Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 973. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1524  —  973. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um ársreikninga, nr. 144/1994, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    Á eftir VI. kafla laganna kemur nýr kafli, VII. kafli, Beiting alþjóðlegra reikningsskilastaðla, með tíu nýjum greinum, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi, og breytist greinatala í VII.–XI. kafla, sem verða VIII.–XII. kafli, samkvæmt því:
    
    a. (57. gr.)
    Ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, skulu hafa lagagildi hér á landi í samræmi við bókun I um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/ 1993, um Evrópska efnahagssvæðið, með síðari breytingum, þar sem bókunin er lögfest.
    Reglugerð (EB) nr. 1606/2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, er prentuð sem fylgiskjal með lögum þessum.

    b. (58. gr.)

    Gildissvið kaflans.

    Ákvæði þessa kafla gilda um félög skv. 1. mgr. 1. gr. laga þessara.

    c. (59. gr.)

    Orðskýringar.

    Í kafla þessum merkir:
     1.      Verðbréf: Verðbréf samkvæmt skilgreiningu laga um verðbréfaviðskipti.
     2.      Skipulegur verðbréfamarkaður: Markaður með verðbréf samkvæmt skilgreiningu laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.

    d. (60. gr.)

Alþjóðlegir reikningsskilastaðlar.

    Með alþjóðlegum reikningsskilastöðlum er átt við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IAS/ IFRS) samkvæmt skilgreiningu 2. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002, sem framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt skv. 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002.
    Ráðherra birtir í reglugerð þá alþjóðlegu reikningsskilastaðla sem samþykktir hafa verið af framkvæmdastjórn ESB skv. 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002.

    e. (61. gr.)

Skylda til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureiknings.

    Félag sem hefur verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins skal skv. 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureiknings síns.
    Félagi sem ber að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureiknings skv. 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 er skylt að beita þeim bæði við gerð samstæðureiknings og ársreiknings.

    f. (62. gr.)

Skylda til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreiknings.

    Félag sem hefur hlutabréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins skal beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreiknings síns, hvort sem félagið gerir samstæðureikning eða ekki.
    Félagi sem gerir ekki samstæðureikning og hefur eingöngu önnur verðbréf en hlutabréf skráð á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins er ekki skylt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreiknings síns.

    g. (63. gr.)

Heimild til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum.

    Félagi er heimilt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð reikningsskila sinna. Heimild til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum samkvæmt þessari grein er óháð því hvort félagið gerir samstæðureikning eða hefur verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Félag sem kýs að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum skv. 1. mgr. skal beita þeim bæði við gerð samstæðureiknings og ársreiknings.

    h. (64. gr.)

Nánar um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla.

    Félag sem beitir alþjóðlegum reikningsskilastöðlum skal fylgja þeim að fullu. Þar sem alþjóðlegir reikningsskilastaðlar, sem framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt skv. 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002, og ákvæði annarra kafla laga þessara mæla fyrir um sama atriði ganga alþjóðlegir reikningsskilastaðlar framar þegar félag beitir alþjóðlegum reikningsskilastöðlum.
    Að því leyti sem ekki er kveðið á um tiltekið atriði í alþjóðlegum reikningsskilastöðlum, sem framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt skv. 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002, gilda ákvæði annarra kafla laga þessara.

    i. (65. gr.)

Eftirlit með beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla.

    Ársreikningaskrá hefur eftirlit með beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla.

    j. (66. gr.)
    Ráðherra kveður í reglugerð nánar á um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, m.a. um eftirlit með beitingu þeirra.
         

2. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Félagi sem ber að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureiknings síns skv. 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 og hefur eingöngu skuldabréf skráð á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins er ekki skylt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureiknings fyrr en fyrir hvert reikningsár sem hefst 1. janúar 2007 eða síðar.
    Skylda félags skv. VII. kafla til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreiknings tekur gildi fyrir hvert reikningsár sem hefst 1. janúar 2009 eða síðar.

3. gr.

    Við lögin bætist fylgiskjal, svohljóðandi:

REGLUGERÐ EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS (EB) nr. 1606/2002

