Umræðuefni í athugasemdum um störf þingsins

Fimmtudaginn 03. mars 2005, kl. 11:06:13 (5290)


131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Umræðuefni í athugasemdum um störf þingsins.

[11:06]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Eins og rækilega hefur komið fram í umræðunni kvaddi ég mér hljóðs um störf þingsins vegna þess máls sem hér hefur verið rætt. Það eru stöðug og sterk skilaboð frá samfélaginu í ákveðnu máli sem viðvíkur sölu Landssímans. Þess vegna er í hæsta máta eðlilegt að taka eitt umdeildasta mál hér til umræðu þegar nýjar upplýsingar koma fram eða mál standa með þeim hætti að það sé ástæða til þess að þingið láti það til sín taka.

Hæstv. forsætisráðherra sem fer með þetta mál kom inn í umræðuna og ég fagnaði því. Það er síðan í valdi hvers og eins hverju svarað er undir þessum dagskrárlið. Hv. þm. Pétri H. Blöndal virðist vera þetta eitthvert viðkvæmnismál og hann kom þannig fram. Hann er kannski viðkvæmur fyrir því að mögulega verði snúið af þeirri braut að selja Landssímann og þess vegna sé hættulegt að taka málið upp. Það má vel vera, ég vona að svo verði.

Auðvitað verðum við samt að taka mál hér upp þó að það sé einstökum flokkum eða mönnum viðkvæmt. Það tel ég að við höfum verið að gera og menn verða að taka því þó svo að hér séu rædd mál á þeim grunni sem er ekki í samræmi við vilja og löngun einstakra þingmanna, eins og í þessu tilviki hv. þm. Péturs H. Blöndals.