Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 785. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1548  —  785. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum.

Frá minni hluta félagsmálanefndar.



    Þegar breytingar eru gerðar á húsnæðislöggjöfinni er grundvallaratriði að þær tryggi betur hag almennra neytenda, þ.e. bæði kaupenda og seljenda húsnæðis. Þær breytingar sem felast í þessu frumvarpi eru endurskipulagning á verðbréfaútgáfu Íbúðalánasjóðs með því að taka upp peningalánakerfi í stað húsbréfa og húsnæðisbréfa. Bankarnir hafa fagnað þeirri breytingu að leggja niður húsbréfakerfið og taka upp peningalán enda gengur breytingin mjög í átt til þess sem bankarnir hafa sjálfir lagt til. Ástæða er til að benda á að hér er verið að taka enn eitt skrefið í átt til einkavæðingar á Íbúðalánasjóði.
    Umsagnaraðilar hafa yfirleitt tekið undir að þessi breyting geti verið jákvæð en tilgangur hennar á að vera að auka hagkvæmni fjármögnunar og skapa grundvöll fyrir trausta verðmyndun á frum- og eftirmarkaði. Til þess er litið að endurskipulagning á skuldabréfaútgáfunni muni stuðla að frekari lækkun á langtímavöxtum í framtíðinni en vextir hafa lækkað verulega að undanförnu. Vísbendingar eru nú um að vextir fari hækkandi og hægt er að draga það í efa að tímasetning þessara kerfisbreytinga sé rétt. Óljóst er hvernig háttað verður áhættugreiningu og áhættustýringu og hafa komið í ljós ýmsir óvissuþættir í því sambandi við meðferð málsins í nefndinni.
    Ein helsta gagnrýni sem fram hefur komið snýr að heimild til uppgreiðslu lána og ljóst að ýmsir telja hana mikinn flöskuháls í þessu nýja kerfi. Ljóst er að vaxtaáhætta Íbúðalánasjóðs eykst verulega eftir því sem meiri líkur eru á uppgreiðslu af hendi lántakenda, sem gæti orðið ef mikið misvægi skapast í vöxtum á nýjum lánum og gömlum.

Óvissa um framkvæmdina.
    Þó minni hlutinn sé jákvæður gagnvart þessari kerfisbreytingu eru ýmis framkvæmdaratriði sem full ástæða er til að gera athugasemdir við og hafa áhyggjur af, auk þess sem gagnrýna verður hversu stuttan tíma nefndin hafði til að fjalla um málið.

