Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 935. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1597  —  935. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Láru Stefánsdóttur um virðisaukaskatt af námsefni á netinu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Er munur á virðisaukaskattsskyldu stafræns námsefnis sem birt er á netinu eingöngu og námsefnis sem gefið er út á bók? Stendur til að samræma þetta tvennt ef munur er á?

    Í VI. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, eru ákvæði um skatthlutfall. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. er almennt skatthluttfall virðisaukaskatts 24,5% en samkvæmt 2. mgr. 14. gr. ber sala á tilteknum vörum og þjónustu 14% virðisaukaskatt og eru undantekningarnar þar taldar tæmandi upp í sjö töluliðum.
    Samkvæmt 6. tölul. 2. mgr. 14. gr. virðisaukaskattslaganna ber sala bóka, jafnt frumsaminna sem þýddra, þ.m.t. hljóðbóka, 14% virðisaukaskatt. Þá kemur fram að með hljóðbók sé átt við lesið efni sem gefið er út á miðli sem nýtist til hlustunar. Samkvæmt þessu bera bækur, þar á meðal námsbækur, 14% virðisaukaskatt.
    Sala á aðgangi að námsefni á netinu til lestrar á gagnvirkum vef ber aftur á móti 24,5% virðisaukaskatt samkvæmt 1. mgr. 14. gr. virðisaukaskattslaganna, enda ljóst að slík sala getur ekki fallið undir neinar þær undantekningar sem tilgreindar eru í 2. mgr. 14. gr. virðisaukaskattslaganna.
    Samkvæmt framansögðu má sjá að allar bækur, þ.m.t. hljóðbækur, bera 14% virðisaukaskatt, en ekki eingöngu námsbækur. Hið sama má segja um efni sem selt er á netinu, þ.e. slík sala ber 24,5% virðisaukaskatt, óháð því hvort slíkt efni telst til námsefnis eður ei.
    Ráðuneytið telur að erfitt gæti verið að samræma þær reglur sem gilda um sölu námsefnis á netinu eingöngu og þess námefnis sem gefið er út í bókarformi. Ástæða þess er sú að í gildandi reglum er ekki gerður greinarmunur á efni seldra bóka, þ.e. sama virðisaukaskattshlutfall gildir óháð efni bókar. Hið sama gildir um sölu efnis á netinu, þ.e. allt selt efni á netinu, þar á meðal námsefni, ber sama virðisaukaskattshlutfall. Ekki verður séð að hægt sé með góðu móti að aðgreina það efni sem selt er á netinu sem námsefni og annað efni. Auk þess yrði eftirlit með slíkri aðgreiningu afar erfitt í framkvæmd.
    Benda má á að ef námsefni er gefið út á geisladiskum eða CD ROM ber að innheimta 24,5% virðisaukaskatt af sölu á disknum. Þetta er óháð því þótt innihald geisladisksins sé það sama og í tiltekinni bók. Það er því formið en ekki innihaldið sem ræður skatthlutfallinu. Undanþágan í 6. tölul. 2. mgr. 14. gr. virðisaukaskattslaganna er afmörkuð við „bók“ í skilningi ákvæðisins.