Verndaráætlun fyrir svæði sem eru ósýkt af sauðfjárriðu

Mánudaginn 21. febrúar 2005, kl. 18:33:16 (4873)


131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Verndaráætlun fyrir svæði sem eru ósýkt af sauðfjárriðu.

61. mál
[18:33]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég stend upp til að taka undir nokkra hluti í máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar. Hv. þingmaður sagði að hann væri að flytja málið til að vekja athygli á því. Ég held að það sé einmitt mjög nauðsynlegt og mjög gott fyrir okkur að skoða þessi mál enn frekar. Það er ágætt að upplýsa það að á fundi hv. landbúnaðarnefndar í fyrramálið á einmitt að fjalla um riðu og við munum fá þangað gesti og fara yfir þessi mál og var ágætt að heyra það sem hv. þm. Jóhann Ársælsson fór yfir.

Ég vil sérstaklega taka undir áhyggjur er varða sláturhúsin. Þeim hefur fækkað mikið og t.d. á mínu svæði, Austurlandi, er fátt um fína drætti í þessum málum og menn hafa auðvitað áhyggjur af þessu. Það má kannski deila um fjölda sláturhúsanna en ég held að flestir geti tekið undir að dreifingin er frekar óheppileg, án þess að maður sé nokkuð að deila á hvernig sláturhúsin eru því þau eru mjög fín og það er metnaðarfullt starf sem þar fer fram. En það er alveg ljóst að flytja þarf gripina langar leiðir og t.d. einangrast Fjallalamb á Kópaskeri þó nokkuð mikið út af sóttvarnarlínum. Ég held því að það sé mjög mikilvægt að fara yfir þessi mál og þakka hv. þingmanni fyrir að flytja þingsályktunartillöguna.