýrslunni var stuðst við upplýsingar úr vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands árið 2002 og til samanburðar eru tölur frá árinu 2000. Ekki reyndist unnt að greina tímabundna ráðningu (störf unnin án fastráðningar) né heimavinnu (störf unnin utan hefðbundinna vinnustaða) eftir atvinnugrein eða starfsstétt vegna þess hve fáir einstaklingar falla í þessa flokka.
    Árið 2002 voru um 64% landsmanna sem unnu aðeins dagvinnu á vinnustað. Um 26% voru í hlutastörfum, 21% vann um helgar, 18% unnu vaktavinnu, 17% nætur- og kvöldvinnu, 6% heimavinnu og 5% voru í tímabundinni ráðningu. Hafa ber í huga að þetta getur skarast á ýmsan hátt og því er heildarhlutfalla hærra en 100%. Litlar breytingar eru milli áranna 2000 og 2002 en þó eru fleiri sem aðeins vinna dagvinnu á vinnustað árið 2002.
    Mikill munur er á vinnutilhögun karla og kvenna og felst hann í því að um 42% kvenna eru í hlutastörfum en aðeins um 12% karla. Þá er meira um að konur vinni aðeins dagvinnu á vinnustað og hærra hlutfall karla vinnur um helgar, sem og nætur- og kvöldvinnu.
    Misjafnt er eftir starfsstéttum hve hátt hlutfall fólks vinnur hlutastörf. Hæst er hlutfallið meðal fólks í þjónustu- og verslunarstörfum og einnig meðal ósérhæfðs starfsfólks. Lægst er hlutfall stjórnenda og embættismanna sem vinna hlutastörf og einnig er lítið um að bændur og fiskimenn, iðnaðarmenn og véla- og vélgæslufólk vinni hlutastörf. Ekki er um sambærilegt mynstur að ræða hjá körlum og konum. Hæst er hlutfall kvenna í hlutastörfum í þjónustu- og verslunarstörfum en hæst hjá körlum í flokki ósérhæfðs starfsfólks.
    Mikill munur er á hlutastörfum eftir atvinnugreinum. Mest áberandi eru hlutastörf innan heilbrigðisþjónustu og í hótel- og veitingageiranum. Minnst er um hlutastörf í veitustarfsemi, sem og í mannvirkjagerð og fiskveiðum. Af þeim atvinnugreinum þar sem konur eru fjölmennar eru hlutastörf algengust í verslunar- og viðgerðarþjónustu, heilbrigðisþjónustu, hótel- og veitingastarfsemi og menningar-, íþrótta- og tómstundastarfsemi. Minnst er um hlutastörf kvenna í fjármálaþjónustu, opinberri stjórnsýslu og fræðslustarfsemi, auk landbúnaðar og veitustarfsemi. Einkum er það meðal karla innan hótel- og veitingastarfsemi sem hlutastörf eru algeng, en einnig í heilbrigðisþjónustu og menningar-, íþrótta- og tómstundastarfsemi. Einkum er lágt hlutfall karla í hlutastörfum í fiskveiðum, veitustarfsemi og fiskvinnslu.

3.5. Skipting fjár úr sjóðum vegna atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni.

     Félagsmálaráðuneytið, ásamt iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, hefur samþykkt að gera úttekt á því hvernig styrkir til einstaklinga úr opinberum sjóðum, sem eru eyrnamerktir atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni, hafa skipst milli kvenna og karla. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hefur falið Byggðastofnun framkvæmd verkefnisins.
    Sjá umfjöllun undir lið 7.3.

3.6. Staða kvenna á landsbyggðinni.
     Í júní 2000 kom út á vegum félagsmálaráðuneytis skýrsla Þjóðhagsstofnunar, Athugun á stöðu kvenna á landsbyggðinni. Í samráði við félagsmálaráðuneytið mun iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti láta gera áætlun um aðgerðir til að styrkja sérstaklega stöðu kvenna á landsbyggðinni. Hún verði samþætt byggðaáætlun og öðrum þeim áætlunum er varða bæði málefni kynjanna og byggðamál. Í þessu sambandi skal meðal annars nýta niðurstöður norrænnar rannsóknar um stöðu kynjanna í tengslum við byggðaröskun, sem Jafnréttisstofa er að vinna ásamt Byggðarannsóknastofnun Íslands.
    Jafnréttisstofa er þátttakandi í norrænu rannsóknarverkefni sem kallast „Kvinner reiser, menn blir“ eða „Konur kveðja, karlar eru um kyrrt“. Verkefnið er unnið í samstarfi við Byggðarannsóknastofnun Íslands og háskóla/stofnanir í Norður-Skandinavíu, Grænlandi og Færeyjum. Þar er sjónum beint að þeirri staðreynd að fólksfækkun í jaðarbyggðum á Norðurlöndum hefur í för með sér breytingu á kynjahlutföllum því konurnar flytja frekar en karlarnir. Auk þess eru konur líklegri en karlar til að tileinka sér nýja þekkingu og aðlaga sig breyttum aðstæðum, og flytja þannig á huglægan máta.

3.7. Jafnréttisráðgjafi.
     Samkvæmt samningi félagsmálaráðuneytisins við Byggðastofnun hefur verkefni um jafnréttisráðgjafa verið framlengt til ársloka 2005. Á tímabilinu munu ráðgjafar starfa í Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi.
    Jafnréttisráðgjafar munu halda áfram að starfa til ársloka 2005 eins og um var samið.

3.8. Konur og atvinnuleit.
     Vinnumálastofnun mun leggja mat á þau verkefni sem á síðastliðnum árum hafa miðað að því að styrkja stöðu atvinnulausra kvenna og sérstaklega skal litið til styrkja sem veittir hafa verið af fjárlagaliðnum atvinnumál kvenna. Á grundvelli þess skal Vinnumálastofnun í samvinnu við hagsmunasamtök gera átak til að þróa aðferðir sem sérstaklega henta atvinnulausum konum við að fá vinnu og/eða styrkja stöðu sína á annan hátt.
    Vinnumálastofnun skilaði lokaskýrslu til ráðuneytisins árið 2004. Í greiningu Vinnumálastofnunar var einkum litið til atvinnuleysis kvenna, ástæðna atvinnuleysis, starfaframboðs, úrræða og að lokum greint frá niðurstöðum. Niðurstöður Vinnumálastofnunar leiddu í ljós að atvinnuleysi kvenna er meira en karla. Það eru einkum ungar konur með börn á framfæri og eldri konur sem hafa misst vinnu á efri árum. Atvinnuleysi er einkum meðal minna menntaðra kvenna eða kvenna sem eingöngu hafa grunnmenntun. Þau úrræði sem einkum hafa nýst konum sem lengi hafa verið af vinnumarkaði eru sjálfsstyrkingarnámskeið og menntasmiðjur kvenna. Þau úrræði hafa augljóslega skilað konum út á vinnumarkað eða í nám í miklum mæli og er það ávinningur stjórnvalda að styðja áfram við þau úrræði.

3.9. Tengsl atvinnulífs og fjölskyldulífs.
    Gerð verður úttekt á framkvæmd laganna um fæðingar- og foreldraorlof, meðal annars með tilliti til áhrifa þeirra á samspil atvinnu- og fjölskyldulífs. Félagsmálaráðuneytið mun á árinu leggja frekari drög að því hvernig standa megi að ofangreindri rannsókn. Ísland hefur sótt um að leiða Evrópuverkefni á þessu sviði og hefur Jafnréttisstofu verið falið að stýra því.

    Verkefnið „Culture, custom and caring – men's and women's possibilities to parental leave“ eða „Menning, umgjörð og umhyggja – möguleikar karla og kvenna til foreldraorlofs“ er Evrópuverkefni sem lauk í byrjun mars 2004. Það stóð yfir í rúmt ár. Heildarkostnaður verkefnisins var um 25 millj. kr. Félagsmálaráðuneytið lagði fram 80% kostnaðar við framkvæmd verkefnisins og lagði Evrópusambandið til það sem vantaði upp á. Verkefnið var hluti af jafnréttisáætlun Evrópusambandsins. Markmið verkefnisins var að skoða ólík samspil kynjahlutverka, menningar og siðvenja, laga og reglugerða, og hvernig þessir þættir hindra eða auka möguleika kvenna og karla á að vinna saman að uppeldi barna sinna. Sérstaklega var horft til fæðingar- og foreldraorlofsreglna og nýtingar mæðra og feðra á þeim réttindum sem í hverju landi bjóðast að þessu leyti.
    Verkefnið samanstendur af tveimur meginhlutum. Annars vegar er rannsóknarskýrsla sem byggist meðal annars á viðtölum við unga foreldra og vinnuveitendur feðranna og hins vegar heimildamynd sem einnig byggist á viðtölum við foreldra og vinnuveitendur.
    Þátttakendur í verkefninu eru frá fjórum löndum, þ.e. Spáni, Þýskalandi, Noregi og Íslandi. Jafnréttisstofa leiddi verkefnið fyrir hönd Íslands. Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands var framkvæmdaaðili rannsóknarinnar, en eftirlitsaðili var Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri.
    Þann 5. mars 2004 var haldið málþing á Akureyri um verkefnið og niðurstöður þess. Þar var gerð grein fyrir rannsóknarhluta verkefnisins og erlendu þátttakendurnir héldu stutt erindi um stöðu þessara mála í sínum heimalöndum. Málþinginu lauk svo með frumsýningu valdra kafla úr heimildamyndinni sem verður tilbúin í lok marsmánaðar. Skýrsla verkefnisins er aðgengileg á heimasíðu Jafnréttisstofu:
     www.jafnretti.is/caring/docs/CCC_FinalReport.pdf.
    Vonast er til þess að myndin verði sýnd í Ríkissjónvarpinu og á evrópskum sjónvarpsstöðvum innan tíðar.

3.10. Starfsmenntun í atvinnulífinu.
    Félagsmálaráðuneyti mun beita sér fyrir því að þeim aðilum er fara með starfsmenntunarmál í hefðbundnum umönnunarstörfum kvenna verði gert kleift að kanna sérstaklega hvaða áhrif breyttar og strangari kröfur til menntunar og til framhaldsmenntunar geta haft á möguleika kvenna á starfstengdri menntun á þessum sviðum.

    Á árunum 1999–2003 hefur verið úthlutað 255 millj. kr. til starfsmenntunar í atvinnulífinu úr starfsmenntasjóði til 285 verkefna. Mikill meiri hluti verkefnanna tekur jafnt til kvenna og karla og er lítill munur á fjölda verkefna sem miðast einkum við konur og hefðbundin kvennastörf (t.d. verkefni tengd umönnunargreinum, um 30 verkefni) eða karla og hefðbundin karlastörf (t.d. verkefni tengd ýmsum iðnaði, um 40 verkefni).

3.11. Konur sem flóttamenn.
     Félagsmálaráðuneytið mun fela Flóttamannaráði að kanna hvort við mat á skilgreiningu á rétti flóttamanna til að sækja um dvalarleyfi hér á landi sé nægjanlega tryggt að ofsóknir og ofbeldi, sem konur sæta vegna kynferðis síns og beitt er markvisst til að neyða fólk af tilteknu þjóðerni, menningu eða trúarbrögðum til að flýja heimili sín, sé metið sem fullgild forsenda leyfisveitingar.
    Forsendur verkefnisins brustu þar sem einungis svokallaðir kvótaflóttamenn falla undir félagsmálaráðuneytið.

3.12. Aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni.
    Á vegum félagsmálaráðuneytis verði gert átak til að kynna ákvæði í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla um kynferðislega áreitni. Í samráði við Jafnréttisstofu og Vinnueftirlit ríkisins verða unnar leiðbeiningar, annars vegar til þeirra sem verða fyrir kynferðislegri áreitni og hins vegar fyrir stjórnendur á vinnumarkaði, um það hvernig best er að bregðast við slíku.

    Skrifstofa jafnréttismála, í samvinnu við Vinnueftirlit ríkisins, gaf út ritið „Kynferðisleg áreitni á vinnustöðum“ í október 1998. Þess skal getið að við endurskoðun laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 40/1980, var bætt ákvæði við lögin um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum, en kynferðisleg áreitni er eitt form eineltis.

3.13. Könnun á skilyrðum fjölskyldna.
    Fjölskylduráð mun hefja undirbúning að könnun á áhrifum aðgerða opinberra aðila til styrktar fjölskyldunni. Sérstaklega verði skoðað hvort og þá hvernig skilyrði fjölskyldunnar í samfélaginu hafi batnað vegna slíkra aðgerða.

    Félagsmálaráðuneytið í samvinnu við fjölskylduráð er farið af stað með verkefni sem ætlað er að mæla með kerfisbundnum hætti velferð og heilsufar fjölskyldna í landinu. Verkefnið hefur hlotið nafnið Fjölskylduvogin. Vinnu með Fjölskylduvogina hefur miðað samkvæmt áætlun. Í upphafi verkefnisins voru skilgreindir þrír megináfangar, þ.e. hönnunaráfangi, tilraunaáfangi og framkvæmdaáfangi. Vinnu við fyrsta áfanga er lokið en með honum er átt við að unnið var að frumskilgreiningu flokka sveitarfélaga, vali mæliþátta og vægi þeirra, auk skilgreiningar á þeim atriðum sem kannanir þyrftu að snerta. Vinna við lokahönnun fór af stað haustið 2003 og vonir standa til að tilraunaáfangi geti farið af stað árið 2004.

