Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 747. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1693  —  747. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn gesti sem tilgreindir eru í nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003 (þskj. 1690 – 740. mál). Umsagnaraðilar eru í aðalatriðum þeir sömu og þar greinir.
    Málið var unnið samhliða frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003 (740. mál), og frumvarpi til laga um stofnun Landsnets hf. (737. mál), og vísast til efnislegrar umfjöllunar um málið í nefndaráliti iðnaðarnefndar um raforkulagafrumvarpið.
    Með frumvarpi þessu er kveðið á um hvernig staðið verði að jöfnun dreifingarkostnaðar rafmagns og miðast jöfnunin við dreifbýlisgjaldskrársvæði dreifiveitu. Þannig geta gjaldskrársvæði hverrar dreifiveitu verið tvö, þ.e. almennt gjaldskrársvæði og dreifbýlisgjaldskrársvæði. Ákvörðun um það hvort dreifiveitum verður heimilað að hafa sérstaka dreifbýlisgjaldskrá verður í höndum Orkustofnunar sem í samræmi við ákvæði raforkulaga sér um eftirlit með flutningi og dreifingu raforku. Gert er ráð fyrir að allir sem selja inn á kerfið taki þátt í kostnaðinum við það. Nefndin telur það eðlilegt í ljósi þess hve mikilvægt er að kerfinu verði haldið við og að þjónusta og afhendingaröryggi þurfi að vera tryggt.
    Markmiðið með jöfnun kostnaðar við dreifingu raforkunnar er að verðið til almennra notenda verði það sama hvar sem þeir eru á dreifbýlisgjaldskrársvæði veitu. Heimilt verður samkvæmt frumvarpinu að greiða niður raforku í dreifbýli til samræmis við hæstu þéttbýlisgjaldskrá.
    Nefndin leggur eingöngu til orðalagsbreytingar á frumvarpinu. Telur nefndin að kveða þurfi skýrar á um að greiða skuli niður kostnað almennra neytenda á skilgreindum dreifbýlisgjaldskrársvæðum, en samkvæmt frumvarpinu er miðað við að kostnaðurinn verði niðurgreiddur ef kveðið er á um það í fjárlögum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldum

BREYTINGUM:


     1.      Við 3. gr.
                  a.      1. mgr. orðist svo:
                      Greiða skal niður kostnað almennra notenda vegna dreifingar raforku á þeim svæðum þar sem Orkustofnun hefur heimilað sérstakar dreifbýlisgjaldskrár í samræmi við ákvæði 5. mgr. 17. gr. raforkulaga, nr. 65/2003.
                  b.      Í stað orðanna „í kr./kWst“ í 2. mgr. komi: á orkueiningu.
     2.      Orðin „mælda í kWst“ í 2. mgr. 4. gr. falli brott.

Alþingi, 14. maí 2004.



Kristinn H. Gunnarsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Kjartan Ólafsson.



Kristján L. Möller.


Einar Karl Haraldsson.


Sigurjón Þórðarson.



Guðlaugur Þór Þórðarson.


Guðmundur Hallvarðsson.


Björgvin G. Sigurðsson.