Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum

Mánudaginn 07. febrúar 2005, kl. 17:48:34 (4230)


131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[17:48]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég vil koma nokkrum atriðum á framfæri varðandi frumvarp til laga um breytingu á lögum um vernd og friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Ég vil fyrst vísa til ágætra ræðna hjá bæði hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og hjá hv. þm. Halldóri Blöndal og get tekið undir flest af því sem þeir hv. þingmenn hafa sagt um þetta mál.

Ég vil þó í fyrsta lagi láta í ljós þá skoðun mína að ég tel að sú ákvörðun sem tekin var um að friða rjúpuna í þrjú ár eigi að standa. Ákvörðunin var umdeild en hún var tekin og sagt að á þeim tíma yrði leitast við að meta bæði áhrif friðunar og ýmis önnur atriði sem lúta að takmarkaðri vernd, friðun eða veiðum á rjúpu, tíminn yrði notaður til þess að endurskoða þau lög og þá umgjörð sem hefur verið. Ég tel að það eigi að standa og eigi ekki að láta leika vafa um að þau þrjú ár standi og eftir það verði framhaldið metið.

Önnur atriði sem ég vil líka minnast á eru að ég tel að nota eigi tækifærið þegar verið er að opna lögin aftur og skoða og fá heimildir, eins og hér hefur verið nefnt, til svæðisbundinna friðana af hinum ýmsu ástæðum, dýralífsástæðum. Rjúpan og aðrir fuglar eru hluti af því dýralífi sem við höfum og er samspil þar á milli, bæði hvað varðar náttúrufarsleg lífsskilyrði og einnig hvað varðar truflun svo sem við veiðar og umferð. Þess vegna styð ég heils hugar þær hugmyndir sem hv. þm. Halldór Blöndal minntist á um staðbundna friðun og tel að skoða eigi þetta mjög nákvæmlega og veita til þess heimildir.

Eins tel ég að skoða eigi það sjónarmið að rjúpan sem og aðrir fuglar hafa nýtingargildi sem hluti af náttúrunni til skoðunar. Við þekkjum að í ferðaþjónustu er farið að gera það að atvinnugrein að skoða fugla við náttúrulegar aðstæður, hvort sem það eru rjúpur, endur eða aðrir fuglar. Þá fer alls ekki saman að á sömu stöðum séu veittar heimildir til þess að skjóta fuglinn.

Þess vegna finnst mér að koma eigi víðtækari heimildir til þess að svæði séu lokuð til veiða. Mér finnst að opna ætti jafnvel möguleika á því að sveitarfélög geti lokað þeim landsvæðum sem þau bera skipulagslega ábyrgð á, að við getum lokað fyrir veiðar á ákveðnum svæðum með tilliti til annarra hlunninda, annarra atvinnuhagsmuna sem geta verið í húfi og líka náttúrufarslegra og líffræðilegra atriða.

Mér finnst að færa eigi hluta af valdinu og ákvarðanatökunni til sveitarfélaganna sem bera hvort eð er skipulagslega ábyrgð á svæðinu, enda stendur í lögunum um vernd, friðun og veiðar í 2. mgr. 6. gr.: „Við skipulag og landnotkun skal tekið tillit til villtra dýra og búsvæða þeirra.“ Hver ber ábyrgð á skipulaginu? Jú, það eru sveitarfélögin. Hver ber ábyrgð á landnotkuninni í viðkomandi sveitarfélagi? Það er jú sveitarfélagið. Þegar komið er út fyrir heimalönd eða lönd einstakra lögbýla finnst mér að íhlutunarvald sveitarfélaganna eigi að vera sterkara. Það er líka ástæða til þess að taka tillit til sjónarmiða skotveiðimanna. Ég er ekki andvígur skotveiðum á fuglum ef það þykir geta gengið gagnvart bæði stofni og lífríkinu, en þá skal því líka stýrt á svæðum þar sem tekið er tillit til allra þeirra sjónarmiða sem ég hef nefnt.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta mörg orð, en vil bara árétta það sem ég sagði áðan. Ég tel að friðun rjúpunnar eigi að fá að standa óumdeilt í þau þrjú ár sem ákveðið var, eftir það sé vandlega skoðað með hvaða hætti það verði tekið upp aftur.

Ég tek eindregið undir svæðisfriðanir af hinum ýmsu ástæðum, eins og hafa verið raknar af ýmsum ræðumönnum hér á undan. Ég vil að tekin séu sterkar inn önnur nýtingarsjónarmið en bara veiðar sem lúta að fuglum, eins og fuglaskoðun og almenn náttúrulífsskoðun sem er orðinn vaxandi atvinnuvegur og alveg sjálfsagt að fái sitt svigrúm.

Ég tel að sveitarfélögin og heimaaðilar eigi að hafa meira um það að segja hvernig farið er að hvað varðar vernd, vörslu og nýtingu lífríkisins og þeirra auðlinda sem felast í fuglum, til annars en að skjóta þá til matar, en að sá möguleiki fá líka sinn sess innan skipulagsins.