3.14. Meðferð fyrir karla sem beita konur ofbeldi.
    Verkefni um meðferð fyrir karla sem beita konur ofbeldi sem hófst 1998 er lokið. Félagsmálaráðuneytið mun í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið og Rauða kross Íslands skipa verkefnisstjórn til að fylgja eftir fyrra verkefni og þróa það þannig að það nýtist fleirum.

    Verkefnið Karlar til ábyrgðar hófst formlega 28. apríl 1998 og var hætt um mitt ár 2001. Tilgangurinn var að aðstoða karla sem beittu ofbeldi á heimili til að hætta því. Fjárhagslega var verkefnið fyrst og fremst stutt af Rauða krossi Íslands, heilbrigðisráðuneytinu og félagsmálaráðuneytinu en fleiri komu þar að. Alls leituðu ríflega 60 karlar sér aðstoðar á þessu tímabili og það var niðurstaða þeirrar matsnefndar sem með verkinu fylgdist að rétt væri að framlengja það með ákveðnum breytingum. Hins vegar fékkst ekki fé til áframhaldandi reksturs. Nú hefur verið ákveðið að hefja þetta verkefni að nýju, og er það í nýrri framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar.

3.15. Mansal.
    Félagsmálaráðuneyti mun skipa verkefnisstjórn ásamt dóms- og kirkjumálaráðuneyti sem mun skipuleggja aðgerðir hér á landi í norrænni-baltneskri herferð gegn verslun með konur sem hleypt verður af stokkunum árið 2002.

    Sjá greinargerð undir lið 2.7. hjá dóms- og kirkjumálaráðuneyti.

3.16. Jafn hlutur kynjanna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
    Konur eru 40% fulltrúa í nefndum og ráðum á vegum félagsmálaráðuneytisins. Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum. Þegar ráðuneytið óskar eftir tilnefningum frá öðrum skal eftir því sem kostur er óska eftir tveimur tilnefningum, konu og karli, og þannig tryggt að hlutfall kynja verði sem jafnast.

    Því miður hefur ekki tekist að jafna hlutfall kynjanna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ráðuneytisins. Í október 2003 áttu konur 35% sæta í nefndum, ráðum og stjórnum ráðuneytisins.

3.17. Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins.
    Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins er skipaður skv. 11. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á vegum ráðuneytisins og stofnana þess. Jafnréttisfulltrúi er tengiliður ráðuneytisins við Jafnréttisstofu og skal hann meðal annars fylgja þessari framkvæmdaáætlun eftir.

    Jafnréttisfulltrúinn vann að jafnréttisáætlun ásamt yfirstjórn ráðuneytisins árið 2002 og var áætlunin samþykkt sama ár. Þá sinnti fulltrúinn starfi sínu sem tengiliður við Jafnréttisstofu og sótti jafnframt ýmis námskeið og ráðstefnur varðandi jafnréttismál.
    Jafnréttisfulltrúinn vann einnig að undirbúningi könnunar um jafnréttismál og innra starfsumhverfi meðal starfsmanna stjórnarráðsins, sem fram fór í desember 2003, eins og sjá má undir lið 1.3.

4. Fjármálaráðuneytið.
4.1. Úttekt á áhrifum nýs launakerfis á launamun karla og kvenna.
    Fjármálaráðuneytið og Reykjavíkurborg hafa í sameiningu leitað til Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og farið þess á leit að hún geri úttekt á launamun karla og kvenna sem ekki er unnt að útskýra nema á grundvelli kyns.

    Í framhaldi af upptöku nýs launakerfis leitaði fjármálaráðuneytið til Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og fór fram á það að stofnunin ynni úttekt á áhrifum nýs launakerfis á launamun kynjanna. Við undirbúning verksins kom í ljós að í núverandi launakerfi voru ekki fyrir hendi þær upplýsingar sem stofnunin taldi nauðsynlegar til að vinna úttektina. Af hálfu fjármálaráðuneytisins hefur að undanförnu verið unnið markvisst að því að launagögn í nýjum upplýsingakerfum sem ríkið er að innleiða standist þær kröfur sem gera verður til þess að unnt sé að meta kynbundinn launamun. Gengur sú vinna hægar en áætlanir gerðu ráð fyrir en ætla má að henni ljúki á árinu 2004. Stefnt er að því að úttekt á launamun karla og kvenna sem ekki er unnt að útskýra nema á grundvelli kyns verði unnin í beinu framhaldi af því. Í kjölfarið er lag að fylgjast reglulega með þróun kynbundins launamunar.
    Nú er fjármálaráðuneytið að kanna hvernig laun karla og kvenna eru samansett og hvort einhverjar breytingar hafa átt sér stað frá árinu 1997. Fyrst í stað er rannsakaður sá hópur ríkisstarfsmanna sem semur um laun sín og heyrir undir lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986.
    Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði á árinu 2002 samanburð á launum karla og kvenna hjá Reykjavíkurborg 2001, en Reykjavíkurborg tók upp nýtt launavinnslukerfi í ársbyrjun 2003 og hafði lokið starfaflokkun þegar rannsóknin fór fram.

4.2. Fræðsla til yfirmanna stofnana ráðuneytisins.
    Á hverju ári heldur fjármálaráðuneytið fundi með forstöðumönnum stofnana fjármálaráðuneytisins. Stefnt er að því að vera að jafnaði með fræðslu eða erindi um jafnréttismál á þessum fundum. Ef gerðar hafa verið kynjakannanir á vegum fjármálaráðuneytisins þá verður umfjöllun um niðurstöður þeirra á þessum fundum.

    Jafnréttisfulltrúi skilaði Jafnréttisstofu greinargerð um stöðu á verkefnum í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar á vordögum 2002. Síðan þá hafa verið haldnir þrír fundir fyrir forstöðumenn stofnana fjármálaráðuneytisins. Í tvö fyrri skiptin voru jafnréttismál ekki á dagskrá fundanna. Á fundi forstöðumanna í desember 2003 var hins vegar fjallað um jafnréttismál.

4.3. Hlutur kvenna í starfi ráðuneytisins aukinn.
    Fjöldi kvenna í nefndum á vegum fjármálaráðuneytisins hefur aukist á undanförnum árum. Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins verður leitast við að taka mið af jafnréttissjónarmiðum, sbr. 20. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. Stefnt er að því að í lok áætlunarinnar verði hlutur kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins orðinn a.m.k. 30%. Þá verður lögð áhersla á að gæta í hvívetna jafnræðis karla og kvenna í starfsmannahaldi ráðuneytisins.

    Það er orðin regla hjá fjármálaráðuneytinu að þegar auglýst er laust starf til umsóknar hjá ráðuneytinu er tekið fram að konur jafnt sem karlar séu hvattar til að sækja um. Þetta hefur mælst vel fyrir. Í mars 2002 var hlutfall kvenna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ráðuneytisins 23% en karla 77%. Fjöldi nefndarmanna var þá alls 280 í 58 nefndum.
    Hinn 1. september 2003 var hlutfall kvenna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ráðuneytisins 30% konur og 70% karlar. Fjöldi nefndarmanna var alls 385 í 79 nefndum. Kynjaskipting á meðal sérfræðinga í fjármálaráðuneytinu hefur breyst og hlutur kvenna hefur aukist. Þegar fjármálaráðherra skipar í nefndir er leitað til hlutaðeigandi sérfræðings innan ráðuneytisins á hverju sviði. Fyrir vikið hefur konum fjölgað í nefndum á vegum ráðuneytisins. Hins vegar þegar fjármálaráðherra óskar eftir tilnefningu í nefnd frá hagsmunaaðilum er það ekki á hans valdi hvort karl eða kona tekur sæti í nefndinni.

4.4. Jafnréttisfulltrúi og jafnréttisnefnd ráðuneytisins.
    Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins er skipaður skv. 11. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á vegum ráðuneytisins og stofnana þess. Jafnréttisfulltrúi er tengiliður ráðuneytisins við Jafnréttisstofu og hefur umsjón með framkvæmdaáætlun þessari í samráði við ráðuneytisstjóra. Í því sambandi verður skipuð sérstök jafnréttisnefnd fulltrúanum til halds og trausts. Gert er ráð fyrir að fulltrúinn og nefndin muni standa fyrir könnun á stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og miðla niðurstöðum þeirra og öðru fræðsluefni um jafnréttismál til yfirmanna og annarra starfsmanna eftir því sem tilefni gefst til.

    Jafnréttisfulltrúinn hefur sinnt starfi sínu sem tengiliður Jafnréttisstofu og hefur sótt námskeið og svarað fyrirspurnum Jafnréttisstofu. Í apríl 2003 var sett á fót tímabundin jafnréttisnefnd í fjármálaráðuneytinu. Í nefndinni sitja fjórir fulltrúar sem allir eru sérfræðingar í fjármálaráðuneytinu. Í nefndinni eru tvær konur, þ.m.t. jafnréttisfulltrúinn, og tveir karlar. Nefndinni var gefið vítt verkefnasvið en helsta verkefni hennar er að gera drög að uppbyggingu jafnréttisstarfs fyrir fjármálaráðuneytið. Nefndin hefur í störfum sínum haft það sem markmið að gera drög að jafnréttisáætlun fyrir fjármálaráðuneytið. Þá skoðar nefndin mun á starfskjörum kynjanna í ráðuneytinu, hvort ráðuneytið eigi að setja sér fjölskyldustefnu, stefnu um sveigjanleika í starfi og hlutastörf, hvert hlutverk jafnréttisfulltrúa eigi að vera o.s.frv. Það er síðan í höndum yfirstjórnar fjármálaráðuneytis að taka ákvörðun um framhaldið.
    Jafnréttisfulltrúinn vann einnig að undirbúningi könnunar um jafnréttismál og innra starfsumhverfi meðal starfsmanna stjórnarráðsins, sem fram fór í desember 2003, eins og sjá má undir lið 1.3.
    Jafnréttisfulltrúinn hefur ekki komið á tengiliðum við undirstofnanir og hefur því ekki sinnt eftirliti með undirstofnunum ráðuneytisins líkt og honum ber að gera skv. 11. gr. laga nr. 96/2000. Helgast það af því að jafnréttisfulltrúinn hefur aðallega lagt áherslu á jafnréttisnefndina sem skipuð hefur verið í fjármálaráðuneytinu. Þá hefur það einnig verið mat jafnréttisfulltrúans að fyrst ætti að marka stefnu fjármálaráðuneytisins í jafnréttismálum og síðan væri hægt að fara að ganga á eftir undirstofnununum.

5. Hagstofan.
5.1. Öll tölfræði kyngreind.
    Hagstofa Íslands mun í samvinnu við Jafnréttisstofu kanna framgang þess að öll tölfræði sé kyngreind og minna reglulega á ákvæði þar að lútandi.

    Hagstofan leitast við að fylgjast með og leiðbeina um það sem betur mætti fara við öflun, greiningu og birtingu tölfræðilegs efnis um einstaklinga eftir kyni, á það bæði við um efni sem verður til af hálfu Hagstofu og eins það efni sem aflað er frá öðrum aðilum.

5.2. Vinnutími – hluti af reglubundinni upplýsingasöfnun er varðar laun.
    Undanfarin missiri hefur verið unnið að umfangsmiklu samstarfsverkefni kjararannsóknarnefndar, kjararannsóknarnefndar opinberra starfsmanna og Hagstofunnar um gagngerar breytingar á launakönnunum og launaskýrslum. Áfram verður unnið að því að auka og bæta upplýsingar um vinnumarkaðinn.

    Hagstofan gerir reglubundnar vinnumarkaðsrannsóknir til að fá áreiðanlegar upplýsingar um stöðu fólks á vinnumarkaði, störf, starfsstétt, vinnutíma, atvinnuleit, menntun, búsetu, o.fl. Vinnumarkaðsrannsóknin er nú samfelld, nær til allra vikna ársins, niðurstöður eru birtar ársfjórðungslega og eru þær greindar eftir kyni. Vinnumarkaðsrannsóknin byggist á alþjóðlegum stöðlum og fyrirmyndum úr sambærilegum könnunum innan Evrópusambandsins.
    Undanfarin ár hefur verið unnið að umfangsmiklu samstarfsverkefni kjararannsóknarnefndar, kjararannsóknarnefndar opinberra starfsmanna og Hagstofunnar um gagngerar breytingar á launakönnunum og launaskýrslum. Hagstofan og kjararannsóknarnefnd afla nú í sameiningu gagna frá fyrirtækjum og eru þau nýtt af báðum aðilum til hagskýrslugerðar.
    Undanfarin missiri hefur Hagstofan unnið að úrvinnslu á gögnum frá ríkisskattstjóra um staðgreiðsluskyld laun. Nýlega hafa verið birtar tölur um fjölda starfandi eftir ársfjórðungum og atvinnutekjur fyrir árin 1998–2002. Í þessum gögnum kemur meðal annars fram aðgreining eftir kyni, atvinnugrein og búsetu.

5.3. Tölfræðihandbók um stöðu kvenna og karla.
    Hagstofa Íslands mun árið 2002 gefa út tölfræðihandbók þar sem fram kemur yfirlit yfir stöðu kvenna og karla. Útgáfan sem er í handhægu og aðgengilegu formi hentar vel almenningi. Upplýsingarnar verða bæði á íslensku og ensku.

