Fjárþörf Samkeppnisstofnunar

Fimmtudaginn 17. febrúar 2005, kl. 16:26:59 (4806)


131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Fjárþörf Samkeppnisstofnunar.

54. mál
[16:26]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég vil byrja á að lýsa því yfir að ég tek heils hugar undir þingsályktunartillöguna. Mér finnst undarlegt að verða vitni að því að hæstv. viðskiptaráðherra tali um að málið sé úrelt. Það lýsir kannski ákveðnu viðhorfi hennar til samkeppnismála og mér finnst þetta líka lýsa viðhorfi stjórnarflokkanna til samkeppnismála.

Við verðum vitni að því að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson er með villandi málflutning. Hann talar um að fjárframlög hafi aukist um hundruð prósenta og gleymir að taka inn í dæmið að vísitalan hefur hækkað og tekur ekki inn þátt verðbólgunnar. Ef við ætlum að vera með villandi málflutning á öllum sviðum náum við ekki umræðunni áfram. Aðalatriðið hlýtur að vera að ná yfir samkeppnismál. Staðreyndin er sú að ef litið er á málaflokkinn tekur allt of langan tíma að fá úrskurð í málum. Fram kom að meðaltími við að fá úrskurð í samkeppnismálum árið 2004 var 16 mánuðir og að það tekur jafnvel á annað ár að mál fái efnislega meðferð. Það er óþolandi ástand og menn eiga að ræða þetta sem vandamál sem á að leysa, en ekki slá ryki í augu fólks með því að vera með villandi tölur, taka ekki tillit til verðbóta og jafnvel hnýta í starfsfólk fyrir að stöðugildum hafi ekki fjölgað hjá stofnuninni.

Ég þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir að nefna þetta með stöðugildin, að þeim hafi ekki fjölgað. Við skulum líta á hvaða stöðugildum hjá hinu opinbera hefur fjölgað. Ekki hjá Samkeppnisstofnun þó svo að við verðum vitni að því að mál sem skipta almenning mjög miklu, svo sem á tryggingamarkaði, taka upp undir sjö ár. Nei, það er ekki fjölgað þar, heldur fjölgar Framsóknarflokkurinn í utanríkisþjónustunni. Fram kom í svari, ef ég man rétt, að fjöldi sendiherra var um tuttugu og einn árið 1995. Sami fjöldi og sinnir samkeppnismálum, sami fjöldi og sinnir málum sem varða almenning miklu.

Einnig hefur komið fram í umræðunni, og ekki mælti hæstv. ráðherra á móti því, að þessi mál hafa dregist á langinn og að fara þurfi í endurskoðun. Ekki hafði þá fjölgað stöðum hjá Samkeppnisstofnun. Nei, það var ekki svo heldur hafa þeir fjölgað sendiherrum upp í 34.

Þetta sýnir náttúrlega forgangsröðunin og hvað þessir flokkar fara villir vega í því hvernig á að forgangsraða. Auðvitað snúast stjórnmál um forgangsröðun og þarna kemur alveg furðuleg forgangsröðun í ljós.

Við skulum líka gæta að því og ég get tekið undir með hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni þó að ég telji að það hafi verið miður að verða vitni að svona villandi málflutningi í andsvari fyrr í umræðunni, að auðvitað eigum við þá að skoða nýja verkferla og hvernig við eigum að ná árangri. Vissulega kemur til greina að taka verkefni frá stofnuninni og færa jafnvel inn í dómskerfið. En ég frábið mér að verða vitni að svona villandi málflutningi, að vera að þvæla með tölur án þess að taka inn í verðbætur og verðbólgu.

Það getur orðið talsvert mikið og langt ferli sem samkeppnismál fer í gegnum þegar koma upp deilur. Það kemur að ákvörðun kannski Samkeppnisstofnunar, samkeppnisráðs, áfrýjunarnefndar samkeppnismála, síðan kemur til kasta dómskerfisins í héraðsdómi og svo Hæstarétti. Þegar komin er niðurstaða er málið ef til vill orðið úrelt. Það er áhyggjuefni, sérstaklega í ljósi þess að við erum núna að tala um að færa ýmsa þætti og auka jafnvel við verkefni á sviðum samkeppnismála þar sem Samkeppnisstofnun þarf að taka á, t.d. á sviði fjarskipta. Nú er verið að ræða það að selja Símann með grunnnetinu. Ég minni á að þegar ákvörðun var tekin um að selja Símann var í nefndaráliti meiri hlutans tekin ákvörðun um að fjölga um tvö stöðugildi hjá Póst- og fjarskiptastofnun og hjá Samkeppnisstofnun. Það hefur verið svikið af stjórnarflokkunum. En við verðum vitni að því að þeir fjölga sendiherrum í staðinn. Þetta er auðvitað óþolandi.

Einnig ber að halda á lofti þeirri umræðu sem kom fram hér, að tilvonandi breyting að skipta stofnuninni upp sé visst áhyggjuefni. Fram kom að þetta gæti verið möguleg aðferð til að losna við menn sem hafa tekið á málum olíufélaganna. Nefnt var nafn forstjóra Samkeppnisstofnunar. Það er mikið áhyggjuefni ef það er ef til vill markmiðið, að losna við óþæga menn og setja stofnunina undir pólitískt skipaða stjórn. Það gengur ekki. Enda virðist nú stundum sem málflutningur Framsóknarflokksins í ýmsum málum — ég minnist þess að á síðasta þingi var verið að ræða um að skipa nefnd yfir ákveðna stofnun, litla stofnun norður í landi, en þá var það talið úrelt fyrirkomulag.

En nú hér á nýju þingi er enn og aftur búið að snúa við blaðinu. Ég tel að menn eigi að fylgjast vel með þróun mála vegna þess að stjórnarflokkarnir hafa því miður sýnt ítrekað að þeir hafa ekki mjög mikinn áhuga á að sinna þessum málum svo vel sé. Ég minni á að ég spurði hæstv. fjármálaráðherra út í samkeppnismál á fjarskiptamarkaði. Svörin voru því miður mjög sorgleg, það var snúið út úr. Ég tel að ef menn ætla að koma með frumvörp um samkeppnismál verði þeir að sýna að þeir meini eitthvað með því, m.a. í svörum hér á þingi.