Lánskjör og afföll.
    Alls er óvíst hver vaxtaáhættan af nýjum íbúðabréfum verður fyrir Íbúðalánasjóð. Vaxtakjörin ráðast í útboði hverju sinni að viðbættu vaxtaálagi sem skapar mikla óvissu um hver lánskjör kaupenda og seljenda húsnæðis verða og ljóst að vaxtaálag á lántakendur verður meginstýritækið til að verja Íbúðalánasjóð. Vextir geta líka orðið breytilegir frá einu útboði til annars og þar með lánskjörin, sem leitt getur til þess að skekkja verðmyndun á fasteignamarkaði, sérstaklega ef mikill munur verður á vaxtakjörum á sambærilegum íbúðum. Fulltrúi félags fasteignasala sem mætti á fund nefndarinnar tók undir þessi sjónarmið.
    Einnig hefur ljóslega komið fram í umfjöllun nefndarinnar að það er rangt sem haldið hefur verið fram að með upptöku peningalánakerfisins séu afföll úr sögunni. Fram kom í nefndinni að í stað þess að afföllin komi fram strax á markaði komi þau fram í vaxtaálagi. Vextirnir verða einfaldlega hærri með hliðsjón af ávöxtunarkröfunni og dreifast á allan lánstímann. Fram kom hjá forstöðumanni Hagfræðistofnunar HÍ að óvissan sem í dag felst í afföllum verði að óvissu um hvaða vaxtakjör muni bjóðast. Áhættan verði nákvæmlega eins og verið hefur þegar fólk muni standa frammi fyrir því að Íbúðalánasjóður bjóði út skuldabréf í nýja peningalánakerfinu. Í Morgunblaðinu 3. janúar sl. segir forstöðumaðurinn eftirfarandi: „Vaxtakjör verða ákvörðuð í útboði og gagnvart fólki verður áhættan eins varðandi það að vaxtakjörin í hinu nýja kerfi geta breyst eins og afföllin í dag.“
    Afföll sem nú koma fram á markaði, og skiptast oft milli kaupenda og seljenda, munu þannig lenda á lántakanda í nýju kerfi og koma fram í hærri vöxtum og dreifast á allan lánstímann.
    Á undanförnum tveimur árum hafa orðið verulegar vaxtalækkanir og það vekur upp spurningar af hverju þær hafi ekki komið fram svo nokkru nemi í lánskjörum viðbótarlána og húsbréfavöxtum. Athyglisvert er að þótt vextir úr útboði húsnæðisbréfa vegna viðbótarlána, sem eru peningalán, hafi verið 4,76% á sl. ári hafa vextir engu að síður verið 5,6% á árinu 2003. Í nýjasta útboði vegna húsnæðisbréfa voru vaxtakjörin um 4,28% en engu að síður lækkuðu vaxtakjör þessara peningalána einungis úr 5,6% í 5,3%. Þannig er munur á útboðskjörum og vaxtakjörum viðbótarlána tæplega 1%, sem sjóðurinn reiknar sér í vaxtaálag nú, en vaxtaálag á húsbréfum hefur verið 0,35% og kjörin á þessum peningalánum því hærri en á húsbréfum.
    Þetta vekur upp spurningar um hvort vaxtaálagi verði ótæpilega beitt í nýju kerfi til að auka hagnað og eigið fé Íbúðalánasjóðs, en í nýjum útboðum húsnæðisbréfa er krafan 3,73%. Fram hefur einnig komið hjá forsvarsmönnum Íbúðalánasjóðs að ef ekki hefðu verið uppi hugmyndir um að ráðast í þessa kerfisbreytingu hefðu húsbréfavextir lækkað þegar á síðasta ári í 3,5–4%, sennilega nær 4%. Þannig hefðu húsbréfavextir með vaxtaálagi sem nú er 0,35% orðið um 4–4,35% þegar á síðasta ári í stað 5,1% nú. Fram hefur líka komið hjá greiningardeild Landsbankans að fyrirhuguð áform um breytingar á húsnæðislánakerfinu sem legið hafa fyrir frá áramótum hafi leitt til töluverðrar óvissu og haft áhrif á hærri ávöxtunarkröfu húsbréfa en ella og aukið muninn á milli hús- og húsnæðisbréfa.
    Ekki er því hægt að slá því föstu, eins og gert er, að húsnæðislánin verði við þessa breytingu hagkvæmari fyrir lántakendur, ekki síst í ljósi þeirrar óvissu sem er um vaxtaálagsgreiðslur og framkvæmdina á uppgreiðsluákvæðunum. Ljóst er þó að vextir húsbréfa og viðbótarlána hafa verið mun hærri en nauðsyn var á og á lántakendur því lagðir mun hærri vextir en ella. Athyglisvert er í þessu sambandi að eigið fé og hagnaður Íbúðalánasjóðs hefur aukist verulega eða um nálægt 3 milljarða kr. á sl. tveimur árum. Þetta skapar tortryggni um að það verði ekki forgangsverkefni að gæta hagsmuna kaupenda og seljenda húsnæðis við ákvörðun um vaxtakjör í nýju lánakerfi.
    Í áliti nefndar um endurskipulagningu á útgáfumálum Íbúðalánasjóðs frá október 2003 sem fylgir frumvarpinu kemur fram að ekki verði lánað út umfram fjármögnun. Þetta þýðir að ef útboð mistekst gæti það þýtt lengri bið eftir lánum.