    Ekki náðist að gefa út nýtt rit um konur og karla á árinu 2002 en ráðgert er að gefa þetta efni út sem hefti í ritröð Hagtíðinda. Mun það koma út vorið 2004, bæði í prentuðu formi og sem netútgáfa.

5.4. Jafn hlutur kynja í nefndum og ráðum.
    Aðeins ein nefnd starfar nú á vegum Hagstofu Íslands og er hlutur kvenna þar þriðjungur. Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum. Þegar ráðuneytið óskar eftir tilnefningum frá öðrum, skal eftir því sem kostur er óska eftir tveimur tilnefningum, konu og karli og þannig tryggja að hlutfall kynja í nefndum verði sem jafnast.

    Sem fyrr er aðeins ein nefnd starfandi á vegum Hagstofu Íslands. Sem stendur skipa hana tveir karlar, en eftir er að skipa þriðja nefndarmanninn.

5.5. Jafnréttisfulltrúi og jafnréttisnefnd ráðuneytisins.
    Jafnréttisfulltrúi er skipaður skv. 11. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á vegum Hagstofunnar. Jafnréttisfulltrúi er tengiliður við Jafnréttisstofu og skal hann meðal annars fylgja þessari framkvæmdaáætlun eftir. Í því skyni skal skipuð jafnréttisnefnd fulltrúanum til halds og trausts. Fulltrúinn og nefndin skulu standa fyrir könnun á stöðu jafnréttismála á Hagstofunni og gera aðgerðaáætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Sérstök áhersla verði einnig lögð á markvissa jafnréttisfræðslu stjórnenda og annarra starfsmanna.

    Jafnréttisfulltrúi Hagstofu fæst meðal annars við að fylgja því eftir að tölfræðilegar upplýsingar sem varða einstaklinga séu greindar eftir kyni við öflun, úrvinnslu og birtingu upplýsinga. Með nýjum hagtöluvef Hagstofunnar hafa opnast nýir möguleikar til að bæta aðgengi að upplýsingum, t.d. efni sem varðar konur og karla. Er markvisst unnið að því að auka við það efni sem fyrir er.
    Jafnréttisfulltrúinn hefur sótt fundi og námskeið sem honum eru ætluð. Jafnréttisnefnd hefur ekki verið skipuð enn sem komið er. Jafnréttisfulltrúi Hagstofunnar vann ásamt jafnréttisfulltrúum annarra ráðuneyta að undirbúningi könnunar um jafnréttismál og innra starfsumhverfi meðal starfsmanna stjórnarráðsins, sem fram fór í desember 2003. Nánari umfjöllun um könnunina er að finna undir lið 1.3. hér að framan.

6. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.
6.1. Verkefnisstjórn um heilsufar kvenna.
    Heilbrigðisráðherra hefur skipað verkefnisstjórn um heilsufar kvenna sem mun forgangsraða verkefnum, gera tillögur um aðgerðir og hrinda þeim í framkvæmd. Tilgangur með starfi verkefnisstjórnarinnar er meðal annars að þjónusta heilbrigðiskerfisins taki í auknum mæli mið af ólíkum þörfum og mismunandi aðstæðum kynjanna.

    Verkefnisstjórn um heilsufar kvenna hefur í störfum sínum lagt áherslu á nauðsyn þess að aflað sé með stöðluðum og reglubundnum hætti upplýsinga um lífshætti, líðan og heilsufar og að greina ólíkar þarfir kynjanna fyrir heilbrigðisþjónustu. Með þetta að leiðarljósi hefur nefndin skoðað þær leiðir sem hún telur æskilegast að fara í þessu skyni og í framhaldi af því lagt til við heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að ráðist verði í gerð heilsufarskönnunar (Health Interview Survey) til að afla þessara upplýsinga. Þessi könnun verði hluti af EUROHIS (evrópsku heilsufarskönnuninni) sem gerir mögulegan samanburð við aðrar Evrópuþjóðir. Ef af verður mun þessi könnun einnig veita upplýsingar um heilsufar ólíkra hópa kvenna og karla (socio-economic groups). Upplýsingaöflun af þessu tagi þarf að fara fram reglulega, t.d. á fimm ára fresti, til að fá yfirlit yfir þróun mála. Það er einnig mat verkefnisstjórnarinnar að nauðsynlegt sé að vinna úr fyrirliggjandi upplýsingum um notkun kvenna og karla á heilsugæslunni og hvaða úrlausnir þau fá þar. Markmiðið er að kanna hvort konur og karlar sækist eftir og fái ólíka þjónustu í heilsugæslunni og hvort úrlausnir eru háðar því hvort kynið á í hlut. Verkefnisstjórnin hefur einnig lagt til við heilbrigðisráðherra að ráðist verði í þetta verkefni. Þá er lögð áhersla á að með reglulegri upplýsingaöflun sé unnt að fylgjast með hvernig miði í átt að markmiðum heilbrigðisáætlunar til ársins 2010.

6.2. Feðrafræðsla fyrir verðandi feður.
    Unnið verður að því að koma á sérstakri feðrafræðslu sem hluta af þeim undirbúningi sem verðandi foreldrum er boðið upp á. Jafnframt verður gert átak til að tryggja að starfsfólk heilbrigðisstofnana sé meðvitað um mikilvægi þess að feður séu virkir þátttakendur við með göngu, fæðingu og umönnun barna sinna.

    Eins og fram kemur í fyrri skýrslum um framkvæmd á framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum þá hefur verið unnið að því að auka þátt feðra í meðgöngu, fæðingu og umönnun barna sinna. Áfram hefur verið unnið að þessu á vegum þeirra aðila innan heilbrigðiskerfisins sem koma að málinu, svo sem heilsugæslunnar, sjúkrahúsa o.fl.

6.3. Endurskoðun á framsetningu heilbrigðisupplýsinga.
    Heilbrigðisupplýsingar skal sundurgreina eftir kynjum þar sem það er tæknilega framkvæmanlegt. Vinnuhópur heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins um heilbrigðisupplýsingar skal taka saman yfirlit um stöðu mála og setja fram áætlun um aðgerðir þar sem þörf er á.

    Vinnuhópur ráðuneytisins um heilbrigðisupplýsingar beindi þeim tilmælum til þeirra aðila sem koma að söfnun heilbrigðisupplýsinga á landsvísu að skoða hjá sér hver staða mála væri og gera þær úrbætur sem þörf væri á.

6.4. Úttekt á reglum sem varða mat á vistunarþörf.
    Þær reglur sem stuðst er við þegar verið er að meta vistunarþörf ellilífeyrisþega eða öryrkja verða kannaðar út frá aðferðafræði samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða. Með því er hægt að sjá hvort þær koma eins út hjá konum og körlum.

    Reglur um vistunarmat hafa ekki breyst frá árinu 1990. Um er að ræða mat á vistunarþörf ellilífeyrisþega, en það sem snýr að öryrkjum er á vegum félagsmálaráðuneytisins. Ekki hefur verið talin þörf á að endurskoða þessar reglur þar sem þær miðast ekki við kynjaskiptingu heldur þörf fyrir þjónustu.

6.5. Útreikningar örorkumatsbóta með tilliti til jafnréttis kvenna og karla.
    Kannað verði með aðferðafræði samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða hvort hefðbundið mat á störfum kvenna og karla sé lagt til grundvallar við útreikninga á bótum vegna örorku.

    Örorka er metin óháð kynferði en ákvarðast af sjúkdómi eða fötlun einstaklings. Ekki er gerður greinarmunur á því hvort um karl eða konu er að ræða við útreikning örorkubóta vegna bótaskylds slyss.

6.6. Sérstök herferð í forvörnum gegn fíkniefna- og tóbaksneyslu.
    Í herferðum sem varða varnir gegn fíkniefna- og tóbaksneyslu verður unnið eftir þeim sjónarmiðum að forsendur neyslu hjá konum og stúlkum annars vegar og körlum og piltum hins vegar kunni að vera mismunandi. Gerð verði tilraun í þá veru að beina áróðri og fræðslu sérstaklega til ungra stúlkna.

    Áfengis- og vímuvarnaráð er nú hluti af nýstofnaðri Lýðheilsustöð. Tölfræðiupplýsingar þeirra rannsókna sem unnar hafa verið á vegum ráðsins eru kyngreindar. Í niðurstöðum rannsóknanna hefur meðal annars komið í ljós að í efstu bekkjum grunnskóla virðast stúlkur vera að draga á drengi í áfengisneyslu. Slíkar niðurstöður gefa tilefni til sérstakra kynbundinna aðgerða í framtíðinni.

6.7. Áhættuhegðun karla.
    Karlar og drengir eru miklum mun fleiri en konur meðal þeirra sem slasast, svipta sig lífi og misnota vímuefni. Ljóst er að hér er um heilbrigðisvandamál að ræða og mikilvægt er að leita orsaka þess. Því mun ráðuneytið kanna sérstaklega þátt karlmennskuímyndar í þeirri hegðun karla sem orsakar slys, sjálfsvíg og eitranir.

    Vísað er til fyrri skýrslna um framkvæmd á framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum um það sem hefur verið gert. Á vegum landlæknisembættisins hefur verið rekið verkefni til að vinna gegn sjálfsvígum og hér á eftir kemur lýsing á því ásamt því helsta sem hefur verið á gangi á undanförnum missirum.
    Verkefnið gengur meðal annars út á að fá heilsugæslu, félagsþjónustu, presta, lögreglu og skólakerfið til að vinna saman. Auk þess að vera í góðri samvinnu við slysadeildir og geðdeildir á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Hvað verkefnið varðar þá er ljóst að áhættuhegðun karlmanna er veruleg og fleiri karlmenn fremja sjálfsvíg en konur. Tekin hafa verið ákveðin tímabil og það er fjölgun á sjálfsvígum á síðustu árum. Ungir karlmenn eru í verulegum áhættuhóp og til að mynda var 20,1% þeirra sem framdi sjálfsvíg árið 2000 undir tvítugu. Þetta er reyndar einungis eitt ár en aðstandendur verkefnisins hafa verulegar áhyggjur af þessum hóp. Þess ber einnig að geta að það ár voru sjálfsvíg óvenju mörg, eða 51. Þar af voru 8 konur en 43 karlmenn. Hins vegar eru sjálfsvígstilraunir yfir 600 á ári og þar er meiri hlutinn konur. Árið 2002 kom út rannsókn sem embættið lét gera þar sem kom fram að 9% stúlkna og 5,3% drengja í framhaldsskólum höfðu gert sjálfsvígstilraun. Þetta voru aðallega ungmenni á fyrstu þremur önnum í framhaldsskólum. Þetta eru líklega þeir krakkar sem eru að falla út úr skólakerfinu. Einnig er vitað að mörg ungmenni eru í meðferð á hverjum tíma. Á vegum Barnaverndarstofu geta verið 68 ungmenni í meðferð á hverjum tíma og alltaf er biðlisti. Á barna- og unglingageðdeild Landspítala – háskólasjúkrahúss er alltaf fullt og langur biðlisti. Þá er Vogur með 12 pláss á hverjum tíma sem eru fullnýtt. Þá er einnig Félagsþjónustan að vinna með margar fjölskyldur í vanda. Þunglyndi er líka eitt af því sem aðstandendur verkefnisins hafa verulegar áhyggjur af vegna þess að þeir sem lenda í neyslu hafa oft gengið í gegnum mikinn vanda og þunglyndi hefur verið vangreint hjá karlmönnum. Þeir leita sér sjaldnar meðferðar á heilsugæslum en konur. Þeir lenda hins vegar frekar í vímuefnameðferð og þar greinast þeir með kvíða eða þunglyndiseinkenni. Miðaldra karlmenn sem eru atvinnulausir eða þurfa að lækka í launum eða stöðu eru sérstakur áhættuhópur og ekki bætir úr ef þeir eru fráskildir eða hafa lítinn stuðning. Þá eru ungir samkynhneigðir sem eru að koma út úr skápnum í verulegri hættu. Núna er unnið með öllum kerfum sem talin eru upp hér á undan og boðið er upp á fimm tíma námskeið um þunglyndi, sögu þunglyndis og sjálfsvíga, fræðslu um sjálfsvígsatferli, tíðnitölur, aðstoð við aðstandendur, hópavinnu og fleira. Það er fagfólk sem sér um kennsluna, þrír aðilar í hvert sinn. Þá hafa verið gefin út bæklingur, myndband um þunglyndi sem lánað er skjólstæðingum, spjöld með 1717 hjálparsímanum, stór auglýsingaspjöld til dreifingar um hvert er hægt að leita. Vefsíða um þunglyndi er nú á vefnum, en hún er aðgengileg í gegnum heimasíðu landlæknisembættisins: www.landlaeknir.is.

6.8. Jafnt hlutfall kynjanna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
    Konur eru 42% fulltrúa í nefndum og ráðum á vegum heilbrigðisráðuneytisins. Þegar óskað er eftir tilnefningum í nefndir, ráð eða stjórnir af hálfu ráðuneytisins skal þó áfram taka mið af jafnréttissjónarmiðum. Skal eftir því sem kostur er óska eftir tveimur tilnefningum, konu og karli og þannig tryggt að hlutfall kynja verði sem jafnast.

