Þvingunarúrræði og dagsektir umhverfisstofnana

Miðvikudaginn 16. mars 2005, kl. 13:35:28 (5918)


131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Þvingunarúrræði og dagsektir umhverfisstofnana.

556. mál
[13:35]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég tel vert að þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma og svara fyrirspurn sem ég er með til hennar en það er meira en sumir aðrir ráðherrar treysta sér til að gera. Ég er með fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra frá 16. nóvember — nokkurra mánaða gamla — þannig að ég vil þakka það sérstaklega að umhverfisráðherra mæti hér. Af því að hæstv. fjármálaráðherra situr hér einnig ber að nefna að hann treystir sér ekki til að svara sumum fyrirspurnum sem beint er til hans og ber við ýmsum undanbrögðum, sérstaklega ef í hlut eiga einhverjar viðkvæmar upplýsingar.

Sú fyrirspurn sem ég hef beint til hæstv. umhverfisráðherra er eftirfarandi:

1. Hversu oft hafa stofnanir sem heyra undir umhverfisráðuneytið lagt á dagsektir til að þvinga fram úrbætur?

2. Hversu oft hafa þessar stofnanir fengið dagsektir greiddar?

3. Hversu háar dagsektir hafa innheimst ár hvert frá árinu 2000?

Fyrirspurnin nær yfir fimm ára tímabil. Ástæða þess að ég spyr hæstv. umhverfisráðherra þessara spurninga er sú að í fyrra starfi mínu sem framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra varð ég áþreifanlega var við það að dagsektir virkuðu mjög illa vegna þess að í lögum um aðför segir, frú forseti, að ef það er framkvæmt sem farið er fram á falla dagsektir niður. Þetta leiðir til þess að ef viðkomandi sem er beittur dagsektum dregur það endalaust að framkvæma eða fara að lögum eru lagðar á dagsektir. Að lokum þegar á að fara að innheimta þær framkvæmir hann loksins. Við það falla allar dagsektir niður. Þetta er alveg fáheyrt.

Síðan byrjar kannski sami leikurinn á ný og viðkomandi brýtur áfram af sér. Ég vil taka það fram að ég er ekki talsmaður harðra reglna, alls ekki, en reglurnar sem gilda verða að ná jafnt yfir alla. Þetta er ákveðið samkeppnismál vegna þess að þeir rekstraraðilar sem fara að lögum og reglugerðum með ærnum kostnaði verða að geta treyst því að aðrir sem eru í svipuðum rekstri þurfi einnig að fara eftir reglunum og að það sé enginn undansláttur með það. Ég tel að fara þurfi yfir þessi þvingunarúrræði stjórnsýslunnar, sérstaklega umhverfisráðuneytisins.

Fyrr hefur komið hér fram í svari við skriflegri fyrirspurn að eldvarnaeftirlitið hafi krafið 10 sinnum um dagsektir en að ekki ein einasta króna hefur innheimst í þessi 10 skipti sem eldvarnaeftirlit sveitarfélaganna krafðist dagsekta.