Viðbótargjaldtökur á lántakendur – óvissa um nýbyggingarlán.
    Minni hlutinn vekur athygli á því álitaefni hvenær þeir sem sækja um lán til nýbygginga fái lánin greidd út. Í núverandi kerfi er láninu skipt í þrennt. Fyrsti hluti lánsins kemur við fokheldi, annar hlutinn þegar íbúð eða hús er tekið út af byggingarfulltrúa og þriðji hlutinn þegar framkvæmdum er að fullu lokið. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fram hafa komið hafa verið uppi hugmyndir um að greiða lán til nýbygginga í nýju kerfi með eingreiðslu þegar framkvæmdum eru að fullu lokið. Verði það niðurstaðan gæti það verið mjög íþyngjandi fyrir þá sem fá lán til nýbygginga sem á framkvæmdatímanum þyrftu að leggja í verulegan fjármagnskostnað með skammtímalántökum. Minni hlutinn gagnrýnir það harðlega ef svo verður staðið að málum. Þetta bætist við fleiri óvissuþætti um framkvæmdina í þessu nýja kerfi.
    Ástæða er til að vekja athygli á því að til viðbótar núgildandi heimildum er kallað eftir enn frekari gjaldtöku og álagsheimildum. Núgildandi ákvæði kveða á um að heimilt sé að áskilja vaxtaálag til að mæta rekstrarkostnaði og áætluðum útlánatöpum. Þessi álög eru nú 0,35%. Til viðbótar þessu er lagt til að heimilt verði að áskilja vaxtaálag vegna vaxtaáhættu sjóðsins auk álags vegna fjármagnskostnaðar af uppgreiddum lánum. Síðan má ákveða að aukaafborganir og uppgreiðsla veðbréfa verði aðeins heimilar gegn greiðslu þóknunar sem jafni út að hluta eða öllu leyti muninn á uppgreiðsluverði veðbréfs og markaðskjörum sambærilegra íbúðabréfa, eins og kemur fram í 12. gr. frumvarpsins. Þessi grein hefur sætt mikilli gagnrýni aðila eins og ASÍ, BSRB, Samtaka atvinnulífsins, Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja og Seðlabanka Íslands.

