Héðinsfjarðargöng

Mánudaginn 21. mars 2005, kl. 15:23:05 (6094)


131. löggjafarþing — 93. fundur,  21. mars 2005.

3. fsp.

[15:23]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil bjóða hæstv. samgönguráðherra velkominn heim frá Siglufirði. Um leið vil ég nota tækifærið og óska Siglfirðingum og Eyfirðingum öðrum til hamingju með þær framkvæmdir í samgöngu- og byggðamálum sem þar er að stefnt með Héðinsfjarðargöngum.

Ég vil spyrja hæstv. samgönguráðherra og óska skýrra svara: Ber að líta á þá ákvörðun sem hæstv. ráðherra kynnti á Siglufirði, að bjóða út göng frá Ólafsfirði til Siglufjarðar, þannig að á miðju næsta ári verði sérstökum niðurskurði í vegamálum vegna þenslu á vinnumarkaði lokið? Ég tel mjög mikilvægt að fá svör við þessu.

Ég spyr vegna þess að sú forgangsröðun sem ríkisstjórnin hefur uppi í samgöngumálum og þar með byggðamálum er umdeild. Nú standa yfir mestu framkvæmdir Íslandssögunnar í orku- og iðnaðarmálum í Austurlandskjördæmi ásamt mestu framkvæmdum síðustu ára í samgöngumálum og með þeirri ákvörðun kostnaðarsamasta ákvörðun í byggðamálum sem nokkurn tíma hefur verið tekin í landinu. Þess vegna er nauðsynlegt að fá það á hreint hvort að með þeirri ákvörðun frestist fyrirhugaðar framkvæmdir á vegáætlun áfram eða hvort þær ákvarðanir sem teknar hafa verið um niðurskurð muni ganga til baka um sama leyti og fjárveitingar til þessa stóra verkefnis hefjast.

Fyrirhuguð göng uppfylla öll skilyrði sem nefnd hafa verið til sögunnar um mannvirki sem innheimta megi veggjöld af og því er ástæða til að spyrja líka um það hvort hæstv. ráðherra stefni að því að innheimt verði gjald fyrir akstur um göngin.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að þrátt fyrir þessa ákvörðun sé svigrúm fyrir ákvörðun í samgöngu- og byggðamálum í Norðvesturkjördæmi þar sem 43% vega landsins liggja, t.d. veg um Arnkötludal á þessu kjörtímabili, sérstaklega með tilliti til yfirlýsinga hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) um að nú væri komið að því (Forseti hringir.) kjördæmi hvað byggðastuðning varðar.