Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1881, 130. löggjafarþing 1000. mál: framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012).
Lög nr. 61 7. júní 2004.

Lög um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. laganna bætist: nema annað sé tekið fram í samningi milli landbúnaðarráðherra f.h. ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands.

2. gr.

     Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. laganna kemur nýr málsliður: Verði samið um að falla frá ákvörðun um lágmarksverð á mjólk til framleiðenda samkvæmt heimild í 1. mgr. 8. gr. hefur slík ákvörðun ekki áhrif á heimild verðlagsnefndar til heildsöluverðlagningar á mjólkurafurðum.

3. gr.

     51. gr. laganna orðast svo:
     Markmið ákvæða þessa kafla um framleiðslu mjólkur eru:
  1. að almenn starfsskilyrði í framleiðslu og vinnslu mjólkurafurða og stuðningur ríkisins við greinina stuðli að áframhaldandi hagræðingu, bættri samkeppnishæfni og lægra vöruverði,
  2. að fjárhagslegur stuðningur ríkisins við greinina nýtist sem best til að lækka vöruverð til neytenda,
  3. að viðhaldið verði þeim stöðugleika sem náðst hefur á milli framleiðslu og eftirspurnar,
  4. að greinin fái svigrúm til að búa sig undir aukna erlenda samkeppni,
  5. að greinin geti þróast þannig að nauðsynleg kynslóðaskipti geti orðið í hópi mjólkurframleiðenda og unnt sé að nýta framleiðsluaðstöðu með eðlilegum hætti,
  6. að gætt sé sjónarmiða um velferð dýra og heilnæmi afurða.


4. gr.

     2. og 3. mgr. 53. gr. laganna orðast svo:
     Greiðslumark hvers lögbýlis verður við upphaf verðlagsárs 2005–2006 jafnt greiðslumarki þess eins og það verður skráð við lok verðlagsársins 2004–2005, að teknu tilliti til breytinga sem verða á heildargreiðslumarki vegna verðlagsársins 2005–2006, skv. 1. mgr. 52. gr. laganna og að teknu tilliti til aðilaskipta fyrir 20. ágúst 2005. Að þeim tíma liðnum breytist greiðslumark hvers lögbýlis í hlutfalli við breytingar á heildargreiðslumarki, við aðilaskipti með greiðslumark eða vegna tilfærslna á greiðslumarki milli lögbýla samkvæmt reglum sem landbúnaðarráðherra setur.
     Sé greiðslumark ekki nýtt til framleiðslu að neinu leyti í full tvö ár fellur það niður, enda hafi Bændasamtök Íslands tilkynnt eiganda lögbýlis um rétt til sölu eða geymslu greiðslumarksins. Greiðslumark sem þannig er fellt niður bætist við greiðslumark annarra lögbýla í hlutfalli við skráð greiðslumark þeirra. Óski framleiðandi eftir að halda greiðslumarki á lögbýlinu án þess að nýta það til framleiðslu getur hann lagt það inn til geymslu hjá Bændasamtökum Íslands, lengst til 1. september 2012. Greiðslumark sem þannig er geymt tekur breytingum til samræmis við breytingar á heildargreiðslumarki.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 55. gr. laganna:
  1. Í stað 1. málsl. 1. mgr. koma tveir málsliðir, svohljóðandi: Beingreiðsla er stuðningur við framleiðslu og markað fyrir mjólkurafurðir, greiddur úr ríkissjóði til greiðslumarkshafa. Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um útfærslu beingreiðslna og annarra greiðslna til eigenda nautgripa samkvæmt samningi ríkisstjórnar Íslands við Bændasamtök Íslands, sbr. a-lið 30. gr., að fengnum tillögum framkvæmdanefndar búvörusamninga.
  2. 2. mgr. fellur brott.


6. gr.

     Fyrirsögn X. kafla laganna verður: Um framleiðslu og greiðslumark mjólkur 2005–2012.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi að undanskildum 3.–6. gr. þeirra sem öðlast gildi 1. september 2005.

Samþykkt á Alþingi 28. maí 2004.