Fjármálaeftirlitið

Mánudaginn 14. febrúar 2005, kl. 15:26:52 (4511)


131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Fjármálaeftirlitið.

45. mál
[15:26]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langaði að leggja nokkur orð í belg og fjalla um tillögu þá sem hv. þm. Jón Bjarnason og Ögmundur Jónasson hafa lagt fram. Í stuttu máli gengur tillagan út á að skipa skuli nefnd til þess að gera úttekt á starfsskilyrðum Fjármálaeftirlitsins og stöðu þess gagnvart ráðherra, ríkisstjórn og aðilum á fjármálamarkaði.

Þó að sú tillaga sem hér er til umræðu feli ekki í sér endanlega niðurstöðu um hvar Fjármálaeftirlitinu skuli koma fyrir eða hvernig sjálfstæði þess verði best tryggt þá skil ég tillöguna þannig, virðulegi forseti, að hún gangi út á það að sú nefnd sem hugsanlega kynni að verða skipuð fari yfir alla þá fleti og reyni að velta upp hugmyndum um hvernig megi tryggja að Fjármálaeftirlitið þjóni þeim tilgangi að gera verðbréfamarkað og eftirlit með honum eins trúverðugt og kostur er. Það er talinn vísasti vegurinn til að skapa hér trúverðugan og öflugan verðbréfamarkað sem geri það að verkum að almenningur og smærri fjárfestar séu tilbúnir að koma inn á verðbréfamarkaðinn, ekki síst sökum þess að öflugir aðilar hafi eftirlit með því að þar gangi hlutirnir fyrir sig eins og best verður á kosið.

Ég held, virðulegi forseti, að sú hugmynd sem hér er sett fram sé góðra gjalda verð og full ástæða til þess að skoða hana rækilega. Eins og ég sagði í upphafi míns máls eru ekki gerðar ákveðnar tillögur um á hvern hátt þetta verði gert eða hvar eftirlitinu verði komið fyrir. Í umræðunni og eins í greinargerð hefur verið vakin athygli á því að stofnanir hafi verið færðar undir Alþingi, t.d. Ríkisendurskoðun og umboðsmaður Alþingis. Menn sjá ástæðu til að vekja sérstaka athygli á því og þar með að það kunni að koma til greina að færa stofnunina undir Alþingi. Ég hef ekki skýra afstöðu til þess hvort það er möguleiki en ég er ekki viss um að Alþingi eigi, sem löggjafarsamkunda, að vera með puttana í praktísku atriði eins og að hafa eftirlit með verðbréfamarkaðnum. Ég er ekki viss um það en ég útiloka það ekki heldur.

Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan að ég skil tillöguna þannig að verið sé að reyna að velta við steinum, skoða alla hugsanlega og óhugsanlega möguleika á hvern hátt megi tryggja að eftirlitið takist sem best. Undir þau sjónarmið get ég vissulega tekið og get mjög auðveldlega lýst yfir stuðningi mínum við að málið verði skoðað á þann hátt með það að markmiði að Fjármálaeftirlitið verði eins sjálfstætt eins og kostur er. Draga má þá ályktun af þeirri greinargerð sem fylgir málinu að menn telji að í dag sé Fjármálaeftirlitið ekki eins sjálfstætt og það þyrfti að vera. Ég sé að hv. þingmaður Jón Bjarnason, 1. flutningsmaður málsins, kinkar kolli þannig að ég geri ráð fyrir að það sé rótin að því að tillagan sé flutt.

Ég ætla, virðulegi forseti, ekki að hafa lengra mál um þetta að sinni. Það má kannski segja að eins og tillagan er upp byggð sé fyrst og fremst verið að leggja til að sett verði á fót nefnd til að skoða þetta frekar. Ég get tekið undir það en vil hins vegar minna á að nú er til meðferðar mál í efnahags- og viðskiptanefnd sem lýtur að sumu leyti að þessu efni, þ.e. breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti. Þar er komið inn á hlutverk og starfsemi Fjármálaeftirlitsins þannig að þetta skoðast vissulega þar.

Burt séð frá því er full ástæða fyrir þingið að skoða það sérstaklega á hvern hátt megi tryggja að sá ungi og kannski óþroskaði verðbréfamarkaður sem við höfum komið á fót geti þroskast og eflst á þann hátt að hann fái þann trúverðugleik sem hann þarf að hafa sem gerir það að verkum að fólk verði óhrætt við að setja fjármuni sína inn á þann markað. Ég lít svo á að tilgangurinn með þingsályktunartillögunni sé að styrkja eftirlitið með þetta að markmiði.