    Hlutfall kvenna í nefndum ráðuneytisins hefur lækkað niður í 39% sem skýrist aðallega af niðurlagningu á flestum stjórnum stofnana ráðuneytisins, en þar var jöfn skipting kynjanna. Í byrjun ágúst 2003 störfuðu 80 nefndir, ráð og vinnuhópar á vegum ráðuneytisins. Í þeim eiga sæti 246 karlar og 157 konur. Konur eru formenn í 34% nefndanna. Í tveimur nefndum sem kosnar eru af Alþingi eiga sæti 7 karlar og 5 konur (konur eru 42%). 34 stjórnir, nefndir og ráð starfa samkvæmt fyrirmælum í lögum eða reglugerðum og er skipað í þau af ráðherra. Þar sitja 95 karlar og 49 konur (konur eru 34%). Loks er skipað í 44 nefndir og vinnuhópa til að sinna ákveðnum verkefnum. Í þeim sitja 144 karlar og 103 konur (konur eru 42%).

6.9. Jafnréttisfulltrúi og jafnréttisnefnd ráðuneytisins.
    Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins er skipaður skv. 11. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á vegum ráðuneytisins og stofnana þess. Jafnréttisfulltrúi er tengiliður ráðuneytisins við Jafnréttisstofu og skal hann meðal annars fylgja þessari framkvæmdaáætlun eftir. Í desember 2001 tók jafnréttisnefnd ráðuneytisins til starfa við hlið fulltrúans. Fulltrúinn og nefndin skulu standa fyrir könnun á stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og gera aðgerðaáætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Sérstök áhersla verði einnig lögð á markvissa jafnréttisfræðslu stjórnenda og annarra starfsmanna.

    Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins hefur í samstarfi við jafnréttisnefnd ráðuneytisins unnið að jafnréttismálum innan ráðuneytisins. Fyrsta verkefnið var að fá samþykkta fyrstu jafnréttisáætlun ráðuneytisins sem var samþykkt af ráðherra og ráðuneytisstjóra 8. október 2002. Áætlunin byggist að stórum hluta á jafnréttisáætlun stjórnarráðsins með nokkrum breytingum og viðbótum sem eiga sérstaklega við ráðuneytið. Áætlunin verður endurskoðuð fyrir árslok 2004. Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins hefur tekið þátt í starfi jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna, meðal annars hvað varðar undirbúning könnunar um jafnréttismál og innra starfsumhverfi meðal starfsmanna stjórnarráðsins sem fram fór í desember 2003 og fjallað er nánar um í lið 1.3. Auk þess hefur jafnréttisfulltrúinn komið á framfæri athugasemdum er varða jafnréttismál við aðra starfsmenn ráðuneytisins eftir því sem ástæða hefur verið til.

7. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið.
7.1.    Sterkari staða kvenna í þekkingar- og upplýsingatækni og í stjórnun og rekstri fyrirtækja.
    Ráðuneytið tekur þátt í átaksverkefni Háskóla Íslands og Jafnréttisstofu,
Konur til forystu og jafnara námsval kynjanna, með það að markmiði að fjölga konum í stjórnun og rekstri fyrirtækja og í upplýsingatækni.
    Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti hefur beitt sér fyrir aukinni þátttöku kvenna í atvinnurekstri. Könnun nefndar sem starfaði á vegum ráðuneytisins fyrir nokkrum árum og fjallaði um atvinnurekstur kvenna leiddi í ljós að konur reka einungis 18% íslenskra fyrirtækja. Þrátt fyrir að staðan hafi sjálfsagt heldur batnað á síðustu árum er þetta lágt hlutfall ef miðað er við að atvinnuþátttaka kvenna er meiri hér á landi en víðast hvar annars staðar.
    Þrátt fyrir að konurnar sem tóku þátt í könnun nefndarinnar á vegum ráðuneytisins væru almennt sammála um að þær hefðu minna sjálfstraust til að stofna og reka eigin fyrirtæki og séu tregari til að sækja um styrki en karlar hafa rannsóknir leitt í ljós að fyrirtæki þar sem konur eru við stjórn fara síður í þrot en þau sem eru rekin af körlum.
    Hér eru nefnd nokkur dæmi um verkefni sem unnin hafa verið af ráðuneytinu eða aðilum sem heyra undir verksvið ráðuneytisins:
    Þjónusta við konur í atvinnurekstri hjá Impru. Impra er þjónustumiðstöð frumkvöðla og fyrirtækja hjá Iðntæknistofnun. Lögð er sérstök áhersla á það hjá Impru að veita konum sem hyggja á atvinnurekstur aðstoð við stofnun fyrirtækis. Tilgangurinn er fyrst og fremst að gera konur færari um að vinna að hugmynd sinni, leiðbeina þeim um hvar hægt sé að afla sér frekari þekkingar og koma á samstarfsneti milli kvenna í sambærilegri stöðu.
     Lánatryggingasjóður kvenna. Lánatryggingasjóður kvenna er samstarfsverkefni félagsmálaráðuneytis, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og Reykjavíkurborgar. Sjóðurinn er í samstarfi við Landsbanka Íslands og saman veita þeir tryggingar fyrir lánum. Markmið sjóðsins er að styðja konur til nýsköpunar í atvinnulífi með því að veita ábyrgðir á allt að helming lána sem þær taka hjá Landsbanka Íslands til að fjármagna tiltekið verkefni. Ábyrgðin er veitt á grundvelli mats á arðsemi viðskiptahugmyndarinnar.
    Sjóðurinn var stofnaður árið 1997. Gerð var úttekt á starfi sjóðsins þegar hann hafði starfað í þrjú ár. Meginniðurstaðan var sú að konur spjöruðu sig ekki síður, eða jafnvel betur, en karlar í atvinnurekstri, væru ábyrgari lántakendur, undirbyggju rekstur sinn betur og hefðu almennt betri yfirsýn yfir fjármál sín. Í kjölfarið tóku aðstandendur sjóðsins þá ákvörðun að sjóðurinn yrði starfræktur í annað þriggja ára tímabil, eða til ársins 2004.
     Brautargengi. Brautargengi er 15 vikna námskeið í stofnun og rekstri fyrirtækja, haldið tvisvar á ári, fyrir konur sem vilja hrinda viðskiptahugmyndum sínum í framkvæmd. Á þriðja hundrað konur hafa lokið Brautargengi og skrifað heildstæða viðskiptaáætlun í kringum viðskiptahugmynd sína. Samkvæmt niðurstöðum könnunar á árangri Brautargengis eru nú 50–60% þeirra kvenna sem lokið hafa Brautargengi með fyrirtæki í rekstri og telja flestar að námskeiðið hafi skipt mjög miklu máli varðandi það hvort þær færu af stað með rekstur. Einnig telur mikill meiri hluti þeirra að þær séu mun hæfari stjórnendur eftir að hafa lokið náminu. Flest þeirra fyrirtækja sem konurnar hafa stofnað eru aðeins með 10 starfsmenn eða færri, en þó eru nokkur með yfir 30 starfsmenn eins og No name, Kaffitár, Baðhúsið og Gestamóttakan.
    Brautargengi er haldið til þess að hvetja konur til framgangs í íslensku viðskiptalífi og stuðla að jafnvægi í fyrirtækjarekstri milli karla og kvenna. Impra stendur fyrir námskeiðinu með stuðningi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Haustið 2003 var Brautargengi í fyrsta sinn kennt á Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði.
    Viðskiptavefsetur kvenna. Viðskiptavefsetur kvenna (SBA Women's Business Center), vistað í Impru, er gagnvirk vefsíða um viðskiptaefni sem tileinkuð er frumkvöðlakonum. Markmiðið er að veita konum þá þekkingu og færni sem þær þurfa til þess að geta skipulagt fjárhagslegt sjálfstæði sitt með því að eiga og reka sitt eigið fyrirtæki.
     Félag kvenna í atvinnurekstri. Félag kvenna í atvinnurekstri er félagsskapur um 400 kvenna í atvinnulífinu. Félagið hefur aðstöðu hjá Impru. Markmið félagsins er að gæta hagsmuna og efla samstöðu og samstarf kvenna í atvinnurekstri með það fyrir augum meðal annars að þær myndi áhugaverðan markhóp fyrir banka og aðrar lánastofnanir og þrýstihóp um hagsmuni atvinnurekenda. Markmiðum sínum nær félagið meðal annars með því að standa að útgáfu fréttabréfa, funda og námskeiðahaldi og annarri fræðslu og upplýsingastarfsemi.
     Konur í forystu og jafnara námsval kynjanna. Ráðuneytið tók þátt í átaksverkefni Háskóla Íslands og Jafnréttisstofu, Konur til forystu og jafnara námsval kynjanna, með það að markmiði að fjölga konum í stjórnum og rekstri fyrirtækja og í upplýsingatækni. Verkefninu lauk í lok árs 2002.

7.2. Stuðningur Nýsköpunarsjóðs við atvinnuuppbyggingu kvenna.
    Hlutverk Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins er að stuðla að uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs. Sjóðnum er meðal annars ætlað að vera smáum og meðalstórum fyrirtækjum öflugur bakhjarl. Þátttaka kvenna í sköpun nýrra atvinnutækifæra á sviði lítilla og meðalstórra fyrirtækja er sívaxandi og telur iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti sérstaklega mikilvægt að styðja við þá þróun. Ráðuneytið mun hvetja stjórn sjóðsins til að gæta þess að með almennri starfsemi sinni styðji sjóðurinn við atvinnusköpun kvenna og öflun nýrra atvinnutækifæra fyrir þær.

    Hlutverk Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins er að stuðla að uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs. Sjóðnum er meðal annars ætlað að vera smáum og meðalstórum fyrirtækjum öflugur bakhjarl. Ráðuneytið hefur hvatt stjórn sjóðsins til að gæta þess að með almennri starfsemi sinni styðji sjóðurinn við atvinnusköpun kvenna og öflun nýrra atvinnutækifæra fyrir þær.
    Nýsköpunarsjóður stóð að verkefninu Auður í krafti kvenna ásamt Háskólanum í Reykjavík, Íslandsbanka, Morgunblaðinu og Deloitte & Touche. Auður í krafti kvenna var þriggja ára átaksverkefni sem lauk í árslok 2002. Markmið verkefnisins var að nýta enn betur þann auð sem í konum býr með því að auka þátttöku þeirra í atvinnusköpun og stuðla þannig að auknum hagvexti á Íslandi. Um var að ræða sex mismunandi verkefni. Námskeiðinu FrumkvöðlaAUÐUR var ætlað að veita konum hvatningu og stuðning til að auka hæfni sína og möguleika á að koma á fót fyrirtækjum sem gætu náð og viðhaldið örum vexti. LeiðtogaAUÐUR átti að gefa konum í leiðtogastöðum tækifæri til að efla hæfileika sína sem leiðtogar og styrkja tengslanet þeirra í milli. Dæturnar með í vinnuna er einn vinnudagur á ári tileinkaður dætrum Íslands. FjármálaAUÐUR var námskeið til að auka hagnýta þekkingu kvenna á fjármálum. FramtíðarAUÐUR var hugsað til að virkja framtíðarafl kvenna og var þar um að ræða leiðtogabúðir fyrir stúlkur á aldrinum 13–16 ára. Að lokum voru árlega veitt AUÐARverðlaun þar sem frumkvöðlakonum voru veittar viðurkenningar.

7.3. Staða kvenna á landsbyggðinni.
    Í samráði við félagsmálaráðuneytið mun iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti láta gera áætlun um aðgerðir til að styrkja sérstaklega stöðu kvenna á landsbyggðinni. Hún verði samþætt Byggðaáætlun og öðrum þeim áætlunum er varða bæði málefni kynjanna og byggðamál. Í þessu sambandi skal meðal annars nýta niðurstöður norrænnar rannsóknar um stöðu kynjanna í tengslum við byggðaröskun sem Jafnréttisstofa er að vinna ásamt Byggðarannsóknastofnun Íslands.

    Í byggðaáætlun 2002–2005 eru ýmis verkefni sem lúta að konum á landsbyggðinni. Hins vegar er nauðsynlegt að skoða sérstaklega mögulegar aðgerðir til að styrkja stöðu kvenna á landsbyggðinni og samþætta hana byggðaáætlun. Byggðastofnun vinnur nú að ýmsum verkefnum á þessu sviði, svo sem samstarfsverkefni með félagsmálaráðuneytinu um atvinnu- og jafnréttisráðgjafa þar sem sérstaklega er leitast við að aðstoða og gefa konum í atvinnurekstri á landsbyggðinni ráð. Byggðastofnun vinnur einnig að úttekt á skiptingu styrkja stofnunarinnar milli karla og kvenna á síðastliðnum árum.
    Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti tekur einnig þátt í samstarfsverkefninu Lifandi landbúnaður með landbúnaðarráðuneyti, félagsmálaráðuneyti og Bændasamtökunum. Markmiðið er að fá konur til aukinna áhrifa í landbúnaði.

7.4. Nefndir og ráð – hlutur kynja í starfi ráðuneytisins jafnaður.
    Konur eru 20% fulltrúa í nefndum og ráðum á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins. Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum. Þegar óskað er eftir tilnefningum í nefndir, ráð eða stjórnir af hálfu ráðuneytisins skal ávallt vísa í 20. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, og skal eftir því sem kostur er óska eftir tveimur tilnefningum, konu og karli. Stefnt skal að því að í lok áætlunarinnar verði hlutfall kvenna í nefndum á vegum ráðuneytisins orðið a.m.k. 30%.

