Einkamálalög og þjóðlendulög

Fimmtudaginn 03. febrúar 2005, kl. 15:43:43 (4158)


131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[15:43]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að málflutningur hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar hafi verið villandi, þ.e. þegar hann talar um að áfram verði heimild fyrir efnaminni einstaklinga til að fá gjafsókn. Ég get verið alveg sammála hv. þingmanni um að ekki eigi að veita efnamönnum gjafsókn. Þetta mál snýst ekki um það.

En hvar eru mörkin dregin? Hann á væntanlega við að þeir sem ekki fái gjafsókn séu efnameiri. Nú eru mörkin um efnaminni einstaklinga dregin við 10% framteljenda. Þá er hv. þingmaður að segja að 90% framteljenda séu svokallað efnameira fólk. Ég get ekki fallist á það. Ég trúi því heldur ekki að hv. þingmaður sé tilbúinn að skilgreina 90% einstaklinga, framteljenda á Íslandi, sem efnameiri. Við eigum að reyna að temja okkur að tala skýrt. Í rauninni verður einungis gjafsókn í boði áfram fyrir þá bláfátæku.

Hvað varðar þann sparnað sem talað er um þá er verið að skerða almenn réttindi borgaranna í landinu til að sækja rétt sinn gagnvart stjórnvöldum. Og hvað er verið að spara háa upphæð? Það er verið að spara lægri upphæð en sem svarar til einnar þeirrar sendiherrastöðu sem ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins býr til á færibandi.