Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1003. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1760  —  1003. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 76/2000, um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Flm.: Guðlaugur Þór Þórðarson, Birgir Ármannsson, Guðjón Hjörleifsson,


Kjartan Ólafsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Pétur H. Blöndal, Bjarni Benediktsson,
Sigurður Kári Kristjánsson, Gunnar Birgisson, Jón Gunnarsson, Helgi Hjörvar.


1. gr.

    Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Starfsemi félagsins skal skipt í tvö aðskilin afkomusvið, fasteignasvið og verslunarsvið. Fasteignasvið annast rekstur fasteigna, leigusamninga og rekstrarleyfa en verslunarsvið annast rekstur verslana og þjónustu. Hvort svið skal rekið sem sjálfstæð eining, stjórnunarlega og fjárhagslega. Um viðskipti milli sviðanna gilda almenn viðskiptakjör eins og hjá ótengdum aðilum á markaði.

2. gr.

    Við 14. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar sem orðast svo:
    Stjórn félagsins skal gera áætlanir um uppbyggingu verslunar- og þjónustureksturs sem taki mið af markmiðum laga þessara, hlutverki félagsins og hagsmunum farþega og notenda flugstöðvarinnar.
    Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. skal bjóða út rekstur verslunar og þjónustu í flugstöðinni.
    Um val á verslunarrekendum og þjónustusölum, staðsetningu þeirra, vöruval, þ.m.t. íslenskar afurðir og framleiðsluvörur, rekstur að öðru leyti og önnur samskipti skal m.a. gæta ákvæða samkeppnislaga. Við ákvarðanatöku skal félagið einnig leggja til grundvallar að sem mest fjölbreytni ríki í vöruvali og þjónustu auk þess sem rekstrarhagsmunir flugstöðvarinnar séu tryggðir.

3. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf.

4.     gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með lögum nr. 76/2000, um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar, var ríkisstjórninni heimilað að stofna hlutafélag um rekstur flugstöðvarinnar og leggja henni til flugstöðina sjálfa, ásamt öllu því sem henni fylgdi, eignum, réttindum, skuldum og skuldbindingum. Í 7. gr. laganna kemur fram að tilgangur félagsins sé að annast rekstur, viðhald og uppbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, þ.m.t. rekstur verslana með tollfrjálsar vörur á Keflavíkurflugvelli og hvers konar aðra tengda starfsemi. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 76/2000 kemur m.a. fram að frá því að flugstöðin var tekin í notkun árið 1987 og allt fram til ársins 1998 hafi hún heyrt undir embætti flugvallarstjórans á Keflavíkurflugvelli en frá þeim tíma hafi verið litið á hana sem sérstaka ríkisstofnun í B-hluta ríkisreiknings.
    Síðustu missirin hefur einkaaðilum verið falinn æ meiri verslunar- og þjónusturekstur en áður tíðkaðist í flugstöðinni og er það m.a. liður í að styrkja fjárhag hennar. Þjónusturými hefur verið leigt út og leigugjaldið veltutengt. Tekjur flugstöðvarinnar hafa því aukist og gert henni kleift að standa við skuldbindingar sínar um rekstur og uppbyggingu auk þess sem þjónusta við farþega og vöruval hefur aukist til muna.
    Árið 2002 reis ágreiningur milli leigutaka og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar um útboð og skilmála fyrir leigu þjónusturýmis. Með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 465/2003, Íslenskur markaður hf. gegn Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. og samkeppnisráði, var staðfestur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 26. nóvember 2003 um að samkeppnislög, nr. 8/1993, með síðari breytingum, giltu ekki að öllu leyti um rekstur í flugstöðinni þar sem lög nr. 76/2000 væru sérlög sem gengju framar. Byggðist niðurstaðan fyrst og fremst á því að vegna ákvæða 7. gr. laganna og tilgangs löggjafans með setningu laganna um reksturinn væri það undir Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. komið hvort og að hvaða marki félagið fæli öðrum aðilum að annast þjónustu við farþega í flugstöðinni og að félaginu væri heimilt að ákveða sjálft hvaða húsnæði það notaði undir eigin verslunarrekstur, svo og hvaða vörur eða þjónustu það tæki til sölumeðferðar.
    Flutningsmenn benda á að veruleg breyting hefur orðið á markaðsaðstæðum eftir opnun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Samkeppni á vöru- og þjónustumarkaði er hörð og telja verður að vörusala í flugstöðinni sé í beinni samkeppni við önnur fyrirtæki utan flugstöðvarinnar. Ríkisrekin verslun í beinni samkeppni við einkareknar verslanir er staða sem heyrir fortíðinni til. Flutningsmenn telja hins vegar að í ljósi sérstaks hlutverks Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. við uppbyggingu og rekstur flugstöðvarinnar með eins litlum kostnaði fyrir ríkissjóð og mögulegt er verði að gefa félaginu nokkurt svigrúm til að selja vörur og þjónustu í tekjuöflunarskyni. Hins vegar verður að gefa einkaaðilum tækifæri til að keppa við ríkið á jafnréttisgrundvelli. Samkeppni á að ríkja meðal fyrirtækja innan flugstöðvarinnar og mun aukin samkeppni leiða til aukins vöruúrvals, betri þjónustu og hagstæðara verðs fyrir viðskiptavini flugstöðvarinnar. Hafa verður í huga í þessu sambandi að farþegar geta ekki leitað annað eftir kaupum á vörum og þjónustu eftir að í bygginguna er komið.
    Flutningsmenn leggja því til að lögum um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar verði breytt og félaginu gert að starfa í tveimur aðskildum einingum, fasteignasviði og verslunarsviði. Fjárhagur og stjórnun þessara tveggja sviða skal vera aðskilinn og viðskipti þeirra í milli verða að vera eins og milli ótengdra aðila á markaði.
    Þá er lagt til að rekstur verslunar og þjónustu í flugstöðinni verði boðinn út og félaginu m.a. gert að gæta ákvæða samkeppnislaga við alla ákvarðanatöku um tilhögun vals á bjóðendum, samskipti við þá o.s.frv. Þá er gert ráð fyrir að stjórn félagsins geri áætlanir um uppbyggingu, skipulag þjónusturýma, vöruval, þjónustuframboð o.s.frv. og gefi öðrum tækifæri til að keppa um þjónusturými á jafnréttisgrundvelli. Markmið félagsins verður að meginstefnu til að annast rekstur og uppbyggingu flugstöðvar Leifs Eiríkssonar en fela öðrum aðilum rekstur verslunar og þjónustu. Við val á verslunarrekendum og þjónustusölum verður stjórn félagsins að tryggja sem fjölbreyttast framboð fyrir viðskiptavini flugstöðvarinnar og jafnframt að tekjur af atvinnustarfsemi í flugstöðinni standi undir rekstri og uppbyggingu flugstöðvarinnar og arðsemiskröfum að öðru leyti.