Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 594. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1767  —  594. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristínu L. Árnadóttur og Sigurð Þráinsson frá umhverfisráðuneyti, Snorra Baldursson og Kristin H. Skarphéðinsson frá Náttúrufræðistofnun, Davíð Egilson og Áka Á. Jónsson frá Umhverfisstofnun, Jón Rögnvaldsson frá Vegagerðinni og Ásgeir Gunnar Jónsson, Jónas Helgason og Eirík Snæbjörnsson frá Æðarræktarfélagi Íslands. Frumvarpið var sent til umsagnar og bárust svör frá Breiðafjarðarnefnd, Æðarræktarfélaginu Æðarvéum, Landgræðslu ríkisins, Landvernd, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Bændasamtökum Íslands, Vegagerðinni, Æðarræktarfélagi Snæfellinga, Náttúrufræðistofnun Íslands, Líffræðistofnun Háskólans, Fuglavernd, Æðarræktarfélagi Íslands, Náttúrustofu Vesturlands og Umhverfisstofnun.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem ætlað er að auka vernd arnarins og annarra friðaðra dýra, gera stjórnsýsluleg skil milli Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands skýrari og auka heimildir til að bregðast við stækkandi stofnum villtra dýra sem flust hafa til landsins af manna völdum. Þá eru lagðar til breytingar á framkvæmd hreindýraveiða.
    Tillögur frumvarpsins um ákvæði sem snerta örn og arnarvarp miða að því að bregðast við dómi Hæstaréttar sem kveðinn var upp 3. apríl 2003 í máli nr. 449/2002. Auk þess að leggja til að hugtakinu lífsvæði verði breytt í búsvæði í 1. gr. frumvarpsins er lagt til í b-lið 10. gr. þess að tiltekin ákvæði reglugerðar nr. 252/1996, um friðun tiltekinna villtra fuglategunda, friðlýsingu æðarvarps o.fl., um vernd arnarins verði lögfest. Í 1. efnismgr. er lagt til að óheimilt sé að koma nær arnarhreiðrum á tilteknu tímabili en 500 m nema brýna nauðsyn beri til. Undir brýna nauðsyn falla t.d. lögmætar nytjar sem ekki er hægt að stunda á öðrum árstíma. Í 3. efnismgr. er lagt til að óheimilt verði að hrófla við hreiðrum og hreiðurstæðum arna og svæði sem takmarkist af 100 m hringmáli umhverfis, hvort sem er á eða utan varptíma. Við umfjöllunina var bent á að þessi ákvæði gengju nokkuð langt í að banna umgengni og rask á svæðum í nágrenni arnarhreiðra og hreiðurstæða. Kom fram að ekki væru skýrar undanþáguheimildir í frumvarpinu vegna framkvæmda í almannaþágu, svo sem vegna vegagerðar og viðhalds vega, viðhalds og gerðar raflína, mastra, vatnsleiðslna o.fl. Ákvæðið gæti að óþörfu hamlað gerð brýnna samgöngumannvirkja, t.d. á Vestfjörðum. Að mati nefndarinnar er um réttmæta ábendingu að ræða og leggur hún til breytingu á 1. og 4. efnismgr. til samræmis við framangreint. Ætíð verður þó að hafa í huga við mannvirkjagerð í nágrenni arnarhreiðra að trufla ekki varp fugla að óþörfu og almennt verður að ganga út frá því að hreiðrum sjaldgæfra fuglategunda sé ekki raskað.


Prentað upp.

    Þá komu fram athugasemdir um að nauðsynlegt væri að taka tillit til hagsmuna æðarbænda af nýtingu æðarvarps við setningu laga um verndun arnarins og að eðlilegt væri að hafa samráð við landeigendur á þeim svæðum þar sem arnarvarp er og taka tillit til sjónarmiða þeirra. Telur nefndin fulla ástæðu til þess að það sé gert enda lítur hún svo á að gott samstarf við æðarbændur og aðra landeigendur á þessum svæðum sé ein af forsendum þess að vel takist til við friðun arnarins. Nefndin leggur því til að ákvæði framangreindrar reglugerðar um að heimilt sé að stugga við erni sem heldur til eða sést í friðlýstu æðarvarpi verði tekin upp í frumvarpið. Tillaga nefndarinnar felur það í sér að skýrt er kveðið á um að æðarbændur hafi heimild til að stugga við erni í friðlýstu æðarvarpi. Hins vegar er lagt til að óheimilt sé að stugga við hreiðurerni innan 2 km frá varpstað. Gilda þá ákvæði 2. mgr. 6. gr. laganna sem leggur bann við því að trufla villt dýr. Nefndin leggur einnig til að ráðherra setji reglugerð um þær aðferðir sem heimilt er að nota til að stugga við erni í friðlýstu æðavarpi.
    Auk þess sem að framan greinir leggur nefndin til lagfæringar á orðalagi og tilvísun til lagagreinar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Mörður Árnason og Kolbrún Halldórsdóttir skrifa undir álitið með fyrirvara. Fyrirvari þeirra lýtur að ákvæði 7. gr. frumvarpsins um afnám skilyrðis um veiðikort við minkaveiðar.

Alþingi, 24. maí 2004.



Sigríður A. Þórðardóttir,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Gunnar Birgisson.



Kjartan Ólafsson.


Guðlaugur Þór Þórðarson.


Rannveig Guðmundsdóttir.



Bryndís Hlöðversdóttir.


Mörður Árnason,


með fyrirvara.


Kolbrún Halldórsdóttir,


með fyrirvara.