Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 17. mars 2005, kl. 15:38:21 (6042)


131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[15:38]

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gat ekki skilið hv. þingmann öðruvísi en svo að hann væri að taka undir sveltistefnu hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar varðandi sveitarfélögin. Hann var með öðrum orðum að kyrja það stef að þetta fyrirkomulag núna væri ekki nógu örvandi fyrir sveitarfélögin, það þyrfti að beita þau enn frekar hörðu til að fá þau til að sameinast.

Hv. þingmaður gerði síðan útsvarið að umtalsefni. Það er rétt að ég fari aðeins betur yfir það ef það hefur ekki alveg skilist það sem ég var að segja. Nú vita allir að útsvar er tekjustofn sem lagður er á tekjur einstaklinga og það gefur augaleið að í stórum sveitarfélögum munar meira um útsvarshækkanir en í hinum minni. Það er líka þannig eins og við höfum séð að með uppbyggingu hinna nýju atvinnugreina á höfuðborgarsvæðinu, bankakerfis, fjármálakerfis ýmissa vísinda- og tæknigreina, hafa orðið til hátekjustörf. Það liggur fyrir, og ekki þarf mikinn talnaspeking til að sjá það, að hækkun á útsvari um t.d. 1%, eins hinir gömlu flokksbræður hv. þingmanns sem eru núna í Vinstri grænum lögðu til, mundi breyta ákaflega litlu fyrir t.d. langflest sveitarfélög í kjördæmi okkar. Auðvitað eru til undantekningar. Stærri sveitarfélögin mundu að sjálfsögðu græða eitthvað á þessu og það mundi muna um fyrir þau. Höfuðborgina mundi muna gríðarlega mikið um þetta. Því geri ég mér alveg grein fyrir enda er örugglega útsvarshugmyndin sett fram til að höfða til sveitarstjórnarmanna á því svæði. En hv. þingmaður hlýtur að gera sér grein fyrir því sem gamall sveitarstjórnarmaður að fyrir minni sveitarfélög, t.d. á norðanverðum Vestfjörðum, í Skagafirði, Húnavatnssýslu, Snæfellsnesi svo ég taki dæmi, mundi 1% útsvarshækkun bara ekki breyta nokkrum sköpuðum hlut eða hálfs prósents eins og menn ræddu á fyrri stigum í þessari umræðu. Menn sjá í hendi sér að ef laga á stöðu sveitarfélaganna sem er veik eins og við vitum núna þá verður að gera það með sértækum hætti í þeim anda sem verið er að reyna að gera núna með þessum tillögum.