Stuðningur Íslands við þjálfun írakskra öryggissveita

Miðvikudaginn 02. mars 2005, kl. 15:54:39 (5261)


131. löggjafarþing — 82. fundur,  2. mars 2005.

Stuðningur Íslands við þjálfun írakskra öryggissveita.

[15:54]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það eru út af fyrir sig gagnlegar upplýsingar að vita að Íslendingar ætla að standa fyrir því að flytja 500 tonn af vopnum frá Slóveníu fyrir 50 millj. til Íraks og að við ætlum að setja 12 millj. í að þjálfa þar hermenn — að ógleymdum upplýsingafulltrúanum, ekki er minnst göfugt að hjálpa NATO við að koma upplýsingunum á framfæri. Sem sagt, 60–70 millj. hið minnsta í hergagnaflutninga og herþjálfun í Írak og bætist það þá við hið sögulega framlag til Afgana, að flytja þangað skriðdreka. Mikið hlýtur þjóðinni að líða betur að vita af þessu framlagi sínu.

Ég hygg að hæstv. ráðherra Davíð Oddsson sé tiltölulega einn um þá kenningu, nema ef vera skyldi að þeir Bush og Blair væru honum sammála, að áframhaldandi hryðjuverk í Írak hafi bókstaflega ekkert með innrásina að gera. Staðreyndin er auðvitað sú, því miður, sem varað var við að orðið gæti, að Írak hefur orðið að gróðrarstíu hryðjuverkamanna sem aldrei fyrr. Það er útbreidd skoðun að ein helsta forsenda þess að friðvænlegar geti horft í landinu sé að öryggisgæsla þar komist á hendur aðila sem njóta meira trausts, eða við skulum orða það eins og það er, sem ekki eru jafnilla þokkaðir með þjóðinni og innrásarherinn, þ.e. aðila eins og Sameinuðu þjóðanna sjálfra eða Arababandalagsins.

Bandaríkjamenn eru hins vegar ekki á förum. Þeir eiga enn mikið óunnið að eigin mati við að tryggja olíu- og stórveldahagsmuni sína í Írak. Halliburton á enn óunnin ýmis verk og á eftir að fá vel borgað fyrir þau.

Þegar menn hampa ályktun 1546 minni ég á að þar er gert ráð fyrir því að hernáminu ljúki 30. júní 2004. Önnur hefur orðið reyndin.