Utandagskrárumræða um viðgerð á varðskipum

Þriðjudaginn 15. mars 2005, kl. 13:40:16 (5798)


131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Utandagskrárumræða um viðgerð á varðskipum.

[13:40]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég óskaði eftir umræðu utan dagskrár um málefni skipasmíðaiðnaðarins í ljósi þess sem var að gerast á Akureyri, að tilboði Slippstöðvarinnar hafi verið hafnað og samið við pólska verktaka. Ég óskaði eftir því að hæstv. iðnaðarráðherra sem fer með iðnaðarmálin, hvort sem okkur líkar betur eða verr, ráðherrann sem fer með samkeppnismálin líka í landinu, hvort sem okkur líkar betur eða verr, ráðherrann sem fer með byggðamálin í þessu landi, hvort sem okkur líkar betur eða verr, yrði hér til svara.

Hundrað manns vinna í Slippstöðinni á Akureyri og þetta snertir samkeppnisstöðu skipasmíðaiðnaðarins, ekki síst af því að hæstv. iðnaðarráðherra hafði gert samkomulag við Samtök iðnaðarins árið 2002 um að tekið yrði upp formlegt samráð á milli Samtaka iðnaðarins og ráðherranna um útboð, framkvæmd á nýsmíði og annað sem lýtur að þjónustu skipasmíðaiðnaðarins. Eins og segir í fréttabréfi Samtaka iðnaðarins virðist þetta samkomulag gersamlega hafa verið virt að vettugi, verið bara pappírsgagn eitt. Þetta samkomulag var þó gert milli hæstv. iðnaðarráðherra og Samtaka iðnaðarins.

Það er kannski ekkert skrýtið að enginn ráðherra vilji svara fyrir þá aðgerð sem þarna er á ferðinni þegar verið er að flytja verkefni úr landi á grundvelli þess að það er hægt að sækja þangað í láglaunastörf. Er það kannski í takt við stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar að ryðja burt þeim iðnaði sem hefur þróast og stendur vel í landinu til að koma stóriðjunni fyrir? Það er sjálfsagt vilji hæstv. iðnaðarráðherra. Af einhverjum ástæðum treystir ráðherrann sér ekki til að taka þessa umræðu hér og enginn af ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Ég vek athygli á því.