Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 825. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1447  —  825. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur um hlunnindi af sel.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver er nýting þeirra bænda á sel sem hafa hlunnindi af selveiðum á jörðum sínum?
     2.      Hversu margir bændur veiða sel á jörðum sínum og hvað er gert við veiðina?
     3.      Hversu marga seli hafa bændur veitt árlega?
     4.      Hverjar eru tekjur þeirra af:
                  a.      skinnum,
                  b.      kjöti,
                  c.      öðru?
    Svarið óskast sundurliðað eftir því hvort um útsel eða landsel er að ræða og eftir árum undanfarin tíu ár.


    Nýting á sel felst aðallega í sölu á skinnum og lítilsháttar af kjöti, spiki og hreifum.
    Um 30 bændur stunda nú selveiðar árlega og fer þeim heldur fækkandi.
    Flest skinnanna af þeim útsel (haustkópum) sem veiddur er fara til sútunar hjá Skinnaiðnaði á Akureyri og eru keypt af handverksfólki til frekari vinnslu. Talsvert af kjöti, spiki og hreifum af þessum kópum fer til manneldis og er það heldur vaxandi. Auk þessa hefur Hringormanefnd greitt fyrir veidda fullorðna útseli.
    Skinn af landsel (vorsel) hafa verið nýtt af handverksfólki innan lands og er Eggert Jóhannsson feldskeri þeirra umsvifamestur. Meiri hluti vorkópaskinnanna fer þó til útflutnings. Kjöt, hreifar og spik er nýtt í litlum mæli en það fer þó vaxandi.
    Undanfarin ár hafa verið veiddir 200–300 haustkópar af útsel.
    Síðastliðin 15 ár hefur landselskópur (vorselur) verið veiddur á ný eftir hlé sem varð á veiðunum frá 1980 til 1990. Ef miðað er við fjölda skinna sem koma á markað eru veiddir u.þ.b. 250–500 kópar á ári. Fullorðinn landselur er ekki veiddur.
    Verð á skinnum af haustkópum var 4.000 kr. stykkið til bænda og á vorkópaskinnum 4–5.000 kr.
    Í ráðuneytinu liggja ekki fyrir upplýsingar um tekjur bænda af sölu á selkjöti og öðrum afurðum sela.