Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 17. mars 2005, kl. 17:32:35 (6065)


131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[17:32]

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek einfaldlega ekki lokaorð hv. þingmanns um afneitun til mín. Það er bara ekkert þannig því ég þekki ágætlega til sveitarstjórnarstigsins. Ég hef starfað þar og tekið þátt í ýmsum verkefnum sem lúta að sveitarstjórnarstiginu. Ég geri mér alveg grein fyrir því að hjá sumum sveitarfélögum gengur illa að reka sveitarsjóðina, standa undir þeim verkefnum sem þeim ber. Ég tek alla vega ekki til mín að vera að afneita einhverju ástandi á þessu sviði.

Varðandi jöfnunarsjóðinn þá er það þannig og ég tek undir það og hef sagt það oft áður að reglur jöfnunarsjóðs eru flóknar og ég tel að út af fyrir sig sé það eðli málsins samkvæmt að einhverju leyti, því ekki er um að ræða mjög einföld mál sem jöfnunarsjóðurinn þarf að ná utan um. Í því starfi sem fram undan er við endurskoðun á jöfnunarsjóðnum þá hljóta menn því, og ég veit að þeir munu gera það, að leita leiða til þess að einfalda reglurnar eins og menn hafa gert áður við endurskoðun á reglum jöfnunarsjóðs. Við verðum bara að vona að fleiri en tveir skilji þessar reglur þegar upp er staðið. Ég þykist fullviss að svo muni verða.