    Nefndir, stjórnir og ráð sem heyra undir ráðuneytið eru 81. Í þeim eiga sæti 385 karlar og 127 konur. Hlutfall kvenna í nefndum, stjórnum og ráðum er því 25%. Þetta hlutfall var 20% í upphafi framkvæmdaáætlunarinnar og var stefnt að því að það yrði a.m.k. 30% við lok hennar.

7.5. Jafnréttisfulltrúi og jafnréttisnefnd ráðuneytisins.
    Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins er skipaður skv. 11. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á vegum ráðuneytisins og stofnana þess. Jafnréttisfulltrúi er tengiliður ráðuneytisins við Jafnréttisstofu og skal hann meðal annars fylgja þessari framkvæmdaáætlun eftir. Ráðuneytið hefur samþykkt jafnréttisáætlun og árið 2001 tók jafnréttisnefnd til starfa. Nefndin heyrir undir ráðuneytisstjóra og situr til tveggja ára í senn. Í henni eiga sæti tveir fulltrúar starfsmanna, kjörnir af starfsmönnum, og tveir fulltrúar ráðuneytisins, tilnefndir af ráðuneytisstjóra. Jafnréttisnefnd skal hafa yfirsýn yfir lög og reglur stjórnvalda um jafnréttismál kynjanna og fylgjast með breytingum á þeim. Þá skal hún fylgjast með framkvæmd jafnréttisáætlunar iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og kanna réttmæti ábendinga um að ekki sé farið að lögum eða reglum um jafnrétti í ráðuneytinu. Skal nefndin vera ráðgefandi fyrir yfirstjórn iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis í málefnum er varða jafnrétti. Ráðuneytið mun beita sér fyrir því eftir sem áður að stofnanir sem undir það heyra geri einnig slíkar jafnréttisáætlanir. Sérstök áhersla verði þar lögð á markvissa jafnréttisfræðslu stjórnenda og annarra starfsmanna.

    Ráðuneytið hefur samþykkt jafnréttisáætlun og árið 2001 tók jafnréttisnefnd til starfa. Nefndin heyrir undir ráðuneytisstjóra og situr til tveggja ára í senn. Í henni eiga sæti tveir fulltrúar starfsmanna kjörnir af starfsmönnum og tveir fulltrúar tilnefndir af ráðuneytisstjóra. Jafnréttisnefnd skal hafa yfirsýn yfir lög og reglur stjórnvalda um jafnréttismál kynjanna og fylgjast með breytingum á þeim. Þá skal hún fylgjast með framkvæmd jafnréttisáætlunar ráðuneytisins og kanna réttmæti ábendinga um að ekki sé farið að lögum eða reglum um jafnrétti í ráðuneytinu. Skal nefndin vera ráðgefandi fyrir yfirstjórn ráðuneytisins í málefnum er varða jafnrétti.
    Jafnréttisfulltrúinn vann að undirbúningi könnunar um jafnréttismál og innra starfsumhverfi meðal starfsmanna stjórnarráðsins sem fram fór í desember 2003 og nánar er fjallað um í lið 1.3.

8. Landbúnaðarráðuneytið.
8.1. Félagsleg og efnahagsleg réttindi kvenna í bændastétt.
     Könnuð verða ýmis ákvæði um eignaraðild í landbúnaði og búrekstri og réttindi og skyldur henni samfara. Gerðar verði tillögur til úrbóta þar sem þess gerist þörf með það að markmiði að jafna hlut kvenna og karla.
    Eitt af verkefnum í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar er könnun á eignarhaldi í landbúnaði og búrekstri og réttindum og skyldum því samfara. Undirbúningur þessa verkefnis er hafinn og unnið er í samráði við jafnréttisnefnd Bændasamtaka Íslands, sem skipuð var í árslok 2001 og í eiga sæti þrír fulltrúar úr bændastétt ásamt jafnréttisfulltrúa landbúnaðarráðuneytisins. Stofnuð hefur verið grasrótarhreyfingin Lifandi landbúnaður – Gullið heima sem hefur það markmið að jafna hlut kvenna og karla. Jafnrétti er ávallt haft að leiðarljósi í þeirri vinnu sem fram fer á vegum ráðuneytisins.

8.2. Fræðsla fyrir konur og karla í bændastétt.
    Í samvinnu við jafnréttisnefnd Bændasamtakanna verður unnið upplýsinga- og fræðsluefni um réttindi og skyldur kvenna og karla í bændastétt. Þar verður gerð grein fyrir félagskerfi landbúnaðarins, starfi hagsmunasamtaka bænda og félagslegum réttindum sem varða konur og karla í bændastétt, ásamt upplýsingum um jafnrétti kvenna og karla almennt.

    Þetta mál hefur verið forgangsverkefni eins og liður 8.1. og hefur verið lögð mikil undirbúningsvinna í þetta gegnum verkefnið Lifandi landbúnaður og mun herferð um landið hefjast um næstu áramót.

8.3. Atvinnumál kvenna á landsbyggðinni.
    Landbúnaðarráðuneytið mun beita sér fyrir því að fullt tillit verði tekið til stöðu kvenna sem búa í dreifbýli og kvenna í bændastétt í öllum þeim sértæku verkefnum sem unnin verða samkvæmt þessari framkvæmdaáætlun og varða stöðu kvenna á vinnumarkaðinum og möguleika þeirra til eigin atvinnurekstrar og endurmenntunar.

    Þessi liður er einnig forgangsverkefni Lifandi landbúnaðar, því haldin verða námskeið fyrir konur í bændastétt með það að markmiði að styðja þær konur sem hafa hug á því að koma á framfæri nýjum hugmyndum til eflingar atvinnu í sveitum. Jafnrétti kynjanna er ávallt haft til hliðsjónar við samningu lagafrumvarpa og stjórnvaldsfyrirmæla á vegum ráðuneytisins.

8.4. Jafn hlutur kynjanna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
    Konur eru 14% fulltrúa í nefndum og ráðum á vegum landbúnaðarráðuneytisins. Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum. Þegar um er að ræða tilnefningar þriðja aðila skal eftir því sem kostur er óska eftir tveimur tilnefningum, konu og karli, í stað aðal- og varamanns. Stefnt skal að því að í lok áætlunarinnar verði hlutur kvenna orðinn a.m.k. 40% í nefndum og ráðum. Þá verður lögð áhersla á að gæta í hvívetna jafnræðis karla og kvenna í starfsmannahaldi ráðuneytisins og hugað sérstaklega að jafnri kynjaskiptingu við val á yfirmönnum.

    Hlutfall kvenna í nefndum á vegum ráðuneytisins er 12% sem er heldur lægra en árið 2000, en þá var hlutfallið 12,5% og var hæst 14% 2001. Í ráðuneytinu eru 20 stöðugildi, þar af 9 karlar og 11 konur. Aukningin er eitt og hálft stöðugildi. Nýtt skipurit ráðuneytisins tók gildi 1. janúar 2003. Þá voru þrír karlmenn skipaðir skrifstofustjórar, en höfðu áður verið deildarstjórar í ráðuneytinu.

8.5. Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins.
    Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins er skipaður skv. 11. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á vegum ráðuneytisins og stofnana þess. Jafnréttisfulltrúi er tengiliður ráðuneytisins við Jafnréttisstofu og skal hann meðal annars fylgja þessari framkvæmdaáætlun eftir. Fulltrúinn skal standa fyrir könnun á stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera aðgerðaáætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Sérstök áhersla verði einnig lögð á markvissa jafnréttisfræðslu stjórnenda og annarra starfsmanna.

    Fræðsla til starfsmanna er stöðug og er leitast við að benda forstöðumönnum stofnana á að hafa að leiðarljósi jafnréttissjónarmið við ráðningu forstöðumanns, yfirmanns deildar eða í stjórn, nefndir og ráð. Jafnréttisfulltrúinn vann einnig að undirbúningi könnunar um jafnréttismál og innra starfsumhverfi meðal starfsmanna stjórnarráðsins sem fram fór í desember 2003 og fjallað er nánar um í lið 1.3.

9. Menntamálaráðuneytið.
9.1. Vinna að jafnrétti og gegn hefðbundinni verkaskiptingu.
    Menntamálaráðuneytið mun áfram leggja áherslu á að skólar vinni ötullega að því að tryggja jafnan rétt drengja og stúlkna, fræða nemendur um stöðu kynjanna og vinna gegn því að nemendur festist í farvegi hefðbundinnar verkaskiptingar kynjanna. Mikilvægt er að menntakerfið ýti ekki undir launamun kynjanna, til dæmis með því að hvetja konur sérstaklega til að stunda ákveðið nám en karla til að stunda annars konar nám.

    Menntamálaráðuneytið ásamt fleirum styrkti verkefnið Konur til forystu og jafnara námsval kynjanna sem var sameiginlegt jafnréttisverkefni jafnréttisnefndar Háskóla Íslands og Jafnréttisráðs. Verkefnið var unnið á árunum 2000–2002. Markmið verkefnisins var annars vegar að undirbúa stúlkur sem ljúka námi frá Háskóla Íslands undir forustustörf á þeirra framtíðarstarfsvettvangi og hins vegar að fjölga konum í raunvísindum, verkfræði og tölvunarfræði. Með þessu vildi Háskóli Íslands, með stuðningi samstarfsaðila að verkefninu, leggja sitt af mörkum til að jafna hlutdeild kynjanna í þekkingar- og upplýsingasamfélagi nýrrar aldar.
    Menntamálaráðuneytið styrkti ráðstefnu um kvenna- og kynjarannsóknir sem Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum stóð fyrir í október 2002. Um 60 fræðimenn tóku þátt í ráðstefnunni.

9.2. Jafnréttiskennsla í skólum.
    Gerð verður áætlun um eflingu jafnréttisfræðslu í skólum svo og um jafnréttisfræðslu fyrir kennara og skólastjórnendur. Sérstök áhersla verður lögð á styrkleika beggja kynja, skyldur þeirra og réttindi. Einnig fjölskyldufræðslu og náms- og starfsfræðslu bæði í grunn- og framhaldsskólum. Í því sambandi verður lögð áhersla á þjálfun og fræðslu til kennara og skólastjórnenda, og nýtingu Jafnréttishandbókarinnar sem út kom árið 2001.

    Í aðalnámskrá framhaldsskóla frá janúar 2004 er lögð rík áhersla á jafnréttismál. Þar segir á bls. 5: „Skólum ber að gæta jafnréttis nemenda til náms og bjóða þeim nám og kennslu við hæfi. Mikilvægt er að bæði piltum og stúlkum séu kynnt störf sem hingað til hefur verið litið á sem hefðbundin karla- eða kvennastörf. Skólum ber einnig að gefa nemendum tækifæri til að spreyta sig á viðfangsefnum að eigin vali. Þau þurfa að höfða jafnt til pilta og stúlkna án tillits til uppruna, í dreifbýli eða þéttbýli, fatlaðra sem ófatlaðra.“

9.3. Rannsóknir á stöðu kynjanna í skólakerfinu verði efldar.
    Áfram verði unnið að rannsóknum á stöðu kynja í skólum.

    Menntamálaráðherra skipaði í september 2002 nefnd til að gera úttekt á mikilvægi félags- og tómstundastarfs ungs fólks á Íslandi. Nefndin hefur nýlega skilað skýrslunni „Úttekt á stöðu félags- og tómstundamála ungs fólks á Íslandi: skýrsla nefndar og tillögur“ með tillögum þar sem meðal annars er fjallað ítarlega um mikilvægi æskulýðsrannsókna.
    Í framhaldi af tillögum nefndarinnar hefur menntamálaráðuneytið gert samning við Rannsóknir & greiningu ehf. vegna æskulýðsrannsóknanna Ungt fólk 2003 og Ungt fólk 2004. Í mars 2003 var lagður fyrir nemendur í öllum grunnskólum landsins spurningalisti á vegum Rannsókna og greiningar ehf. Var það gert samhliða evrópskri könnun á vímuefnaneyslu unglinga, Espat 2003. Espat-könnunin er samevrópsk könnun á vegum Evrópuráðsins í Strassborg og er hún gerð í um 30 aðildarlöndum Evrópuráðsins. Espat-könnunin var lögð fyrir árin 1995 og 1999, og nú 2003, þar sem meðal annars er borið saman neyslumynstur grunnskólanema í Evrópulöndunum. Samhliða Espat var tækifærið notað til að leggja fyrir nemendur könnunina Ungt fólk 2003. Spurt var meðal annars um þátttöku í félags-, tómstunda- og íþróttastarfi, um líðan, einelti, ástundun, viðhorf til heimabyggðar, netnotkun, bóklestur, leikhúsferðir, bókasöfn, klassíska tónleika, kaffihús, söfn, myndlistarsýningar, listsýningar og bíó svo nokkuð sé nefnt. Í rannsókn sem þessari er mikilvægt að geta síðan greint kynjamun fyrir hvern og einn þátt fyrir sig. Niðurstöður úr rannsókninni Ungt fólk 2003 sem Rannsóknir & greining ehf. vann fyrir menntamálaráðuneytið hafa verið kynntar.
    Menntamálaráðuneytið boðaði til kynningarfundar fimmtudaginn 18. desember 2003 þar sem starfsfólk Rannsókna & greiningar ehf. kynnti helstu niðurstöður rannsóknarinnar Ungt fólk 2003 er við kemur menntun, menningu, tómstundum og íþróttaiðkun íslenskra unglinga.