frá 19. júlí 2002

um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla

EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 1. mgr. 95. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)      Á fundi sínum í Lissabon 23. og 24. mars 2000 lagði leiðtogaráðið áherslu á að brýnt væri að hraða því að innri markaði fyrir fjármálaþjónustu verði komið á og ákvað að veita frest til 2005 til að koma í framkvæmd aðgerðaáætlun framkvæmdastjórnarinnar í fjármálaþjónustu og hvatti til þess að gerðar yrðu ráðstafanir til að auka samanburðarhæfi reikningsskila félaga sem eru skráð í kauphöllum.
2)      Til þess að bæta starfsemi innri markaðarins skal þess krafist að félög, sem eru skráð í kauphöllum, beiti einu safni afar vandaðra alþjóðlegra reikningsskilastaðla þegar þau semja samstæðureikningsskil sín. Enn fremur er mikilvægt að reikningsskilastaðlar sem félög í bandalaginu, sem eru aðilar að fjármálamörkuðum, fara eftir séu alþjóðlega viðurkenndir og eigi við alls staðar í heiminum. Þetta felur í sér aukna samræmingu reikningsskilastaðla, sem eru nú í notkun á alþjóðavettvangi, og lokatakmarkið er að setja fram eitt safn alþjóðlegra reikningsskilastaðla.
3)      Tilskipun ráðsins 78/660/EBE frá 25. júlí 1978 um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð ( 4 ), tilskipun ráðsins 83/349/EBE frá 13. júní 1983 um samstæðureikninga ( 5 ), tilskipun ráðsins 86/635/ EBE frá 8. desember 1986 um ársreikninga og samstæðureikninga banka og annarra fjármálastofnana ( 6 ) og tilskipun ráðsins 91/674/EBE frá 19. desember 1991 um ársreikninga og samstæðureikninga vátryggingafélaga ( 7 ) beinast einnig að félögum innan bandalagsins sem eru skráð í kauphöllum. Kröfur um upplýsingar í reikningsskilum, sem settar eru fram í þessum tilskipunum, geta ekki tryggt mikið gagnsæi og samanburðarhæfi fjárhagsskýrslna frá öllum félögum í bandalaginu, sem skráð eru í kauphöllum, en það er nauðsynlegt skilyrði fyrir uppbyggingu óskipts fjármagnsmarkaðar sem er árangursríkur, hnökralaus og skilvirkur. Því er nauðsynlegt að bæta við lagarammann um félög sem skráð eru í kauphöllum.
4)      Markmiðið með þessari reglugerð er að stuðla að því að fjármagnsmarkaðurinn sé skilvirkur og kostnaðarhagkvæmur. Annar mikilvægur þáttur með tilkomu innri markaðarins á þessu sviði er að vernda fjárfesta og viðhalda trausti á fjármagnsmörkuðum. Með þessari reglugerð er stuðlað að frjálsum flutningi fjármagns á innri markaðnum og því að félög í bandalaginu standi jafnt að vígi í samkeppni að því er varðar fjármagn á fjármagnsmörkuðum í bandalaginu og einnig á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum.
5)      Til þess að fjármagnsmarkaðir í bandalaginu séu samkeppnishæfir er mikilvægt að samræma staðlana, sem notaðir eru í Evrópu til að semja reikningsskil, alþjóðlegum reikningsskilastöðlum sem nota má um heim allan í viðskiptum yfir landamæri eða við skráningu á alþjóðlegum verðbréfamarkaði.
6)      Framkvæmdastjórnin birti, 13. júní 2000, orðsendingu sína um „Stefna ESB í fjárhagsskýrslugerð: leiðin fram á við“ en í henni er lagt til að öll félög í bandalaginu, sem eru skráð í kauphöllum, gangi frá samstæðureikningsskilum sínum í samræmi við eitt safn reikningsskilastaðla, þ.e.a.s. alþjóðlegu reikningsskilastaðlana (IAS-staðlana), í síðasta lagi 2005.
7)      IAS-staðlarnir eru þróaðir af Alþjóðareikningsskilanefndinni (IASC) en tilgangur hennar er að þróa eitt safn alþjóðlegra reikningsskilastaðla. Í framhaldi af endurskipulagningu Alþjóðareikningsskilanefndarinnar var ein af fyrstu ákvörðunum nýja ráðsins 1. apríl 2001 að breyta nafni þess í Alþjóðareikningsskilaráðið (IASB) og að því er varðar ókomna alþjóðlega reikningsskilastaðla að auðkenna þá sem IFRS-staðla í stað IAS-staðla. Notkun þessara staðla skal, alls staðar þar sem því verður við komið og að því gefnu að þeir tryggi mikið gagnsæi og samanburðarhæfi fjárhagsskýrslna í bandalaginu, vera skyldubundin hjá öllum félögum í bandalaginu sem skráð eru í kauphöllum.
8)      Samþykkja skal nauðsynlegar ráðstafanir til að koma þessari reglugerð í framkvæmd í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 8 ) og taka skal tilhlýðilegt tillit til yfirlýsingar framkvæmdastjórnarinnar á Evrópuþinginu 5. febrúar 2002 um framkvæmd löggjafar um fjármálaþjónustu.
9)      Við samþykki á notkun á alþjóðlegum reikningsskilastaðli í bandalaginu er í fyrsta lagi nauðsynlegt að hann uppfylli grunnskilyrði í framangreindum tilskipunum ráðsins, þ.e.a.s. að notkun hans gefi glögga mynd af fjárhagsstöðu og rekstri fyrirtækja, og skal þá skoða þessa meginreglu í ljósi téðra tilskipana ráðsins án þess þó að gera ráð fyrir að farið sé að fullu og öllu að öllum ákvæðum þeirra. Í öðru lagi að hann þjóni hagsmunum almennings í Evrópu í samræmi við niðurstöður ráðsins 17. júlí 2000 og að síðustu að hann uppfylli grundvallarskilyrði um gæði upplýsinga sem nauðsynleg eru til þess að reikningsskil komi notendum að gagni.
10)      Tækninefnd um reikningsskil skal veita framkvæmdastjórninni stuðning og sérfræðiálit þegar alþjóðlegir reikningsskilastaðlar eru metnir.
11)      Það ferli sem leiðir til samþykktar á alþjóðlegu reikningsskilastöðlunum skal gera kleift að bregðast skjótt við nýjum stöðlum, sem fyrirhugaðir eru, og einnig að helstu aðilar, sem hlut eiga að máli, fái rætt, hugleitt og skipst á upplýsingum um alþjóðlega reikningsskilastaðla, einkum innlendar stofnanir sem ákveða reikningsskilastaðla, eftirlitsyfirvöld á sviði verðbréfa, banka og trygginga, seðlabankar, m.a. Seðlabanki Evrópu, fagfólk á sviði endurskoðunar og reikningsskila og þeir sem nota og semja reikninga. Með ferlinu er stuðlað að því að skilningur, að því er varðar samþykkta alþjóðlega reikningsskilastaðla, sé á einn og sama veg í bandalaginu.
12)      Í samræmi við meðalhófsregluna eru ráðstafanirnar, sem kveðið er á um í þessari reglugerð og þar sem sett eru fram skilyrði um að eitt safn alþjóðlegra reikningsskilastaðla sé notað fyrir félög skráð í kauphöllum, nauðsynlegar til þess að ná því markmiði að skapa skilvirka og kostnaðarhagkvæma fjármagnsmarkaði í bandalaginu og stuðla þannig að tilkomu innri markaðarins.
13)      Í samræmi við sömu meginreglu er nauðsynlegt, að því er varðar ársreikninga, að aðildarríkin hafi það val að heimila eða krefjast þess af félögum skráðum í kauphöllum að þau semji reikningana í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla sem samþykktir eru í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð. Aðildarríkjunum er heimilt að ákveða og einnig að rýmka þessa heimild eða leyfi og láta hana/ það ná til annarra félaga að því er varðar samningu samstæðureikninga og/eða ársreikninga.
14)      Í því skyni að auðvelda skoðanaskipti og gera aðildarríkjunum kleift að samræma stöðu sína skal framkvæmdastjórnin tilkynna stýrinefndinni um reikningsskil reglulega um verkefni sem unnið er að, umræðuskjöl, sérstakar skýrslur og drög að stöðlum sem Alþjóðareikningsskilaráðið gefur út og um tæknivinnu sem fylgir í kjölfarið og er í höndum tækninefndar um reikningsskil. Einnig er brýnt að stýrinefndinni um reikningsskil sé snemma tilkynnt um það ef framkvæmdastjórnin hyggst ekki leggja til að alþjóðlegur reikningsskilastaðall verði samþykktur.
15)      Í umfjöllun sinni um, og í nánari skýringum á, afstöðu sem taka skal varðandi hvers kyns skjöl sem Alþjóðareikningsskilaráðið gefur út í tengslum við þróun alþjóðlegu reikningsskilastaðlanna (IFRS og SIC-IFRIC) skal framkvæmdastjórnin taka tillit til þess að mikilvægt er að forðast samkeppni sem er evrópskum félögum, sem starfa á heimsmarkaðnum, í óhag og, að svo miklu leyti sem unnt er, til sjónarmiða fulltrúa í stýrinefndinni um reikningsskil. Framkvæmdastjórnin mun eiga fulltrúa í þeim nefndum sem heyra undir Alþjóðareikningsskilaráðið.
16)      Forsenda fyrir því að styrkja traust fjárfesta á fjármálamörkuðum er að koma á viðeigandi og ströngu kerfi til að framfylgja gildandi reglum. Aðildarríkjum er skylt, skv. 10. gr. sáttmálans, að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að farið sé að alþjóðlegu reikningsskilastöðlunum. Framkvæmdastjórnin hyggst vinna með aðildarríkjunum, einkum á vettvangi samstarfsnefndar evrópskra eftirlitsaðila á verðbréfamarkaði (CESR), að þróun sameiginlegrar stefnu við að framfylgja þessum stöðlum.
17)      Auk þess er nauðsynlegt að gefa aðildarríkjunum færi á að slá beitingu tiltekinna ákvæða á frest til 2007 í tilviki félaga, sem eru skráð í kauphöllum bæði í bandalaginu og á skipulegum mörkuðum í þriðju löndum, sem þegar nota annað safn alþjóðlega viðurkenndra staðla sem grunn fyrir samstæðureikninga sína og einnig fyrir þau félög sem hafa einungis aflað fjár á almennum skuldabréfamarkaði. Engu að síður hefur það úrslitaþýðingu að í síðasta lagi 2007 muni eitt safn alþjóðlegra reikningsskilastaðla, IAS-staðla, gilda um öll félög í bandalaginu sem eru skráð á skipulegum markaði í bandalaginu.
18)      Í því skyni að gera aðildarríkjunum og félögum kleift að koma í framkvæmd nauðsynlegum aðlögunum vegna notkunar alþjóðlegra reikningsstaðla er nauðsynlegt að beita vissum ákvæðum aðeins á árinu 2005. Setja skal viðeigandi ákvæði um það þegar félög beita IAS-stöðlunum í fyrsta sinn eftir gildistöku þessarar reglugerðar. Slík ákvæði skulu samin á alþjóðlegum vettvangi til að tryggja alþjóðlega viðurkenningu á þeim lausnum sem teknar eru upp.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:


1. gr.

Markmið

Markmiðið með þessari reglugerð er að taka upp og beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum í bandalaginu í því augnamiði að samræma fjárhagsupplýsingar, sem félög sem getið er í 4. gr. setja fram, til að tryggja mikið gagnsæi og samanburðarhæfi reikningsskila og þar með skilvirka starfsemi fjármagnsmarkaðar bandalagsins og innri markaðarins.


2. gr.

Skilgreiningar

Í þessari reglugerð merkir „alþjóðlegir reikningsskilastaðlar“ IAS-staðla, IFRS-staðla og túlkanir sem tengjast þeim (SIC-IFRIC-túlkanir), síðari breytingar á þessum stöðlum og túlkanir sem tengjast þeim, ókomna staðla og túlkanir sem tengjast þeim og gefnar eru út eða samþykktar af Alþjóðareikningsskilaráðinu.


3. gr.

