Afnám laga um Tækniháskóla Íslands

Fimmtudaginn 24. febrúar 2005, kl. 16:09:29 (5134)


131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[16:09]

Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hafði í fyrri helmingi þessarar 2. umr. haldið þá ræðu sem ég hafði hugsað mér að flytja í þessu máli en ég treysti því að hæstv. menntamálaráðherra sé einhvers staðar hér viðstödd til að svara spurningum sem ég hef til að leggja fyrir hana.

(Forseti (BÁ): Hæstv. menntamálaráðherra er í húsinu og forseti mun gera henni viðvart um að hv. þingmaður óski nærveru hennar.)

Mjög fínt.

Við ræðum frumvarp til laga um afnám laga um Tækniháskóla Íslands. Ég hef gert grein fyrir meginsjónarmiðum mínum á nefndaráliti 2. minni hluta menntamálanefndar og í ræðu sem ég hélt við fyrri helming þessarar umræðu eins og ég gat um. En eftir standa samt nokkrir punktar sem mér finnst nauðsynlegt að fá hæstv. menntamálaráðherra til að tjá sig frekar um áður en 2. umr. um málið lýkur.

Í ræðu minni fyrir skemmstu hélt ég því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hefði það á stefnuskrá sinni að svelta ríkisstofnanir inn í einkavæðingu. Ég hafði það fyrir mér í því að Tækniháskóli Íslands, sem áður var Tækniskóli Íslands, hafi í gegnum árin verið hornreka í þessu kerfi, það hafi verið farið illa með hann, hann hafi lent á milli stafs og hurðar aftur og aftur. Ævinlega hafi ríkt óvissa um framtíð skólans og þegar svo er komið að búið er að koma honum samkvæmt lögum á háskólastig eigi ekki einu sinni með því að tryggja framtíð hans, þá verða menn örvæntingarfullir og samþykkja hvaða breytingar sem er. Það er allt betra en ríkjandi ástand. Ég notaði því drjúgan ræðutíma minn í fyrri viku til að gagnrýna ráðherra Sjálfstæðisflokksins, menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, hvað þetta varðar. Ég hef svo sem gagnrýnt þessi mál áður, að ekki hafi verið staðið nægilega vel við bakið á þessum skóla. Ég vil undirstrika það í upphafi máls míns, að ég tel að hér sé verið að svelta skólann inn á braut sem hann hefði kannski aldrei og alls ekki viljað fara. Þá er ég að tala um starfsfólk og nemendur skólans.

Ég hef líka gert talsvert mál úr því að ekki hafi verið fullreynt með sameiningu Tækniháskólans og Háskóla Íslands. Ég vil fá í því sambandi skoðanaskipti við hæstv. menntamálaráðherra og máli mínu til stuðnings mun ég vitna í umsögn deildarforseta verkfræðideildar Háskóla Íslands, Sigurðar Brynjólfssonar, sem hann sendi hv. menntamálanefnd um mál þetta.

Þar segir deildarforseti verkfræðideildar Háskóla Íslands, með leyfi forseta:

„Tækniháskólinn hefur kennt tæknifræði en Háskólinn í Reykjavík hefur kennt tölvunarfræði. Hvorugur þessara skóla hefur kennt verkfræði. Annars staðar á Norðurlöndum eru tæknifræðingar tvöfalt fleiri en verkfræðingar en hér er þessu öfugt farið. Það er því mun meiri þörf að fjölga nemendum í tæknifræði en að reyna að fjölga verkfræðingum fram yfir það sem Háskóli Íslands stefnir í.“

Sama sjónarmið kemur fram í grein Valdimars K. Jónssonar, fyrrum prófessors við verkfræðideild, sem hann birti í Morgunblaðinu 25. nóvember sl. og á vef Háskóla Íslands 29. nóvember og þar mun hún vera aðgengileg núna. Valdimar tekur í sama streng og Sigurður Brynjólfsson, að hér sé um að ræða skóla í samkeppni við aðra alþjóðlega háskóla, háskóla í útlöndum, og hér séu stjórnvöld að etja skólum saman í innlenda samkeppni.

