Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 57. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1658  —  57. mál.




Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um kynningu á málstað Íslands í hvalveiðimálum.

     1.      Hvernig hefur verið háttað kynningu á málstað Íslands í hvalveiðimálum á árunum 1998–2003, hverjir hafa markhóparnir verið og hvaða aðilar hafa skipulagt og annast þetta kynningarstarf?
    Kynning á málstað Íslands varðandi hvalveiðimál hefur farið fram bæði gagnvart stjórnvöldum og fjölmiðlum víða um heiminn. Málið hefur verið tekið upp í viðræðum við stjórnvöld erlendra ríkja við ýmis tækifæri og ýmsir þættir afstöðu Íslands þannig kynntir fyrir bæði stjórnmálamönnum og embættismönnum. Áhersla hefur verið lögð á Bandaríkin í þessu efni. Einnig hefur málstaður Íslands verið kynntur fyrir forráðamönnum ýmissa fyrirtækja sem stunda verslun við Ísland. Þetta hefur verið gert bæði á vettvangi þar sem hvalveiðimál hafa einungis verið eitt umræðuefni af mörgum og þar sem hvalveiðimál hafa verið aðalumræðuefnið.
    Varðandi fjölmiðla, þá hef ég, aðrir ráðherrar og ýmsir embættismenn í sjávarútvegsráðuneytinu og öðrum ráðuneytum kynnt hvalveiðimál, og málefni þeim tengd, fyrir blaðamönnum alls staðar að úr heiminum. Hefur málstað Íslands þannig verið komið á framfæri við almenning ýmissa landa t.d. í gegnum dagblöð, netmiðla, útvarp og sjónvarp. Þessir fjölmiðlar eru ýmist staðbundnir eða nást um allan heim, svo sem CNN, BBC World og BBC World Service. Mikilvægi þessa starfs felst ekki síst í þeirri staðreynd að almenningur í ýmsum löndum er á móti hvalveiðum að miklu leyti vegna ranghugmynda um hvali og ástand hvalastofna.
    Við kynningu á málstað Íslands hefur áhersla verið lögð á nauðsyn þess að horfa á vistkerfi hafsins sem eina heild og að hvalir séu umfram allt hluti af því vistkerfi. Upplýsingum um stöðu ólíkra hvalastofna hefur verið komið á framfæri, en einn útbreiddasti misskilningurinn í alþjóðlegri umræðu um hvalveiðimál er einmitt að allir hvalastofnar séu í útrýmingarhættu og að hvalveiðar ógni því hvalastofnum óháð því hversu stórtækar þær séu. Við höfum reynt eftir fremsta megni að koma sannleikanum að í þessu efni.
    Á því tímabili sem um er spurt hefur áhugi þeirra sem rætt er við oft beinst að einum þætti málsins umfram aðra. Ber í þessu sambandi að nefna deilur varðandi aðild Íslands að Alþjóðahvalveiðiráðinu og hrefnuveiðar í vísindaskyni. Hafa áherslumál varðandi kynningu á málstað Íslands í hvalveiðimálum jafnan tekið mið af þessu en áhersla hefur þó alltaf verið lögð á almenna kynningu á því sjónarmiði að rétt sé að nýta hvalastofna með sjálfbærum hætti rétt eins og aðrar lifandi auðlindir hafsins.
    Skipulagning og framkvæmd kynningarstarfsins hefur verið í höndum starfsmanna sjávarútvegsráðuneytisins. Viðamiklir þættir þessa starfs hafa verið unnir í samvinnu við önnur ráðuneyti, undirstofnanir sjávarútvegsráðuneytisins og utanaðkomandi ráðgjafa.



     2.      Hversu miklir fjármunir hafa runnið til slíkra kynningarmála af fjárlögum á þessu tímabili og hvernig hefur þeim verið varið, t.d. í ráðgjafarfyrirtæki, auglýsingar, almannatengsl, ráðstefnukostnað, ferðakostnað o.s.frv.? Hér er sérstaklega átt við fjárlagalið 05-190-1.33 en jafnframt óskað upplýsinga um greiðslur í þessu skyni af öðrum liðum ráðuneytisins.

Ár Almannatengsl
og ráðgjöf
Ferðakostnaður Risna Laun Annað Samtals
1998 0
1999 0
2000 12.883 12.883
2001 20.869 8.071 186 4.621 33.747
2002 19.262 5.888 515 5.572 185 31.422
2003 16.300 5.613 415 5.825 20 28.173
69.314 19.572 1.116 16.018 205 106.225
    Fjárhæðir eru í þús. kr.

     3.      Hver hafa verið viðbrögð ríkisstjórnarinnar við tilboði Greenpeace-samtakanna frá 5. september 2003 um samvinnu við að auka fjölda ferðamanna sem koma hingað til náttúruskoðunar?
    Í erindi Greenpeace-samtakanna eru íslensk stjórnvöld hvött til að hætta hvalveiðum í vísindaskyni um alla framtíð, samþykkja bann við hvalveiðum í atvinnuskyni og að samþykkja bann við milliríkjaverslun um hvalaafurðir. Ljóst er að í þessu felst hvatning til að ganga gegn meginatriðum í stefnu Íslands í hvalveiðimálum sem birtist ekki síst í ályktun Alþingis um hvalveiðar sem samþykkt var 10. mars 1999. Umrædd hvatning Greenpeace- samtakanna hefur ekki, og getur ekki sem slík, orðið til að breyta stefnu Íslands í hvalveiðimálum.