Samþykki á alþjóðlegum reikningsskilastöðlum og notkun þeirra

1.     Í samræmi við málsmeðferðina, sem kveðið er á um í 2. mgr. 6. gr., skal framkvæmdastjórnin ákveða notkun alþjóðlegu reikningsskilastaðlanna í bandalaginu.
2.     Einungis er unnt að samþykkja alþjóðlegu reikningsskilastaðlana ef þeir:
—    ganga ekki þvert á meginregluna, sem sett er fram í 3. mgr. 2. gr. tilskipunar 78/660/EBE og í 3. mgr. 16. gr. tilskipunar 83/349/EBE, og þeir þjóna hagsmunum almennings í Evrópu,
—    uppfylla skilyrðin um skiljanleika, mikilvægi, áreiðanleika og samanburðarhæfi sem nauðsynlegt er að sé til staðar í þeim fjárhagsupplýsingum sem þarf til að taka ákvarðanir varðandi efnahag og til að meta hvernig stjórnendum félags tekst til með stjórnun.
3.     Framkvæmdastjórnin skal ákveða, eigi síðar en 31. desember 2002, í samræmi við málsmeðferðina, sem kveðið er á um í 2. mgr. 6. gr., að hve miklu leyti unnt er að nota þá alþjóðlegu reikningsskilastaðla í bandalaginu sem til staðar eru við gildistöku þessarar reglugerðar.
4.     Samþykktir alþjóðlegir reikningsskilastaðlar skulu birtir í heild sinni í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna sem reglugerð framkvæmdastjórnarinnar á öllum opinberum tungumálum bandalagsins.


4. gr.

Samstæðureikningar félaga sem eru skráð í kauphöllum

Fyrir hvert fjárhagsár sem hefst 1. janúar 2005 eða síðar skulu félög, sem lúta lögum aðildarríkis, semja samstæðureikninga sína í samræmi við alþjóðlegu reikningsskilastaðlana sem samþykktir eru í samræmi við málsmeðferðina, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 6. gr., ef heimilt er, á uppgjörsdegi þeirra, að eiga viðskipti með verðbréf þeirra á skipulögðum markaði í einhverju aðildarríki, í skilningi 13. mgr. 1. gr. í tilskipun 93/22/EBE frá 10. maí 1993 um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta ( 9 ).


5. gr.

Val í tengslum við ársreikninga og félög sem ekki eru skráð í kauphöllum

Aðildarríkjunum er heimilt að leyfa eða krefjast þess:
a)      að félögin, sem um getur í 4. gr., semji ársreikninga sína,
b)      að önnur félög en þau sem um getur í 4. gr. semji samstæðureikninga sína og/eða ársreikninga sína,
í samræmi við alþjóðlegu reikningsskilastaðlana sem samþykktir voru í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 6. gr.


6. gr.

Nefndarmeðferð

1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar stýrinefndar um reikningsskil sem nefnist hér á eftir „nefndin“.
2.     Ef vísað er til þessarar málsgreinar skulu 5. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB gilda með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar. Tímabilið, sem mælt er fyrir um í 6. mgr. 5. gr. í ákvörðun 1999/468/EB, skal vera þrír mánuðir.
3.     Nefndin setur sér starfsreglur.


7. gr.

Skýrslur og samræming

1.     Framkvæmdastjórnin skal, með reglulegu millibili, hafa samráð við nefndina um stöðu verkefna Alþjóðareikningsskilaráðsins sem unnið er að og öll skjöl tengd þeim, sem gefin eru út af Alþjóðareikningsskilaráðinu um reikningsskil, í því skyni að samræma afstöðuna til og auðvelda umræður varðandi samþykkt staðla sem gætu átt sér stað í kjölfar þessara verkefna og skjala.
2.     Framkvæmdastjórnin skal skila skýrslu til nefndarinnar tímanlega ef hún hyggst ekki leggja til að staðallinn verði samþykktur.


8. gr.

Tilkynning

Þegar aðildarríki gera ráðstafanir skv. 5. gr. skulu þau tafarlaust tilkynna framkvæmdastjórninni og öðrum aðildarríkjum um það.


9. gr.

Bráðabirgðaákvæði

Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. er aðildarríkjunum heimilt að kveða á um að skilyrði 4. gr. gildi einungis um þau fjárhagsár sem hefjast í janúar 2007 eða síðar gagnvart félögum:
a)      ef skuldabréf þeirra eru eingöngu á skipulegum markaði í hvaða aðildarríki sem er í skilningi 13. mgr. 1. gr. í tilskipun 93/22/EBE, eða
b)      ef verðbréf þeirra eru boðin almenningi í löndum utan bandalagsins og þau hafa, í þeim tilgangi, notað alþjóðlega viðurkennda staðla allt frá fjárhagsári sem hófst áður en þessi reglugerð var birt í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.


10. gr.

Upplýsingar og endurskoðun

Framkvæmdastjórnin skal endurskoða hvernig beitingu þessarar reglugerðar miðar og skila skýrslu um það til Evrópuþingsins og ráðsins fyrir 1. júlí 2007.

11. gr.
Gildistaka

Reglugerð þessi öðlast gildi á þriðja degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Brussel 19. júlí 2002.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
P. COX T. PEDERSEN
forseti. forseti.


4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2005 og skulu gilda fyrir hvert það reikningsár sem hefst frá og með þeim tíma.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Með ályktun sinni 23. febrúar 2004 samþykkti Alþingi að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 37/2003 frá 14. mars 2003, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla.

Forsaga.

    Á fundi sínum í Lissabon 23. og 24. mars 2000 lagði leiðtogaráð Evrópusambandsins áherslu á að brýnt væri að hraða því að innri markaði fyrir fjármálaþjónustu yrði komið á og ákvað að veita frest til ársins 2005 til að koma í framkvæmd aðgerðaáætlun framkvæmdastjórnar ESB í fjármálaþjónustu og hvatti til þess að gerðar yrðu ráðstafanir til að auka samanburðarhæfni reikningsskila félaga sem skráð eru á skipulegum verðbréfamörkuðum innan aðildarríkjanna.
    Framkvæmdastjórn ESB birti 13. júní 2000 skýrslu sína „Stefna ESB í fjárhagsskýrslugerð: Leiðin fram á við“ (e. The EU's Financial Reporting Strategy: The Way Forward). Í henni er lagt til að öllum félögum innan ESB, sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði í aðildarríkjum ESB, verði skylt að gera samstæðureikningsskil sín í samræmi við eitt safn reikningsskilastaðla, þ.e. alþjóðlega reikningsskilastaðla (IAS-staðla, e. International Accounting Standards), í síðasta lagi árið 2005.
    IAS-staðlarnir eru þróaðir af Alþjóðareikningsskilanefndinni (IASC – International Accounting Standards Committee). Nafni nefndarinnar hefur nú verið breytt í Alþjóðareikningsskilaráðið (IASB – International Accounting Standards Board) og ókomnir alþjóðlegir reikningsskilastaðlar verða auðkenndir sem IFRS-staðlar (e. International Financial Reporting Standards) í stað IAS.
    Evrópuþingið og ráðið samþykktu 19. júlí 2002 reglugerð (EB) nr. 1606/2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla. Til þess að bæta starfsemi innri markaðarins er þess krafist samkvæmt reglugerðinni að félög sem eru með verðbréf skráð á skipulegum verðbréfamarkaði í einhverju aðildarríkjanna beiti einu heildstæðu safni alþjóðlegra reikningsskilastaðla við gerð samstæðureikningsskila sinna. Markmiðið með reglugerð (EB) nr. 1606/2002 er að auka samanburðarhæfni reikningsskila innan ESB og þar með gegnsæi á innri markaðnum. Með reglugerðinni er stefnt að því að fjármagnsmarkaðurinn verði skilvirkur og kostnaðarhagkvæmur. Mikilvægur þáttur með tilkomu innri markaðar á sviði fjármálaþjónustu er að vernda hagsmuni fjárfesta og viðhalda trausti á fjármagnsmörkuðum. Með reglugerðinni er jafnframt stuðlað að frjálsum fjármagnsflutningum á innri markaðnum og bættri samkeppnishæfni félaga innan aðildarríkja ESB varðandi fjármagn á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Til þess að fjármagnsmarkaðir innan ESB séu samkeppnishæfir við alþjóðlega fjármagnsmarkaði er mikilvægt að samræma þá reikningsskilastaðla sem notaðir eru innan ESB alþjóðlegum reikningsskilastöðlum sem nota má um heim allan í alþjóðlegum viðskiptum eða við skráningu á alþjóðlegum verðbréfamörkuðum.

Almennt um efni frumvarpsins.

