Losun koltvísýrings

Fimmtudaginn 17. febrúar 2005, kl. 13:42:53 (4761)


131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Losun koltvísýrings.

[13:42]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Niðurstöður rannsóknar Hlyns Óskarssonar og Jóns Guðmundssonar við Landbúnaðarháskóla Íslands, Keldnaholti, sýna fram á nauðsyn þess að afla upplýsinga í heildstæðan gagnagrunn um landnotkun á Íslandi. Slíkur grunnur gerir okkur kleift að hafa yfirsýn yfir landnotkunina og gæti líka sem slíkur auðveldað skipulagsvinnu sveitarfélaga. Niðurstöðurnar gefa einnig vísbendingar um ástand jarðvegs annars staðar á landinu þótt rannsóknin sé eins og kunnugt er gerð í Borgarfirðinum.

Ég verð þó að segja, frú forseti, að grunni losunarbókhalds vegna Kyoto-skuldbindinganna verður varla breytt í bráð. Til þess þarf bæði ítarlegar rannsóknir og samningavinnu. Umræðan í dag er hins vegar gott tilefni til að brýna ráðherra umhverfismála til að taka bókhaldsvinnuna svokölluðu vegna Kyoto fastari tökum. Það þarf bæði meiri fjármuni og mannafla til að sinna rannsóknum á sviði loftslagsbreytinga af mannavöldum svo sómi sé af og ekki síst til að ná utan um brotakennda þekkingu okkar á gildi bindingarinnar.

Að lokum vil ég segja, frú forseti, að hafi menn ekki hingað til verið sannfærðir um gildi þess að moka ofan í skurði þá sýnir niðurstaða umræddrar rannsóknar svo ekki verður um villst fram á að það hefur enn mikið gildi og mun hafa um ókomna tíð að moka ofan í skurði á Íslandi. Endurheimt votlendis hefur mikið gildi og vaxandi vil ég segja fyrir okkur. Hafi nóbelsskáldið haft rétt fyrir sér 1971 þá eru þau orð enn í fullu gildi í dag.