Valdimar tekur í sama streng og Sigurður hvað þetta varðar og segir í grein sinni, með leyfi forseta:

„Með sameiningunni er verið að stuðla að innlendri samkeppni þegar leitast ætti við að styrkja stöðu Íslands í alþjóðlegri samkeppni. Verkfræðinám er alþjóðlegt nám. Sameiningin veikir stöðu Íslands í alþjóðlegri samkeppni og kemur niður á því rannsóknatengda framhaldsnámi í verkfræði sem byggt hefur verið upp við Háskóla Íslands. Það er jafnframt einkennilegt að ríkið skuli stuðla að samkeppni gegn sjálfu sér.“

Hæstv. forseti. Mér finnst mikilvægt að fá hæstv. menntamálaráðherra til að svara þessum sjónarmiðum varðandi það samkeppnisumhverfi sem hér er verið að búa til eða breyta öllu heldur og hvernig hæstv. menntamálaráðherra lítur þetta, hvort ekki hefði verið heppilegri leið að efla það nám sem boðið er upp á, annars vegar í tæknifræði og hins vegar í verkfræði, þá mögulega innan Háskóla Íslands og tæknifræði innan þess vegna hvaða skóla sem væri — Tækniháskóla Íslands eins og hefur verið — frekar en að vera etja þessum skólum saman í þá samkeppni sem nú steðjar að þeim.

Ég veit að hæstv. menntamálaráðherra hefur talað fyrir því að samkeppnin muni efla alla dáð. En ég hef ástæðu til að ætla að fjármunirnir sem við höfum úr að spila séu ekki nægir til að þessir tveir skólar geti keppt á jafnréttisgrunni um þá fáu nemendur sem standa til boða. Verkfræðideild Háskóla Íslands bendir okkur á að bæði fjármunir og mannafli séu takmarkaðir. Það þarf ekki að benda okkur á það. Við vitum að Íslendingar búa í stóru landi og eru fámenn þjóð. Deildarforseti verkfræðideildar heldur því blákalt fram í umsögn sinni að skortur sé á hæfum verkfræðikennurum, oft svo mikill að erfitt sé að bjóða nauðsynleg framhaldsnámskeið í greininni. Hann telur því hæpið að ætla að tveir skólar á Íslandi geti haldið uppi fullgildu meistaranámi sem standist samjöfnuð við erlenda verkfræðiháskóla.

Þá er ég komin að öðru atriði sem mig langar að biðja hæstv. menntamálaráðherra að tjá sig um. Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér möguleika hins nýja skóla á að bjóða strax nám til meistaraprófs? Það hefur gengið verulega illa fyrir Háskóla Íslands að ná að bjóða rannsóknatengt meistaranám. Verkfræðideild Háskóla Íslands hóf rannsóknatengt meistaranám 25 árum eftir að hún hóf fjögurra ára verkfræðinám árið 1970, fyrir tæpum tíu árum. Samkvæmt upplýsingum frá Valdimari K. Jónssyni taldi verkfræðideildin ekki tímabært að hefja rannsóknatengt meistaranám fyrr. Valdimar hefur áhyggjur af því að sameinaður háskóli, Háskólinn í Reykjavík og Tækniháskóli Íslands, komi til með að eiga í verulegum erfiðleikum í ljósi þess að Háskóli Íslands hefur fengið óverulegan stuðning frá ríkisvaldinu til uppbyggingar á rannsóknatengdu grunnnámi. Hann hefur alls ekki þau framlög sem nauðsynleg eru fyrir meistara- og doktorsnám. Bæði er á það að líta að stærðir hópa í meistara- og doktorsnámi eru langt undir því sem reiknilíkan menntamálaráðuneytisins gerir ráð fyrir en jafnframt þarf aukna sérhæfingu til að halda uppi framhaldsnámi. Þar af leiðandi er nauðsynlegt að fjölga kennurum.

