Almannatryggingar

Fimmtudaginn 10. mars 2005, kl. 16:08:01 (5724)


131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[16:08]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Við erum að fjalla um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum. Ég vil byrja á að fagna því að hér séu gerðar breytingar á reglum um endurgreiðslu vegna tannlækninga sem voru fyrir löngu orðnar úreltar. Þeim endurgreiðslureglum hefur ekki verið breytt í áratug eða tvo, þetta voru orðin mjög gömul ákvæði í almannatryggingunum og löngu tímabært að breyta þeim. Ég fagna því að loksins skuli þeim reglum breytt.

Gömlu reglurnar eru barn síns tíma, frá því að tíðkaðist að draga tennur úr fólki, jafnvel um fermingu, eins og maður þekkir. Þetta er löngu liðin tíð og eldra fólk heldur tönnum sínum. Það hefur verið bagalegt að reglurnar hafi verið þannig að ekki hafi verið greitt fyrir gullfyllingar, krónur og brýr. Það hefur verið mjög bagalegt og liggur við að það hafi borgað sig fyrir fólk sem hefur verið illa statt að láta rífa úr sér allar tennurnar og fá sér falskar til að laga ástandið í munni sínum, sem er fráránlegt, að reglurnar í almanntryggingunum ýti fólki út í slíkt.

Við höfum sett okkur markmið í heilbrigðisáætlun um bætta tannheilsu og þær reglur sem hér á að breyta eru mikilvægt skref í þá átt, geysilega mikilvægt bæði fyrir elli- og örorkulífeyrisþega sem þurfa á tannlækningum að halda. Ég fagna þessu sannarlega.

Hæstv. ráðherra er líka að breyta endurgreiðslum, greiða upp til 18 ára aldurs, sem er af hinu góða. Mig langar til að spyrja um tannréttingar og endurgreiðslu vegna tannréttinga. Þetta er stöðugt umkvörtunarefni fólks sem á mörg börn sem þurfa á tannréttingum að halda, hve mikill baggi það er á heimilisfjárhagnum þegar greiða þarf fyrir tannréttingar barna. Oft eru það fleiri börn en eitt og oft er það ættgengt að börn þurfi að fara í tannréttingar. En það flokkast ekki undir alvarlega meðfædda galla, eins og endurgreiðslurnar varðandi tannréttingarnar kveða á um. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það sé ekki á döfinni að taka á þessum þætti. Þarna er ekkert inni sem jafnar hlut þeirra sem eiga börn og jafnvel mörg börn sem þurfa að fara í tannréttingar. Þetta er rosalega dýrt og getur numið mörgum hundruðum þúsunda króna sem slík heimili þurfa að bera vegna tannréttinga.

Mér hafa fundist reglurnar of strangar, að binda sig við alvarlega meðfædda galla eða slys. Af því að hæstv. ráðherra hefur tekið svo skörulega á varðandi lífeyrisþega og er að breyta verulega áherslum, sem er löngu tímabært, þá tel ég ekki síður vert að taka á tannréttingum gagnvart barnafjölskyldum, fjölskyldum með mörg börn sem þurfa á tannréttingum að halda. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra upplýsi okkur um hvort eitthvað er á döfinni þar til úrbóta fyrir þennan hóp.

Ef þörf verður á að skoða eitthvað nánar í frumvarpinu þá á ég sæti í hv. heilbrigðis- og trygginganefnd og mun fara yfir þetta mál þar. En þetta er mikilvægt mál, mikilvægt til að við náum markmiðum í heilbrigðisáætlunum og geysilega mikilvægt fyrir elli- og örorkulífeyrisþega, að geta fengið endurgreiddar tannviðgerðir og tannaðgerðir sem áður var ekki greitt fyrir. Þetta er tímabær breyting á almannatryggingalögunum.