Uppgreiðsluákvæðin harðlega gagnrýnd.
    Í umsögn Seðlabankans kemur fram að hætta sjóðsins af uppgreiðslum fyrir tímann geti verið veruleg þar sem fjármögnunin er föst og bundin út líftíma fasteignaveðbréfsins. Nefnir bankinn eftirfarandi sem dæmi um áhrif: Ef fimmtungur af 300 milljarða kr. stofni sem bæri 5,1% vexti væri greiddur upp fyrir tímann og hægt væri að endurfjárfesta þann hluta með 3,5% vöxtum yrði árlegt gat í fjármögnun tæplega 1 milljarður kr. Orðrétt segir síðan í umsögn bankans: „Tæplega verður séð að Íbúðalánasjóður hafi bolmagn til að mæta slíkum hræringum, jafnvel þótt gripið yrði til einhverra aðgerða.“ Full ástæða er til að taka undir þessar viðvaranir Seðlabanka en í umsögninni kemur jafnframt fram eftirfarandi: „Ef upp kæmi sú staða að samkeppni við Íbúðalánasjóð þrýsti niður vöxtum fasteignafjármögnunar gæti sjóðurinn lent í vanda. Lántakendur hans skuldbreyttu í ódýrari lán en skildu sjóðinn eftir með óbrúað gat sem ekki yrði með góðu móti fjármagnað með vaxtahækkun, þar sem hærri vextir sjóðsins leiddu til minni áhuga lántaka og hugsanlegs flótta úr sjóðnum. Ef sjóðurinn færi síðan að í samræmi við ætlan frumvarpsins og gripi til uppgreiðsluálags mundu vaxtakjör leiða til þess að lánveitingar stöðvuðust alfarið.“
    Alþýðusamband Íslands mótmælir 11. og 12. gr. frumvarpsins þar sem heimild sjóðsins til innköllunar húsbéfa er afnumin, en 12. gr. veitir ráðherra heimild til að ákveða greiðslu þóknunar sem jafni út að hluta eða öllu leyti muninn á uppgreiðsluverði ÍLS-veðbréfa og markaðskjörum sambærilegra íbúðabréfa. Í umsögn ASÍ er nefnt sem dæmi að ef vextir lækki almennt á markaði úr t.d. 5,25% í 4,25% eins og gerst hefur sl. mánuði væri ráðherra heimilt að taka upp uppgreiðsluálag sem væri allt að 12,3% af eftirstöðvum lánsins. Það þýðir að uppgreiðsluálag yrði tæplega 1 millj. kr. af 8 millj. kr. láni.
    Hjá fulltrúa ASÍ sem mætti á fund nefndarinnar komu líka fram áhyggjur af víðtækum heimildum ráðherra til gjaldtöku. ASÍ styður frumvarpið að því gefnu að tekið sé tillit til þess að heimilt sé að skuldari geti greitt upp skuldir sínar án sérstakra álaga. Orðrétt segir í umsögn ASÍ. „Það á að vera réttur hvers lántakanda að fá að greiða skuldir sínar hvort heldur er hraðar eða að öllu leyti án þess að verða skattlagður sérstaklega vegna þess. … Að öllu samanlögðu styður ASÍ samþykkt þessa frumvarps að því gefnu að tekið verði tillit til sjónarmiða þess varðandi heimild skuldara til þess að greiða upp skuldir sínar án sérstakra álaga.“ BSRB hefur líka fyrirvara við að ráðherra geti ákveðið aukaþóknun ef lántakandi ákveður að hraða greiðslum eða greiða að fullu ÍLS-veðbréf.
    Samtök banka og verðbréfafyrirtækja leggja áherslu á að þetta ákvæði verði endurskoðað og benda á að tekið verði upp almennt 1–2% uppgreiðslugjald af lánum sem komi fram í skilmálum við lántöku. Telja þeir að 1–2% uppgreiðslugjald muni aldrei dekka alla vaxtaáhættu sjóðsins en með því væri sjóðurinn að skapa sér ákveðna vörn gegn vaxtaáhættu.
    Óljóst er hve mikið muni reyna á uppgreiðsluákvæðið. Það fer eftir því hvort verulegur vaxtamunur verður frá einu útboði til annars og hve mikill vaxtamunur verður almennt á húsnæðislánum. Í 10. gr. frumvarpsins er kveðið á um að í ákvörðun um vaxtakjör útlána verði m.a. gert ráð fyrir álagi vegna uppgreiddra lána og mun vaxtaáhætta sjóðsins vegna uppgreiðslu endurspeglast í vaxtaákvörðun sjóðsins. Því til viðbótar kemur heimild til ráðherra til að áskilja að uppgreiðsla verði aðeins heimil gegn greiðslu þóknunar sem jafni að hluta eða öllu leyti mismun á uppgreiðsluverði ÍLS-veðbréfs og markaðskjörum sambærilegra íbúðabréfa.
    Gert er ráð fyrir að ákvæðinu verði beitt þegar hefðbundnar áhættustýringaraðferðir nægja ekki til að verja sjóðinn. Auk þess sem þessi heimild gæti leitt til mörg hundruð þúsund króna gjaldtöku, eins og áður er getið, gæti heimildin mismunað lántakendum vegna uppgreiðslu. Þeir sem fyrstir nýttu sér uppgreiðslu, áður en gripið yrði til þessara aðgerða, þyrftu ekki að greiða sérstaklega fyrir uppgreiðslu meðan þeir sem á eftir kæmu þyrftu að greiða mjög háar fjárhæðir fyrir uppgreiðslu. Þessi staða gæti hæglega komið upp ef vextir lækkuðu hratt og vaxtakjör íbúðalána yrðu mjög mismunandi, svo og ef samkeppni yrði veruleg í útlánum til húsnæðisfjármögnunar.
    Ástæða er til að halda því til haga að í húsbréfakerfinu hefur nokkuð verið um uppgreiðslur en lántakendur geta nýtt sér að greiða upp húsbréf eða aukaafborganir án gjaldtöku eða vaxtaálags. Hér er því um að ræða breytingu sem er lántakendum verulega í óhag og tekur minni hlutinn undir það sjónarmið ASÍ að það hljóti að vera réttur skuldara að greiða upp skuldir sínar án sérstakrar skattlagningar. Árin 1999–2003 voru uppgreiðslur í húsbréfakerfinu um 18 milljarðar kr. og samtals 34 milljarðar kr. á þessu tímabili ef litið er til húsnæðislánakerfisins í heild.