    Með frumvarpi þessu er leidd í lög reglugerð (EB) nr. 1606/2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla. Í samræmi við reglugerðina eru í frumvarpi þessu jafnframt sett fram nánari ákvæði um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla og verður sérstakur kafli í lögum um ársreikninga. Við innleiðingu reglugerðarinnar hér á landi öðlast texti hennar lagagildi í heild sinni. Af bókun I um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn) leiðir að reglugerð (EB) nr. 1606/2002 hefur víðtækara gildissvið en samkvæmt beinu orðalagi hennar. Reglugerðin tekur samkvæmt orðalagi sínu til aðildarríkja ESB, en eftir að hún var felld inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar hinn 14. mars 2003 tekur hún til allra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins (EES).
    Samkvæmt 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002, eins og hún hefur verið aðlöguð, ber félögum sem hafa verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamörkuðum innan EES að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IAS/IFRS) við gerð samstæðureikninga sinna fyrir hvert reikningsár sem hefst 1. janúar 2005 eða síðar. Með alþjóðlegum reikningsskilastöðlum er í þessu sambandi átt við þá reikningsskilastaðla sem IASC hefur þróað og gefið út og þá reikningsskilastaðla sem síðar verða gefnir út af IASB og framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt með formlegum hætti og birt samkvæmt ákvæðum reglugerðar (EB) nr. 1606/2002.
    Að auki inniheldur reglugerð (EB) nr. 1606/2002 ákvæði sem hverju aðildarríki er heimilt að útfæra með ákveðnum hætti í löggjöf sinni. Skv. a-lið 5. gr. reglugerðarinnar er hverju aðildarríki heimilt að leyfa eða krefjast þess að skylda skráðra félaga til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum nái einnig til ársreikningsgerðar félaganna, en grunnskyldan samkvæmt reglugerðinni nær aðeins til samstæðureikninga. Jafnframt er aðildarríkjum heimilt skv. b-lið 5. gr. reglugerðarinnar að leyfa eða krefjast þess að önnur félög, þ.e. félög sem ekki eru með verðbréf skráð á skipulegum verðbréfamarkaði innan EES, beiti stöðlunum við gerð samstæðureikninga og/eða ársreikninga. Í 9. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 er síðan heimild fyrir aðildarríkin til að fresta gildistöku skyldu skv. 4. gr. reglugerðarinnar, um að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureikninga, gagnvart tilteknum félögum, fram til reikningsárs sem hefst í janúar 2007 eða síðar. Annars vegar er þar um að ræða félög sem eingöngu hafa skuldabréf skráð á skipulegum verðbréfamörkuðum innan EES og hins vegar félög sem eru með verðbréf skráð á verðbréfamörkuðum utan EES, og þau hafa í þeim tilgangi notað aðra alþjóðlega viðurkennda staðla sem grunn fyrir samstæðureikninga sína allt frá reikningsári sem hófst fyrir gildistöku reglugerðar (EB) nr. 1606/2002.
    Heimildarákvæði 9. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 er í frumvarpi þessu sett fram með þeim hætti að þeim félögum sem ber að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureikninga sinna skv. 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 og eingöngu hafa skráð skuldabréf á skipulegum verðbréfamarkaði verður ekki gert skylt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IAS/IFRS) við gerð samstæðureikninga sinna fyrr en fyrir hvert reikningsár sem hefst 1. janúar 2007 eða síðar.
    Heimildarákvæði a-liðar 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 er í frumvarpi þessu sett fram með þeim hætti að félögum sem hafa hlutabréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði innan EES verður gert skylt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IAS/ IFRS) við gerð ársreikninga sinna, hvort sem félögin gera samstæðureikninga eða ekki, en skylda til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreikninga hefst þó ekki fyrr en fyrir hvert reikningsár sem hefst 1. janúar 2009 eða síðar. Félögum sem eingöngu hafa önnur verðbréf en hlutabréf skráð verður ekki gert skylt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreikninga sinna, nema í þeim tilfellum sem viðkomandi félög eru móðurfélög og gera þar af leiðandi samstæðureikninga. Meginröksemdin að baki því að heimila félögum að bíða til 2009 með að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreikninga sinna er sú að tillit er tekið til þeirra félaga sem ekki gera samstæðureikninga. Fyrir slík félög kann skylda til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum strax fyrir hvert reikningsár, sem hefst 1. janúar 2005 eða síðar, að vera íþyngjandi og hafa í för með sér aukinn kostnað. Með tilliti til þess að skammur tími er fram að reikningsári 2005 og að um er að ræða lítinn hluta þeirra viðskipta sem eiga sér stað á verðbréfamarkaði hérlendis þykir rétt að veita félögum þessum aukið svigrúm til að aðlaga sig breyttu umhverfi reikningsskila, sem beiting alþjóðlegra reikningsskilastaðla hefur í för með sér.
    Með því að gera kröfu um að félög með skráð hlutabréf, sem eingöngu gera eigin ársreikning, beiti alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IAS/IFRS) við reikningsskil sín er þeim félögum gert að standa jafnfætis félögum sem gera samstæðureikninga, að því er varðar möguleika fjárfesta til að meta fjárhagslega afkomu félagsins og gæti slíkt átt þátt í að gera viðkomandi félag að eftirsóknarverðari fjárfestingarkosti. Lögð er áhersla á það sjónarmið fjárfesta að þeir megi treysta því að félög, sem lúta íslenskum lögum og hafa hlutabréf skráð á skipulegum verðbréfamarkaði innan EES, geri reikningsskil sín eftir sömu reglum. Óæskilegt teljist að fjárfestirinn þurfi að afla sérstakra upplýsinga um uppgjörsaðferðir eða hvort viðkomandi félag geri samstæðureikning eða ekki. Með því að gera kröfu um að sömu reikningsskilaaðferðum skuli beitt við gerð ársreiknings og samstæðureiknings er tryggt ákveðið samræmi í fjárhagslegum upplýsingum og aðstaða fjárfesta er bætt.
    Ljóst er að ákvæði frumvarps þessa um skyldu til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum ganga lengra en ákvæði reglugerðar (EB) nr. 1606/2002. Í því sambandi er rétt að fram komi að tvö ólík sjónarmið voru aðallega uppi hvað þetta varðar. Annars vegar var það sjónarmið að hagsmunir fjárfesta væru í fyrirrúmi, að þeir ættu kröfu á að öll reikningsskil skráðra félaga væru gerð samkvæmt sömu reglum. Hins vegar kom það sjónarmið fram að ekki væri ástæða til að gera ríkari kröfur í lögum en reglugerð (EB) nr. 1606/2002 sjálf gerði. Slíkt gæti leitt til kostnaðarauka fyrir þau félög sem um ræðir, auk þess sem skipulegur verðbréfamarkaður gæti sett sínar eigin reglur varðandi þá aðila sem fá verðbréf sín skráð. Niðurstaðan varð sú að sjónarmið um samræmi í reikningsskilum skráðra félaga og um vernd hagsmuna fjárfesta þótti vega þyngra. Varðandi skyldu félaga til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreikninga sinna er þó ein mikilvæg undantekning; félögum sem ekki gera samstæðureikning og hafa eingöngu önnur verðbréf en hlutabréf skráð verður ekki gert skylt að beita stöðlunum við gerð ársreikninga sinna. Megináherslan er lögð á þau félög sem hafa skráð hlutabréf, enda viðskipti með hlutabréf almennust hér á landi. Ekki þykir rétt að gera sömu kröfur til félaga sem eingöngu hafa aðrar tegundir verðbréfa skráð hvað varðar skyldu til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreikninga.
    Þeim félögum sem ekki hafa verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði innan EES verður ekki gert skylt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IAS/IFRS) við reikningsskil sín, hvorki við gerð samstæðureiknings né ársreiknings, heldur verður þeim heimilt að beita stöðlunum samkvæmt eigin ákvörðun.
    Samkvæmt frumvarpi þessu mun félögum verða skylt og/eða heimilt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IAS/IFRS) við reikningsskil sín með eftirfarandi hætti:

Notkun IAS/IFRS við gerð samstæðureikninga Notkun IAS/IFRS við gerð ársreikninga
Félög með skráð hlutabréf á skipulegum verðbréfamarkaði í einhverju aðildarríkja EES. SKYLDA frá reikningsári sem hefst 1. janúar 2005 eða síðar. SKYLDA frá reikningsári sem hefst 1. janúar 2009 eða síðar.

HEIMILD frá reikningsári sem hefst 1. janúar 2005 eða síðar.
Félög sem eingöngu hafa skráð skuldabréf á skipulegum verðbréfamarkaði í einhverju aðildarríkja EES. SKYLDA frá reikningsári sem hefst 1. janúar 2007 eða síðar.

HEIMILD frá reikningsári sem hefst 1. janúar 2005 eða síðar.
SKYLDA frá reikningsári sem hefst 1. janúar 2009 eða síðar, ef félagið gerir samstæðureikning.

