Stuðningur við krabbameinssjúklinga

Miðvikudaginn 09. febrúar 2005, kl. 14:41:15 (4398)


131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Stuðningur við krabbameinssjúklinga.

303. mál
[14:41]

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Ég ætla að fá að taka undir með fyrri ræðumönnum hér um að umræðan er þörf og hún er líka nauðsynleg allt þar til við höfum náð þessu máli í höfn.

Mér heyrist það sem út af borðinu standi núna, og flestir eru sammála um að þurfi að bæta úr, sé að konur fái að nýta sjálfsákvörðunarrétt sinn og geti valið á milli húðflutnings og húðflúrs. Það sem örugglega stendur í þeim sem sýsla með þetta er að húðflúrarar — ég held að það sé stéttin sem við erum að tala um hér — er ekki heilbrigðisstétt. En mér hugnast ágætlega þessi leið sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir benti á, að þetta sé bara styrkur sem greiddur er og viðkomandi hafi þá val um það hvort hann nýtir það í húðflutninginn eða húðflúrið. Ég sæi það fyrir mér sem eina leið sem gæti leyst þetta.

Þetta er mikið tilfinningamál fyrir þær konur sem í þessu lenda og ég tel minni áhættu af því að fara í húðflúrsmeðferð en húðflutninginn sem slíkan, minna inngrip, og svo mikið tilfinningamál jafnt og við hármissi að fá tattóveraðar á sig augabrúnir. Mér finnst brýnt að við leitum leiða og lausna í þessu máli.