Erlendir fjárfestar.
    Ein meginröksemdin fyrir þessari kerfisbreytingu er að íbúðabréfin verði aðlaðandi fjárfestingarkostur fyrir erlenda fjárfesta. Kaup erlendra fjárfesta á húsbréfum hafa aukist verulega á síðustu missirum, eftir að flokkar húsbréfa voru stækkaðir og tekin upp rafræn eignaskráning, en talið er að erlendir fjárfestar eigi um 100 milljarða kr. af rúmlega 300 milljarða kr. húsbréfum eða um þriðjung. Í því sambandi er ástæða til að hugleiða hvort kostir íbúðabréfa gagnvart erlendum fjárfestum séu ofmetnir í samanburði við áhuga þeirra á húsbréfum.
    Ljóst er þó að með því að skrá hin nýju íbúðabréf hjá alþjóðlegum greiðslumiðlurum verða bréfin eftirsóknarverðari en ella fyrir erlenda fjárfesta sem leiðir vonandi til lækkunar langtímavaxta. Það er einnig jákvætt að heimilt er að koma á fót aðalmiðlarakerfi og veita verðbréfalán til aðalmiðlara til þess að liðka fyrir verðmyndun á markaði.
    Í svari Seðlabankans við spurningu um hvaða áhrif það hafi ef erlendir fjárfestar fara skyndilega af markaðnum og innleysa bréfin kemur fram að mest af fjárfestingu erlendra aðila hafi til þessa verið varið fyrir gengisbreytingu. Skyndilegur viðsnúningur væri líklegur til að leiða til verulega hærri vaxta og gengi krónunnar gæti fallið í kjölfarið, bæði vegna beinna áhrifa og síðar vegna afleiddra áhrifa. Seðlabankinn segir í svari sínu að erlendir fjárfestar séu kvikari en innlendir og hafi síður aðra hagsmuni að verja í íslensku efnahagslífi en ávöxtun fjárfestingar sinnar í íbúðabréfum. Í þessu sambandi má líka benda á að fram kom hjá Seðlabankanum í október sl. að við breyttar aðstæður gætu erlendir fjárfestar ákveðið fyrirvaralaust að losa á markað mikið magn skuldabréfa á stuttum tíma eins og gerst hefur í öðrum löndum. Þetta gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir innlendan gjaldeyris-, skuldabréfa- og peningamarkað og þar með fjármálalegan og efnahagslegan stöðugleika. Einnig kom fram að aukin kaup erlendra fjárfesta á íslenskum skuldabréfum væru líkleg til að auka heildarskuldbindingar þjóðarbúsins gagnvart útlöndum. Samkvæmt fulltrúum lífeyrissjóðanna sem mættu á fund nefndarinnar hefði það veruleg áhrif t.d. á ávöxtunarkröfuna ef erlendir aðilar færu í einhverjum mæli af markaðnum.