HEIMILD frá reikningsári sem hefst 1. janúar 2005 eða síðar.
Félög sem ekki hafa verðbréf skráð á skipulegum verðbréfamarkaði í einhverju aðildarríkja EES. HEIMILD frá reikningsári sem hefst 1. janúar 2005 eða síðar.

Stöðlunum skal þá beitt bæði við gerð samstæðureiknings og ársreiknings fyrir reikningsár sem hefst 1. janúar 2009 eða síðar.
HEIMILD frá reikningsári sem hefst 1. janúar 2005 eða síðar.

Stöðlunum skal þá beitt bæði við gerð samstæðureiknings og ársreiknings fyrir reikningsár sem hefst 1. janúar 2009 eða síðar.

    Í 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 er upphaf skyldu til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureikninga miðað við „reikningsár sem hefst 1. janúar 2005 eða síðar.“ Í þessu felst að reglan tekur gildi 1. janúar 2005 og tekur til félaga sem gera reikningsskil vegna uppgjörstíma sem hefst eftir það tímamark. Þannig væri skráðu félagi, sem hefði reikningsárið 1. janúar til 31. desember, skylt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureiknings síns fyrir reikningsárið 1. janúar 2005 til 31. desember 2005. Á sama hátt væri skráðu félagi, sem hefði reikningsárið 1. ágúst til 31. júlí, skylt að beita stöðlunum við gerð samstæðureiknings síns fyrir reikningsárið 1. ágúst 2005 til 31. júlí 2006. Lagt er til í frumvarpi þessu að sama orðalag verði notað við tímasetningar í bráðabirgðaákvæði frumvarpsins varðandi útfærslu á heimildarákvæðum 5. og 9. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002. Ber því að leggja sama skilning í ákvæði frumvarps þessa, sem miða við reikningsár sem hefjast „1. janúar 2007 eða síðar“ og „1. janúar 2009 eða síðar“ og 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002. Orðalag þetta er að finna í enskum frumtexta alþjóðlegu reikningsskilastaðlanna og verður einnig að finna í íslenskri þýðingu á þeim. Danir, sem nýverið samþykktu lög er útfæra heimildarákvæði 5. og 9. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002, nota einnig sama orðalag. Um er að ræða sérfræðilega orðnotkun sem hefur unnið sér sess á sviði alþjóðlegra reikningsskila.
    Skylda skv. 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureikninga hvílir á félögum sem lúta lögum aðildarríkis Evrópska efnahagssvæðisins og hafa verðbréf skráð á skipulegum verðbréfamarkaði innan EES. Samkvæmt túlkun framkvæmdastjórnar ESB er hugtakið félag (e. company) í 4. og 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 ekki eingöngu bundið við hlutafélög, heldur tekur hugtakið einnig til sameignarfélaga og annarra félagsforma sem stunda atvinnurekstur í hagnaðarskyni. Í 2. mgr. 48. gr. Rómarsáttmálans (2. mgr. 34. gr. EES-samningsins) segir: „Með félögum eða fyrirtækjum er átt við félög eða fyrirtæki, stofnuð á grundvelli einkamálaréttar eða verslunarréttar, þar með talin samvinnufélög, svo og aðrar lögpersónur sem lúta allsherjarrétti eða einkamálarétti, þó að frátöldum þeim sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni.“ Þessi skilgreining endurspeglast í gildissviði eftirtalinna tilskipana Evrópusambandsins, sem sækja lagastoð sína í g-lið 2. mgr. 44. gr. Rómarsáttmálans, er vísar til skilgreiningar 2. mgr. 48. gr. sáttmálans:
     fjórða tilskipun ráðsins nr. 78/660/EB um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð (félög með takmarkaðri ábyrgð eigenda),
     sjöunda tilskipun nr. 83/349/EB, um samstæðureikningsskil,
     tilskipun nr. 86/635/EB um reikningsskil banka og annarra fjármálastofnana og
     tilskipun nr. 91/674/EB, um reikningsskil vátryggingafélaga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