Skorir í verkfræðideild Háskóla Íslands hafa 7–10 fasta kennara en til að halda uppi framhaldsnámi þyrfti að mati prófessora deildarinnar a.m.k. að tvöfalda þann fasta kjarna starfsmanna. Miðað við þá mynd sem þeir herramenn draga upp sem þekkja best til verkfræðinámsins, manna best hér á landi skyldi maður ætla, spyr ég: Á hvern hátt sér hæstv. menntamálaráðherra að hinni nýju stofnun verði gert það kleift að bjóða strax upp á öflugt nám til meistaraprófs? Það er nauðsynlegt að sýn hæstv. ráðherra hvað það varðar komist til skila við þessa umræðu.

Í ljósi fjárveitinganna hefur mátt lesa þau skilaboð menntamálaráðuneytisins til verkfræðideildar Háskóla Íslands að deildin ætti að einbeita sér að grunnnámi. Þannig hafa fjármunir til verkfræðideildarinnar verið reiknaðir. Ég tel nauðsynlegt að hæstv. menntamálaráðherra verji nokkrum tíma í að lýsa fyrir okkur þeirri sýn sem hún hefur á möguleika beggja þessara stofnana til öflugs framhaldsnáms í greinunum.

Enn eitt atriði finnst mér mjög alvarlegt í umsögn Sigurðar Brynjólfssonar, deildarforseta verkfræðideildar Háskóla Íslands. Það lýtur að hæfnisdómum þeirra kennara sem kenna við Tækniháskóla Íslands og koma til með að kenna við hinn nýja háskóla. Í umsögn Sigurðar segir, með leyfi forseta:

„Verkfræðideild Háskólans vill einnig benda á að hæfnisdómar núverandi lektora og dósenta við Tækniháskóla Íslands miðuðu við að þeir kenndu tæknifræði en ekki verkfræði. Ekki voru gerðar sömu kröfur til þeirra og gerðar eru til kennara við verkfræðideildir á alþjóðavettvangi sem og við verkfræðideild Háskóla Íslands.“

Þetta hefur ekki borið á góma í umræðunni. Við höfum ekki tekið þetta til umfjöllunar hingað til en það er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra, sem hefur mikið um þetta mál að segja svari því á hvern hátt hún sjái að hæfnisdómar þeirra lektora og dósenta sem hafa starfað við Tækniháskóla Íslands. Koma þeir til með að gilda óbreyttir í hinni nýju stofnun sem ætlar að einbeita sér að verkfræðinámi? Þetta er konkret spurning sem ég geri ráð fyrir að hæstv. menntamálaráðherra geti svarað.

Að lokum segir í umsögn Sigurðar Brynjólfssonar, deildarforseta verkfræðideildar Háskóla Íslands, með leyfi forseta:

„Einn verkfræðiskóli verður faglega sterkari og mun geta veitt öflugri þjónustu en nokkrir dreifðir skólar sem keppa um takmarkað fjármagn. Skólinn mun geta byggt upp meiri sérhæfingu og breidd til að fást við mismunandi viðfangsefni og taka þátt í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum á vegum ESB eða annarra alþjóðlegra samtaka sem máli skipta.“

Ég verð að viðurkenna, hæstv. forseti, að ég er mjög höll undir þau sjónarmið sem fram koma í umsögn deildarforseta verkfræðideildar. Í ljósi þess að Háskóli Íslands er örsmár háskóli á alþjóðlegan mælikvarða sé ég ekki annað en að þeir prófessorar sem hafa tjáð sig um þessi mál og hafa vit á hafi gefið okkur ábendingar sem mér finnst óábyrgt að hunsa. Ég sé ekki á hvern hátt hæstv. menntamálaráðherra ætlar með óbreyttum fjárveitingum til háskóla á Íslandi að búa til tvo öfluga háskóla sem kenna verkfræði og annar einnig tæknifræði, innilokaður reyndar í einkahlutafélagi sem ég hef líka gagnrýnt. Ég sé ekki hvernig hæstv. ráðherra fær út að þeir verði það öflugir þegar raunin hefur verið sú að Háskóli Íslands hefur átt verulega erfitt með að sækja fjárveitingar til ráðuneytisins.