200–300 milljarðar kr. á skiptimarkað.
    Við þessa endurskipulagningu á verðbréfaútgáfu Íbúðalánasjóðs er hugmyndin að flýta fyrir því að íbúðabréfin verði markaðshæf með þeim hætti að eigendum húsbréfa og húsnæðisbréfa verður boðið að skipta þeim fyrir íbúðabréf og að skiptin verði gerð í skiptiútboðum. Fram hefur komið hjá fulltrúum Íbúðalánasjóðs að áformað er að skipta á allt að 300 milljarða kr. húsnæðis- og húsbréfum af 420 milljarða kr. heildarútgáfu þessara bréfa sem nái fram að ganga fyrir 1. júlí nk. Óvíst er hvaða áhrif þetta mun hafa á markaðinn. Lífeyrissjóðirnir hafa verið umsvifamiklir í þessum kaupum en húsbréf eru um 45% af eignasafni sjóðanna. Í umsögn lífeyrissjóðanna kemur fram mikil gagnrýni á þá túlkun Íbúðalánasjóðs á ákvæðum laga að sjóðurinn hafi heimild til aukaútdráttar á húsbréfum. Fulltrúar lífeyrissjóðanna telja aftur á móti að heimild til aukaútdráttar húsbréfa sé bundin þeirri takmörkun að hún sé aðeins heimil til að jafna fjárstreymi hjá stofnuninni vegna aukaafborgana eða uppgreiðslu skuldara fasteignaveðbréfa. Önnur heimild til aukaútdráttar umfram það sé ekki fyrir hendi. Lagaheimild til aukaútdráttar verði því að skýra þannig að aukaafborgun af fasteignaveðbréfi eða uppgreiðslu fasteignaveðbréfs veiti heimild til aukaútdráttar í þeim húsbréfaflokki er umrætt fasteignaveðbréf tilheyrir, en öðrum ekki. Þessari túlkun lífeyrissjóðanna er Íbúðalánasjóður ekki sammála og telur sig hafa heimild til aukaútdráttar. Lýstu fulltrúar lífeyrssjóðanna því í nefndinni að ef stjórnvöld mundu knýja á um aukaútdrátt kæmi til greina að fara dómstólaleiðina. Nefndinni hefur ekki gefist tími til að leggja sjálfstætt mat á hvor túlkunin er rétt í málinu, en ljóst er að ef Íbúðalánasjóður beitir aukaútdrætti í stórum flokkum getur það haft veruleg áhrif á eignasafn lífeyrissjóðanna.
    Í umfjöllun nefndarinnar um málið kom fram að í tryggingafræðilegri úttekt á stöðu sjóðanna um eignastöðu á móti skuldbindingum hefur ekki verið tekið tillit til aukaútdrátta og metur t.d. tryggingafræðingur Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins að ef það verði gert geti það haft veruleg áhrif á endurmat húsbréfa. Í greinargerð greiningardeildar Landsbankans frá febrúar sl. kemur fram að ef lífeyrissjóðirnir lenda í aukaútdrætti að einhverju ráði muni það hafa þær afleiðingar að líftími eignasafna þeirra styttist og þar með mun tryggingafræðileg staða þeirra versna til muna, en fram kemur einnig að það geti haft mikla þýðingu fyrir þjóðarbúið.
    Ekki liggur enn fyrir hvernig staðið verður að þessum skiptum eða hvernig þau verða verðlögð.

Eiginfjárkrafa.
    Þeirri breytingu á húsnæðiskerfinu sem lögð er til í frumvarpinu er fagnað mjög af Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja en þessi endurskipulagning samræmist þeim hugmyndum sem þau hafa lagt fram um breytingu á húsnæðislánakerfinu á þá leið að það verði fært til bankanna. Meðan frumvarpið hefur verið í skoðun hjá nefndinni hafa þessir aðilar kvartað til Eftirlitsstofnunar EFTA vegna Íbúðalánasjóðs sem samtökin telja að raski eðlilegri samkeppni á lánamarkaði.
    Með líkum hætti og krafist er eiginfjárhlutfalls í bönkunum leggur Fjármálaeftirlitið til að settar verði reglur um ákveðið eiginfjárhlutfall fyrir Íbúðalánasjóð. Telur eftirlitið eðlilegt að byggja slíkt hlutfall á sömu reglum og gilda fyrir viðskiptabanka og önnur fjármálafyrirtæki. Ástæða er til að óttast að þessi krafa kalli fyrr en seinna á gjaldtöku eða áhættuálag sem lántakendur verði að standa undir.
    Fjármálaeftirlitið gerir ekki athugasemdir við að viðmið eiginfjárhlutfalls verði fyrst um sinn ákveðin í reglugerð. Ljóst er að þessi krafa um eiginfjárhlutfall með sama hætti og er hjá bönkum ýtir enn undir að verið sé að stefna húsnæðislánunum inn í bankakerfið. Fjármálaeftirlitið leggur áherslu á að skýrt sé kveðið á um það með hverjum það eigi að hafa eftirlit, þ.e. hver verkefni eftirlitsins eigi að vera, og nefnir í því sambandi að kveðið verði á um skilyrði sem miða að traustum og heilbrigðum rekstri, stjórnun, innri endurskoðun, eftirlitskerfi með áhættum og fyrir fjárhagslegan styrkleika eins og kröfu um eigið fé.

