Þjónustusamningur við Sólheima

Miðvikudaginn 16. mars 2005, kl. 12:55:53 (5899)


131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Þjónustusamningur við Sólheima.

596. mál
[12:55]

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir að taka þetta mál upp hér. Það er vissulega rétt að deilur hafa staðið um þessa stofnun frá upphafi. Deilan er ekki lengur jafnmikil um hugmyndafræðina sem liggur að baki rekstrinum heldur fyrst og fremst um ráðstöfun fjármuna. Það er auðvitað okkar hlutverk að fylgja eftir þeim skýrslum sem Ríkisendurskoðun gerir um úttektir á starfsemi sem ríkið leggur fjármuni sína í. Um þessa starfsemi, sem er á margan hátt mjög góð, þarf að ríkja friður. Það sem vantar þarna inn í er hið virka eftirlit með sjálfseignarstofnunum, það að ráðuneytið geti með afgerandi hætti gengið inn og skoðað reksturinn, samsetningu starfsfólks sem og annað, og tryggt að þarna sé fyrst og fremst verið að vinna í þágu fatlaðra.