Héðinsfjarðargöng

Mánudaginn 21. mars 2005, kl. 15:28:17 (6097)


131. löggjafarþing — 93. fundur,  21. mars 2005.

3. fsp.

[15:28]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það á ekki að koma hv. þingmanni á óvart að auðvitað er það vilji forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar að standa vel að verki hvað varðar uppbyggingu í því kjördæmi sem hv. þingmaður nefndi sérstaklega. Við vitum að úti um allt land eru miklar væntingar um uppbyggingu samgöngumannvirkja og það er mikill vilji til þess. En við höfum tekið ákvarðanir um að hægja á ferðinni í þeirri uppbyggingu á þessu ári vegna efnahagsmála og það er að sjálfsögðu afar mikilvægt að það standist allt saman.

Það eru miklar framkvæmdir í gangi um land allt í samgöngumálum og hv. þingmaður styður vonandi þau áform sem verið er að undirbúa í samgönguáætlun í Norðvesturkjördæmi ekki síður en annars staðar.