Umræðuefni í athugasemdum um störf þingsins

Fimmtudaginn 03. mars 2005, kl. 11:04:28 (5289)


131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Umræðuefni í athugasemdum um störf þingsins.

[11:04]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hlutverk þingsins er í mínum huga tvennt. Það er annars vegar löggjafarsamkunda og hins vegar málstofa þar sem umræða fer fram um það sem efst er á baugi hverju sinni í samfélaginu. Það er ekkert óeðlilegt við það að hér þróist sú venja og sú hefð að hægt sé að taka í upphafi fundar upp mál sem ofarlega eru á baugi í samfélaginu hverju sinni. Án þess að ég ætli að gefa hæstv. forseta þingsins einhverja einkunn fyrir störf sín vil ég þó segja að þetta er eitt af því sem hann hefur átt þátt í að þróa, og það til betri vegar. Ég tek undir með þeim sem því hafa haldið fram í þessari umræðu að þetta sé góð þróun og mikilvæg. Það er afar mikilvægt að Alþingi taki þátt í umræðu um þau mál sem eru ofarlega á baugi hverju sinni og upplýsi jafnvel um afstöðu kjörinna fulltrúa til einstakra mála.

Ég mótmæli alfarið þeim skilningi sem hv. þm. Pétur Blöndal hefur á því sem hér hefur verið rætt og ítreka í þetta sinn að ég er mjög sáttur við þá þróun sem hæstv. forseti þingsins hefur þó átt þátt í að móta í þessu tiltekna máli.