Stuðningur Íslands við þjálfun írakskra öryggissveita

Miðvikudaginn 02. mars 2005, kl. 15:31:55 (5252)

131. löggjafarþing — 82. fundur,  2. mars 2005.

Stuðningur Íslands við þjálfun írakskra öryggissveita.

[15:31]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það urðu nokkur tímamót á fundi NATO í Prag í lok nóvember 2002 þegar þeir lagsbræður, núverandi hæstv. utanríkisráðherra og þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson og núverandi hæstv. forsætisráðherra og þáverandi utanríkisráðherra Halldór Ásgrímsson, lofuðu þátttöku Íslands í mögulegum framtíðarhernaðaraðgerðum á vegum NATO með allt að 300 millj. kr. framlagi hverju sinni í formi þess að flytja hermenn, hergögn eða varning til átakasvæða. Íslensk flugfélög blönduðust inn í málið með afar óheppilegum hætti eins og menn muna en verður það nú ekki rakið frekar hér.

Ráðherrarnir tveir tóku einir og án nokkurs undangengins samráðs við utanríkismálanefnd ákvörðun um þessa stefnubreytingu og þessi tímamót í framgöngu Íslands á alþjóðavettvangi. Þetta var því miður hvorki fyrsti né síðasti einleikur sömu manna við hliðstæðar aðstæður.

Margir hafa orðið til þess og þar á meðal sá sem hér stendur að gagnrýna þá tilhneigingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forustu hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra Halldórs Ásgrímssonar að draga Ísland inn í hernaðartengda starfsemi og grauta borgaralegum og friðsamlegum þáttum eins og hjálparstarfi við hernað. Þátttaka í starfi hinna hreinu hernaðarstofnana NATO eru dæmi þar um. Vopnaburður starfsmanna friðargæslunnar og þátttaka í starfi á ófriðarsvæðum er annað. Þátttaka í hernaðaraðgerðum í formi beinnar kostunar eða flutninga er svo hið þriðja.

Hér heima átti hæstv. ráðherra Halldór Ásgrímsson ötulan liðsmann í hæstv. dómsmálaráðherra Birni Bjarnasyni sem er áhugamaður um að stofna her, fjölga í víkingasveitinni og vígbúa betur. Ég gerði mér satt best að segja nokkrar vonir um að á þessu yrði breyting með tilkomu núverandi hæstv. utanríkisráðherra Davíðs Oddssonar, að hæstv. núverandi utanríkisráðherra léti af þessum barnalegu og dapurlegu tilburðum til að gera íslenska ráðherra og embættistoppa samkvæmishæfa meðal hermálaráðherra og herforingja NATO-klúbbsins á kostnað þess að varpa fyrir róða hefðum Íslendinga fyrir vopnleysi og herleysi, þess að taka ekki þátt í og hvað þá fara með ófriði gegn öðrum. Því miður bárust þær fréttir af fundi utanríkisráðherra NATO á dögunum að Ísland hefði boðist til að leggja fram fé til þjálfunar hermanna í Írak og muni taka að sér að flytja vopn frá Slóveníu til Íraks og mögulega einnig frá Danmörku til Íraks. Væri þar verið að fylgja eftir samþykkt leiðtogafundar NATO í Istanbúl í lok júní 2004.

Vitað er að um hina takmörkuðu þátttöku NATO í framhaldshildarleiknum í Írak hafa staðið miklar deilur bak við tjöldin. Bandaríkin og Bretar hafa beitt aðrar NATO-þjóðir miklum þrýstingi til að gerast þátttakendur og væri fróðlegt að vita hvar Ísland hefur staðið í þeim efnum. Innrásarríkjunum virðist samt vera að takast að koma á fót NATO-herstöðvum í Írak sem að vísu má ekki kalla því nafni, heldur starfsstöðvar. Að öðru leyti hafa litlar upplýsingar borist um þetta mál og ekkert er að finna á upplýsingasíðum ráðuneyta, hvorki utanríkisráðuneytisins né forsætisráðuneytisins, og engin fréttatilkynning hefur verið gefin út.

Af þessu gefna tilefni vil ég leyfa mér að spyrja:

Af hverju kýs Ísland að blanda sér í málin með þessum hætti? Af hverju er ekki boðin fram aðstoð, eða meiri aðstoð, á borgaralegum forsendum í formi hjálparstarfs og aðstoðar við uppbyggingu í formi tækjabúnaðar eða fagþekkingar? Færi ekki betur á því í tilviki Íslands að bjóða fram aðstoð við að koma á vatni og rafmagni, endurbyggja skóla og heilsugæslustöðvar, senda lyf og matvæli? Eru það meiri vopn og fleiri hermenn sem ríkisstjórn Íslands metur svo að vanti mest í Írak þessa dagana?