Framtíð Reykjavíkurflugvallar

Mánudaginn 07. mars 2005, kl. 15:49:47 (5401)


131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Framtíð Reykjavíkurflugvallar.

[15:49]

Magnús Stefánsson (F):

Herra forseti. Hér fer fram umræða um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Það er mál sem hefur verið rætt mikið á undanförnum missirum.

Mín skoðun er einfaldlega sú að það eigi ekki að færa innanlandsflugvöllinn frá Reykjavík. Það er mikilvægt og raunar grundvallaratriði að miðstöð innanlandsflugs og innanlandssamgangna almennt verði í höfuðborginni. Það þarf í raun og veru ekki að tíunda þau rök sem þar liggja að baki.

Höfuðborgin er eðli málsins samkvæmt miðstöð stjórnsýslu og viðskipta í landinu. Í því ljósi hlýtur að vera grundvallaratriði að aðstaða fyrir tryggar flugsamgöngur sé í höfuðborginni. Það hlýtur að vera kappsmál fyrir höfuðborgina sjálfa, stjórnsýsluna og þá fjölmörgu aðila sem veita almenna þjónustu að flugvöllurinn verði áfram rekinn í Reykjavík, að ekki sé talað um þá miklu atvinnustarfsemi sem tengist flugvellinum beint og fjölmargir einstaklingar búsettir á höfuðborgarsvæðinu hafa atvinnu af.

Herra forseti. Umræðan um þetta mál snýst fyrst og fremst um skipulagsmál í Reykjavík og það að margir telja nauðsynlegt að flugvallarsvæðið verði nýtt undir íbúabyggð og atvinnustarfsemi. Það er út af fyrir sig skiljanlegt sjónarmið. Án þess að fara nánar út í umræðu um skipulagsmál í Reykjavík er ljóst að á síðustu áratugum hefur framtíðarsýn í þeim efnum miðað að því að dreifa byggðinni sem mest og það hefur leitt til þess að nú eru menn komnir í ákveðinn vanda. Þess vegna þarf að losna við flugvöllinn.

Til þess að höfuðborgin standi undir nafni verður að tryggja að sem bestar samgöngur séu við hana af landinu öllu. Það verður ekki gert með því að leggja af Reykjavíkurflugvöll og þaðan af síður með því að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur eins og sumir hafa hugmyndir um.

Það er mikilvægt, herra forseti, að botn fáist í þessi mál sem fyrst þannig að allir séu meðvitaðir um hver framtíðin er í þessum efnum. Í því sambandi bera höfuðborgin og stjórnvöld þá ábyrgð að hafa heildarhagsmuni landsmanna allra að leiðarljósi. Að mínu mati felast þeir í því að miðstöð innanlandsflugs verði í Reykjavík til framtíðar.