Aðgerðir til að draga úr offitu barna

Miðvikudaginn 02. febrúar 2005, kl. 13:42:09 (4040)


131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Aðgerðir til að draga úr offitu barna.

326. mál
[13:42]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka heilbrigðisráðherra fyrir að upplýsa okkur um ýmis verkefni, innlend og alþjóðleg, á þessu sviði sem er mjög mikilvægt eins og við vitum öll. Ég held að hreyfingin skipti kannski mestu máli og ég tek undir orð síðasta hv. ræðumanns um það.

Hvað varðar svar við seinni spurningunni sem fjallar í raun og veru um viðbrögð hæstv. heilbrigðisráðherra við þingsályktunartillögu hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur og fleiri þá var það ekki merkilegt hjá heilbrigðisráðherra, ég verð að segja það. Hann sagði nokkurn veginn það að mikilvægt væri að hafa í heiðri þær reglur um markaðssetningu sem giltu gagnvart börnum í matvælaefnum.

Það vill svo til að hér fyrir utan standa tveir bílar frá fyrirtækjum, báðir merktir, annar frönskum kartöflum með fitulagi, hinn Egils gulls-bjór. Ég hef spurt hæstv. heilbrigðisráðherra fram og aftur um afstöðu hans til bjórauglýsinga og áfengisauglýsinga sem eru ólöglegar sem matvælaauglýsingar eru ekki. Svörin hafa alltaf verið þau að hann sé búinn að spyrja Björn Bjarnason og hann segi því miður nei. (Forseti hringir.) Þannig stendur málið milli hæstv. dómsmálaráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra. Það er því nánast ókurteislegt að spyrja heilbrigðisráðherra að því enn einu sinni.