Varðveisla gamalla skipa og báta

Miðvikudaginn 02. febrúar 2005, kl. 14:33:24 (4062)


131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Varðveisla gamalla skipa og báta.

428. mál
[14:33]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vona að hæstv. menntamálaráðherra taki á málinu því það hefur greinilega sofnað. Það er full ástæða til þess að gefa gaum að orðum hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar um úreldingarsjóðinn. Þaðan ættu auðvitað fjármunir að koma til þessara mála. Þeir peningar voru fengnir úr uppsprettu úr sjávarútveginum, sú uppspretta var þannig notuð að hér voru eyðilögð skip hundruðum saman. Evrópusambandið er því ekki að finna upp þá aðferð að nota úreldingarfyrirkomulag til að eyðileggja flotann og við þurfum ekki að sækja vitneskju þangað um þau atriði.

Mér finnst hins vegar að hæstv. ráðherra þurfi að upplýsa hvort hún ætli að fylgja þessum málum fast eftir og sjá til þess að það verði til farvegur til varðveislu gamalla skipa. Íslendingar hafa lifað á sjónum fram að þessu og sá arfur er mikils virði.