Einkamálalög og þjóðlendulög

Fimmtudaginn 03. febrúar 2005, kl. 15:45:38 (4159)


131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[15:45]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ekki get ég tekið undir það að málflutningur minn í þessu máli sé villandi, hann er alveg skýr. Það er alveg á tæru hvað ég á við í málflutningi mínum og alveg ljóst hvaða forsendur liggja að baki þessu frumvarpi. Við sjálfstæðismenn höfum verið þeirrar skoðunar að rétt sé að hjálpa þeim sem eru hjálparþurfi, hvort sem það er í félagslega kerfinu, heilbrigðiskerfinu eða á þessu sviði og við það stöndum við. Þetta frumvarp breytir því ekki. Verið er að tryggja að efnaminna fólk geti leitað réttar síns fyrir dómstólum á kostnað ríkisins telji það fólk að á sér sé brotinn réttur. Það er alveg ljóst.

Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir að það er skilgreiningaratriði hvaða þjóðfélagshópar teljist til þess hóps að vera efnaminni. Ef hv. þingmaður hefur hlustað á mig þá sagði ég í ræðu minni áðan að það mat ætti að lúta reglulegri endurskoðun. Ég er ekkert viss um að 79 þús. kr. tekjumarkið á mánuði sé alfa og omega þess mælikvarða, alls ekki. Ég tel að við eigum að hafa þau viðmið til endurskoðunar og endurskoða þau reglulega.

Ég vil síðan mótmæla því sem hv. þingmaður sagði að með frumvarpinu sé verið að skerða rétt manna til að leita réttar síns fyrir dómstólum. Það er ekki verið að gera það. Hvort sem þetta frumvarp verður að lögum eða ekki hafa menn til að mynda stjórnarskrárbundinn rétt til að leita réttar síns fyrir dómstólum hvort sem það er gert gagnvart ríkinu, einstaklingum, fyrirtækjum eða hverjum öðrum aðila sem er. Við erum bara að leggja það til að ríkið greiði málskostnað þeirra efnaminni en ekki annarra.