     Um a-lið (57. gr.).
    Með ákvæði þessu, sem verður 57. gr. laganna, er reglugerð Evrópuráðsins og þingsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, veitt lagagildi hér á landi.
    Samkvæmt 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002, eins og hún hefur verið aðlöguð með upptöku í EES-samninginn, skulu þau félög, sem hafa verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði í einhverju aðildarríkja EES, beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IAS/IFRS) við gerð samstæðureikninga sinna fyrir hvert reikningsár sem hefst 1. janúar 2005 eða síðar. Ákvæði 4. gr. reglugerðarinnar nær aðeins til samstæðureikningsskila félaga með verðbréf skráð á skipulegum verðbréfamarkaði innan EES. Það er ekki skilyrði skv. 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 að félag hafi verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði í aðildarríki, hvers lögum félagið lýtur, heldur er nægjanlegt að félagið hafi verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði í einhverju aðildarríkja EES. Um skyldu félaga til að semja samstæðureikninga fer samkvæmt ákvæðum laga um ársreikninga. Heimild er í 9. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 til að fresta gildistöku þessa ákvæðis gagnvart tilteknum félögum og verður gerð nánari grein fyrir útfærslu á þeirri heimild í athugasemdum við bráðabirgðaákvæði frumvarpsins.
     Um b-lið (58. gr.).
    Í ákvæði þessu, sem verður 58. gr. laganna, er kveðið á um gildissvið þess kafla sem samkvæmt frumvarpi þessu verður nýr VII. kafli í lögum um ársreikninga. Í frumvarpi þessu er kveðið nánar á um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla á grundvelli reglugerðar (EB) nr. 1606/2002, m.a. um útfærslu á heimildarákvæðum 5. og 9. gr reglugerðarinnar og taka ákvæði frumvarpsins aðeins til þeirra félaga sem falla undir gildissvið 1. mgr. 1. gr. laga um ársreikninga.
     Um c-lið (59. gr.).
    Í ákvæði þessu, sem verður 59. gr. laganna, er að finna orðskýringar.
    Í 1. tölul. segir að með verðbréfum sé átt við verðbréf samkvæmt skilgreiningu laga um verðbréfaviðskipti. Lög nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti, byggjast á skilgreiningu tilskipunar 93/22/EB, um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta, á hugtakinu verðbréf (e. securities). Í a-lið 2. tölul. 2. gr. laga nr. 33/2003 er hugtakið verðbréf skilgreint þannig að um sé að ræða hvers konar framseljanleg kröfuréttindi til peningagreiðslu eða ígildis hennar, svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðru en fasteign eða einstökum lausafjármunum, svo sem hlutabréf, skuldabréf, áskriftarréttindi, skiptanleg verðbréf og breytanleg verðbréf. Samkvæmt lögum nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti, falla hins vegar afleiður, hlutdeildarskírteini, peningamarkaðsskjöl og framseljanleg veðréttindi í fasteignum og lausafé utan verðbréfahugtaksins. Sé skylda eða undanþága frá skyldu samkvæmt ákvæðum frumvarps þessa bundin við ákveðnar tegundir verðbréfa er slíkt tekið sérstaklega fram, t.d. í 1. mgr. f-liðar, sem verður 62. gr., varðandi hlutabréf og í 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis varðandi skuldabréf.
    Í 2. tölul. segir að með skipulegum verðbréfamarkaði sé átt við markað með verðbréf samkvæmt skilgreiningu laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða. Skv. 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 er með skipulegum markaði (e. regulated market) átt við skipulegan verðbréfamarkað í skilningi 13. mgr. 1. gr. tilskipunar 93/22/EB, um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta. Er þar um að ræða kauphallir og skipulega tilboðsmarkaði samkvæmt skilgreiningu 2. gr. laga nr. 34/1998, um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, sem byggjast á tilskipun 93/22/EB.
     Um d-lið (60. gr.).
    Í ákvæði þessu, sem verður 60. gr. laganna, er gerð grein fyrir þeim alþjóðlegu reikningsskilastöðlum (IAS/IFRS) sem ber að leggja til grundvallar samkvæmt reglugerð (EB) nr. 1606/2002 og hvernig staðlarnir öðlist gildi.
    Í 1. mgr. er skilgreint hvaða alþjóðlegu reikningsskilastaðla ber að leggja til grundvallar samkvæmt reglugerð (EB) nr. 1606/2002. Skv. 2. gr. reglugerðarinnar er með alþjóðlegum reikningsskilastöðlum átt við IAS-staðla, IFRS-staðla og túlkanir sem tengjast þeim (SIC- IFRIC-túlkanir), síðari breytingar á þessum stöðlum og túlkanir sem tengjast þeim, ókomna staðla og túlkanir sem tengjast þeim og gefnar eru út eða samþykktar af Alþjóðareikningsskilaráðinu (IASB). Skv. 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 eru það eingöngu þeir alþjóðlegu reikningsskilastaðlar (IAS/IFRS) sem framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt, í samræmi við þá málsmeðferð sem fram kemur í 2. mgr. 6. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/ 2002, sem lagðir verða til grundvallar. Í 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 eru talin upp þau skilyrði sem alþjóðlegir reikningsskilastaðlar (IAS/IFRS) þurfa að uppfylla til að hljóta samþykki framkvæmdastjórnar ESB og hvernig samþykktir staðlar öðlast gildi. Almennt má vænta þess að langflestir þeir staðlar sem Alþjóðareikningsskilaráðið (IASB) gefur út eða þær breytingar sem gerðar verða á eldri stöðlum muni uppfylla skilyrði 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002. Að mati Evrópusambandsins er þó nauðsynlegt að viðhafa þessa formlegu málsmeðferð áður en alþjóðlegir reikningsskilastaðlar (IAS/IFRS) verða lagðir til grundvallar samkvæmt reglugerð (EB) nr. 1606/2002, m.a. til að hafa yfirsýn yfir regluverkið og til að fyrirbyggja að staðlar, sem uppfylla ekki þau skilyrði sem talin eru upp í 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002, taki gildi innan ESB (EES eftir upptöku reglugerðarinnar í EES-samninginn). Ákvæði 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 stuðla að því að aðildarríki EES beiti öll samsvarandi stöðlum og gera mögulegt það samræmi í reikningsskilum sem stefnt er að með reglugerð (EB) nr. 1606/2002.
    Í 2. mgr. segir að ráðherra birti í reglugerð þá alþjóðlegu reikningsskilastaðla sem samþykktir hafi verið af framkvæmdastjórn ESB skv. 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002. Í 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 er kveðið á um að samþykktir alþjóðlegir reikningsskilastaðlar skuli birtir í heild sinni í Stjórnartíðindum EB (e. Official Journal) sem reglugerð framkvæmdastjórnar ESB á öllum opinberum tungumálum aðildarríkja ESB. Þar sem kveðið er á um að ráðherra setji reglur um þá staðla sem lagðir verða til grundvallar er átt við að ráðherra veiti viðkomandi gerð Evrópusambandsins gildi hér á landi með setningu reglugerðar. Með reglugerð (EB) nr. 1725/2003 frá 29. september 2003 voru gefnir út og birtir í Stjórnartíðindum EB þeir alþjóðlegu reikningsskilastaðlar sem framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt í samræmi við 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 og lagðir verða til grundvallar 1. janúar 2005. Reglugerð (EB) nr. 1725/2003 mun því verða innleidd hér á landi með setningu reglugerðar.
    Breytingar á samþykktum alþjóðlegum reikningsskilastöðlum og nýir staðlar (IFRS) sem Alþjóðareikningsskilaráðið (IASB) gefur út verða ekki lagðir til grundvallar samkvæmt reglugerð (EB) nr. 1606/2002 fyrr en að undangengnu formlegu samþykki ESB og með birtingu reglugerðar í Stjórnartíðindum EB, þar sem breyttir eða nýir staðlar eru birtir í heild sinni.
     Um e-lið (61. gr.).
    Í ákvæði þessu, sem verður 61. gr. laganna, er kveðið á um skyldu félaga til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureikninga sinna.
    Í 1. mgr. er tekið fram að félögum með skráð verðbréf beri að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureikninga sinna. Rétt þykir að skylda skráðra félaga til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureikninga komi einnig skýrt fram í greininni, þó að hér sé um endurtekningu að ræða á ákvæði 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002. Skv. 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002, eins og hún hefur verið aðlöguð, ber þeim félögum, sem hafa verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði innan EES, að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IAS/IFRS) við gerð samstæðureikninga sinna fyrir hvert reikningsár sem hefst 1. janúar 2005 eða síðar. Skylda til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum skv. 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 tekur til allra félaga sem hafa verðbréf sín skráð og gera samstæðureikning og er óundanþæg, sbr. þó ákvæði 9. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002, sem heimilar aðildarríkjum að fresta skyldu tiltekinna félaga til reikningsárs sem hefst í janúar 2007 eða síðar, og gerð verður grein fyrir að aftan í athugasemdum við 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis frumvarpsins.
    Í 2. mgr. er tekið fram að félögum sem sé skylt skv. 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/ 2002 að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureikninga beri einnig að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreikninga sinna. Gildir þetta bæði um félög með skráð hlutabréf og skráð skuldabréf. Eins og fram kemur í 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis frumvarpsins tekur skylda skráðra félaga til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreikninga ekki gildi fyrr en fyrir hvert reikningsár sem hefst 1. janúar 2009 eða síðar. Félögum verður þó heimilt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreikninga sinna fyrir hvert reikningsár sem hefst 1. janúar 2005 eða síðar á grundvelli g-liðar, sem verður 63. gr. laganna. Skylda til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum einnig við gerð ársreikninga er umfram það sem leiðir beint af reglugerð (EB) nr. 1606/2002, sem tekur samkvæmt efni sínu aðeins til samstæðureikninga. Skv. a-lið 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 er aðildarríkjum þó heimilt að krefjast þess að skráð félög beiti alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IAS/IFRS) við gerð ársreikninga sinna. Að baki 2. mgr. búa sjónarmið um að samræmi skuli vera í heildarreikningsskilum þeirra félaga sem skylt er að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureikninga sinna.
     Um f-lið (62. gr.).
    Í ákvæði þessu, sem verður 62. gr. laganna, er gerð grein fyrir því hvaða félögum verði gert skylt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IAS/IFRS) við gerð ársreikninga sinna.
    Samkvæmt a-lið 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 er aðildarríkjum heimilt að leyfa eða krefjast þess að skráð félög beiti alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreikninga sinna.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að félag sem hefur hlutabréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði innan EES skuli beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IAS/IFRS) við gerð ársreiknings síns, hvort sem félagið gerir samstæðureikning eða ekki. Skylda til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreiknings skv. 1. mgr. tekur til þeirra félaga sem hafa hlutabréf sín skráð. Félögum sem gera samstæðureikninga og hafa eingöngu önnur verðbréf en hlutabréf skráð verður þó einnig gert skylt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreikninga sinna á grundvelli 2. mgr. e-liðar, sem verður 2. mgr. 61. gr. laganna. Af 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis frumvarpsins leiðir að skylda skráðra hlutafélaga til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IAS/IFRS) við gerð ársreikninga tekur gildi fyrir hvert reikningsár sem hefst 1. janúar 2009 eða síðar. Félögum verður þó heimilt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreikninga fyrir hvert reikningsár sem hefst 1. janúar 2005 eða síðar, á grundvelli g-liðar, sem verður 63. gr. laganna.
    Í 2. mgr. er tekið fram að félögum sem ekki gera samstæðureikninga og hafa eingöngu skráð önnur verðbréf en hlutabréf sé ekki skylt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreikninga sinna. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarp þetta verða ekki gerðar sömu kröfu til þessara félaga og þeirra félaga sem hafa hlutabréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði.
     Um g-lið (63. gr.).
    Í ákvæði þessu, sem verður 63. gr. laganna, er kveðið á um heimild félaga til beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð reikningsskila sinna.