9.4. Tímabundin aðgreining kynjanna.
    Á grundvelli tilraunaverkefna og rannsókna á stöðu kynjanna í skólakerfinu, verður meðal annars kannað frekar hvort tímabundin aðgreining kynjanna í námi í ákveðnum greinum eða þáttum tryggi betri námsárangur og líðan bæði stúlkna og drengja.

    Fyrir nokkrum árum vann Inga Dóra Sigfúsdóttir rannsókn á kynjamun sem síðar var notuð sem grunnur að stefnu ráðuneytisins um jafnan rétt kynja í skólastarfi. Sú mynd sem dregin var upp í umræddri rannsókn var lýsandi en þörf var á frekari gögnum til að unnt væri að greina nánar þær vísbendingar sem fyrir lágu. Menntamálaráðuneytið styrkti árið 2002 verkefni Rannsókna & greiningar ehf. vegna frumúrvinnslu gagna á Borgarskjalasafni um einkunnir barna sem nauðsynlegt var til að fullgera rannsóknina.

9.5. Íþróttauppeldi stúlkna verði eflt.
    Brottfall stúlkna úr íþróttum er mikið. Nefnd sem skipuð var til að fjalla um stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna hefur skilað ítarlegri greinargerð og tillögum um leiðir til þess að auka þátt kvenna í íþróttum. Ráðuneytið mun vinna aðgerðaáætlun á grundvelli þeirra til lagna.

    Í aðalnámskrá grunnskóla um íþróttir, líkams- og heilsurækt er tekið fram að markmiðið með íþróttakennslu, og þá meðtalið skólasund, er „að stuðla að alhliða þroska hvers nemanda, efla heilsufar hans og þroskagetu“. Jafnframt er tekið fram að markmið eru sett með það í huga „að þau höfði til beggja kynja“.
    Í kjölfar skýrslu nefndar um stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna sem út kom í október 1997 var íþróttahreyfingin hvött til þess að taka á þessum málum auk þess sem ýmis verkefni voru styrkt sem sérstaklega stuðla að því að minnka brottfall stúlkna úr íþróttum og efla sjálfsímynd þeirra. Má þar meðal annars nefna útgáfu á myndbandi, veggspjöldum og bæklingum sem báru yfirskriftina „Afrekskonur í íþróttum“. Einnig var styrkveiting til verkefnis sem hvað mest getur haft áhrif á jafnrétti innan íþróttafélaga en það er gæðaverkefnið „Fyrirmyndarfélag ÍSÍ“ á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Til að öðlast viðurkenningu sem fyrirmyndarfélag ÍSÍ þarf félag að uppfylla ákveðnar kröfur og er sérkafli um jafnrétti þar sem meðal annars er tekið fram að gæta þurfi að jafnrétti varðandi aðstöðu, fjármagn og þjálfun. Þá er og tekið fram að það sé aðskilið í bókhaldi hve mikið fé renni til stúlkna og hve mikið til drengja. Íþróttahreyfingin hefur jafnframt staðið að útgáfu á fræðsluefni sem meðal annars hvetur til jafnréttis í íþróttum. Íþróttasjóður styrkti ráðstefnu sem haldin var í febrúar 2004 um konur og íþróttir á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og íþróttaskor Kennaraháskóla Íslands. Í ljósi niðurstaðna sem þar kom fram mun menntamálaráðuneytið kalla eftir upplýsingum frá heildarsamtökum íþróttahreyfingarinnar og félagsmiðstöðva um hvort kynjajafnréttis sé gætt í íþrótta- og tómstundastarfi. Einnig verði skoðað hvernig fjölmiðlar fjalla um íþróttir karla annars vegar og íþróttir kvenna hins vegar þar sem fram koma í könnun frá árinu 2001 að hlutur kvenna í íþróttaþáttum var einungis 7,7%.

9.6. Tölvur og upplýsingatækni.
    Menntamálaráðuneytið mun áfram leggja áherslu á að bæði kyn fræðist um tölvur og upplýsingatækni, og að í skipulagningu námsins á öllum skólastigum sé tryggt að verkefnin höfði jafnt til drengja og stúlkna.

    Upplýsinga- og tæknimennt er ný námsgrein aðalnámskrár frá árinu 1999 en þar er bent á að verkefnin skuli höfða jafnt til drengja og stúlkna. Á árlegum UT-ráðstefnum um upplýsingatækni í skólastarfi sem menntamálaráðuneytið stendur fyrir hefur meðal annars verið fjallað um kynbundna tölvunotkun.

9.7. Stærðfræði og raungreinar.
    Menntamálaráðuneytið mun leita leiða til að auka áhuga stúlkna á þessum sviðum þegar í yngri bekkjum grunnskóla. Sérstaklega skal athuga að nemendur festist ekki um of í farvegi hefðbundinnar verkaskiptingar og að einstaklingar af báðum kynjum fái sambærileg og jafngild tækifæri.

    Í aðalnámskrá grunn- og framhaldsskóla er miðað við að öll markmið námskrár nái til allra nemenda og verkefni höfði til beggja kynja. Ekki er sérstaklega fjallað um þennan þátt í skilgreindum markmiðum aðalnámskrár í stærðfræði og raungreinum. Vísað er til jafnréttismarkmiða sem fram koma í almennum hluta aðalnámskrár. Skoða verður með hvaða hætti er hægt að auka áhuga stúlkna á þessum sviðum.

9.8. Styrkir til jafnréttisfræðslu.
    Við úthlutun styrkja úr Þróunarsjóðum leik-, grunn- og framhaldsskóla verði hugað sérstaklega að þróunarverkefnum sem tengjast jafnréttisfræðslu og aðgerðum til að bæta stöðu drengja og stúlkna í skólunum.

    Lögð hefur verið áhersla á jafnréttismál við úthlutun ofangreindra styrkja. Ármúlaskóli hlaut vorið 2003 styrk úr Þróunarsjóði framhaldsskóla til að gera jafnréttisáætlun, einnig fyrir aðlögun námsefnis í heilbrigðisgreinum að þörfum fullorðins fólks með það að markmiði að fjölga körlum í heilbrigðisnámi.
    Verkmenntaskólinn á Akureyri fékk styrk vegna verkefnis um konur og tækninám.
    Ráðuneytið hefur einnig styrkt jafnréttisátak Háskóla Íslands, Jafnréttisstofu og Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum vegna þýðingar á bæklingnum „Young women's guide to equality between women and men in Europe“ sem fyrst var gefinn út af „European Women's Lobby“ undir forsæti Portúgala í ráðherraráði ESB árið 1999. Bæklingurinn, sem er eins konar leiðarvísir fyrir ungt fólk (15–25 ára), sérstaklega konur, hefur verið þýddur á fjölda tungumála. Markmiðið með útgáfu hans er að auka meðvitund ungra kvenna um jafnrétti. Þar er tekið á ýmsum málum, svo sem réttarstöðu, tvöföldu vinnuálagi, mismunun kvenna, heilbrigði, fóstureyðingum, ofbeldi o.s.frv. Einnig er að finna tölulegar upplýsingar um stöðu kynjanna og hugmyndir ungra kvenna í Evrópu um hvernig megi vinna að auknu jafnrétti. Í íslensku útgáfunni er gert ráð fyrir að fjallað verði sérstaklega um hvernig efni bæklingsins kemur strákum líka við og verður höfðað sérstaklega til þeirra meðal annars með því að fá stráka til að kynna hann. Hugmyndin er að dreifa bæklingnum í framhaldsskólum og félagsmiðstöðvum og stefnt er að útgáfu hans á haustmánuðum 2004.

9.9. Konur og fjölmiðlar – ímyndir kvenna og karla.
    Nefnd um konur og fjölmiðla sem menntamálaráðherra skipaði hefur skilað niðurstöðum og tillögum. Á grundvelli tillagnanna mun ráðuneytið vinna að stefnumótun á þessu sviði.

    Ein af tillögum nefndarinnar var að koma upp gagnabanka fyrir fjölmiðlafólk með upplýsingum um konur með sérþekkingu á ýmsum sviðum. Ráðuneytið hefur styrkt verkefni um kvennagagnabanka, Kvennaslóðir.is, sem unnið hefur verið á Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum ásamt átaksverkefninu Konur til forystu, Jafnréttisnefnd HÍ, Kvennasögusafni Íslands og Jafnréttisstofu. Hugmyndin með gagnabankanum er að færðar verði inn grunnupplýsingar um konur í vísindum hérlendis, um stöður, trúnaðarstörf, vísindagreinar o.fl. Þessi aðferð tryggir að þær konur sem hafa áhuga á að gera sig gildandi í umræðu um vísindi og tækni munu viðhalda upplýsingum um sig. Sams konar tilraun er í Noregi og hefur einkum verið horft þangað um fyrirmynd. Það er trú aðstandenda kvennagagnabankans að hann verði mikilvægt tæki til þess að auka hlut kvenna í fjölmiðlum, nefndum, ráðum og stjórnum fyrirtækja og hins opinbera.

9.10. Fræðsla um greiningu á afleiðingum ofbeldis.
    Menntamálaráðuneytið mun beita sér fyrir því að í grunnnámi og við endurmenntun kennara og annars starfsfólks skóla sem líklegt er til þess að umgangast þolendur ofbeldis, verði tryggð fræðsla um hvernig greina megi afleiðingar ofbeldis og bregðast við og aðstoða þá sem fyrir ofbeldinu hafa orðið.

    Verkefni kennt við Norðmanninn Dan Olweus hóf göngu sína haustið 2002 með þátttöku 43 grunnskóla um allt land. Það eru um 30% allra grunnskóla á landinu.
    Verkefnið er samstarfsverkefni menntamálaráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands og Heimilis og skóla. Markmiðið er að styrkja og fræða skólasamfélagið á grundvelli Olweusarkerfisins til að geta betur komið í veg fyrir og tekist á við einelti. Í verkefninu taka allir starfsmenn skóla þátt og gert er ráð fyrir að haustið 2004 bætist það margir grunnskólar við að verkefnið nái til helmings allra grunnskólabarna á Íslandi. Markmiðið er að skólar verði í stakk búnir til að takast á við einelti en jafnframt má líta á verkefnið sem alhliða forvarnakerfi í grunnskólum.

9.11. Aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni.
    Á vegum menntamálaráðuneytis verði gert átak til að kynna ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla um kynferðislega áreitni. Í samvinnu við Jafnréttisstofu verða unnar leiðbeiningar, annars vegar til þeirra sem verða fyrir kynferðislegri áreitni og hins vegar fyrir stjórnendur í skólum um það hvernig best er að bregðast við slíku.

    Í tengslum við Olweusarverkefnið er gerð könnun á hverju ári innan þátttökuskóla um líðan nemenda í skólanum. Þar er meðal annars spurt um kynferðislega áreitni og aðra þætti sem tengjast jafnrétti drengja og stúlkna í skóla. Þar kemur fram mikið magn upplýsinga um almenna líðan nemenda í skólanum sem hægt er að vinna úr. Verkefnið felst fyrst og fremst í að aðstoða skóla við að byggja upp viðvarandi kerfi gegn einelti með markvissri fræðslu og samvinnu í öllu skólasamfélaginu.

9.12. Nefndir og ráð – hlutur kynja í starfi ráðuneytisins jafnaður.
    Konur eru 34% fulltrúa í nefndum og ráðum menntamálaráðuneytisins. Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum. Þegar óskað er eftir tilnefningum í nefndir, ráð eða stjórnir af hálfu menntamálaráðuneytisins skal ávallt vísa í 20. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, og skal eftir því sem kostur er óska eftir tveimur tilnefningum, konu og karli. Stefnt skal að því að í lok áætlunarinnar verði hlutur kvenna í nefndum á vegum ráðuneytisins orðinn a.m.k. 40%.

    Við skipan í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneytisins er leitast við að gæta jafnræðis milli kynja. Þegar aðilar utan ráðuneytisins eru beðnir um tilnefningar í nefndir á vegum þess er ávallt vísað í 20. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. Í febrúar 2004 var skipting fulltrúa í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum menntamálaráðuneytis þannig að karlar voru 64% fulltrúa og konur 36%. Í nefndum sem skipaðar voru samkvæmt ákvörðun ráðherra voru karlar 62% fulltrúa og konur 38%. Í nefndum, stjórnum eða ráðum sem skipað er í samkvæmt lögum, reglugerðum eða þingsályktunartillögum voru karlar 63% fulltrúa og konur 37%. Í stjórnum eða ráðum sem Alþingi kýs og heyra undir menntamálaráðuneytið voru karlar 58% fulltrúa og konur 42%.

9.13. Jafnréttisfulltrúi og jafnréttisnefnd ráðuneytisins.
    Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins er skipaður skv. 11. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á vegum ráðuneytisins og stofnana þess. Jafnréttisfulltrúi er tengiliður ráðuneytisins við Jafnréttisstofu og skal hann meðal annars fylgja þessari framkvæmdaáætlun eftir. Með fulltrúanum starfar sérstök jafnréttisnefnd. Fulltrúinn og nefndin skulu standa fyrir könnun á stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera aðgerðaáætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Sérstök áhersla verði einnig lögð á markvissa jafnréttisfræðslu stjórnenda og annarra starfsmanna.

