Helgidagafriður

Fimmtudaginn 31. mars 2005, kl. 11:08:09 (6284)


131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[11:08]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Almennt er ég þeirrar skoðunar að við höfum ekki gengið of langt varðandi afgreiðslutíma verslana og annarra þjónustufyrirtækja um helgidaga. Ég hygg raunar að við höfum gengið of skammt. Sú opnun sem felst í þessu frumvarpi felur í sér ákveðna rýmkun en persónulega væri ég alveg tilbúinn að skoða það að ganga enn þá lengra. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að vera hlutverk þeirra sem reka fyrirtækin og þeirra sem starfa hjá þeim að semja um það hvernig þeir vilji haga þessum málum en ég er ekki á þeirri skoðun að þetta eigi að vera bundið í lög. Ég held að löggjafinn eigi ekki að ákveða að allir eigi að halda helgidagafrið á tilteknum dögum. Ég held að það eigi að vera samkomulagsatriði milli atvinnurekenda og launþega á viðkomandi sviðum og ég held að sú reynsla sem við höfum af opnun og rýmkun á afgreiðslutíma, bæði verslana og annarra þjónustufyrirtækja á þessum dögum, hafi verið góð og falið í sér framfarir fyrir okkur.

Ég segi að ég væri alveg tilbúinn að skoða það að ganga lengra þó að ég virði það hins vegar að ef atvinnurekendur og launþegar á þessum sviðum koma sér saman um annað geta þeir að sjálfsögðu samið um að hafa lokað ef þeir svo kjósa. Ég vil bara ekki að löggjafinn taki samningafrelsið af mönnum eða taki frelsið til að reka þá starfsemi sem þeir hafa með höndum.