    Samkvæmt a- og b-lið 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 er aðildarríki heimilt að kveða á um í löggjöf sinni að félögum skuli heimilt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IAS/IFRS) við gerð reikningsskila sinna.
    Í 1. mgr. er tekið fram að félögum sé heimilt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IAS/IFRS) við gerð reikningsskila sinna. Heimild þessi er veitt þeim félögum sem falla undir gildissvið 1. mgr. 1. gr. laga um ársreikninga og er óháð því hvort félögin geri samstæðureikning eða hvort félögin hafi verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði innan EES. Félögum sem ekki eru með verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði innan EES verður ekki gert skylt samkvæmt frumvarpi þessu að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IAS/IFRS) við gerð reikningsskila sinna, hvorki við gerð samstæðureikninga né ársreikninga. Hér eiga síður við sjónarmið um vernd fjárfesta og þörf innri markaðarins fyrir samræmdar upplýsingar um fjárhagslega afkomu þeirra félaga sem hafa verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði. Skv. 1. mgr. verður félögum sem ekki eru á markaði þó heimilt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IAS/IFRS) samkvæmt eigin ákvörðun. Þess má vænta að það verði fyrst og fremst félög yfir ákveðinni stærð sem starfa á alþjóðlegum mörkuðum sem kjósi að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum, en þó gætu önnur sjónarmið einnig haft þar áhrif. Alþjóðlegt viðskiptaumhverfi kann að gera slíka kröfu til ákveðinna félaga og beiting alþjóðlegra reikningsskilastaðla kann í þeim tilvikum að auka samkeppnishæfni félaganna á alþjóðavísu. Jafnframt má gera ráð fyrir því að félög sem ekki eru á markaði en hyggjast sækja um skráningu á skipulegum verðbréfamarkaði kjósi í einhverjum tilvikum að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum áður en félögin fá verðbréf sín skráð. Að sama skapi gæti skipulegur verðbréfamarkaður sett sínar eigin reglur um skilyrði fyrir skráningu verðbréfa, t.d. að félag hafi beitt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum fyrir eldra reikningsár.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að félag sem kýs að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum skv. 1. mgr. skuli beita þeim bæði við gerð samstæðureiknings og ársreiknings. 2. mgr. tekur samkvæmt efni sínu til móðurfélaga sem gera samstæðureikninga. Að baki 2. mgr. búa sjónarmið um að samræmi skuli vera í heildarreikningsskilum félaga. Af 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis frumvarpsins leiðir að skylda þeirra félaga sem kjósa að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum til að beita stöðlunum einnig við gerð ársreikninga tekur ekki gildi fyrr en fyrir hvert reikningsár sem hefst 1. janúar 2009 eða síðar. Félögum verður þó heimilt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreikninga fyrir hvert reikningsár sem hefst 1. janúar 2005 eða síðar.
     Um h-lið (64. gr.).
    Í ákvæði þessu, sem verður 64. gr. laganna, er gerð nánari grein fyrir beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla (IAS/IFRS) og um skil gagnvart ákvæðum annarra kafla laga um ársreikninga.
    Í 1. mgr. er tekið fram að þeim félögum sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IAS/IFRS), hvort sem er á grundvelli skyldu eða heimildar, beri að fylgja stöðlunum í einu og öllu. Krafa þessi leiðir beint af ákvæðum reglugerðar (EB) nr. 1606/2002. Félög geta því ekki valið að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum að hluta og ákvæðum laga um ársreikninga að því er varðar önnur atriði og þannig hugsanlega fengið út hagrædda mynd af fjárhagslegri afkomu sinni. Gerð er skýr krafa um að félög haldi sig innan einnar og sömu reikningsskilaaðferðar. Þeim félögum sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum ber því að fylgja öllum þeim reglum sem fram koma í stöðlunum. Í 2. málsl. 1. mgr. er kveðið á um að þar sem alþjóðlegir reikningsskilastaðlar (IAS/IFRS), sem framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt, og ákvæði laga um ársreikninga mæla fyrir um sama atriði, þá gangi alþjóðlegu reikningsskilastaðlarnir framar þegar félög beita þeim.
    Í 2. mgr. er tekið fram að ákvæði annarra kafla laga um ársreikninga gildi við gerð reikningsskila samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IAS/IFRS) að því leyti sem ekki er kveðið á um tiltekið atriði í stöðlunum. Núgildandi lög um ársreikninga taka til ýmissa atriða sem alþjóðlegir reikningsskilastaðlar (IAS/IFRS) gera ekki og hafa að geyma ýmsar grunnreglur. Alþjóðlegir reikningsskilastaðlar (IAS/IFRS) hafa t.d. ekki að geyma reglur varðandi skýrslu stjórnar, um endurskoðun reikninga og um birtingu og skil reikningsskila. Að því leyti sem ekki er kveðið á um tiltekið atriði í alþjóðlegu reikningsskilastöðlunum eru ákvæði annarra kafla laga um ársreikninga stöðlunum til fyllingar. Félögum sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við reikningsskil sín ber því áfram að fylgja þeim ákvæðum annarra kafla laga um ársreikninga sem ekki er tekið efnislega á í stöðlunum.
     Um i-lið (65. gr.).
    Í ákvæði þessu, sem verður 65. gr. laganna, er kveðið á um að ársreikningaskrá hafi eftirlit með beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla. Skv. 1. mgr. 78. gr. núgildandi laga nr. 144/ 1994, um ársreikninga, sbr. og 9. gr. reglugerðar nr. 319/2003, um ársreikningaskrá, skil og birtingu ársreikninga, skal ársreikningaskrá gera úrtakskannanir og athuganir á ársreikningum, samstæðureikningum og skýrslum stjórna í því skyni að sannreyna að þessi gögn séu í samræmi við ákvæði laga um ársreikninga. Samkvæmt frumvarpi þessu mun vægi eftirlitshlutverks ársreikningaskrár verða aukið frá því sem verið hefur. Með þessu er lögð áhersla á að heildareftirlit með ársreikningum og samstæðureikningum sé í höndum eins aðila, sem hafi eftirlitshlutverk gagnvart öllum félögum hér á landi sem falla undir gildissvið 1. mgr. 1. gr. laga um ársreikninga, hvort sem um er að ræða félög sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum eða almennum ákvæðum laga um ársreikninga og einnig hvort sem félögin eru skráð á skipulegum verðbréfamarkaði eða ekki. Þessi skipan kallar á breytingar á núverandi skipulagi ársreikningaskrár, þar sem tryggja þarf sjálfstæði eftirlitsaðilans, eins og nánar er gerð grein fyrir hér á eftir.
    Gert er ráð fyrir að endurmat fari fram á framkvæmd eftirlits með ársreikningum og samstæðureikningum félaga. Skipta má eftirlitsþættinum í flokka eftir áherslum. Í því sambandi þarf að huga sérstaklega að þeim félögum sem eru skráð á skipulegum verðbréfamarkaði, en þar þarf að gera ráð fyrir mun ítarlegri eftirlitsframkvæmd en gagnvart óskráðum félögum. Leggja þarf áherslu á að endanlegt fyrirkomulag eftirlitsþáttarins sé hagkvæmt í alla staði.
    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með reikningsskilum fjármálafyrirtækja, en það er einn grunnþátta í starfsemi þess. Huga þarf að verkaskiptingu ársreikningaskrár og Fjármálaeftirlitsins í tilfelli fjármálafyrirtækja, til að forðast skörun. Enn fremur þarf að hafa í huga að Fjármálaeftirlitið og Kauphöll Íslands hafa mikilvægu hlutverki að gegna við eftirlit með gegnsæi á skipulegum verðbréfamarkaði og hagsmunum fjárfesta. Reikningsskil skráðra félaga tengjast því mjög hlutverki Fjármálaeftirlitsins og Kauphallar Íslands.
    Í 16. lið inngangsorða reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 segir að forsenda fyrir því að styrkja traust fjárfesta á fjármálamörkuðum sé að koma á viðeigandi og ströngu eftirlitskerfi til að framfylgja gildandi reglum. Skv. 3. gr. EES-samningsins (10. gr. Rómarsáttmálans) er aðildarríkjum skylt að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að farið sé að alþjóðlegu reikningsskilastöðlunum. Framkvæmdastjórn ESB hyggst vinna með aðildarríkjunum, einkum á vettvangi samstarfsnefndar evrópskra eftirlitsaðila á verðbréfamarkaði, CESR (e. Committee of European Securities Regulators), að þróun sameiginlegrar stefnu við að framfylgja alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IAS/IFRS). CESR er sjálfstæð nefnd, sem stofnuð var á grundvelli ákvörðunar framkvæmdastjórnar ESB hinn 6. júní 2001. Hlutverk CESR er að stuðla að samvinnu og samræmingu meðal eftirlitsaðila á verðbréfamarkaði, veita framkvæmdastjórn ESB sérfræðiaðstoð á sviði fjármálamarkaða og stuðla að skilvirkri upptöku löggjafar ESB á því sviði í aðildarríkjunum. CESR gefur út grunnreglur um innleiðingu og framkvæmd reikningsskilastaðlanna og er Fjármálaeftirlitið, sem er aðili að CESR, skuldbundið til að koma slíkum grunnreglum til framkvæmda hérlendis.
    Í reglugerð (EB) nr. 1606/2002 er talað um þörf fyrir sérstakt eftirlitskerfi, að því er varðar reikningsskil skráðra félaga. CESR gaf út í mars 2003 Staðal nr. 1 um fjárhagslegar upplýsingar – Eftirlit með stöðlum um fjárhagslegar upplýsingar í Evrópu (e. Standard No. 1 on Financial Information – Enforcement of Standards on Financial Information in Europe). Jafnframt birti CESR í október 2003 drög að staðli nr. 2 (e. Draft Standard No. 2 on Financial Information – Coordination of Enforcement Activities), en sá staðall hefur ekki enn verið gefinn út í sinni endanlegu mynd. Hvernig þessu eftirliti verður í framkvæmd háttað, á eftir að útfæra á samræmdan hátt meðal aðildarríkjanna. Það mun þannig verða nánar skilgreint, áður en félögum verður skylt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureikninga sinna skv. 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002, að hvaða marki verði nauðsynlegt að setja sérstakar reglur til að uppfylla kröfur hinna samræmdu staðla CESR um eftirlit með reikningsskilum. Að sama skapi verði þá metið hvernig eftirlitið verði fjármagnað.
    Forsenda þess að virkt eftirlit sé fyrir hendi samkvæmt skilgreiningu CESR er m.a. að eftirlitsaðilinn sé sjálfstæður. Lögð er sérstök áhersla á tiltrú markaðarins og almennings á eftirlitsaðilanum. Samkvæmt þessu er ljóst að gera þarf breytingar á skipulagi ársreikningaskrár, svo þessu markmiði CESR verði náð, og er það forsenda fyrir þeirri skipan sem fram kemur í frumvarpi þessu. Endanlegar tillögur um þær breytingar sem þarf að gera í þessu sambandi liggja ekki fyrir.
    Gert er ráð fyrir að settar verði reglur varðandi ákvarðanir félaga um að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum, umfram það sem leiðir af skyldu samkvæmt reglugerð (EB) nr. 1606/ 2002 og frumvarpi þessu, þannig að þær ákvarðanir verði bundnar ákveðnum tímamörkum. Samkvæmt því verði félög að halda sig við ákveðna reikningsskilaaðferð í tilskilinn lágmarkstíma og verði þeim því ekki heimilt að skipta um reikningsskilaaðferð frá einu ári til annars. Er slíkt í samræmi við það meginsjónarmið sem liggur að baki reglugerð (EB) nr. 1606/2002 og frumvarpi þessu, að sem mest samræmi ríki við gerð reikningsskila innan EES.
    Áhersla er lögð á að hér á landi sé einn aðili, ársreikningaskrá, sem hafi með höndum umsjón með skráningu og eftirliti með skráðum og óskráðum félögum. Slíkt fyrirkomulag er talið einfaldara og hagkvæmara en ef sérstakur eftirlitsaðili fylgdist með reikningsskilum þeirra félaga sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum. Í frumvarpinu er hins vegar ekki kveðið nánar á um framkvæmd eftirlitsins og hvort dagleg framkvæmd eftirlitsins í heild eða að hluta kunni að verða falin öðrum aðilum á ábyrgð ársreikningaskrár. Líklegt má teljast að eftirlit með reikningsskilum kalli á einhverja fjölgun starfsmanna. Þar sem nánari útfærsla á framkvæmd eftirlitsins og ákvörðun um hversu ítarlegt það skuli vera liggur ekki fyrir er á þessu stigi ekki hægt að segja endanlega til um þetta.
    Á þessu stigi er ekki gerð tillaga um viðurlagaheimildir í tengslum við eftirlitið né hvernig eftirlitið verði fjármagnað. CESR hefur lagt ríka áherslu á að eftirlit með reikningsskilum skráðra félaga og með viðskiptum á verðbréfamarkaði almennt verði framkvæmt með samræmdum hætti meðal aðildarríkjanna. Hér á landi verður því unnið að tillögum um framkvæmd eftirlits með hliðsjón af þeirri sameiginlegu stefnu sem mörkuð verður innan EES á næstu missirum og þeim reglum sem settar verða hjá EES-ríkjunum.
     Um j-lið (66. gr.).
    Með ákvæði þessu, sem verður 66. gr. laganna, er ráðherra veitt lagaheimild til að setja nánari reglur um framkvæmd beitingar alþjóðlegra reikningsskilastaðla. Gert er ráð fyrir að nánari útfærsla á framkvæmd ákvæða frumvarps þessa verði ákveðin með reglugerð. Atriði sem þarf að útfæra nánar með reglugerð eru t.d. nánari ákvæði um framkvæmd eftirlits með beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla.