Hæstv. forseti. Mig langar einnig til að spyrja ráðherrann um rannsóknastofnanir og tengsl hinnar nýju stofnunar við þær. Það kom fram í umfjöllun nefndarinnar að veruleg þörf væri á að tengja hinn nýja háskóla sterklega við rannsóknastofnanir. Í svörum frá Stefaníu Katrínu Karlsdóttur, sem er rektor Tækniháskóla Íslands, talar hún um að ein af þeim leyndu ógnum sem henni finnst geta steðjað að Tækniháskólanum, eða nýjum sameiginlega skóla, er að staðsetning skólans og samstarf hans við rannsóknastofnanir verði ekki nægilega vel tryggt. Hún leggur áherslu á að byggja þurfi skólann upp á svæði sem gefi möguleika fyrir stækkun og aðkomu rannsóknastofnana. Ég vil fá að vita frá hæstv. ráðherra á hvern hátt hún sér tengsl hinnar nýju stofnunar við rannsóknastofnanir. Ætlar hún t.d. að tengja starfsemi þessa skóla við rannsóknastofnanir Háskóla Íslands? Sér hún fyrir sér samvinnu á milli rannsóknarstofnunar Háskóla Íslands og hins nýja sameinaða skóla eða er eingöngu verið að tala um sjálfstæðar rannsóknir atvinnuveganna og þeirra aðila sem eiga einkahlutafélagið? Verða það rannsóknartengsl nýja háskólans? Í mínum huga væri það alls ekki nóg.

Ég tel að við eigum að einhenda okkur í að byggja upp öflugar rannsóknastofnanir sem yrðu eða eru tengdar háskólum. Mér finnst skipta verulegu máli að dreifa kröftunum í þeim efnum og tel nauðsynlegt að hæstv. menntamálaráðherra tjái sig um tengsl rannsóknastofnana og hins nýja, sameinaða háskóla.

Eitt af því sem bar á góma í menntamálanefnd og í umfjöllun hennar um þetta mál varðar þá staðreynd að hluti virkra nemenda í Háskóla Íslands eru þar umfram hámarksfjölda nemenda sem stjórnvöld greiða fyrir. Þeir hjá Háskóla Íslands kvarta undan því að ekki fáist greitt fyrir stóran hluta nemenda. Mér finnst eðlilegt að spyrja: Á meðan það eru nemendur í Háskóla Íslands sem stunda verkfræðinám sem ekki fæst greiðsla fyrir frá menntamálaráðuneytinu, meðan þeir eru ekki viðurkenndir í heildarnemendafjöldanum, á hvern hátt sér hæstv. menntamálaráðherra að nægilegt fjármagn verði fyrir nemendur í verkfræði í öðrum skóla, í annarri stofnun?

Sá fjöldi nemenda sem nú er í verkfræðideild virðist, eftir því sem prófessorar deildarinnar tjá okkur, nægur til þess að tryggja hæfilegt framboð á námskeiðum. En fækki þeim nemendum, jafnvel þótt ekki væri nema um nokkra tugi, koma strax til með að sjást merki um það í fjárveitingunum. Það mun þar af leiðandi bitna á fjölbreytni og fjölda námskeiða sem Háskóli Íslands getur boðið upp á, þ.e. draga úr fjölbreytileika námsins.

Niðurstaðan gæti, að mati Valdimars K. Jónssonar, orðið sú að í stað þess að hafa góða verkfræðimenntun á einum stað á Íslandi værum við að hokra á tveimur stöðum. Hann segir líka að sá fjöldi nemenda sem hafi nægilegan bakgrunn í raungreinum sem framhaldsskólarnir útskrifa á hverju ári leyfi hreinlega ekki mikla fjölgun nema í verkfræðinámi. Ég get ekki séð annað en að þessi rök séu afar veigamikil þegar við spyrjum spurninga um hvort fjárhagsleg skynsemi sé í því að kenna verkfræði á tveimur stöðum eins og nú er stefnt að.

