Fjármálaeftirlitið

Mánudaginn 14. febrúar 2005, kl. 15:19:11 (4509)


131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Fjármálaeftirlitið.

45. mál
[15:19]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Herra forseti. Þingflokkur Frjálslynda flokksins er einhuga í að styðja þetta ágæta mál hv. þm. Jóns Bjarnasonar og Ögmundar Jónassonar, um sjálfstæði og eflingu Fjármálaeftirlitsins.

Þegar litið er yfir sviðið er hægt að koma víða við í þessu sambandi. Auðvitað kallar það á ákveðna tortryggni þegar Fjármálaeftirlitið heyrir undir einstaka ráðherra í jafnlitlu hagkerfi og hér ríkir, svo að ekki sé minnst á fámennið. Á stundum geta einlitir flokkadrættir einkennt stjórnsýslu af slíku tagi en í dag er til að mynda Framsóknarflokkurinn með áberandi ítök á stjórn- og eftirlitssviði varðandi íslenskan fjármálamarkað.

Ég sat nýverið fund þar sem forsvarsmenn atvinnulífsins annars vegar og forsvarsmenn skattyfirvalda og Fjármálaeftirlitsins og fleiri sátu. Þar var almennt farið yfir samskipti aðila á þessu sviði. Það sem kom mér mest á óvart á þeim fundi var að samskipti skattyfirvalda annars vegar og hins vegar atvinnulífsins, sérstaklega banka og fjármálastofnana, eru stirð. Þetta vakti athygli mína vegna þess að við höfum rekið harða fyrirtækjastefnu í landinu um tíu ára skeið og í raun gert skattumhverfi íslenskra fyrirtækja mjög aðlaðandi. Það vakti því furðu mína að sjá svo mikinn stirðleika í samskiptum banka og fjármálafyrirtækja og skattyfirvalda.

Enn fremur var athyglisvert að samskipti atvinnulífsins, banka og fjármálafyrirtækja, annars vegar og svo Fjármálaeftirlitsins hins vegar virðast ansi náin og góð. Ég hefði frekar talið að eftirlitshlutverkið kallaði á stirðleika í samskiptum þar sem hlutverk eftirlitsins er að halda þessum fyrirtækjum á tánum, ef svo má segja og gæta að því að þau haldi sig innan ramma laganna í einu og öllu. Ég vildi því ítreka enn og aftur mikilvægi þess að Fjármálaeftirlitið heyri undir aðra stofnun en eingöngu viðskiptaráðherra eins og raunin er.

Ég tel líka að aðrar stofnanir sýni fram á mikilvægi þess og skynsemi að stofnanir af þessu tagi heyri undir Alþingi. Vitna ég þá til að mynda til Ríkisendurskoðunar sem á afskaplega gott samstarf við fjárlaganefnd. Manni er því því í lófa lagið að ímynda sér að öflug stofnun eins og Fjármálaeftirlitið gæti fært löggjafanum sterkari tilfinningu og meiri vitneskju um það sem er að gerast á markaði með nánari samskiptum og samvinnu á eftirlitssviði.

Við búum í dag við miklar breytingar. Fjármálamarkaðurinn hefur breyst mjög ört á síðustu tíu árum. Þar er mikil dínamík og kraftur. Fyrir þær sakir tel ég sjálfsagt að efla þá stofnun sem Fjármálaeftirlitið er og umfram allt efla sjálfstæði stofnunarinnar.

Ég vil í lokin, herra forseti, ítreka þá afstöðu þingflokks Frjálslynda flokksins að hann er samhuga þeim hv. þm. Jóni Bjarnasyni og Ögmundi Jónassyni í þessu máli og mun styðja málið á þinginu.