Afdrif laxa í sjó

Mánudaginn 21. febrúar 2005, kl. 16:20:54 (4843)


131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Afdrif laxa í sjó.

58. mál
[16:20]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Endurskoðunin er í fullum gangi, en ég hygg að hv. þingmenn viti að sá maður sem stýrði málinu er fallinn frá, Gaukur Jörundsson heitinn. Kannski hefur það tafið, en hann var auðvitað með málið á mikilli ferð sem formaður nefndar sem hefur farið yfir þessi mál. Hann var því búinn að skila og vinna að ákveðnum hlutum málsins. Ég hef nú skipað tvo aðra menn í stað Gauks Jörundssonar til þess að sinna endurskoðunarstarfinu áfram. Það er nú á fullri ferð og heildarendurskoðunin getur komið til þingsins að ég vona strax næsta haust, eins og áður sagði.

Hvað líður málinu frá því í fyrra hef ég kosið, þó ég taki undir að ég vona í lengstu lög að Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, stöðvi ekki mál í þinginu löngu eftir að hann er hættur hér. Ég vona að einhverjar nefndir láti hann ekki stöðva góð frumvörp sem hafa mikinn tilgang. Ég sagði í ræðu minni áðan að ég vorkenni Landsvirkjun ekki þó hún verði af virkjanagróðanum að láta lítil 3 prómill til fiskræktarinnar í landinu í staðinn fyrir það sem virkjað er í ám og vötnum. (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Ég var ekki að guma af neinum afrekum. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson kemur stundum dálítið snúðugur að umræðunni. Ég var fyrst og fremst að skýra frá staðreyndum en ekki að guma, ég sagði frá því sem við vinnum að með Veiðimálastofnun og hvað landbúnaðarráðuneytið er að fást við í þessum efnum.