    Jafnréttisfulltrúi hefur haldið kynningar fyrir allar deildir menntamálaráðuneytis um jafnréttismál. Farið hefur verið yfir lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og jafnréttisáætlanir ráðuneytisins og stjórnarráðsins. Áhersla var lögð á að fara yfir skýrslu um aðgerðir á vegum ráðuneytisins vegna áætlunarinnar 1998–2001 og þau verkefni sem vinna skyldi að árin 2002–2004 á vegum menntamálaráðuneytisins.
    Þann 7. janúar 2003 var skipuð jafnréttisnefnd menntamálaráðuneytisins. Hlutverk nefndarinnar er meðal annars að fylgjast með stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess, móta stefnu og áætlanir ráðuneytisins í jafnréttismálum og vera ráðgefandi fyrir jafnréttisfulltrúa ráðuneytisins. Nefndin heyrir undir ráðuneytisstjóra.
    Helstu verkefni nefndarinnar eru:
a.      Eftirlit með að farið sé að lögum og reglum í jafnréttismálum og að jafnréttisáætlunum sé fylgt eftir, meðal annars með því að safna og birta reglulega upplýsingar um stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess.
b.      Vera til ráðgjafar við gerð aðgerðaáætlana, ef þess er óskað, um hvernig rétta skuli hlut kynja þar sem það á við.
c.      Fylgjast með framgangi verkefna ráðuneytisins sem kveðið er á um í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum.
d.      Hafa yfirsýn yfir lög og reglur stjórnvalda um jafnréttismál kynjanna og fylgjast með breytingum á þeim. Jafnframt skal nefndin fylgjast með umræðu um jafnréttismál eftir því sem við verður komið.
e.      Standa að fræðslu um jafnréttismál fyrir stjórnendur og annað starfsfólk.
f.      Önnur verkefni á sviði jafnréttismála, svo sem að halda uppi umræðu og fræðslu um jafnréttismál og koma á framfæri hugmyndum sem stuðla að auknu jafnrétti.
    Jafnréttisfulltrúinn vann einnig að undirbúningi könnunar um jafnréttismál og innra starfsumhverfi meðal starfsmanna stjórnarráðsins sem fram fór í desember 2003 og fjallað er nánar um í lið 1.3.

10. Samgönguráðuneytið.
10.1. Konur sem atvinnurekendur í ferðaþjónustu.
    Framlag kvenna til ferðaþjónustu verður metið í ljósi þess að ferðaþjónustan skiptir sífellt meira máli fyrir bæði atvinnustig í landinu og tekjur almennt. Markmið þessarar úttektar verður að kanna hvernig konur og karlar koma að þessari vaxandi atvinnugrein og að þá verði unnt að meta hvort og þá hvernig breytingar eða sérstakar stuðningsaðgerðir gagnist konum sem körlum.

    Samgönguráðuneytið hefur unnið að uppbyggingu ferðaþjónustu um land allt, en ekki hefur verið hugað sérstaklega að þessum málum.

10.2. Jafn hlutur kynjanna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
    Konur eru 10% fulltrúa sem sitja í nefndum og ráðum samgönguráðuneytisins. Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum. Þegar um er að ræða tilnefningar þriðja aðila skal eftir því sem kostur er óska eftir tveimur tilnefningum, konu og karli. Stefnt skal að því að í lok áætlunarinnar verði hlutur kvenna orðinn a.m.k. 25%.

    Í byrjun mars 2004 voru starfandi 19 ráð og nefndir skipaðar samkvæmt lögum og 17 nefndir til tímabundinna verkefna, eða alls 36 nefndir og ráð. Aðalmenn eru samtals 200, 176 karlar (88%) og 24 konur (12%). Ef varamenn eru taldir með er heildartalan 275, 239 karlar (86,9%) og 36 konur (13,1%). Ljóst er að kynjahlutföllin eru að þokast í rétta átt, en þó er enn þá nokkuð í land miðað við markmiðið sem sett var í áætluninni.

10.3. Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins.
    Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins er skipaður skv. 11. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á vegum ráðuneytisins og stofnana þess. Jafnréttisfulltrúi er tengiliður ráðuneytisins við Jafnréttisstofu og skal hann meðal annars fylgja þessari framkvæmdaáætlun eftir. Fulltrúinn skal standa fyrir könnun á stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera aðgerðaáætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Sérstök áhersla verði einnig lögð á markvissa fræðslu stjórnenda og annarra starfsmanna.

    Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins sótti mánaðarlega samstarfsfundi jafnréttisfulltrúa og tók þátt í þróun og framkvæmd skoðanakönnunar þeirrar sem gerð var á meðal starfsmanna stjórnarráðsins haustið 2003. Nánari umfjöllun um könnunina er að finna undir lið 1.3. hér að framan. Nýr jafnréttisfulltrúi tók til starfa í ráðuneytinu í janúar 2004.

11. Sjávarútvegsráðuneytið.
11.1. Konur og atvinnurekstur í sjávarútvegi.
    Kannað verður hvort og þá á hvaða sviðum sjávarútvegs konur hafa haslað sér völl sem sjálfstæðir atvinnurekendur. Aðgengi kvenna að fyrirgreiðslu í formi styrkja eða lána verði sérstaklega kannað. Leiði könnunin í ljós sérstök sóknarfæri fyrir konur í þessum atvinnurekstri verða þau styrkt sérstaklega. Á sama hátt verður gripið til sértækra aðgerða ef könnunin leiðir í ljós mismunun sem skýra má með kynferði.

    Ekki hefur enn verið unnið að verkefninu og verður því skipt út fyrir önnur verkefni í næstu framkvæmdaáætlun.

11.2. Sérstaða sjómanna og fjölskylduaðstæður.
    Könnuð verða áhrif langvarandi fjarvista og einangrunar á fjölskyldulíf sjómanna á grundvelli forkönnunar sem gerð hefur verið.

    Ráðuneytið veitti 500.000 kr. til undirbúnings könnunar á áhrifum langvarandi fjarvista og einangrunar á fölskyldulíf sjómanna, en hún fólst í því að kanna hvaða efni og rannsóknir sem komið gætu að gagni væru þegar til, og í gerð rannsóknaáætlunar. Könnunin leiddi í ljós að áætlaður kostnaður við verkið væri 4,8 millj. kr. (1999) auk þess sem allnokkrar rannsóknir á þessu sviði hafa þegar farið fram. Því var ákveðið að rannsóknin yrði ekki framkvæmd og verður hún ekki tekin upp í næstu framkvæmdaáætlun.

11.3. Átak til að jafna hlut kynja í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
    Konur eru 14% fulltrúa í nefndum og ráðum sjávarútvegsráðuneytis. Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum. Þegar um er að ræða tilnefningar frá öðrum skal áfram eftir því sem kostur er óska eftir tveimur tilnefningum, konu og karli. Stefnt skal að því að í lok áætlunarinnar verði hlutfall kvenna í nefndum á vegum ráðuneytisins orðið a.m.k. 30%.

    Ráðuneytið hefur þá starfsreglu að óska eftir tilnefningum af báðum kynjum þegar skipa skal í nefndir og starfshópa á vegum ráðuneytisins í því skyni að auka hlut kvenna í nefndum og ráðum á vegum þess. Fulltrúar ráðuneytisins í nefndum og starfshópum innan lands eru jöfnum höndum karlar og konur, eftir menntun og verkefnasviði hverju sinni, og þess er jafnan gætt að tilnefna bæði karla og konur í nefndir og ráð í alþjóðlegu samstarfi.

11.4. Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins.
    Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins er skipaður skv. 11. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á vegum ráðuneytisins og stofnana þess. Jafnréttisfulltrúi er tengiliður ráðuneytisins við Jafnréttisstofu og skal hann meðal annars fylgja þessari framkvæmdaáætlun eftir. Fulltrúinn skal standa fyrir könnun á stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera aðgerðaáætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Sérstök áhersla verði einnig lögð á markvissa jafnréttisfræðslu stjórnenda og annarra starfsmanna.

    Skipaður hefur verið jafnréttisfulltrúi úr hópi starfsmanna sem hefur farið yfir stöðu jafnréttismála innan ráðuneytisins og fundað með forstöðumönnum stofnana þess. Stofnanir ráðuneytanna hafa einnig skipað jafnréttisfulltrúa eða jafnréttisnefndir úr hópi sinna starfsmanna. Jafnréttisáætlun liggur fyrir í ráðuneytinu og er birt á heimasíðu þess á netinu. Jafnréttisfulltrúinn vann einnig að undirbúningi könnunar um jafnréttismál og innra starfsumhverfi meðal starfsmanna stjórnarráðsins sem fram fór í desember 2003 og fjallað er nánar um í lið 1.3.

12. Umhverfisráðuneytið.
12.1. Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins.
    Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins er skipaður skv. 11. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á vegum ráðuneytisins og fylgjast með jafnréttisstarfi stofnana þess. Jafnréttisfulltrúi er tengiliður ráðuneytisins við Jafnréttisstofu og skal hann meðal annars fylgja þessari framkvæmdaáætlun eftir. Fulltrúinn skal standa fyrir könnun á stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera aðgerðaáætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna í ráðuneytinu ef ástæða er talin til þess. Sérstök áhersla verði einnig lögð á markvissa jafnréttisfræðslu stjórnenda og annarra starfsmanna.

    Jafnréttisfulltrúi umhverfisráðuneytisins situr í jafnréttisnefnd þess og sækir meðal annars námskeið Jafnréttisstofu. Í ágúst 2002 sótti jafnréttisfulltrúi ráðstefnuna „Taking Wing“ sem haldin var í Finnlandi af Norðurskautsráðinu. Þar var fjallað um stöðu kvenna á norðurslóðum. Jafnréttisfulltrúi, ásamt umhverfisráðherra og formanni jafnréttisnefndar, sótti jafnréttisþing á Akureyri vorið 2003. Ráðuneytið tók þátt í sameiginlegri könnun stjórnarráðsins á innra starfsumhverfi og stöðu jafnréttismála og kom þar fram að jafnréttismálin eru í góðum farvegi í ráðuneytinu. Nánar er fjallað um könnunina í lið 1.3.

12.2. Jafnréttisáætlun og námskeið.
    Jafnréttisnefnd ráðuneytisins endurskoðar jafnréttisáætlun þess á tveggja ára fresti. Það verður gert í fyrsta skipti árið 2002 og næst árið 2004. Einnig skal nefndin sjá til þess að haldin verði námskeið um gerð jafnréttisáætlana fyrir forstöðumenn stofnana og námskeið um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í ákvarðanatöku um umhverfismál fyrir stjórnendur í ráðuneytinu og stofnunum þess.

    Í júní 2002 var haldinn kynningarfundur fyrir starfsmenn ráðuneytisins vegna framkvæmdaáætlunar um jafnrétti kynjanna 2002–2004. Á þeim fundi voru drög að endurskoðaðri jafnréttisáætlun ráðuneytisins einnig kynnt, rædd og bætt. Í nóvember 2002 var haldinn fræðslufundur um jafnréttismál með starfsmönnum ráðuneytisins. Á fundinum hélt umhverfisráðherra Siv Friðleifsdóttir stutt erindi um það hvernig jafnréttið horfir við henni í stjórnmálunum og fjölmiðlunum og svo hélt dr. Hallfríður Þórarinsdóttir erindið „Konur, menning og kynferði“. Eftir erindin spunnust líflegar umræður um hlutverk kynjanna í nútímanum. Í janúar 2003 hélt ráðuneytið námskeið um gerð jafnréttisáætlana og hvernig nota má samþættingu kynjasjónarmiða við áætlanagerð og ákvarðanatöku. Á námskeiðið mættu forstjórar og fulltrúar frá stofnunum ráðuneytisins. Frá ráðuneytinu mættu jafnréttisfulltrúi og skrifstofustjóri á skrifstofu sjálfbærrar þróunar og alþjóðamála. Eftir þetta námskeið hafa stofnanirnar unnið að gerð jafnréttisáætlana og einnig hafa þær verið að tilnefna tengiliði við ráðuneytið vegna jafnréttismála.

12.3. Jafn hlutur kynjanna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
    Konur eru 26% fulltrúa í nefndum og ráðum umhverfisráðuneytis. Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum. Þegar óskað er eftir tilnefningum í nefndir, stjórnir og ráð á vegum ráðuneytisins skal óskað eftir tveimur tilnefningum, bæði karli og konu sem ráðuneytið velur svo á milli. Stefnt skal að því að í lok áætlunarinnar verði hlutfall kvenna í nefndum á vegum ráðuneytisins orðið a.m.k. 40%.

    Unnið er markvisst að því að auka hlut kvenna í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ráðuneytisins. Þegar óskað er eftir tilnefningum í nefndir á vegum ráðuneytisins er þessi texti settur í bréfin: „Með vísan til 20. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, og jafnréttisáætlunar umhverfisráðuneytisins er óskað eftir því að þér tilnefnið bæði karl og konu sem mögulegan fulltrúa yðar þannig að ráðuneytið hafi möguleika á að skipa nefndina til samræmis við markmið umræddra laga.“ Árangurinn af þessum aðgerðum hefur verið lítill eða aðeins 1% aukning á hlut kvenna í nefndum á vegum ráðuneytisins á tímabilinu. Alls störfuðu 65 nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneytisins um áramótin 2003– 2004. Í þeim störfuðu alls 371 nefndarmenn, 270 karlar og 101 kona. Hlutfall kvenna í nefndum ráðuneytisins var því 27% og karla 73%. Að síðustu má nefna að hlutur kvenna í yfirstjórn ráðuneytisins hefur vaxið umtalsvert að undanförnu og í febrúar 2004 urðu konur fleiri en karlar í yfirstjórn ráðuneytisins í fyrsta sinn frá stofnun ráðuneytisins.

