Meðferð Darfúr-málsins fyrir Alþjóðasakamáladómstólnum

Miðvikudaginn 23. febrúar 2005, kl. 12:33:42 (4971)


131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Meðferð Darfúr-málsins fyrir Alþjóðasakamáladómstólnum.

511. mál
[12:33]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi erum við þeirrar skoðunar, enda aðilar að þeim dómstóli, að skilvirkasta leiðin væri að sá dómstóll tæki þetta mál að sér. Það er enginn vafi að það væri einfaldast og skilvirkast. Það eru reyndar ekki eingöngu Bandaríkjamenn sem hafa fyrirvara í þeim efnum. Kína gerir það einnig og þar erum við komin með tvö ríki sem hafa neitunarvald í öryggisráðinu. Það getur verið ágætt að berja sér á brjóst og segja: Við hvikum ekki frá einu eða neinu, þá gerist kannski heldur hvorki eitt né neitt.

Auðvitað verða menn á einhverju stigi að vega það og meta hvort best sé að halda sig við það að þetta gangi til Alþjóðlega sakamáladómstólsins og láti svo skeika að sköpuðu hvort þessi tvö stórveldi beiti þar neitunarvaldi sínu eða hafi þann sveigjanleika til að bera að segja: Meginmarkmiðið hlýtur þó eftir allt saman að vera að sitja ekki fastur í stofnanahugsun heldur þeirri að árangri verði náð, að hinir grunuðu verði dregnir fyrir rétt, rétt sem treysta megi að fari málefnalega með það vald sem honum er fengið fremur en að málið dagi uppi vegna þess að menn nái ekki árangri vegna ágreinings í öryggisráðinu.

Það er þetta sem ég var að segja. Stefna okkar er alveg klár. Við verðum að átta okkur á þessum veruleika. Það eru ekki bara Bandaríkjamenn, og væri þó alveg yfrið nóg í öryggisráðinu, heldur einnig Kína. Eftir því sem ég skil málið er Rússland, sem er ekki aðili að þessum dómstól, því hins vegar fylgjandi að það megi láta það mál ganga til dómstólsins að þessu sinni. Þetta er vandinn í hnotskurn.