Eitt af þeim málum sem ekki hefur verið farið ofan í saumana á í umræðunni er sú staðreynd að hinni nýju stofnun er ekki eingöngu ætlað að taka að sér nýjar deildir Tækniháskóla Íslands í verkfræði og tæknifræði heldur er einnig stefnt að því að skólinn taki að sér kennslufræðinám. Við höfum átt skoðanaskipti í þessum sal, ég og hæstv. menntamálaráðherra, um að kennslufræðinám nýja einkahlutafélagsins eigi að dekka námið fyrir sportakademíuna í Reykjanesbæ, eins og mig minnir að hæstv. menntamálaráðherra hafi kallað nýjan íþróttakennaraskóla sem er í burðarliðnum þar í bæ. Ég sé ekki annað en að við þurfum í þessu samhengi að yfirheyra hæstv. menntamálaráðherra um sýn hennar á þessa nýju stofnun. Hún þarf að koma inn á kennslufræðina ásamt öðru sem þingmenn hafa óskað eftir að hæstv. ráðherra tjái sig um, þ.e. sjálfseignarstofnun eða einkahlutafélag. Hvernig rökstyður hæstv. menntamálaráðherra að nú eigi að kenna kennslufræði í einkahlutafélagi sem hefur svo sterk tengsl við atvinnulífið?

Ég skil vel rökin hvað varðar tæknifræðina og verkfræðina, að þar þurfi að vera sterk tengsl við atvinnulífið, en ég hef ekki heyrt nein rök varðandi kennslufræðina í þessum efnum. Af hverju þarf háskólinn að vera í svo sterkum tengslum við atvinnulífið þegar kemur að kennslufræðinni sem hann ætlar að taka upp? Ég sé ekki annað en kennslufræðiþættinum sé laumað inn í þennan sameinaða háskóla án þess að fyrir því hafi verið færð nokkur rök. Það er eitt af þeim atriðum sem ég treysti á að hæstv. ráðherra komi inn á í ræðu sinni sem hún flytur okkur vafalítið innan tíðar.

Ég hefði líka áhuga á að fá að heyra nánar um rannsóknarsamning þann sem hæstv. ráðherra hyggst gera við nýja háskólann. Samkvæmt 12. gr. í viljayfirlýsingu um stofnun einkahlutafélagsins er taki yfir starfsemi Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands er gert ráð fyrir að við háskólann verði stundaðar rannsóknir og á næstu árum muni framlag ríkisins til rannsókna fara stigvaxandi til ársins 2009. Í yfirlýsingunni segir að það sé háð þeim fyrirvörum sem settir verði í kennslu- og rannsóknarsamningi við skólann.

Ég spyr því: Úr því að það á að gera kennslu- og rannsóknarsamning eigi síðar en í júní 2005, hvað er í burðarliðnum í þeim efnum? Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að semja um rannsóknir við hina nýju stofnun? Það er nauðsynlegt að það liggi á borðinu í þessari umræðu, sérstaklega þegar við ræðum samanburð á milli verkfræðideildar Háskóla Íslands og nýja einkahlutafélagsins.

Hæstv. forseti. Eitt í viðbót langar mig til að nefna við hæstv. menntamálaráðherra. Ég dró hér fram frumvarp til laga um Tækniháskóla Íslands sem lagt var fram á 127. löggjafarþingi en það er ekki lengra síðan en svo að við stofnuðum þennan nýja Tækniháskóla með fögrum fyrirheitum sem koma fram í nefndaráliti frá menntamálanefnd við það mál. Ég vek athygli á því að öll menntamálanefnd skrifaði undir að frumvarpið yrði samþykkt, reyndar voru tveir nefndarmenn með fyrirvara en samt sem áður var mikil ánægja með að Tækniháskólinn skyldi stofnaður.