13. Utanríkisráðuneytið.
13.1. Samþætting kynjasjónarmiða í alþjóðastarfi.
    Utanríkisráðuneytið mun leggja áherslu á samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumörkun og starfi alþjóðastofnana sem Ísland á aðild að, einkum á vettvangi þeirra stofnana þar sem Ísland gegnir formennsku á tímabilinu, svo sem í Norðurskautsráðinu.

    Samþætting jafnréttissjónarmiða er ofarlega á baugi í starfsemi Norðurskautsráðsins þar sem Ísland gegnir formennsku til ársins 2004 en utanríkisráðuneytið sinnir því verkefni. Meðal þess sem Ísland beitir sér fyrir í formennskunni er gerð yfirgripsmikillar skýrslu um mannlíf á norðurslóðum (Arctic Human Development Report). Markmið skýrslunnar er fyrst og fremst að varpa ljósi á lífskjör og lífsskilyrði fólks á norðurslóðum, þá þætti sem þar hafa áhrif og þau málefni sem eru íbúunum sameiginleg. Tekið verður tillit til samþættingarsjónarmiða við gerð skýrslunnar og sérstakur kafli helgaður jafnréttismálum á norðurslóðum þar sem fjallað verður um stöðu kvenna á svæðinu, meðal annars með tilliti til þátttöku í ákvarðanatöku, atvinnu og menntunar. Ráðgert er að skýrslan verði kynnt á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í september 2004.
    Þá er þess að geta að á vettvangi vinnuhóps Norðurskautsráðsins um sjálfbæra þróun hefur nýlega verið ákveðið að ýta úr vör verkefni sem fjallar um þátttöku kvenna í ákvarðanatöku við stjórnun auðlindanýtingar sjávar á norðurslóðum. Verkefnið sem leitt er af Noregi og Íslandi er eitt þeirra verkefna sem spruttu úr jarðvegi jafnréttisráðstefnu Norðurskautsráðsins „Taking Wing“ sem haldin var í Finnlandi 2002. Í verkefninu verður sjónum beint að mannlífi og mannauði á norðurslóðum og tengslum nýtingar náttúruauðlinda, mannlífs og menningar. Hvert þátttökuríki í verkefninu mun standa að einni sérrannsókn og mun Ísland skoða sérstaklega hlut og þátttöku kvenna í fiskeldi en sú grein sjávarútvegs er talin eiga verulega vaxtarmöguleika á næsta áratug. Við lok verkefnisins, í september 2004, mun liggja fyrir gagnasafn sem nýst getur stjórnvöldum og öðrum sem huga vilja að jafnræði við nýtingu náttúruauðlinda.

13.2. Konur og karlar í störfum hjá alþjóðastofnunum.
    Settar verða vinnureglur sem kveði á um sem jafnastan hlut kvenna og karla í stöðum hjá alþjóðlegum stofnunum. Þetta ákvæði á ekki einungis við um ráðningu Íslendinga heldur einnig alla þá sem Íslendingar kjósa að styðja í stöður á vegum alþjóðasamtaka.

    Utanríkisráðuneytið hefur lagt aukna áherslu á framgang réttindamála kvenna og barna, meðal annars á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) og Evrópuráðsins. Í þessu sambandi má benda á framlag íslenskra stjórnvalda til uppbyggingar í Kosovo þar sem Ísland styrkir rekstur skrifstofu UNIFEM sem vinnur meðal annars að því að tryggja konum völd og áhrif við stjórn landsins. Fjórir íslenskir sérfræðingar hafa veitt skrifstofunni forstöðu frá árinu 2000. Við ákvörðun um stuðning Íslands við einstaka frambjóðendur í ráð og nefndir á vegum Sameinuðu þjóðanna eru jafnréttissjónarmið ávallt höfð í huga.
     Friðargæslan.
    Á árunum 2002–2003 sem eru fyrstu heilu starfsár Íslensku friðargæslunnar var samtals 81 friðargæsluliði við friðargæslustörf á vegum alþjóðastofnana í Bosníu, Makedóníu, Kosovo, Sri Lanka, Afganistan og í Írak, 36 árið 2002, þar af 9 konur, og 45 árið 2003, þar af 11 konur. Meiri hluti friðargæsluliða hefur til þessa verið karlmenn. Ástæðurnar eru einkum lágt hlutfall kvenna í þeim starfsstéttum sem fjölmennastar hafa verið í Íslensku friðargæslunni, t.d. í lögreglunni og við flugumferðarstjórn. Í þessu sambandi má geta þess að Sameinuðu þjóðirnar fóru þess sérstaklega á leit við aðildarríkin að þau réðu konur í alþjóðalögreglulið Sameinuðu þjóðanna í Bosníu og Kosovo. Vegna þessa hélt ráðuneytið fund haustið 1999 með Félagi íslenskra lögreglukvenna í samvinnu við embætti ríkislögreglustjóra. Í framhaldi af fundinum var Sameinuðu þjóðunum skrifað bréf og getið helstu niðurstaðna. Þegar auglýst var eftir lögreglumönnum til starfa á Balkanskaga var sérstaklega skorað á hæfar konur að sækja um, þar sem stjórnvöldum var í mun að verða við beiðni Sameinuðu þjóðanna. Niðurstaða þess var sú að 2000–2001 fóru tvær konur til starfa í alþjóðalögregluliði Sameinuðu þjóðanna í Bosníu.
    Árið 2003 voru 45 íslenskir friðargæsluliðar að störfum erlendis, þar af 11 konur. Flestir voru í Kosovo eða 27, enda stærsta verkefni friðargæslunnar á árinu tengt rekstri flugvallarins í Kosovo. Í Kosovo var einn karlmaður hjá alþjóðalögregluliði Sameinuðu þjóðanna, einn karlmaður hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE), tvær konur hjá UNIFEM, en á flugvellinum í Pristína (UNMIK/KFOR) voru 23, 2 konur og 21 karl, aðallega flugumferðarstjórar og slökkviliðsmenn. Í Bosníu störfuðu þrír karlmenn hjá lögregluaðgerð Evrópusambandsins (EUPM) og þrjár konur og einn karl með breska hernum (SFOR). Í Makedóníu var ein kona hjá Concordia, friðargæsluliði Evrópusambandsins í Makedóníu, og einn karl hjá NATO í Makedóníu. Í Afganistan var einn karl með þýskum liðsafla (ISAF), í Írak tveir karlar með dönskum sveitum. Á Sri Lanka voru á árinu fimm manns, þrjár konur og tveir karlar með Sri Lanka Monitoring Mission (SLMM) sem Norðmenn leiða.
    Að auki sendi friðargæslan 15 manns, 7 karla og 8 konur, til kosningaeftirlits í Aserbaídsjan, Georgíu og Rússlandi á vegum ÖSE á síðasta ári.
    Á sérstökum viðbragðslista Íslensku friðargæslunnar eru nú 184 einstaklingar, 122 karlar og 64 konur. Í auglýsingum Íslensku friðargæslunnar hafa konur sérstaklega verið hvattar til að gefa kost á sér til friðargæslustarfa. Á liðnu ári var Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum veittur styrkur til að rannsaka samþættingu jafnréttissjónarmiða í Íslensku friðargæslunni.
     Þróunarsamvinnustofnun Íslands.
    Þróunarsamvinnustofnun Íslands samþykkti nú nýlega nýja stefnuskrá fyrir stofnunina og nýjar vinnureglur en í hvoru tveggja sérstaklega fjallað um jafnréttismál. Verklagsreglurnar lúta meðal annars að því að í verkefnissamningum stofnunarinnar skuli sett almenn markmið um að auka jafnrétti kynjanna.
    Þá er þess að geta að ýmis verkefni stofnunarinnar eru valin sérstaklega með jafnréttismál og bætta stöðu kvenna í huga. Í Mósambík er starfandi á vegum ÞSSÍ ráðgjafi í jafnréttismálum og jafnréttisverkefnum við kvennamálaráðuneyti landsins. Í Úganda, Malaví og Namibíu hefur stofnunin unnið að félagslegum verkefnum, svo sem fullorðinsfræðslu og stuðningi við félagsmiðstöðvar, sem fyrst og fremst sinna þörfum kvenna. Þessari starfsemi stjórna starfsmenn, sem hafa titilinn „verkefnisstjóri“ og eru það allt konur.

13.3. Mannréttindabrot gegn konum og stúlkum.
    Utanríkisráðherra mun beita sér fyrir því að samþykktir alþjóðastofnana eins og Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins, sem taka á brotum á mannréttindum sem beinast sérstaklega gegn konum og stúlkum, verði fylgt eftir af íslenskum stjórnvöldum innanlands og í samskiptum við aðrar þjóðir.

    Ísland hefur lagt áherslu á jafnrétti kynjanna og baráttuna gegn mannréttindabrotum gagnvart konum og stúlkubörnum, sérstaklega á vettvangi alþjóðastofnana, svo sem mannréttindaráðsins, á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og einnig á vettvangi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Ísland styður ályktanir Sameinuðu þjóðanna varðandi hvers kyns ofbeldi gegn konum og hefur utanríkisráðherra lagt áherslu á þennan málaflokk í ræðum sínum á alþjóðavettvangi svo og fastafulltrúar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. Einnig er vert að geta þess að Ísland var kosið í kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna (Commission on the Status of Women) árið 2003 og tók sæti í henni er 48. fundi kvennanefndarinnar lauk þann 12. mars 2004. Fulltrúi Íslands mun sitja í nefndinni til ársins 2008.
    Ísland fullgilti valfrjálsa bókun við samninginn um afnám allrar mismununar gagnvart konum sem gerð var í New York 6. október 1999. Bókunin öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 6. júní 2001. Unnið er að fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna gegn skipulagðri glæpastarfsemi milli landa, sem gerður var í New York 15. nóvember 2000, og bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn skipulagðri glæpastarfsemi milli landa, til að koma í veg fyrir, afnema og refsa fyrir verslun með einstaklinga, einkum konur og börn, sem gerð var í New York 15. nóvember 2000. Ísland fullgilti valfrjálsa bókun við samninginn um réttindi barnsins um sölu á börnum, barnavændi og barnaklám sem gerð var í New York 25. maí 2000. Bókunin öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 18. janúar 2002.

13.4. Jafn hlutur kynjanna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
    Konur eru 14% fulltrúa í nefndum og ráðum á vegum utanríkisráðuneytisins. Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum. Þegar um er að ræða tilnefningar frá öðrum, skal eftir því sem kostur er óska eftir tveimur tilnefningum, konu og karli.

    Í 12 nefndum og stjórnum utanríkisráðuneytisins sitja 50 manns, þar af 43 karlar (86%) og 7 konur (14%). Athyglisvert er að kynjahlutföll innan ráðuneytisins eru á svipaðan veg, þ.e. háskólamenntaðir fulltrúar í utanríkisráðuneytinu eru 75% karlar og 25% konur, en í öðrum störfum innan ráðuneytisins eru 20% karlar og 80% konur. Þessi skekkja er sérstaklega áberandi í flokki sendiherra, en þar eru 29 karlar (96,7%) en einungis 1 kona (3,3%).

13.5. Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins.
    Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins er skipaður skv. 11. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á vegum ráðuneytisins og stofnana þess. Jafnréttisfulltrúi er tengiliður ráðuneytisins við Jafnréttisstofu og skal hann meðal annars fylgja þessari framkvæmdaáætlun eftir. Fulltrúinn skal standa fyrir könnun á stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera aðgerðaáætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Sérstök áhersla verði einnig lögð á markvissa fræðslu stjórnenda og annarra starfsmanna.

    Jafnréttisfulltrúi hefur tekið þátt í samstarfi jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna, til að mynda með vinnu að undirbúningi könnunar um jafnréttismál og innra starfsumhverfi meðal starfsmanna stjórnarráðsins sem fram fór í desember 2003 og fjallað er nánar um í lið 1.3.

13.6. Jafnréttisnámskeið.
    Ráðuneytið mun í samstarfi við Jafnréttisstofu standa fyrir jafnréttisnámskeiðum fyrir starfsmenn sem fara til starfa í þróunarlöndum eða vinna að slíkum verkefnum og skulu fyrstu námskeiðin haldin haustið 2002.

    Sérstök jafnréttisnámskeið hafa ekki verið haldin fyrir starfsmenn sem fara til starfa í þróunarlöndum. Hins vegar eru haldin námskeið um líf og starf í þróunarlöndum haldin fyrir hvern og einn þann starfsmann sem sendur er til slíkra starfa á vegum íslenska ríkisins.
Neðanmálsgrein: 1
    1     Ólíkar niðurstöður fengust eftir því hvort miðað var við að „konur fengju greitt eins og karlar í sama starfi“ eða „karlar fengju greitt eins og konur í sama starfi“.