Meðferð Darfúr-málsins fyrir Alþjóðasakamáladómstólnum

Miðvikudaginn 23. febrúar 2005, kl. 12:31:30 (4970)


131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Meðferð Darfúr-málsins fyrir Alþjóðasakamáladómstólnum.

511. mál
[12:31]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra svörin. Ég verð að segja eins og er að ég hefði kosið að hæstv. utanríkisráðherra kvæði aðeins fastar að orði vegna þess að auðvitað er það rétt að skilvirkasta leiðin til að þeir sem grunaðir eru um að hafa framið glæpi gegn mannkyni og stríðsglæpi svari til saka er að þeir séu dregnir fyrir dóm í Haag. Það þýðir að það er hægt að hefja það ferli samstundis, sama dag og það er ákveðið af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Eins og við vitum eru uppi hugmyndir um það, sérstaklega hjá Bandaríkjastjórn, að það verði ekki gert heldur verði stofnaður jafnvel sérstakur stríðsglæpadómstóll. Við vitum öll og þekkjum öll ástæður þess. Þær eru þær að Bandaríkjastjórn er ekki aðili að Alþjóðlega sakamáladómstólnum í Haag og vill helst ekki að mál fari þangað.

Hæstv. utanríkisráðherra talaði um sveigjanleika við að finna lausn í þessu máli. Ég vona að sá sveigjanleiki felist ekki í því að hæstv. ríkisstjórn Íslands styðji þá fyrirætlan Bandaríkjastjórnar að reyna að koma í veg fyrir að þeir sem grunaðir eru um stríðsglæpi í Darfúr-héraði, og þar hefur verið nafngreindur 51 maður samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna, svari til saka fyrir Alþjóðlega sakamáladómstólnum í Haag.

Það er auðvitað mjög mikilvægt að Íslendingar standi vörð um þær alþjóðastofnanir sem við erum aðilar að og tökum þátt í. Það felst m.a. í því að styðja það að þær taki fyrir mál af þessu tagi.

Því má einnig bæta við í lokin, frú forseti, að þetta er líklega nokkuð dæmigert viðfangsefni í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og varpar ljósi á það, ef Íslendingar skyldu einhvern tíma skjóta þar inn fæti, við hvað þarf að eiga.