Í nefndaráliti meiri hlutans með því máli segir, með leyfi forseta:

„Ákvæði frumvarpsins um stjórnsýslu háskólans eru í samræmi við lög um háskóla en auk þess eru ýmis ákvæði frumvarpsins sambærileg ákvæðum laga um Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Með þessu er stuðlað að samræmi á milli þessara háskóla og jafnframt lagður traustari grunnur að auknu samstarfi Tækniháskólans við aðra skóla á háskólastigi.“

Nú spyr ég hæstv. menntamálaráðherra: Hvernig hyggst hæstv. ráðherra framfylgja þessari viljayfirlýsingu menntamálanefndar frá því fyrir rúmum tveimur árum, þ.e. hvernig á samstarfi þessarar nýju stofnunar við aðra skóla á háskólastigi að vera háttað? Hæstv. menntamálaráðherra, yfirmaður menntamála í landinu, hlýtur að hafa eitthvert sjónarmið í þeim efnum. Mér sýnist við nefnilega stefna inn í einangrun miklu frekar en opið samstarf. Ég vil fá að heyra hæstv. ráðherra segja okkur frá því hvernig hennar sýn í þessum efnum er. Kannski sér hún eitthvað í þessum málum sem mér er fyrirmunað að sjá þannig að ég held að það sé alveg nauðsynlegt að við fáum skoðanaskipti um það atriði líka.

Í bréfi sem menntamálaráðuneytið lagði fram í menntamálanefnd við umfjöllun um málið kemur fram að ráðuneytið hafi í fyrrahaust haft frumkvæði að viðræðum við forsvarsmenn Háskóla Íslands og stjórn hins sameinaða háskóla um fyrirkomulag kennslu í meinatækni og geislafræði, þ.e. í heilbrigðisgreinunum sem hafa verið kenndar í Tækniháskóla Íslands. Í bréfinu segir að í kjölfar þess hafi orðið að samkomulagi og ráðuneytið ákveðið að í haust hæfist kennsla við læknadeild Háskóla Íslands í umræddum námsgreinum sem til þessa hafa verið kenndar í Tækniháskóla Íslands. Jafnframt er sagt að þeir nemendur sem þegar stundi nám í þessum greinum við Tækniháskólann muni ljúka námi sínu við nýjan sameinaðan háskóla.

Svo er tekið fram að flutningurinn fari fram í fullu samráði við báða skólana og í samræmi við eindreginn vilja viðkomandi fagfélaga. Nú vil ég fá hæstv. menntamálaráðherra til að tjá sig um það sem liggur að baki þessari yfirlýsingu sem við fengum í bréfi undirrituðu af Guðmundi Árnasyni og Sólrúnu Jensdóttur. Hvað sér hún í spilunum hvað varðar þessar heilbrigðisgreinar og læknadeild Háskóla Íslands? Hvað eru þessar viðræður komnar langt, á hvern hátt sér hæstv. ráðherra þennan flutning ganga fyrir sig? Ég sé að þessi nýi, sameinaði háskóli á a.m.k. að útskrifa þá nema sem núna hafa þegar hafið nám en ég vil fá að heyra af munni hæstv. ráðherra hvernig þessi yfirfærsla yfir til læknadeildar Háskóla Íslands komi til með að eiga sér stað.

Ég er þá farin að nálgast lok máls míns, hæstv. forseti. Ég vil aðeins ítreka þau sjónarmið sem komu fram í ræðu minni í fyrri helmingi þessarar umræðu og lúta að efasemdum mínum um að þetta einkahlutafélag sé best til þess fært að reka þá skóla sem hér um ræðir. Ég ítreka að ég er sama sinnis og framkvæmdastjóri BHM sem kom fyrir nefndina, Gísli Tryggvason, en hann lét okkur heyra að það væri algjörlega sameiginlegt álit þeirra hjá BHM að sjálfseignarstofnanir henti til rekstrar í almannaþágu fyrir opinbert fé, t.d. fyrir háskóla, en það sama verði ekki sagt um hlutafélög. Í ljósi þess hve margir þingmenn hafa fjallað um þetta mál hér í þeim ræðum sem hafa verið haldnar treysti ég því að hæstv. ráðherra komi með einhver rök úr sínum ranni sem geti staðið gegn þeim rökum sem Gísli Tryggvason og BHM hafa lagt fram í þessum efnum. Mér finnst þau afar sannfærandi og gerði grein fyrir því í máli mínu fyrr í umræðunni en treysti því að hæstv. menntamálaráðherra geri grein fyrir sjónarmiðum sínum hér á eftir.