Hækkun hámarkslána og bætt staða leigjenda.
    Félagsmálaráðherra lofaði því að í upphafi þessa þings yrði sett fram áætlun um hvernig hrinda ætti í framkvæmd hækkun á lánshlutfalli húsnæðislána í 90%. Var því m.a. lýst að fyrsta skrefið yrði tekið 1. desember 2003 um að hækka lánshlutfallið í 90% sem að fullu ætti að vera komið til framkvæmda á árinu 2007. Ekkert liggur enn fyrir um hvernig staðið verði að framkvæmdinni og skákað í því skjóli að leita hafi þurft umsagnar Eftirlitsstofnunar EFTA. Það er auðvitað hreinn undansláttur í málinu enda telja sérfræðingar engar líkur á að stofnunin mótmæli framgangi málsins. Framsóknarflokkurinn taldi þó enga ástæðu til að kanna álit þeirrar stofnunar á málinu áður en kjósendum var lofað hækkun á lánshlutfalli og hámarksfjárhæðum lána. Ástæða er til að stíga skref í átt til þessarar hækkunar á lánshlutfalli með því að heimila að þeir sem eru að kaupa sér íbúð í fyrsta sinn fái allir hækkun á lánshlutfalli í 90% þegar 1. júlí. Það hefur óveruleg áhrif á stöðu Íbúðalánasjóðs því að stór hluti þeirra sem er að koma sér upp húsnæði í fyrsta sinn fær þegar 90% lán.
    Minni hlutinn gagnrýnir líka að ekkert hefur verið gert til að bæta stöðu leigjenda og tekur undir með ASÍ um að það sé algjört forgangsverkefni hjá stjórnvöldum að endurskoða félagslega íbúðakerfið, sérstaklega með tilliti til þeirrar miklu hækkunar sem orðið hefur á húsaleigu á undanförnum árum og sívaxandi fjölda þeirra sem eru á biðlistum eftir félagslegum leiguíbúðum.

Niðurlag.
    Minni hlutinn átelur hve lítill tími gafst til að ræða málið í nefndinni og fara betur yfir ýmis gagnrýnisatriði sem fram hafa komið og hér hefur verið lýst. Minni hlutinn er jákvæður gagnvart þessari kerfisbreytingu en gagnrýnir að ekki hafi gefist meiri tími til að fara yfir ýmis óvissuatriði varðandi framkvæmdina, bæði sem snúa að kjörum lántakenda, mati á vaxtaáhættu sjóðsins og áhrifum á lána- og peningamarkaðinn. Mikil óvissa ríkir líka um hvaða áhrif þessar breytingar hafa á lánskjörin, t.d. ýmis viðbótargjöld sem lögð verða á lántakendur eins og heimild til stórfelldrar gjaldtöku vegna uppgreiðsluákvæðis í 12. gr. frumvarpsins.
    Minni hlutinn mun styðja þau ákvæði frumvarpsins sem eru til bóta, greiða atkvæði gegn uppgreiðsluákvæði 12. gr. en vísa að öðru leyti ábyrgðinni á framkvæmdinni til stjórnarmeirihlutans.
    Steingrímur J. Sigfússon sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur þessu áliti.

Alþingi, 28. apríl 2004.



Jóhanna Sigurðardóttir,


frsm.


Helgi Hjörvar.


Katrín Júlíusdóttir.



Gunnar Örlygsson.




Fylgiskjal I.


Umsögn Seðlabanka Íslands.
(20. apríl 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.


Umsögn Alþýðusambands Íslands.
(15. apríl 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal III.


Umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða.
(15. apríl 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal IV.


Umsögn Hagfræðistofnunar HÍ.
(20. apríl 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal V.


Umsögn BSRB.
(19. apríl 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal VI.


Umsögn Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja.
(15. apríl 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.