Um 2. gr.

    Með ákvæði þessu, sem verður nýtt bráðabirgðaákvæði laganna, er kveðið á um gildistöku skyldu annarra skráðra félaga en þeirra sem falla beint undir 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum.
    Í 1. mgr. er lögfest sú heimild sem aðildarríkin hafa skv. a-lið 9. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 til að ákveða að félögum, sem eingöngu hafa skuldabréf skráð á skipulegum verðbréfamarkaði innan EES, verði ekki gert skylt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IAS/IFRS) við gerð samstæðureikninga fyrr en fyrir hvert reikningsár sem hefst 1. janúar 2007 eða síðar. Heimild þessi á eingöngu við um skuldabréf. Megináhersla er lögð á að samstæðureikningar þeirra félaga sem hafa hlutabréf skráð á skipulegum verðbréfamarkaði séu gerðir í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla, enda eru markaðsviðskipti almennust með hlutabréf. Sjálfsagt er talið að nýta þetta heimildarákvæði reglugerðarinnar, enda ekki talin þörf á að gera jafnríkar kröfur til þeirra félaga sem eingöngu hafa skráð skuldabréf á skipulegum verðbréfamarkaði. Er þetta í samræmi við sjónarmið annarra Norðurlandaþjóða um reglur á þessu sviði.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að félögum verði ekki skylt skv. VII. kafla að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreikninga sinna fyrr en fyrir hvert reikningsár sem hefst 1. janúar 2009 eða síðar. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarpið þykir rétt að gefa félögunum svigrúm til að aðlaga sig breyttum reikningsskilaaðferðum og er þá fyrst og fremst tekið tillit til þeirra félaga sem ekki gera samstæðureikninga.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Um 4. gr.

    Samkvæmt greininni taka lög þessi gildi 1. janúar 2005 og gilda um reikningsskil fyrir hvert það reikningsár sem hefst frá og með þeim tíma.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 144/1994,
um ársreikninga, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er leidd í lög reglugerð (EB) nr. 1606/2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, IAS/IFRS-staðla. Að auki eru í frumvarpinu sett fram nánari ákvæði um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla og er meðal annars gert ráð fyrir að ársreikningaskrá annist eftirlit með reikningsskilum þeirra félaga sem beita stöðlunum við gerð reikningsskila sinna.
    Á vettvangi ESB hefur stefna um samræmda framkvæmd eftirlits með beitingu staðlanna verið í mótun en er ekki lokið. Meðal atriða sem á eftir að útfæra af ESB er hversu ítarlegt eftirlitið eigi að vera og hver skuli bera kostnað af eftirlitinu. Líklegt má teljast að aukið eftirlitshlutverk ársreikningaskrár kalli á einhverja fjölgun starfsmanna. Þar sem nánari útfærsla á framkvæmd eftirlitsins liggur ekki fyrir er á þessu stigi þó ekki hægt að fullyrða um hversu mikil sú fjölgun þarf að vera. Hugsanlegur kostnaðarauki ætti að rúmast innan núverandi fjárheimilda fjármálaráðuneytisins.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. EB C 154 E, 29.5.2001, bls. 285.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. EB C 260, 17.9.2001, bls. 86.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 12. mars 2002 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB) og ákvörðun ráðsins frá 7. júní 2002.
Neðanmálsgrein: 4
(4)    Stjtíð. EB L 222, 14.8.1978, bls. 11. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/65/EB (Stjtíð. EB L 283, 27.10.2001, bls. 28).
Neðanmálsgrein: 5
(5)    Stjtíð. EB L 193, 18.7.1983, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/65/EB.
Neðanmálsgrein: 6
(6)    Stjtíð. EB L 372, 31.12.1986, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/65/EB.
Neðanmálsgrein: 7
(7)    Stjtíð. EB L 374, 31.12.1991, bls. 7.
Neðanmálsgrein: 8
(8)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 9
(9)    Stjtíð. EB L 141, 11.6.1993, bls. 27. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/64/EB (Stjtíð. EB L 290, 17.11.2000, bls. 27).