Að lokum vil ég bara svara hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni sem innti mig eftir því í fyrri helmingi umræðunnar hvað ég hefði fyrir mér í því að það ætti að fækka greinum í tæknifræði við hinn nýja háskóla. Það kemur fram í nefndaráliti mínu að ég staðhæfi það. Staðhæfing mín er fengin úr máli Einars H. Jónssonar, formanns Tæknifræðingafélags Íslands, sem kom fyrir nefndina og sagði þetta við okkur berum orðum. Því var ekki mótmælt af öðrum gestum. Þegar við síðan bárum þetta undir aðra gesti, þar á meðal Guðfinnu Bjarnadóttur, rektor hins nýja skóla, svaraði hún okkur í bréfi á þann hátt að efnislegt innihald allra námsbrauta í tæknifræði ætti að haldast óbreytt þó að einstökum greinum yrði fækkað. Í máli hennar kemur fram að tölvu- og upplýsingatæknifræðin verði til að mynda færð undir rafmagnstæknifræði sem valsvið. Það kemur fram í máli Guðfinnu að ákveðnar greinar, t.d. tölvu- og upplýsingatæknifræði, verði færðar til og gerðar að valsviði sem hefur ekki verið innan skólans. Ég tel mig því með þessu vera búna að skýra það hvernig ég gat fullyrt þetta í nefndaráliti mínu. Ég hef sem sagt orð þessara gesta sem komu fyrir nefndina í þessum efnum.

Úr því að ég nefni formann Tæknifræðingafélagsins vorum við líka með formann Verkfræðingafélags Íslands sem hélt því fram að rannsóknirnar og háskólanámið þyrftu að vera í nánu sambýli. Ég nefndi það líka áðan í ræðu minni, og í ummælum núverandi skólastjóra Tækniháskóla Íslands kom fram að hún teldi nauðsynlegt að efla tengsl skólans við rannsóknastofnanir. Formaður Verkfræðingafélagsins sagði einnig að það væri verulega mikilvægt. Hann stakk því að nefndarmönnum hvort báðir skólarnir gætu ekki nýtt rannsóknastofnanir Háskóla Íslands því að hann taldi nauðsynlegt að þær yrðu efldar og hann taldi að það gæti orðið rannsóknastofnunum Háskóla Íslands til framdráttar ef hægt væri að byggja einhver tengsl á milli hins nýja skóla og þessara rannsóknastofnana. Þessu bæti ég við svo að hæstv. menntamálaráðherra geri sér grein fyrir því að formaður Verkfræðingafélags Íslands er sama sinnis og ég í þessum efnum, að tala þurfi út um það á hvern hátt tengsl rannsóknastofnananna við þessa nýju háskóla eigi að vera.

Þegar öllu er á botninn hvolft undirstrika ég eingöngu andstöðu mína við þetta mál. Hún byggir á því sem ég hef áður gert grein fyrir. Ég tel ósanngjarnt og óréttlátt að loka nám í auknum mæli inni í einkaháskólum þar sem hárra skólagjalda er krafist. Ég óska eftir því að hæstv. menntamálaráðherra kynni sér frumvarp sem ég hef lagt fram á þskj. 808 sem gerir ráð fyrir því að sjálfseignarstofnunum á háskólastigi og einkareknum háskólum verði óheimilt að innheimta skólagjöld af nemendum sem stunda nám í greinum sem ekki er unnt að leggja stund á í ríkisháskóla. Þetta er grundvallarsjónarmið míns stjórnmálaflokks, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og við teljum að hér sé verið að stíga skref sem stríði gegn þessu jafnréttisprinsippi til náms. Þess vegna leggjumst við gegn því að þetta frumvarp fari alla leið, hefðum viljað sjá allt aðrar áherslur í þessum málum, áherslur sem standa nær okkar pólitíska hjarta, þ.e. jafnrétti til náms og því að allir eigi að fá tækifæri til þess að læra það sem hugurinn stendur til, ekki bara þeir sem hafa tök á að greiða hærri skólagjöld.