Sala kristfjárjarðarinnar Utanverðuness

Fimmtudaginn 10. mars 2005, kl. 13:42:29 (5688)


131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Sala kristfjárjarðarinnar Utanverðuness.

504. mál
[13:42]

Frsm. félmn. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er með ólíkindum, það sem við erum að ræða. Við fórum yfir þetta mál í félagsmálanefnd og þetta sjónarmið kom nú ekki fram þar. Ég tek undir að það er ansi erfitt að hugsa sér að koma þessum verðmætum í réttar hendur ef það er þannig að Jesús Kristur á jörðina, sem ég efast um í þessu tilviki.

Það er alveg ljóst að viljinn sem stóð á bak við þessa gjöf á sínum tíma þegar þessi unga kona féll frá og gaf jörðina var sá að það átti að koma verðmætunum til fátækra barna. Núna erum við sem sagt að samþykkja að selja þessa jörð og Utanverðuneslegat mun koma fjármununum til fátækra barna í Skagafirði og það verður gert með samþykki félagsmálaráðuneytisins og í samráði við sveitarfélagið.

Ég vil líka benda á, af því að hér kom hv. þm. Pétur Blöndal upp og gerði athugasemd, að hv. þingmaður hefur áður samþykkt sölu af sama tagi og veitti þá atkvæði sitt fyrir því þannig að ég vænti þess að hann geri slíkt hið sama að þessu sinni. Það hefur ekkert breyst hvorki í sambandi okkar gagnvart þessum jörðum né í sambandi okkar gagnvart Jesú Kristi síðan.