Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 791. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1388  —  791. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Bryndísar Hlöðversdóttur um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hversu margir einstaklingar á aldrinum 18–24 ára hafa fengið dvalarleyfi hérlendis á grundvelli hjúskapar sl. 10 ár? Svarið óskast sundurliðað eftir árum.

    Árið 2000 fengu 25 einstaklingar á aldrinum 18–24 ára dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, árið 2001 voru þeir 36, 26 árið 2002 en 55 árið 2003 og 29 fyrstu þrjá mánuði þessa árs.

Skýringar.
    1. Skráning dvalarleyfa á grundvelli hjúskapar til erlendra maka íslenskra ríkisborgara hófst í maí árið 2000 og til eru tölur til og með mars á þessu ári.
    Útlendingastofnun hóf ekki skipulagða skráningu leyfa á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara fyrr en við gildistöku laga nr. 41/2000, um breytingu á 13. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 133/1994. Þá varð grundvallarbreyting á réttarstöðu erlendra maka íslenskra ríkisborgara að því leyti að þeir þurftu ekki lengur sérstakt leyfi til atvinnuþátttöku.
    Í töflunni er yfirlit yfir útgefin dvalarleyfi til einstaklinga á aldrinum 18–24 ára á grundvelli hjúskapar við íslenskra ríkisborgara.

Dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskra ríkisborgara.
Ár Alls 18–24 ára
2004, til 1. mars 100 17 102 við árslok verði þróunin óbreytt út árið
2003 243 48
2002 100 26
2001 157 36
2000 108 25

    2. Skráning dvalarleyfa á grundvelli hjúskapar til erlendra maka útlendinga hófst árið 2003 og hefur verið með rafrænum hætti frá því í október það ár. Tölurnar sem tilgreindar hér eru því frá þeim tíma til og með mars sl. að því er þennan hóp varðar.
    Með lögum nr. 96/2002, sem tóku gildi þann 1. janúar 2003, varð mikilsverð breyting á heimildum til fjölskyldusameiningar. Með 13. gr. laganna var lögfest heimild til handa útlendingum sem dveljast löglega í landinu, samkvæmt leyfi sem ekki er háð takmörkunum eða búsetuleyfi, til að fá til sín nánustu aðstandendur, svo sem maka. Fram til loka ársins 2003 hafði Útlendingastofnun ekki yfir að ráða nauðsynlegum tæknibúnaði til að geta haldið rafrænar skrár um fjölda maka útlendinga er hér dveljast enda var ekki ástæða til að halda slíkar skrár samkvæmt eldri lögum. Hafa ber í huga að fyrir gildistöku nýju útlendingalaganna var oftast ekki ástæða til að leggja fram gögn um hjúskap sérstaklega þegar báðir aðilar sóttu um atvinnuleyfi. Með vísan til þessa er ekki unnt að svara fyrirspurninnni til hlítar með svo skömmum fyrirvara sem veittur er, enda má ætla að þau svör yrðu misvísandi og ófullnægjandi í þessu samhengi.

Erlendir makar útlendinga.
Ár Alls 18–24 ára
2004 til 29. mars 70 12
2003 frá 1. október 45 7