Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 21. mars 2005, kl. 18:29:58 (6140)


131. löggjafarþing — 96. fundur,  21. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[18:29]

Guðjón Hjörleifsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til lengri tíma litið eru 1.500 milljónir í þessum potti frá tekjustofnanefnd til sveitarfélaganna. Ég var að segja að Reykjavíkurborg fær 50% og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu fá 10% af fasteignasköttum, þ.e. 60% sem eru 360 milljónir. Akureyrarbær fær 45 milljónir. Eftir standa 195 milljónir til annarra sveitarfélaga.

Á höfuðborgarsvæðinu eru ríkisstofnanir sem sinna allri landsbyggðinni. Mér finnst óeðlilegt að þessir fasteignaskattar fari allir í þennan pott og ég segi að fyrst það er ákvörðun Reykjavíkurborgar að bjóða upp á gjaldfrjálsan leikskóla þá hafa þeir bara tekjur í það. Ég tel að það sé meiri þörf fyrir að fasteignaskattarnir fari til jöfnunar í sjóði fyrir landsbyggðina.